Upprunaábyrgð á raforku

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 21:51:51 (3062)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[21:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram af hálfu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og Sivjar Friðleifsdóttur. Það má segja að þær hafi hvor með sínum hætti dregið ályktanir sem gengu í reynd alveg hvor gegn annarri, þ.e. hv. þm. Siv Friðleifsdóttir telur að ef þetta frumvarp verði samþykkt sé það alveg í gadda slegið að jarðvarmaorka sé endurnýjanleg. Ekki er það alveg svona einfalt.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir færði ákveðin rök fyrir því að við tilteknar aðstæður væri hægt að halda því fram að jarðvarmaorka í ákveðnum tilvikum væri ekki endurnýjanleg. Báðar hafa með vissum hætti rétt fyrir sér, þ.e. þetta frumvarp eins og kemur fram í skilgreiningunum um endurnýjanlega orkugjafa nær yfir ákveðnar tegundir af orku en þar með er ekki sagt að t.d. jarðvarmaorkan — þó að frumvarpið nái yfir hana — sé í öllum tilvikum skilgreinanleg sem endurnýjanlegur orkugjafi. Þess vegna, herra forseti, segir í 2. mgr. 3. gr., með leyfi forseta:

„Landsnet hf. hefur eftirlit með því að raforka, sem það gefur út upprunaábyrgð fyrir, sé í raun framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum í skilningi laga þessara“ — og svo kemur — „í samræmi við viðmiðanir sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar og hafa hlotið staðfestingu Orkustofnunar.“

Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að þegar Orkustofnun gefur út viðmiðanir sínar sé m.a. tekið á þeim hlutum sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði. Hún benti á það að fræðimenn sem við virðum öll eins og fyrrverandi rektor háskólans, prófessor Sveinbjörn Björnsson, hafa bent á að við tilteknar aðstæður þar sem of mikið af vatni er tekið úr jörðu í gegnum borholur kunni að verða flutningur á varma úr jörðu sem er hraðari en flutningurinn að holunni sjálfri, með öðrum orðum má við þær aðstæður auðvitað draga í efa að þar sé um að ræða það sem við getum kallað sjálfbæra þróun.

Nú vek ég eftirtekt, til þess að vera ærlegur, hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur á því að hugtakið „sjálfbær þróun“ kemur ekki fyrir í þessu frumvarpi. Það rann upp fyrir mér þegar hv. þingmaður flutti sína ágætu ræðu en sýnir kannski hvað Evrópusambandið er skammt á veg komið. Þetta segi ég til að fullvissa hv. þingmann, eins og kemur reyndar fram annars staðar í frumvarpinu, að það er ekki ætlunin að vera með eitthvert fúsk eða svindl eða fals. Endurnýjanleg orka verður að vera það að mati sérfræðinga. Hv. þingmaður sem nefndi til athugasemdir Sveinbjörns Björnssonar og skilgreiningar hans á því hvað er „ágeng nýting“ sem í vissum tilvikum kynni að hans mati ekki að falla undir sjálfbærni nefnir sérfræðinga sem verður leitað til. Ég hef engan sérstakan áhuga á að koma í gegn einhverju frumvarpi sem setur stimpil grænnar orku á orku sem hugsanlega er hægt að efast um að sé græn.

Ef sú leið yrði farin sem hv. þingmaður hafði eftir Sveinbirni Björnssyni, þ.e. að gert yrði hlé á nýtingu með vissu millibili til að leyfa svæðinu að endurnýja sig, er samkvæmt orðum hv. þingmanns nýtingin þegar orðin sjálfbær og við þær aðstæður mætti kalla þetta endurnýjanlega orku. Þar að auki er þetta vandamál sem er þekkt, meira að segja leituðu menn í höfuðborginni á sínum tíma út fyrir borgina, á jarðhitasvæði í grennd við borgina til að afla heits vatns og síðar orku vegna þess að nákvæmlega þetta gerðist með vissum hætti í Reykjavík. Það varð niðurdráttur í holum, það var ágeng nýting, þ.e. menn tóku of mikið af vatni miðað við það sem barst að gegnumstreymi gropinna jarða. Þetta er svipað því sem hv. þingmaður benti á að gæti gerst.

