Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 12  —  12. mál.




Frumvarp til laga



um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra.

Flm.: Katrín Júlíusdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen,
Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Guðbjartur Hannesson,
Guðjón A. Kristjánsson, Höskuldur Þórhallsson, Kolbrún Halldórsdóttir,
Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir.


1. gr.

    Íslenska táknmálið er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og skal íslenska ríkið hlúa að því og styðja.
    Íslenska táknmálið er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í millum og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir tala.
    Íslenska ríkið skal tryggja fullnægjandi fjárframlög til íslenska táknmálsins ár hvert í samræmi við tilgang laga þessara.

2. gr.

    Allir eiga rétt á kennslu og þjálfun í táknmáli frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst hjá þeim.
    Nú fæðist barn heyrnarlaust, heyrnarskert eða daufblint eða það missir heyrn og/eða sjón á máltökuskeiði og skulu þá nánustu aðstandendur þess eiga rétt á endurgjaldslausri kennslu og þjálfun í táknmáli.

3. gr.

    Heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir eiga rétt á aðstoð táknmálstúlks til að sinna atvinnu sinni og námi og í daglegu lífi að öðru leyti.

4. gr.

    Til túlkaþjónustu telst túlkun á íslenskt táknmál eða á annað form sem heyrnarlaus, heyrnarskertur eða daufblindur maður skilur.

5. gr.

    Notendur íslenska táknmálsins eiga rétt á að upplýsingar sem birtar eru opinberlega og fræðslu- og afþreyingarefni sem ætlað er almenningi verði gert þeim aðgengilegt með textun á íslensku eða túlkun á íslenskt táknmál eftir því sem við á.
    Óheimilt er að neita heyrnarlausum, heyrnarskertum eða daufblindum manni um atvinnu, skólavist, tómstundir eða aðra þjónustu á grundvelli heyrnarleysis eða þess að hann notar táknmál.

6. gr.

    Allar stofnanir og embætti ríkis og sveitarfélaga skulu útvega táknmálstúlka sem túlka fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda sem eiga erindi við viðkomandi stofnun eða embætti vegna þjónustu eða annarra atvika.
    Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu ríkis og sveitarfélaga.

7. gr.

    Sérhver notandi íslenska táknmálsins á rétt á a.m.k. 20 tíma endurgjaldslausri þjónustu táknmálstúlks mánaðarlega til að sinna persónulegum erindum sem ekki falla undir ákvæði 6. gr.
    Daufblindir eiga rétt á a.m.k. tvöföldum tímafjölda skv. 1. mgr.
    Notendur þjónustu táknmálstúlka eiga rétt á auknum tímafjölda samkvæmt þessari grein ef sérstaklega stendur á samkvæmt reglum sem ráðherra setur.

8. gr.

    Íslenska ríkið skal stuðla að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslenska táknmálsins og styðja að öðru leyti við menningu, menntun og fræðslu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda.
    Íslenska ríkið skal efla menntun táknmálstúlka og styðja sérstaklega við kennslu í táknmálsfræði og táknmálstúlkun. Þá skal íslenska ríkið í samræmi við ákvæði laga þessara og annarra laga leitast við að fullnægja eftirspurn eftir táknmálstúlkaþjónustu hverju sinni.

9. gr.

    Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Lög þessi skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta hefur verið lagt fram á nokkrum fyrri þingum. Höfundur þess er Sigurlín Margrét Sigurðardóttir sem lagði frumvarp þessa efnis upphaflega fram á 130. löggjafarþingi. Greinargerðin sem fylgir þessu frumvarpi er að mestu leyti samhljóða þeirri sem fylgdi upphaflega frumvarpinu en helst má nefna breytingu sem felst í nýjum kafla um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Í frumvarpi þessu er að finna réttindaskrá um stöðu og réttindi þeirra sem nota íslenska táknmálið jafnframt því sem kveðið er á um að táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og réttur þeirra tryggður til hvers konar táknmálstúlkunar.

Einangrun rofin.
    Til heyrnarskertra, heyrnarlausra og daufblindra teljast nú um 300 Íslendingar. Líf heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra mun taka miklum stakkaskiptum við viðurkenningu á íslenska táknmálinu. Sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra mun eflast til muna. Þeir munu finna hvers virði það er að geta sinnt daglegum félagslegum þörfum hindrunarlaust og geta rofið þá einangrun sem hefur heft þá í langan tíma þar sem þeir munu geta tekið fullan þátt í atvinnulífinu. Þeir þurfa ekki lengur að „betla“ af t.d. vinnuveitanda um að greiða fyrir þjónustu túlks á starfsmannafundum. Það styrkir sjálfsmyndina töluvert, sérstaklega á vinnustað, að vita að maður hefur sömu möguleika til launahækkana og til að vinna sig upp og heyrandi samstarfsmenn.

