Yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár

Mánudaginn 10. desember 2007, kl. 15:46:00 (2950)


135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:46]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugu. (Gripið fram í: … mýfluga.) Í fyrsta lagi var þetta aldrei neitt leyniplagg eða samkomulag sem þarna var gert. Það kemur náttúrlega skýrt fram þar sem ég var landbúnaðarráðherra og stóð að þessu og það sem að mér sneri var sérstaklega jörðin Þjótandi sem hefur verið í eyði. Það kemur hér glöggt fram að yfirlýsingin felur ekki í sér neinar bindandi fjárskuldbindingar fyrir ríkið og verður sem slík ekki talin fara á nokkurn hátt í bága við lög að öðru leyti en því sem snýr að vatnsréttindunum. Ríkið á 95% af þeim vatnsréttindum í Þjórsá og hefur átt hátt í 90 ár. Títan-félagið keypti þau og ríkið fékk þau síðar í sínar hendur. Ég sé því ekki að hér sé um neinn áfellisdóm að ræða. Ríkisstjórnin mun auðvitað fara yfir þetta og koma í fyllingu tímans með þetta mál áfram til þingsins ef það verður niðurstaðan að fara í virkjanir í neðri Þjórsá. Hins vegar hafa virkjanir í neðri Þjórsá valdið deilum. Það var tekist á um Þjórsárverin og Norðlingaölduveitu. Sem betur fer var niðurstaðan að láta það Ramsar-svæði í friði. Ég minnist þess að vinstri grænir höfðu hér hátt á þeim tíma og töluðu þá um virkjanir í neðri Þjórsá og töldu þær vænlegar. Við þurfum sannarlega að fara yfir það hvar við ætlum að virkja því að Íslendingar munu þurfa meira á hreinni orku að halda í framtíðinni, rafmagni til að lýsa upp skammdegið og þjóðfélagið og öll þau atvinnutækifæri og hús sem við eigum. Einhvers staðar verðum við að virkja.

Ég stóð fyrir því og var sammála því að Landsvirkjun fengi að byggja á Þjótanda upplýsingamiðstöð um þessa miklu á, móður ljósanna sem Þjórsá er. Það væri glæsilegt ef það yrði að veruleika að þar risi (Forseti hringir.) upplýsingamiðstöð um allt sem Þjórsá hefur gefið okkur og að því vildi ég standa. Þess vegna gaf ég þessa viljayfirlýsingu en tel að hér sé verið að (Forseti hringir.) gera úlfalda úr mýflugu. Ríkisstjórnin þarf auðvitað að fara yfir þetta mál (Forseti hringir.) og koma með það aftur til þingsins.