Almannatryggingar o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 14:33:06 (3010)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:33]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Jón Bjarnason ætti að skoða heilbrigðislögin sem samþykkt voru hér í mars 2007 með atkvæði VG. Ef minni mitt svíkur ekki er beinlínis gert ráð fyrir því að þetta fyrirkomulag, þ.e. að þjónustusamningar sem nú þegar eru í gangi án nokkurrar einkavæðingar, verði framkvæmdir með þessum hætti og teknir saman.

Það er beinlínis gert ráð fyrir því — ef ég man rétt — í þeim lögum að gert verði erindisbréf til tiltekinnar stjórnar sem sjái um heildstæða þætti slíkra samninga. Ég taldi einfaldlega að þetta væri útrætt mál. Hvers vegna? Vegna þess að hér er alls ekkert verið að fara inn á neina braut einkavæðingar. Það er allt annað sem þarna er verið að tala um. Auðvitað er sjálfsagt að þingmenn ræði það eins og þeir vilji og kanni það til hlítar í heilbrigðis- og trygginganefnd og beri saman við þau lög sem áður er búið að samþykkja. Ég held að þarna birtist enginn stefnumunur.

Þegar allt er skoðað verður hv. þingmaður að gera sér grein fyrir því að þessi ríkisstjórn mun ekki, a.m.k. ekki meðan Samfylkingin situr í henni, fara út á braut einkavæðingar. Við munum ekki fallast á að sett verði upp einhvers konar einkasjúkrahús sem beinlínis gera út á þjónustu við sjúklinga eins og hverja aðra þjónustu sem menn reka til að hafa af henni hagnað og ávöxtun á fjárfestingu. Það er ekki um það að ræða.

Það er ekkert fráhvarf frá þeirri stefnu að íslenska ríkið muni áfram tryggja að allir geti notið þjónustu heilbrigðiskerfisins óháð efnahag. Það er ekkert slíkt um að ræða í þessu frumvarpi, og ekkert slíkt er að finna í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hér held ég einfaldlega að hv. þingmenn VG séu að reyna að gera úlfalda úr mýflugu og séu í enn einni tilraun til að skapa (Forseti hringir.) sér stöðu í einhvers konar upphlaupum. En við erum nú vanir að slökkva í þeim og (Forseti hringir.) taka á móti.