Skýr ákvæði mannréttindasáttmála.
    Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra var undirritaður af Íslands hálfu þann 30. mars á þessu ári. Með sáttmálanum eru stigin mikilvæg skref í réttindamálum fatlaðra og þá ekki síst heyrnarskertra, heyrnarlausra og daufblindra. Með undirritun sinni hefur Ísland samþykkt að leggja sig fram um að tryggja réttindi fatlaðra hér á landi og þar með bæta umhverfi þeirra. Í sáttmálanum er skýrt kveðið á um að allar aðildarþjóðir skuli grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja rétt fatlaðra og frelsi til tjáningar og skoðana (Gr.21). Er þar sérstaklega tiltekið að tryggja eigi þennan rétt með því m.a. að viðurkenna og upphefja táknmálið (Gr.21-e). Þá er jafnframt tiltekið að tryggja eigi þennan rétt með því að viðurkenna og greiða fyrir notkun táknmáls sem og öðrum þeim leiðum sem fatlaðir kjósa að nota í opinberum samskiptum (Gr.21-b). Viðurkenning íslenskra stjórnvalda á íslenska táknmálinu er því eðlilegt framhald á staðfestingu framangreinds sáttmála.

Sterkari sjálfsmynd heyrnarskertra.
    Víðs vegar um heim eru hugtökin heyrnarlaus og heyrnarskertur sett undir sama hatt, má þar nefna á ensku „deaf and hard of hearing“, á norsku „døve og sterk tunghørte“, á sænsku „döv og hörselskadad“. Hér á landi er þessu einnig háttað með sama hætti, sbr. nafn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og svo Hlíðaskóli – táknmálssvið fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn. Heyrnarskertir hafa löngum verið sagðir „ekki þurfa á táknmálinu að halda“ og hafa því verið á svokölluðu „gráu svæði“, þ.e. ekki fundið sig almennilega í samskiptum með heyrandi samfélagi og ekki heldur með samfélagi heyrnarlausra vegna þess að þeir hafa ekki lært táknmálið á æviskeiði sínu. Rannsóknir á málefnum heyrnarskertra og frásagnir þeirra sjálfra hafa sýnt að sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust hefur styrkst eftir að þeir hafa lært táknmál og kynnst heyrnarlausum einstaklingum. Daufblindir eru þeir sem hafa skerta eða enga heyrn og skerta eða enga sjón. Mikilvægt er að frumvarp þetta taki einnig til daufblindra sem nota snertitáknmál. Daufblindir er fámennasti hópur fatlaðra hér á landi en þeir þurfa þó mjög sérhæfða þjónustu á sviði samskipta og skipar táknmálið þar stóran sess. Þessir þrír hópar eiga táknmálið sameiginlegt og því má enginn þeirra vera settur út undan. Nauðsynlegt er að standa vörð um íslenska táknmálið svo að þessir hópar geti haft aðgang að upplýsingum, stundað nám og tekið þátt í menningarlífi og athöfnum daglegs lífs. Markmið þessa frumvarps er að réttindi þessara þriggja hópa verði tryggð.

Einangrunartímabilið.
    Táknmál var bannað í u.þ.b. 100 ár en þennan tíma kalla heyrnarlausir einangrunartímabilið. Þessi ákvörðun var tekin í Mílanó árið 1880 á ráðstefnu heyrnleysingjakennara víðs vegar að úr heiminum. Niðurstaða ráðstefnunnar var að samþykkja að beita svokallaðri „oral“-stefnu eða raddmálsaðferð við menntun heyrnarlausra. „Oral“-stefnan felst í því að heyrnarlausir og heyrnarskertir læra að lesa af vörum og læra að tala með hjálp kennara án þess að nota táknmál.
    Þessi stefna breiddist út um allan heim og heyrnarlausir kennarar voru reknir frá skólunum. Verulega dró úr menntun heyrnarlausra, störf þeirra urðu einfaldari og samfélag heyrnarlausra einangraðist frá heimi heyrandi manna. Heyrnarlausir fóru í felur til þess að geta talað saman á því máli sem var þeim eðlilegast, táknmálinu. Þetta ástand varði í 100 ár.

