Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 10  —  10. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson,


Grétar Mar Jónsson, Jón Magnússon.



I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. lög nr. 105/2007.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      B-liður 2. mgr. orðast svo: Atvinnutekjur lífeyrisþega eða maka hans skulu ekki hafa áhrif við útreikning á fjárhæð bóta skv. III. kafla laga þessara og vasapeninga skv. 48. gr.
     b.      C-liður 2. mgr. orðast svo: Séreignarlífeyrissparnaður lífeyrisþega hefur ekki áhrif við útreikning á fjárhæð bóta skv. III. kafla laga þessara og þá skal ekki reikna með lífeyrisgreiðslum maka lífeyrisþega úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     c.      3. og 4. mgr. orðast svo:
                  Þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri skv. 17. og 18. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. atvinnutekjur lífeyrisþega eða maka hans, bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.
                  Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 22. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. atvinnutekjur lífeyrisþega eða maka hans bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

2. gr.

    2.     mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir 1. mgr. teljast ekki til tekna atvinnutekjur vistmanns eða maka hans, bætur frá lífeyristryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er fylgt eftir áherslum Frjálslynda flokksins í málefnum elli- og örorkulífeyrisþega og lagt til að afnema að fullu þau lagaákvæði sem skerða bætur elli- og örorkulífeyrisþega skv. III. kafla laganna um almannatryggingar vegna atvinnutekna bótaþegans eða maka hans. Þá er einnig í frumvarpinu kveðið á um að séreignarlífeyrissparnaður skerði ekki sömu bætur þegar hann er greiddur út.