Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 13:55:06 (3405)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[13:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um þetta frumvarp og það nefndarálit sem hér liggur fyrir og reyndar tvö önnur nefndarálit og breytingartillögu. Það er nokkuð ljóst að margir hafa skoðun á málinu og mismunandi skoðanir. Umræðan hefur farið fram undir mikilli tímapressu og verið býsna slitrótt. Þetta er fjórða tilraunin til að ræða málið við 2. umr. Umræðan sem slík hefur ekki verið samfelld og ég vil taka það fram að við þær aðstæður sem nú eru í þinginu hafa margir þingmenn viljað tjá sig en sökum tímapressu hafa þeir ekki getað farið á mælendaskrá. Það er eingöngu vegna þeirra aðstæðna sem við búum við í þessari tímapressunni rétt fyrir jól.

Stjórnarandstaðan er þverklofin í málinu eins og hér hefur komið fram. Hún leggur fram tvö nefndarálit. Vinstri grænir komu með eitt nefndarálit og Frjálslyndir annað en Framsókn hefur lýst því yfir að hún muni styðja nefndarálit vinstri grænna. Auk þess liggur hér fyrir ein breytingartillaga frá þingmanni sem ekki situr í nefndinni. Eins og ég segi er ljóst að hér eru mismunandi sjónarmið. Það er auðvitað nokkuð ljóst að hjarta margra þingmanna slær með tillögu 6. þm. Suðurkjördæmis Árna Johnsens, um að leggja niður veiðigjaldið. En ég vil taka fram að þetta gjald sem við erum með til umfjöllunar var lagt á eftir mikið samráð í nafni sáttar um fiskveiðistjórnarkerfið. Mikið og langt samráð hafði farið fram og nefndarstörf sem lágu þar að baki. Þegar þetta gjald var lagt á var það gert til að koma á sátt um kerfið.

Ég ítreka að lengra verður ekki haldið að þessu sinni í þeim tillögum sem meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar leggur fram. Ég verð að hvetja alla hv. þingmenn til að greiða tillögum meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar atkvæði sitt þegar þær koma til atkvæða. Það gefst ekki tími til að fara nánar út í þau sjónarmið sem hafa komið fram í máli þingmanna við umræðuna.

Ég ítreka að meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar leggur fram breytingartillögur og nefndarálit að vel ígrunduðu máli. Ég hvet því þingmenn til að að styðja meiri hlutann því að hér er um góða tillögu að ræða. Hún felur í sér, eins og frumvarpið gerði ráð fyrir upphaflega, niðurfellingu veiðigjalds af aflamarki í þorski en til viðbótar kemur fram í tillögu meiri hlutans að lækka skuli álagningarhlutfall í 4,8% úr 8,7% eins og var gert ráð fyrir á næsta ári og úr 9,5% á árinu 2009. Þessi tillaga okkar á að gilda það fiskveiðiár sem nú stendur yfir og næsta fiskveiðiár.

Hæstv. forseti. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í þinginu mun ég ekki lengja mál mitt frekar og vonast til að þetta mál fái góðan framgang við atkvæðagreiðslu.