Táknmál er mál eins og hver önnur.
    Árið 1960 uppgötvaði bandaríski málvísindamaðurinn William Stokoe að táknmál væru mál eins og hver önnur mál. Þessi vitneskja breiddist út um allan heim og þeir málvísindamenn sem hafa rannsakað táknmál hafa komist að raun um að táknmál eru fullkomin og flókin mál. Heyrnarlausir brutu smám saman niður múrinn eftir að uppalendur og skólar tóku að viðurkenna mál þeirra.
    Á Norðurlöndunum var táknmál viðurkennt á tímabilinu 1975–1980 en verður sýnilegt á Íslandi um 1986.
    „Ef ég viðurkenni mál annars manns hef ég þar með viðurkennt manninn … en ef ég viðurkenni ekki mál hans hef ég þar með hafnað honum vegna þess að málið er hluti af okkur sjálfum.“ Þessi orð voru höfð eftir norska málvísindamanninum Terje Basilier og eiga þau sannarlega vel við þegar fjallað er um viðurkenningu íslenska táknmálsins.

Viðurkenning táknmálsins mikilvæg.
    Það er flókið að viðurkenna nýtt mál. Skoða þarf vandlega hvaða þýðingu viðurkenning á táknmáli hefur fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda og fyrir stjórnvöld. Flutningsmenn telja að viðurkenning táknmálsins feli um leið í sér viðurkenningu á tilveru framangreindra hópa og ábyrgð stjórnvalda og skyldu þeirra að virða mismunandi þarfir einstaklinga og koma til móts við þá af virðingu. Framtíðarsýnin í frumvarpinu er sú að táknmálið muni njóta sömu virðingar og önnur mál og að heyrnarlausum verði mögulegt að taka fullan þátt í þjóðfélaginu á grundvelli laganna; að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafi rétt til að ákveða hvert sé móðurmál þeirra og aðrir viðurkenni og virði þá ákvörðun. Íslendingar hafa byggt upp öflugt velferðarkerfi sem hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Alþingi væri sómi að því að gera betur með því að viðurkenna táknmál sem fyrsta mál heyrnarlausra. Gera þarf heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum, sem aðallega eru notendur táknmálstúlkaþjónustu, hátt undir höfði svo að þeir geti og fái notið táknmálstúlkaþjónustu hindrunarlaust. Full þátttaka ríkissjóðs í kostnaði við táknmálstúlkun verður að teljast sjálfsögð. Samhliða frumvarpinu er flutt frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum hvað varðar réttindi og réttarstöðu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Þá verður einnig lagt fram þingmál er varðar textun sjónvarpsefnis á þessu þingi en það mál snertir um 25–30 þúsund Íslendinga. Flutningsmenn telja rétt að benda á að sjónvarpsefni á táknmáli er af mjög skornum skammti á Íslandi og telja eðlilegt að það verði aukið. Annars staðar á Norðurlöndum eru t.d. sýndir menningartengdir táknmálsþættir a.m.k einu sinni í viku á opinberu sjónvarpsstöðvunum sem hefur auðvitað mikla þýðingu fyrir samfélag heyrnarlausra.

Mikilvægar forsendur viðurkenningar táknmálsins.
    Félag heyrnarlausra sendi formönnum allra þingflokka á Alþingi formlegt bréf þegar málið var fyrst lagt fram. Þá var forseta Alþingis og forsætisráðherra afhent áskorun í apríl 2007 um að samþykkja frumvarpið. Var þess óskað í bréfinu að lögð yrði áhersla á að þeir sem notuðu íslenska táknmálið yrði tryggt jafnræði í samfélaginu. Réttindaskrá sú sem birtist í þessu frumvarpi er fyrsta skrefið í átt að því tryggja slíkt jafnræði. Frumvarpið gengur í þá átt að íslenska táknmálið verði síðar formlega viðurkennt í stjórnarskrá Íslands sem fullgilt mál til jafns við íslenskuna.
    Til að viðurkenning íslenska táknmálsins öðlist fullt gildi þarf eftirfarandi jafnframt að vera tryggt:

