Samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007, kl. 15:59:15 (2205)


135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:59]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Enn og aftur gefst okkur tækifæri á Alþingi til að fjalla um Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið, sjónvarp hefur tekjur með nefskatti. Það hefur auglýsingatekjur, kostun og ýmsar aðrar tekjur. Ég er ekki að gera hér að umræðuefni það sem snýr að einstökum kostunaraðilum, ég ætla ekkert að segja að það sé vont að þessi aðili kosti frekar en einhver annar eða að hann hafi óeðlileg ítök í stofnuninni út á kostunina. En samkeppni annarra fyrirtækja sem keppa á jafnréttisgrundvelli við Ríkisútvarpið skekkist og það sjá náttúrlega allir að það nær ekki nokkru máli að RÚV hafi auglýsingar, kostun og ýmsar aðrar tekjur umfram aðrar útvarpsstöðvar sem eru á þessum frjálsa markaði. Það gefur augaleið að í því er ekkert jafnræði.

Það er hlutverk Alþingis að mínu mati að fara ofan í kjölinn á þessu enn og aftur og athuga hvort ekki sé þörf á að breyta þessu þannig að allir sitji við sama borð. Það er nú einu sinni það sem menn vilja, sérstaklega í fótbolta, að menn byrji 0-0.