Almannatryggingar o.fl.

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 12:00:37 (3385)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[12:00]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil hvetja hv. þingmann til að hlusta betur á umræðuna og gera sjálfum sér þann greiða áður en hann fer í andsvar við menn að hlusta á það sem viðkomandi hafði fram að færa. Ég fjallaði nákvæmlega um þann kokteil sem ég kallaði, samsetningu íslensku heilbrigðisþjónustunnar, almannaþjónusta, einkarekstur, og tók sérstaklega fram að um þessa blöndu væri tiltölulega mikil sátt á Íslandi. Átökin stæðu um það núna að hvaða marki ætti að færa landamærin til á milli þjónustu sem er undir handarjaðri hins opinbera og einkareksturs hins vegar.

Ég segi við þá sem lengst vilja ganga í einkavæðingu og einkarekstri: Þið megið hafa öll þau einkasjúkrahús sem þið viljið, allan þann einkapraxís sem þið viljið, ekki ætla ég að skipta mér af því, en ef þið viljið að ég borgi, ef þið viljið að skattborgarinn standi straum af kostnaðinum, þá eigum við kröfu til þess að um starfsemina séu settar ásættanlegar reglur og haldið sé vel á hagsmunum okkar. (Gripið fram í.) Um það snýst þetta mál. (Gripið fram í: Til þess er þessi stofnun.) Til þess er þessi stofnun, segir hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. formaður heilbrigðisnefndar. Það er um þetta sem málið fjallar, að við fáum tækifæri til þess að ræða lög um nýja heilbrigðisstofnun áður en hæstv. heilbrigðisráðherra skipar henni stjórn, áður en hæstv. ráðherra skipar henni forstjóra.