1. Efling táknmálsfræðináms.
    Í fyrsta lagi er mikilvægt að efla nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun á Íslandi. Á þeim sjö árum sem námið hefur verið kennt við Háskóla Íslands hefur aðsóknin verið nokkuð stöðug. Að jafnaði hefja um 10–15 nemendur nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun á ári hverju sem sýnir að áhugi er fyrir hendi á náminu. Táknmálsfræðin er fjögurra anna nám. Nám í túlkafræði er tveggja anna nám og aðeins þeir sem hafa lokið námi í táknmálsfræði geta farið í nám í túlkun. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) annast kennslu í túlkanáminu í samvinnu við táknmálsfræðideild HÍ. Túlkun er nú kennd þriðja hvert ár. Á þessu ári útskrifuðust átta nemendur úr túlkunarnámi og eru sjö þeirra nú starfandi við túlkun. Þrátt fyrir að aðstaða deildarinnar hafi batnað verulega er undirmönnun hins vegar viðvarandi vandi. Einungis einn lektor er ráðinn sem fastur starfsmaður deildarinnar, aðrir eru lausráðnir. Mikilvægt er að bæta við einu stöðugildi við deildina í táknmálskennslu. Núna er ekkert nám í boði hér á landi til að heyrnarlausir geti öðlast viðurkennda menntun til að starfa sem táknmálskennarar. Fjórir heyrnarlausir einstaklingar hafa útskrifast frá Kennaraháskóla Íslands, en tveir þeirra starfa á táknmálssviði Hlíðaskóla og kenna þar grunnskólanemendum. Sá þriðji er einn af lausráðnum táknmálskennurum í táknmálsfræði sem nefndir eru hér að framan. Aðrir sem annast táknmálskennslu í framhaldsskólum og á námskeiðum eru starfsmenn Samskiptamiðstöðvarinnar. Ef heyrnarlausir læra táknmálskennslu í Samskiptamiðstöðinni er það á engan hátt metið til eininga og er ekkert diplómanám í táknmálskennslu til hérlendis. Það þarf því augljóslega að bjóða heyrnarlausum upp á samfellt nám í táknmálskennslu og táknmálsfræði. Jafnvel þyrfti að koma á námi sambærilegu við táknmáls- og menningarfræði heyrnarlausra sem kennd er við Gallaudet-háskólann í Washington D.C. Hann er eini háskólinn í heiminum fyrir heyrnarlausa. Að öðrum kosti gæti íslenska ríkið stutt heyrnarlausa nemendur sem hyggja á nám í háskólum með greiðslu skólagjalda. Gjald fyrir tvær annir í Gallaudet-háskóla er um 2 millj. kr. Einnig mætti skoða Bristol University í Bretlandi en þar hafa táknmáls- og menningarfræði heyrnarlausra (e. deaf studies) líka verið kennd.
    Jafnframt þarf að veita meira fé til rannsókna á íslenska táknmálinu svo að fleiri geti lagt stund á þær. Í lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra frá árinu 1991 er kveðið á um að eitt af meginhlutverkum miðstöðvarinnar sé að stunda rannsóknir á íslensku táknmáli. Nauðsynlegt er að efla námsefnisgerð í táknmálsfræði og táknmálstúlkun svo unnt sé að kenna og nema málið á sem bestan hátt.
    Þess ber að geta að verkefni Samskiptamiðstöðvarinnar taka til táknmálsins og málsamfélags og menningar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Hún hefur í samvinnu við Námsgagnastofnun gefið út námsefni fyrir grunnskóla á táknmáli og er það vel. Efla mætti þennan þátt stöðvarinnar enn frekar með tilkomu laganna og yrði það námsefni heyrnarlausum og heyrnarskertum nemendum á táknmálssviði Hlíðaskóla mikil stoð þar sem stefna sviðsins er tvítyngi, þ.e. að börnin verði jafnfær á táknmál og skrifað mál. Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 kveður á um þetta og er það því eðlilegt að því sé fylgt.
    Táknmál hefur á undanförnum áratug farið að sjást víða í samfélaginu. Má þar nefna grunn- og framhaldsskóla og háskóla sem heyrnarlausir sækja með aðstoð túlka. Táknmálsfréttir eru fluttar í Ríkissjónvarpinu í átta mínútur hvern einasta dag. Nýársræða forseta Íslands er túlkuð eftir á. Í lögum um réttindi sjúklinga segir að heyrnarlaus sjúklingur eigi rétt á táknmálstúlki í viðtali við lækni þannig að táknmál sést á heilsugæslustöðum og sjúkrahúsum. Dómur Hæstaréttar nr. 151/1999 kveður á um að síðustu framboðsumræður séu túlkaðar á táknmáli í beinni útsendingu kvöldið fyrir kjördag. Prestur heyrnarlausra, séra Miyako Þórðarson, er viðurkennd sem táknmálsprestur og flytur messur á táknmáli auk þess að vera með táknmálskór. Táknmál sést hér á Alþingi. Nokkuð stór hluti aðalnámskrár grunnskóla fjallar um táknmál. Þetta eru því nokkur dæmi sem sýna að táknmálið er orðið sjálfsagt mál í samfélaginu og mikilvægt að tryggja og treysta sess þess í íslensku samfélagi.
    Þar sem táknmál er sjónrænt mál eru rannsóknir á íslensku táknmáli ekki gerðar nema með upptökutækjum. Því þarf táknmálsfræðideildin að hafa til umráða stúdíó með upptökutækjum, sjónvörpum, myndböndum og mynddiskatölvum til úrvinnslu á upptökum í stafrænu formi. Táknmálsorðabækur eða rannsóknir á táknmáli víða erlendis eru gerðar með upptökum á táknum. Þessi upptökutækni er sambærileg við framburðarrannsóknir á erlendum tungumálum og íslensku talmáli.
    Nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun í HÍ heyrir núna undir heimspekideild. Að loknu fjögurra anna námi eiga nemendur að vera orðnir nokkuð góðir í táknmáli og eiga að geta bjargað sér í samskiptum á táknmáli. Þeir þurfa því góða þjálfun. Núna felst þjálfunin í því að nemendur nái tengslum við heyrnarlausa með heimsóknum til þeirra eða heimsóknum til Félags heyrnarlausra. Félag heyrnarlausra býr við þröngan kost og hefur ekki sal til umráða.
    Nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun í HÍ getur gefið nemum í öðrum námsgreinum háskólans möguleika á að læra táknmál. Þannig gætu heyrnarlausir notið þjónustu sálfræðings eða lögfræðings sem kann táknmál og nemendur í málvísindum geta lagt stund á táknmál og unnið að rannsóknum á því með námi og síðar að námi loknu. Nemendur í sagnfræði geta skoðað sögu táknmálsins og heyrnarlausra og lært táknmálið. Nemendur í mannfræði geta lært táknmál, fræðst um það og stundað rannsóknir á menningarlegum mun samfélaga heyrnarlausra og heyrandi.
    Vesturhlíðarskólinn, eini grunnskólinn á Íslandi fyrir heyrnarlaus börn, var lagður niður 2001 og starfsemin flutt í Hlíðaskóla og nefnist núna Hlíðaskóli – táknmálssvið. Því er aðkallandi að kennarar í almennum skóla eins og Hlíðaskóla kunni táknmál og jafnvel kennarar í öðrum skólum sem heyrnarlaus eða heyrnarskert börn kunna að vera í, því að foreldrar heyrnarlausra eða heyrnarskertra barna geta valið þann möguleika að setja barn sitt í hverfisskóla. Táknmálsfræðideild HÍ gæti í náinni samvinnu við Kennaraháskóla Íslands boðið nemum KHÍ táknmálsfræðinám og metið það til eininga sem hluta af kennaraprófi. Þannig gætu nemendur í þroskaþjálfaskor, leikskólakennaraskor og íþróttakennaraskor lært táknmál samhliða námi sínu í KHÍ eins og nemendur í grunnskólaskor. Það yrði mikill hagur í því að fólk í þessum störfum kynni táknmál. Jafnvel mætti síðar kenna táknmál í Háskólanum á Akureyri eða öðrum háskóla á landsbyggðinni ef eftirspurn væri eftir því.
    Nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun verður ekki eflt á einum degi. Það þarf að gefa þessu öllu tíma til að dafna. Sýna þarf þeim sem hafa áhuga á að fara í táknmálskennaranám að starfsgrundvöllur þeirra og framtíð séu tryggð.

