Fjárlög 2008

Föstudaginn 30. nóvember 2007, kl. 17:51:21 (2420)


135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:51]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einu sinni þannig að það hefur verið viðvarandi góðæri í þessu landi (PHB: Af hverju er það?) þrátt fyrir ríkisstjórnina. Það má helst segja það ríkisstjórninni til hróss, sérstaklega þeirri ríkisstjórn sem áður sat, að hún þvældist ekki fyrir. Það var kannski einn helsti aðall hennar að hún þvældist ekki fyrir en þrátt fyrir það var um að ræða aukningu á skattheimtu einstaklinga.

Ef við tökum hlutfall opinberra útgjalda miðað við verga þjóðarframleiðslu þá liggur fyrir að hlutfall opinberra útgjalda hefur hækkað og hækkað. Í síðustu spá Seðlabankans var talað um að opinber útgjöld færu í það að vera helmingur af vergri þjóðarframleiðslu, helmingur. (Gripið fram í.) Það er það sem er verið að tala um.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins tók við voru opinber útgjöld ef ég man rétt í kringum 37% þannig að það er engin smáræðishækkun. Hvernig kemur þessi hækkun til? Þessi hækkun getur ekki komið öðruvísi fram en með aukinni skattheimtu. Það er það sem skiptir máli. Þegar við vegum saman þessar stærðir, hv. þm. Pétur Blöndal, þá liggur það fyrir. Þegar borin er saman aukin þjóðarframleiðsla þá er hlutdeild hins opinbera að aukast undir stjórn ykkar sjálfstæðismanna. Þið eruð mesti skattaokurflokkur sem nokkurn tíma hefur verið við stjórn í landinu. (Gripið fram í.)