Upprunaábyrgð á raforku

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 21:46:34 (3061)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[21:46]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það mál sem er hér til umræðu er mjög spennandi að mörgu leyti en það gengur út á það að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og skapa skilyrði fyrir hvata til að ríkin sem fara þá leið sem hér er mælt fyrir um auki framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Eins og allir vita eru Íslendingar svokallaðir heimsmeistarar á þessu sviði … (Iðnrh.: Og Framsóknarflokkurinn.) og Framsóknarflokkurinn, mjög ánægð með það, já, hæstv. iðnaðarráðherra, þannig að það er svolítið sérstakt að vera að innleiða — þetta er auðvitað innleiðingartilskipun frá Evrópusambandinu. Það er svolítið merkilegt að við séum að taka þetta skref af því að við stöndum okkur svo vel og maður hefur á tilfinningunni að þetta sé mál sem kemur bara að utan og okkur beri skylda til að innleiða það. Ég held að þetta sé að mörgu leyti gott mál en vil þó vekja athygli á því sem kemur fram í 2. gr. Það eru fjórar skilgreiningar.

Fyrsta skilgreiningin er um endurnýjanlega orkugjafa, þ.e. hvað endurnýjanlegir orkugjafar eru. Þar stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„1. Endurnýjanlegir orkugjafar: Endurnýjanlegir orkugjafar sem eru ekki jarðefnaeldsneyti (vindorka, sólarorka, jarðvarmaorka, öldu- og sjávarfallaorka, vatnsorka og orka úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi).“

Það sem ég vil benda á hér er að þarna er jarðvarmaorka skilgreind sem endurnýjanlegur orkugjafi en það hefur stundum staðið styr um þetta. Sumir hafa talað um jarðvarmaorku sem einhvers konar annan orkugjafa, þ.e. ekki endurnýjanlegan orkugjafa. Það er þó ljóst að verði þetta að lögum hljótum við að vera sammála um að jarðvarmaorka sé endurnýjanlegur orkugjafi.

Mér finnst svolítið ruglingslegt, virðulegur forseti, það sem kemur fram í 3. gr. og reyndar víðar. Það er nokkuð sem iðnaðarnefnd mun væntanlega skoða, um heimild hæstv. iðnaðarráðherra til að fela Landsneti hf. að hafa eftirlit með útgáfu upprunaábyrgðar á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er víðar í frumvarpinu minnst á þetta, m.a. aftast í 3. gr. Þar kemur fram að Landsneti hf. er heimilt með samþykki iðnaðarráðherra að framselja hlutverk sitt til útgáfu upprunaábyrgðar samkvæmt lögum þessum.

Í fyrsta lagi getur hæstv. iðnaðarráðherra falið Landsneti hf. að hafa eftirlit með útgáfu upprunaábyrgðar á raforku og svo má Landsnet framselja það hlutverk áfram til einhvers annars aðila. Það kemur fram í 5. gr. að Landsneti hf. er heimilt að krefja umsækjanda um greiðslu vegna útgáfu upprunaábyrgðar. Svo kemur fram síðar í greinargerðinni um 5. gr.:

„Gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku skal taka mið af því að fjárhæð gjaldtöku fyrir viðkomandi þjónustu verði ekki hærri en sem nemur kostnaði við að veita hana. Ekki er um að ræða almenna tekjuheimild til handa Landsneti hf. heldur eingöngu um að ræða greiðslu á sannarlegum kostnaði Landsnets hf. vegna útgáfunnar og/eða staðfestingar á útgefinni upprunaábyrgð.“

Ég tel mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega í iðnaðarnefnd, það fyrirkomulag að iðnaðarráðherra geti framselt þetta vald eða þetta hlutverk og síðan geti Landsnet framselt það áfram. Ég vona að þetta verði sérstaklega skoðað í nefndinni.

Virðulegur forseti. Ég vil ekki lengja þessa umræðu. Ég held að þetta mál sé frekar gott þó að okkur finnist það svolítið sérstakt af því að hér erum við með geysilega mikið af endurnýjanlegri orku. Ég vildi sérstaklega draga fram að með þessu frumvarpi erum við að skilgreina jarðvarmaorku sem endurnýjanlegan orkugjafa og ég er mjög ánægð með það.