2. Túlkaþjónusta.
    Í öðru lagi þarf að tryggja fjárveitingar til allrar þeirrar túlkaþjónustu sem fellur undir frumvarpið. Tryggja þarf rétt heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra til túlkaþjónustu á öllum sviðum. Sérstaklega þarf að skoða rétt þeirra til túlkunar í daglegu lífi. Táknmálstúlkastarfið þarf að lögvernda. Tryggja þarf að táknmálstúlkanám í HÍ verði alltaf í boði þar sem fjölga þarf táknmálstúlkum á tveggja ára fresti. Þá þarf að mennta túlka daufblindra sérstaklega þar sem þeir þurfa á mjög sérhæfðri þjónustu að halda. Með því að tryggja fé til allrar túlkaþjónustu verður heyrnarlausum tryggður réttur til að sinna daglegum þörfum. Þar má m.a. nefna táknmálstúlkun hjá fasteignasala, bankastjóra, fjármálaráðgjafa, arkitekt, byggingafræðingi, rafvirkja, pípulagningamanni, í íþróttum og tómstundum barna, á húsfélagsfundum, á tómstundanámskeiðum, á starfsnámskeiðum, á starfsmannafundum og í starfsviðtölum hjá einkafyrirtæki. Þessum hluta hefur verið sinnt undanfarin ár með fjárveitingu frá ráðuneytunum, fyrst frá félagsmálaráðuneyti, sem hætti úthlutun árið 1999 og tók þá forsætisráðuneytið af skarið og hefur veitt fé síðan, þó ekki reglulega. Félag heyrnarlausra hefur haft mikið fyrir því að fá af þessu fé sem í daglegu tali nefnist félagslegi túlkunarsjóðurinn. Frá árinu 2005 hefur Samskiptamiðstöðin sem heyrir undir menntamálaráðuneytið fengið 10 millj. kr. fjárveitingu á ári til þess að sinna túlkaþjónustu í daglegu lífi heyrnarlausra og heyrnarskertra. Gallinn við þennan sjóð er að fjárveitingin er ekki tryggð með lögum heldur er hluti af fjárveitingum til stöðvarinnar. Í Samskiptamiðstöðinni starfa nú 14 táknmálstúlkar í 11,2 stöðugildum og eru um 80% af verkefnum túlkaþjónustunnar túlkun í framhaldsskólum.