Ég er náttúrlega þeirrar skoðunar — er ekkert sérfróður um þetta, hef ekki nema bara pungapróf í þessu eins og hv. þm. Jón Magnússon mundi segja, ég tek það fram að ég er tæknikrati og hlusta á sérfræðinga — að menn eigi ekki að ganga þannig á svæði að það sé hætta á því að nægilegt varmaflæði stöðvist vegna ofnýtingar. Þetta þurfa menn að skoða. Mér finnst sjálfsagt að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir haldi þessum sjónarmiðum til haga í þeim nefndum sem þetta mál verður skoðað í. Mér finnst ekkert að því og undirstrika það. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafði að vissu leyti rétt fyrir sér. Jarðvarmaorka er yfirleitt endurnýjanleg en nýting hennar er ekki alltaf sjálfbær við vissar aðstæður.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði að menn gætu hugsanlega undrast það að þetta frumvarp sem byggir á tilskipunum Evrópusambandsins væri samþykkt á Íslandi vegna þess að við eigum, eins og hv. þingmaður sagði, heimsmet í endurnýjanlegri orku en nú hefði hv. þingmaður getað komið hingað og hrósað sér og sínum flokki af þeirri staðreynd að við höfum — ég held í tíð a.m.k. Framsóknarflokksins — tekið upp tilskipanir Evrópusambandsins um innri raforkumarkaðinn þó að við séum ekki fýsískur hluti af honum. Sú staðreynd að við gerðum það gerir það að verkum að við höfum allt í einu öðlast möguleika til að selja fyrir beinharðan pening vottun á því að orka sem við framleiðum sé endurnýjanleg án þess að selja orkuna sjálfa. Viðskiptin eru þrenns konar í Evrópu, þ.e. þar getur fyrirtæki sem flokkast undir þetta selt orkuna sjálfa en það getur líka selt orkuna ásamt grænum vottorðum. Aðild okkar að ýmsum tilskipunum, og helst þeirri sem við tókum upp sem kölluð var annar orkupakki Evrópusambandsins 2003 þegar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var iðnaðarráðherra, gerir það að verkum að við eigum líka kost á því að selja einungis grænu vottorðin án þess að afhenda nokkra orku. Þetta eru viðskipti sem í dag færa Landsvirkjun tekjur upp á hundruð milljóna króna. Ég veit að þetta hljómar undarlega en ástæðan er sú, eins og hv. þingmaður gat um í upphafi sinnar ágætu ræðu, að menn eru farnir að sjá að það borgar sig að vera umhverfisvænn. Þegar fyrirtæki selja vöru sína og keppa á markaði telja þau mörg að það gefi þeim samkeppnisforskot að geta sýnt fram á það í reikningum sínum að þau í fyrsta lagi styðji framleiðslu á endurnýjanlegri grænni orku — það gætu þau gert með því að kaupa þessi vottorð — og í öðru lagi sækjast sum fyrirtæki, t.d. IKEA sem er þekkt fyrir það, eftir því að geta sýnt fram á í orkubókhaldi sínu sem hæst hlutfall af grænni orku. Það sem þessi tilskipun leiðir til er að grænu vottorðin eru með ákveðnum reikningum talin inn í bókhaldið. Við getum síðan sagt að það gefi ekki raunsanna mynd af ástandinu en það sýnir a.m.k. að þessi fyrirtæki leggja af mörkum til að ýta undir framleiðslu á grænni orku.

Ég viðurkenni að það tók mig töluvert langan tíma að skilja þetta bix allt saman því að ég skildi ekki frekar en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir alveg hvaða erindi þetta átti til okkar. Erindið er að við getum selt þessi vottorð fyrir háa peninga. Ég vildi líka undirstrika það sem ég sagði áðan að þetta er rétt að byrja í Evrópu. Það er talið að þessi aðferð til að gefa atvinnulífinu færi í reynd á að styrkja endurnýjanlega framleiðslu á orku muni ryðja sér miklu meira til rúms vegna þess að bara partur af löndum Evrópusambandsins er búinn að taka þetta upp. Ég ætla ekki — af því að ég hef stundum verið ásakaður fyrir það að vera ráðherra sem er með milljarðaglampa í augunum — að fara (Gripið fram í.) að nefna þær tölur, hv. þingmaður, sem sumir hjá orkufyrirtækjunum íslensku segja að geti hugsanlega legið í viðskiptum með þessu en þær eru töluvert háar þannig að við greiðum því leið. Þetta er viðskiptatækifæri og auðvitað eigum við að grípa það, en við eigum að gera það með sóma og þannig að við getum verið stolt af því. Það verður að vera þannig að ekki sé hægt að draga neitt í efa. Af því að hv. þingmaður setti spurningarmerki við vissa tegund af jarðvarmaorku væri eðlilegt líka — og ég er viss um að við hv. þingmaður erum ekki endilega sammála um það — að maður velti fyrir sér hvort öll orka sem er framleidd úr vatnsaflsvirkjunum sé endurnýjanleg. Svarið er já. En er hún alltaf sjálfbær? Um það má deila, þ.e. ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Ég er ekki viss um að við yrðum í öllum tilvikum sammála um það og ég er sannfærður um að þær tvær ágætu þingkonur sem hér hafa talað í kvöld eru oft ósammála um það.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir velti fyrir sér ákvæðinu sem er að finna um það að Landsnet geti framselt vottunina til fyrirtækja á markaði. Hún bendir réttilega á að það er ekki ætlast til þess að Landsnet geti tekið gjald fyrir þetta umfram beinan kostnað. Eins og ég skildi spurningu hv. þingmanns var hún að velta fyrir sér hvort framsalið þýddi að fyrirtæki á markaði gæti hugsanlega, eins og fyrirtæki gera, rekið sig með arði, hyllst til að gera það. Það er mögulegt en samkvæmt frumvarpinu eru reistar skorður við því með hörðu eftirliti. Þetta verður heldur ekki gert nema með samþykki iðnaðarráðherra. Iðnaðarráðherra hefði ekki frumkvæði en hann, eða hún, yrði að samþykkja ef þetta gerðist.

