Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 15:05:44 (3267)


135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[15:05]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Ég ætla að kynna minnihlutaálit 2. minni hluta. Meiri hlutinn leggur til að veiðigjald verði lækkað um meira en frumvarpið gerir ráð fyrir, 2. minni hluti tekur ekki undir tillöguna og telur að taka þurfi veiðigjaldakerfið allt til heildarendurskoðunar. Útgerðarmenn kveinka sér undan gjaldi sem er um 2 kr. á kíló og verður enn lægra ef tillögur meiri hlutans ná fram að ganga. Á sama tíma geta þeir framleigt öðrum kvótann fyrir 220–240 kr. kílóið af þorski. Þessa þversögn í kerfinu þarf að laga. Það er skoðun 2. minni hluta að veiðigjaldið ætti nú að renna til fólksins, sjómanna og fiskvinnslufólks, sem verður fyrir atvinnumissi vegna kvótaskerðingar. Annar minni hluti telur einnig að rækjuveiðar eigi að gefa frjálsar, a.m.k. tímabundið.

Hæstv. forseti. Enn og aftur, þegar við förum að ræða um sjávarútveg og sjávarútvegsmál, komum við að því kerfi sem við búum við, árangur fiskveiðistjórnarkerfisins er enginn. Þegar það var sett á í upphafi átti tilgangurinn að vera sá að byggja upp fiskstofnana og auka hagræðingu í rekstri. Hvorugt hefur tekist. Við veiðum miklu minna af fiski nú en við gerðum þegar kvótakerfið var sett á og skuldir sjávarútvegsins hafa aldrei verið meiri en nú. Íslenskur sjávarútvegur skuldar yfir 300 milljarða, en í gjafakvótakerfinu felst möguleiki á að leigja og selja nýtingarréttinn og veðsetja hann og úthlutaður kvóti er metinn á hátt í þúsund milljarða sem fáir útvaldir fá að braska með, fáir útvaldir fá að leika sér með aðalauðlind þjóðarinnar.

Það er dálítið kaldhæðnislegt þegar vinur minn, hv. þm. Atli Gíslason, talar um mismunun hvað varðar veiðigjald, það sé mismunun að veiðileyfagjald sé á ýsu en ekki á þorski. Ég spyr vinstri græna og alla þá sem raða sér til vinstri í íslenskri pólitík: Hvað eruð þið að hugsa? Af hverju talið þið ekki um grundvallaratriðið? Það var stóra mismununin þegar auðlind þjóðarinnar var afhent fáum útvöldum. Þar er um að ræða alvörumismunun.

Það er sorglegt að vinstri menn, hvort sem þeir kenna sig við sósíalisma, kratisma eða eitthvað annað, skuli leggja blessun sína yfir þetta mesta rán Íslandssögunnar. Það hefur engin þjóð — hvorki Thatcher né Reagan afhentu á sínum tíma auðlindir sínar. Thatcher átti t.d. olíu í Norðursjó og olíufélög fengu nýtingarrétt en þurftu að borga fyrir hann stórfé. Svo hefur aldrei verið hér og nú leggur Samfylkingin til að veiðileyfagjald verði lagt niður, veiðileyfagjald sem er hungurlús, innan við 1% af því sem þeir geta leikið sér að því að leigja á fiskveiðiárinu. Þetta er ekkert annað en brandari.

Á sama tíma og vinstri menn tala um að þeir vilji hjálpa fólki og bæta veg alþýðunnar hugsa þeir ekkert um það fólk sem verður fyrir skerðingu — mótvægisaðgerðirnar skila sér ekki til þeirra sem þurfa á því að halda — en finnst sjálfsagt að skera niður veiðileyfagjald sem er algjör hungurlús, sennilega 0,6–0,7% af því kvótaverði sem þeir fá fyrir að leigja kvótann frá sér, sægreifarnir og hinir fáu útvöldu sem fá að eiga auðlindina og versla með hana að eigin geðþótta. Það er sorglegt. Brottkast og annað sem fylgir kvótakerfinu ætti líka að öllu eðlilegu að duga til þess að menn hættu með það. Það gerðu Færeyingar á sínum tíma. Þegar þeir sáu að farið var að velja úr fisk hættu þeir með kerfið, þeir vildu ekki að verið væri að henda fiski í sjóinn og sortera úr veiddum afla.