3. Menning heyrnarlausra.
    Í þriðja lagi þarf að líta til menningar heyrnarlausra. Af öllum tungumálum sprettur upp menning. Því hefur oft verið haldið fram að heyrnleysingjaskólarnir væru vagga menningar heyrnarlausra. Þar lærðu heyrnarlausir táknmál af eldri kynslóðum og kynntust fyrst táknmálsumhverfinu. Á Íslandi er komin upp sú staða að vagga menningar heyrnarlausra er ekki lengur til í því formi sem áður var og er algengt víða um heim. Eins og áður hefur komið fram hefur Vesturhlíðarskólinn, skóli fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn, verið lagður niður, og stunda nemendurnir nú námið í deild í Hlíðaskóla sem ber nafnið Hlíðaskóli – táknmálssvið. Að lokum ber að geta þess að í fylgiskjali með frumvarpi þessu er texti af vísindavef Háskólans sem skýrir táknmál á mjög einfaldan hátt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og að íslenska ríkið veiti nægilegt fé til málefna sem snerta íslenska táknmálið ár hvert. Þá er tekið sérstaklega fram að ekki megi mismuna fólki eftir því hvort það talar íslensku eða íslenska táknmálið.
    Ákveðið var að nota hugtakið „fyrsta mál“ í greininni þar sem sú skilgreining sem gefin hefur verið á hugtakinu móðurmál getur ekki gilt um heyrnarlausa almennt. Skilgreiningin er svohljóðandi: „Það mál sem er talað í því landi sem maður fæðist í og er talað af þeirri fjölskyldu sem elur mann upp telst vera móðurmál manns.“ (Málfræðiorðasafn.)

Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um rétt allra til kennslu og þjálfunar í íslenska táknmálinu frá þeim tíma sem þeir greinast með heyrnarskerðingu eða heyrnarleysi. Þá er kveðið á um rétt nánustu aðstandenda barns sem fæðist heyrnarskert, heyrnarlaust eða daufblint eða missir heyrn og/eða sjón á máltökuskeiði til að fá strax kennslu og þjálfun í táknmáli. Skal þjónustan veitt þeim að kostnaðarlausu. Mikilvægt er að fjölskylda barnsins fái þar með nægjanlegan stuðning við að læra táknmál og menningarfræði heyrnarlausra. Við samningu reglugerðar um þetta málefni er lögð sérstök áhersla á að fullt samráð verði haft við Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra barna (FSFH) sem og Félag heyrnarlausra.

Um 3. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að lögfestur verði sá réttur hvers heyrnarlauss, heyrnarskerts eða daufblinds Íslendings að njóta aðstoðar táknmálstúlks til að sinna atvinnu, námi og menningarlífi. Athuga þarf sérstaklega að ekki þykir rétt að gera greinarmun á því hvort einstaklingur þurfi að sinna starfi eða námi á Íslandi eða erlendis. Þannig ætti t.d. einstaklingur rétt á aðstoð táknmálstúlks ef hann þyrfti að sækja fund eða ráðstefnu erlendis vegna starfs síns, náms eða áhugamáls.

Um 4. gr.


    Í greininni er inntak og umfang túlkaþjónustu nánar skýrt. Í samræmi við stöðu íslenska táknmálsins samkvæmt frumvarpinu og rétt heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra til túlkaþjónustu verður að túlka hugtakið túlkaþjónusta rúmt. Markmiðið er að veita öllum einstaklingum jafnan rétt til tjáningar og þátttöku í samfélaginu hvort sem um vinnu, nám eða daglegt líf að öðru leyti er að ræða.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um rétt notenda íslenska táknmálsins til að fá notið fræðsluefnis, upplýsinga, afþreyingarefnis o.þ.h., annaðhvort með textun eða túlkun á íslenskt táknmál. Í þessu felst m.a. að sjónvarpsstöðvum ber annaðhvort að senda sjónvarpsefni út með íslenskum texta eða táknmálstúlkun. Hið sama gildir um kvikmyndahús og framleiðendur fræðslu-, auglýsinga- og afþreyingarefnis.
    Þá leggur 2. mgr. bann við því að heyrnarlausum, heyrnarskertum eða daufblindum manni sé neitað um atvinnu, skólavist, tómstundir eða aðra þjónustu á grundvelli heyrnarleysis síns.

