Upprunaábyrgð á raforku

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 22:09:27 (3064)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[22:09]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki samkeppni um sölu á grænum vottorðum í þeim skilningi að tiltekið orkufyrirtæki undirbjóði annað. Það er fast verð á þeim. Nú man ég ekki hvert verðið er en grænt vottorð frá jarðhitafyrirtæki kostar það sama, greining og grænt megavatt, og grænt vottorð frá vatnsafli. Ekki er hægt að segja að markaðurinn kunni að ýta einhverju sem hv. þingmaður kynni að kalla annars flokks grænt vottorð að einhverjum fyrirtækjum úti í heimi sem kysu að kaupa það.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég telji að Orkustofnun sé nægilega sterkur aðili til að hafa eftirlit. Ég undirstrika að Orkustofnun á ekki að hafa eftirlit en hún á að búa til viðmiðanirnar. Hún leitar til sérfræðinga til að gera það. Ég hef fulla trú á aðferðinni vegna þess að ég veit að þeir sérfræðingar sem hv. þingmaður nefndi eru í hópi þeirra sem stofnunin leitar til alveg eins og ráðuneyti mitt gerir í ýmsum tilvikum. Orkustofnun býr sem sagt til viðmiðanirnar og gerir það eftir bestu þekkingu og af þeim viðhorfum sem hv. þingmaður nefndi í sinni fyrstu ræðu. Síðan framfylgir Landsnet þeim, hefur þær viðmiðanir í höndum og á að hafa eftirlit á grundvelli þeirra.

Hv. þingmaður spyr líka hvort ég telji að það sé eðlilegt. Ég held að það sé eðlilegt með þeim rökum sem ég nefndi áðan og samsvarandi fyrirtæki á Norðurlöndunum, t.d. þar sem ég þekki til, hafa eftirlitið með höndum. Aðalatriðið er að ekki er ætlunin að leggja fram og samþykkja frumvarp sem leiðir til einhverrar niðurstöðu sem yrði ekki sönn. Það er ekki svo. Til að komast að því rétta í málinu eru kallaðir til sérfræðingar og þeir verða að meta það. Þótt ég hafi kannski einhverjar skoðanir á því er það fyrst og fremst mat þeirra og það liggur fyrir, a.m.k. í sumum tilvikum. Síðan er það hv. þingmanns að nýta lýðræðið til að sjá til þess að það verði gert.