Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 17:44:35 (3295)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[17:44]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel vinnubrögðin ekkert frábrugðin því sem við höfum oft séð á síðustu dögum þingsins. Þau ættu að skoðast í því ljósi að flest sjónarmið og rök í þessu máli, bæði með og á móti, hafa komið fram fyrir löngu.

Það er rétt sem hv. þingmaður gat um, að að ósk hv. þm. Ögmundar Jónassonar bar ég forseta þau boð eftir fund allsherjarnefndar í gær að umræða um þetta mál hæfist ekki fyrr en klukkan sex í dag og því kom ég til skila.

Hins vegar gat ég þess á fundi allsherjarnefndar þegar þessi beiðni kom fram að í fyrsta lagi væri, samkvæmt reglum þingskapa, ekkert skilyrði fyrir því að taka mál á dagskrá að minnihlutaálit liggi fyrir. Í annan stað tók ég fram að það væri mín skoðun, í ljósi þess tíma sem eftir var af þingstörfum, að heppilegra hefði verið að byrja á þessu máli í morgun. Sú afstaða mín lá fyrir þótt ég kæmi að sjálfsögðu hinni formlegu beiðni þingflokks Vinstri grænna á framfæri.