Um 6. gr.


    Greinin leggur þá skyldu á herðar ríki og sveitarfélögum og öllum stofnunum og embættum sem undir þau heyra að útvega táknmálstúlka á eigin kostnað sem túlka fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda sem leita til viðkomandi stofnunar eða embættis. Heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir þurfi því ekki að koma með túlk með sér þegar þeir sinna erindum hjá stofnun eða embætti sem heyrir undir ríki eða sveitarfélag heldur gangi þeir að túlki vísum hjá viðkomandi stofnun. Ákvæðið tekur til allra stofnana og embætta ríkis og sveitarfélaga, þ.m.t. dómstóla landsins, auk fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélög eiga helmingshlut í eða meira. Ekki er gert ráð fyrir að túlkarnir verði starfsmenn þeirra aðila sem skyldan hvílir á, enda er algjört skilyrði að túlkar séu óháðir í störfum sínum.

Um 7. gr.


    Í greininni er kveðið á um að hver heyrnarlaus, heyrnarskertur eða daufblindur Íslendingur fái mánaðarlega að lágmarki 20 tíma endurgjaldslausa þjónustu táknmálstúlks til að sinna persónulegum erindum. Þessa tíma væri t.d. hægt að nota við foreldrafundi í skólum, ferð á fasteignasölu eða hvaðeina annað sem einstaklingur þarf að sinna og hann þarf aðstoð við. Þá er kveðið á um að sérhver daufblindur einstaklingur fái a.m.k. tvöfaldan þann tíma árlega sem aðrir heyrnarskertir og heyrnarlausir fá. Þá er gert ráð fyrir að notendur túlkaþjónustu geti fengið fleiri tíma en lágmarkið kveður á um þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji nánari reglur um það en gera verður ráð fyrir að við samningu þeirra reglna verði tilgangur laga þessara og staða táknmálsins höfð að leiðarljósi. Heimild fyrir aukningu á tímafjölda má því ekki túlka of þröngt.

Um 8. gr.


    Í greininni er kveðið á um skyldu íslenska ríkisins til að efla og styðja við nám og kennslu í táknmálstúlkafræði auk þess að hlúa sérstaklega að menningu og menntun þeirra sem ekki heyra. Jafnframt er kveðið á um að íslenska ríkið skuli á hverjum tíma leitast við að anna eftirspurn eftir túlkaþjónustu. Í því felst m.a. skylda til að gera nám í táknmálstúlkafræði eftirsóknarvert fyrir nýja nemendur, bæta starfsskilyrði og launakjör táknmálstúlka o.s.frv. Ef lögin eiga að ná markmiðum sínum verður að vera nægilegt framboð af táknmálstúlkum.

Um 9. og 10. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Svandís Svavarsdóttir,
vísindavef Háskóla Íslands:


Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt táknmál fyrir heyrnarlausa?