Einnig þarf að skoða þátt Hafrannsóknastofnunar og hið svokallaða togararall sem er aðalforsenda veiðiráðgjafarinnar. Svokölluðu hausttogararalli er nýlega lokið og segja menn að ástandið á þorskstofninum sé miklu verra en nokkurn tíma fyrr, ég held að 20% minna magn hafi skilaði sér í togararalli nú í haust en í togararallinu í fyrrahaust. Enn og aftur búum við við það að togararöll eru sjaldan nálægt landi, þau eru flest úti á sjó. Þegar þessi aðferð var fyrst notuð árið 1984 var miðað við togslóð, fiskirí og fiskgengd það árið. Enn og aftur erum við föst í því formi og varla spyr nokkur þingmaður hvort það sé eðlilegt. Það er sorglegt að á Alþingi skuli ekki vera meiri vangaveltur um þessa hluti, hvort þeir séu eðlilegir. Það þarf að hleypa miklu fleiri aðilum í rannsóknir, það þarf að hleypa fleiri aðilum en Hafrannsóknastofnun í að rannsaka fiskimið, tegundir og veiðisvæði.

Þegar við ræðum frumvarp um stjórn fiskveiða, sem snýr að veiðileyfagjaldi og að taka af veiðiskyldu á rækju, ættum við auðvitað fyrst og fremst að hugsa um fólkið. Við eigum ekki alltaf að verja hina fáu útvöldu en reyna þess í stað að snúa okkur að heildarhagsmunum. Ég beini orðum mínum helst til samfylkingarmanna, ég vænti þess að þeir sjái að sér og geri eitthvað. Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum höfum við horft upp á aðgerðarleysi varðandi breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu þrátt fyrir að þingmenn hafi í kosningabaráttunni riðið um héruð og boðað breytingar. Þeir hafa svikið það allt sem snýr að fiskveiðistjórnarkerfinu og sjávarútvegsmálum. Ég trúi ekki öðru en þeir reyni nú að hysja upp um sig og geri eitthvað í málunum. Það er algjörlega óviðunandi hvernig þeir hafa raunverulega svikið sitt fólk. Kannski er sorglegast að horfa upp á hv. þingmann, sem er varaformaður í sjávarútvegsnefnd, Karl Valgarð Matthíasson. Hann hefur ekkert lagt til málanna til að reyna að vinda ofan af þessu þó að hann hafi talað hæst um að gera þyrfti breytingar á kerfinu.

Góð mótvægisaðgerð er til, og má segja að sé kannski patentlausn að ákveðnu leyti, og það er það að setja allan fiskinn á fiskmarkað og tryggja þannig fiskverkendum sem ekki eiga veiðiheimildir, ekki eiga kvóta, aðgang að fiski til að vinna. Oft og tíðum eru fiskvinnslur án útgerðar arðbærustu og best reknu fiskvinnslufyrirtækin, þau fá hæsta verð á hverja einingu sem þau framleiða. Þau eru vakandi yfir markaðnum frá degi til dags og mörgum sinnum á dag og skila þjóðinni mestum arði af hverju kílói.

Ég ætla að vona að ríkisstjórnin fari að hugsa um þessi mál og geri grundvallarbreytingar. Ég skora á þá samfylkingarmenn sem eru í salnum að taka þátt í umræðunni og skýra okkur frá því hvað stendur til að gera og láta ekki taka sig sífellt í gegn fyrir að gera ekki neitt. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum er algjört.