Sú staða gæti komið upp að einhver þeirra vottunarstofa sem eru nú þegar starfandi í landinu, tvær eða þrjár eða fjórar, mundu vilja sérhæfa sig í þessu og taka þetta að sér og þá er sá möguleiki fyrir hendi án þess að breyta þurfi lögum. Ég tel hins vegar að það mundi kosta viðkomandi fyrirtæki ákaflega mikið og tel hæpið að það verði. Það sem er líka hægt að velta fyrir sér, og ég velti auðvitað fyrir mér, er hvort það væri rétt að Landsnet væri þetta vottunarfyrirtæki. Af hverju? Vegna þess að Landsnetið er í eigu fyrirtækjanna sem á að votta. Muni ég tölur rétt er Landsnet að 93% í eigu ríkisins. Landsvirkjun sem yrði þá stærsti viðskiptaaðilinn varðandi þetta er eigandi að nánast 70% í Landsneti og maður veltir þá fyrir sér hvort þetta séu réttar aðstæður og eins og ég horfi á málið mundi þetta fyrirkomulag aldrei vinna neina sérstaka fegurðarsamkeppni.

Vandamálið er auðvitað þekkt. Þetta er vandamálið sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddum töluvert í síðustu viku varðandi eignarhaldsuppbygginguna á Landsneti og Landsvirkjun. Hv. þingmaður spurði mig þá hvort ég teldi að breyta ætti þeim strúktúr. Ég sagði alveg hreinskilnislega að ég teldi að það kæmi til greina — það mundi kosta ríkið 6 milljarða — en ég sagði honum líka að ég teldi að tímapunktur til að taka þá ákvörðun verði þegar við þurfum að taka afstöðu til þeirra breytingartillagna á þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem núna er í vinnslu vegna þess að aðalefni hans er einmitt breytingar á þessari afstöðu flutningsfyrirtækisins, þ.e. Landsnets, annars vegar og framleiðsluþáttanna, þ.e. orkufyrirtækjanna, hins vegar. Þá kann að koma að því að við þurfum að taka einhverjar slíkar ákvarðanir. Fram að þeim tíma tel ég ekki að við þurfum að gera það, taka ákvörðun um þetta, en með sama hætti og Alþingi hefur fellt sig við það að Landsvirkjun eigi Landsnet tel ég að það gæti fellt sig við að Landsnet sé vottunaraðili gagnvart þessum fyrirtækjum. Af hverju? Vegna þess að Framsóknarflokkurinn sá til þess á sínum tíma að mjög voru negldar í lög strangar kröfur sem gera það erfitt fyrir eigandann að hafa nokkur áhrif á Landsnetið, það eru þrjú eða fjögur ákvæði í raforkulögum sem beinlínis mæla fyrir, ekki bara um bókhaldslegan, fjárhagslegan aðskilnað, heldur eru líka strangar skyldur um að það verði að gæta hlutleysis og jafnræðis í hvívetna en síðan það sem skiptir kannski meira máli er sú staðreynd að stjórn Landsnets er ekki skipuð af sama ráðherra í dag og stjórn Landsvirkjunar. Það skiptir máli fyrir mig og það er atriði sem við þurfum að gæta meðan við höfum þessa sérkennilegu uppbyggingu á eignarhaldi Landsvirkjunar og Landsnets sem eins og ég sagði áðan vinnur aldrei neina fegurðarsamkeppni. Ég tel og er sammála forverum mínum í embætti um að við höfum gengið eins langt og hægt er til að tryggja að þessi sérkennilega eigendaafstaða hafi ekki áhrif á rekstur Landsnets. Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með Landsnet og sjálfstæði þess og ætla ekki að hafa frekari orð um það, herra forseti.

Þá held ég að ég sé búinn að svara bæði þeim spurningum sem hér hafa komið fram og ýmsum viðhorfum líka sem ég get að ýmsu leyti tekið undir. Ég undirstrika bara að það er ekki ætlunin með þessu að reyna að svindla í gegn einhverri vottun á endurnýjanlegri orku sem ekki er það. Ég get ekki dæmt nákvæmlega um það, en stjórnvaldið vinnur með sérfræðingum. Þeim sérfræðingum sem hv. þingmaður nefndi áðan hefur m.a. verið falið það verk að búa til reglur fyrir rammaáætlunarnefndina, um fyrri hlutann eða það sem hv. þingmaður var að tala um áðan, um umhverfisafleiðingar jarðhitanýtingar. (Forseti hringir.)