    Flestir sem eru heyrnarlausir tala táknmál og líta á það sem sitt móðurmál. Táknmál er myndað með hreyfingum handa, höfuðs og líkama, með svipbrigðum, munn- og augnhreyfingum. Í táknmáli fær augnsambandið aukið mikilvægi því að í samskiptum á táknmáli verður alltaf að halda augnsambandi við viðmælandann. Svipbrigði fá aukna og ákveðna merkingu eða málfræðilegt hlutverk og staða líkamans hefur áhrif á blæbrigði og merkingu. Munnhreyfingarnar og svipbrigðin eru í mörgum tilvikum framandi meðal þeirra sem ekki þekkja til. Þessir hlutar táknmálsins eru þó jafnmikilvægir og hreyfingar handanna og órjúfanlegur hluti málsins.
    Táknmál eru sjálfsprottin mál sem hafa þróast í samfélagi heyrnarlausra manna alls staðar í heiminum. Táknmál er ekki alþjóðlegt heldur sérstakt fyrir hvert land. Í sumum löndum er jafnvel mállýskumunur á táknmáli milli landsvæða. Skyldleiki táknmálanna er oft ólíkur skyldleika raddmálanna í viðkomandi löndum. Til dæmis er bandaríska táknmálið talið töluvert skylt því franska en nánast ekkert skylt því enska. Heyrnarlaus Bandaríkjamaður á auðveldara með að tala við heyrnarlausan Frakka en heyrnarlausan Breta! Á þessu eru sögulegar skýringar sem ekki verður fjallað nánar um hér.
    Táknmál eru byggð upp af táknum og ákveðnar málfræðireglur gilda um það hvernig táknin raðast saman. Röð tákna í setningu er ólík þeirri orðaröð sem við eigum að venjast í íslensku. Ef við röðum táknunum upp eins og um íslenska setningu væri að ræða verður hún málfræðilega röng og leiðir iðulega til misskilnings. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem nota táknmál en eiga íslensku að móðurmáli fylgi lögmálum táknmálsins en myndi setningarnar ekki á íslensku og snari þeim jafnharðan. Táknmál er annað mál sem lýtur öðrum málfræðilegum lögmálum en íslenskan.
    Málfræði táknmálsins er flókin og spennandi og orðaforðinn litskrúðugur og frjór. Táknmál er nú um stundir afar spennandi rannsóknarvettvangur málfræðinga. Þarna er hægt að rannsaka mál sem hafa annan miðil en raddmál og niðurstöður þeirra rannsókna hafa áhrif á hefðbundnar hugmyndir manna um málfræði.
    Eins og áður segir er einn hluti af málfræði táknmálsins fólginn í svipbrigðum, munnhreyfingum og líkamsstöðu. Skapast hefur sú hefð að kalla þessa þætti alla saman látbrigði (e. non-manual features). Lítum aðeins nánar á þessa þætti. Meðan táknmál er talað er andlitið á stöðugri hreyfingu. Munnurinn er á ferð og flugi og líkaminn færist til hægri og vinstri. Allt hefur þetta málfræðilega þýðingu. Hægt er að skipta málfræðilegu hlutverki látbrigða í þrjá flokka; látbrigði sem eru skyldubundinn hluti tákns, látbrigði sem eru notuð til áhersluauka og loks látbrigði sem gegna setningalegu hlutverki (varða setninguna í heild).
    Til dæmis um látbrigði af fyrsta flokki má nefna munnhreyfinguna sem fylgir tákninu sem merkir langur eða hávaxinn. Þetta tákn telst ekki rétt myndað ef munnhreyfingin sl fylgir ekki með. Sama gildir um munnhreyfinguna í tákninu sem merkir afbrýðissamur.
    Stundum eru látbrigði notuð til að auka við merkingu, til að mynda til að herða á merkingu lýsingarorða. Þannig er munur á svipbrigðunum eftir því hvort merkingin er feitur eða mjög feitur. Munurinn á þessu tvennu felst sem sé aðeins í svipbrigðunum. Svipurinn felur þá í sér viðbótarmerkingu og er notaður eins og atviksorð.
    Loks geta látbrigðin gegnt setningalegu hlutverki, varðað stöðu og merkingu setningarinnar í heild. Munurinn á spurningu og fullyrðingu liggur þá jafnvel í svipbrigðunum einum saman. Þessi svipbrigði eiga ekki við eitt tiltekið tákn heldur setninguna alla.
    Algengur misskilningur er að táknmál sé alþjóðlegt. Eins og margir segja þá væri það „miklu sniðugra“. En staðreyndin er sú að þar sem táknmál eru sjálfsprottin og náttúrleg er ekki hægt að stýra þróun þeirra og venslum frekar en annarra mála. Þrátt fyrir þetta er staðreyndin þó sú að heyrnarlausir eiga léttara með samskipti við heyrnarlausa útlendinga en gerist og gengur um heyrandi fólk. Þegar samtal af þessu tagi hefst og meðan á samtalinu stendur fer oft nokkur tími í að koma sér saman um tákn fyrir hitt og þetta. Þegar slíkt samkomulag liggur fyrir getur samtalið haldið áfram.
    Frá miðri síðustu öld hefur þróast nokkuð sem kallað er alþjóðlegt táknmál (International Sign Language, ISL). Um er að ræða blöndu margra táknmála sem notuð eru til að eiga samskipti á alþjóðlegum fundum heyrnarlausra. Þetta tilbúna mál hefur orðið til smátt og smátt á fundum Alheimssamtaka heyrnarlausra og á heimsleikum heyrnarlausra sem haldnir eru á fjögurra ára fresti. Oftast ræður tilviljun því hvaða tákn eru valin en þó má segja að frekar séu valin tákn sem hafa einhverja myndræna skírskotun, eru raunlíkingar (iconic). Þetta mál er hvorki staðlað né stöðugt heldur breytist í sífellu og lýtur í raun lögmálum aðstæðnanna hverju sinni.
    Svo virðist sem nokkur munur sé á ISL og því sem kallað er European Sign Language (ESL, Evróputáknmál). Þegar hið fyrrnefnda er talað ber töluvert á enskum munnhreyfingum. Hins vegar eru munnhreyfingarnar í ESL að mestu leyti ættaðar frá táknmálunum sem í hlut eiga og látbragð og svipbrigði skipa háan sess í samtalinu.