Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 100. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 100  —  100. mál.




Fyrirspurn



til landbúnaðarráðherra um erfðabreytt aðföng í landbúnaði.

Frá Þuríði Backman.



     1.      Hvað líður innleiðingu reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins 1829/2003/EB, um erfðabreytt matvæli og fóður, og 1830/2003/EB, um rekjanleika og merkingar á erfðabreyttum lífverum og rekjanleika á matvæla- og fóðurvörum sem framleiddar eru af erfðabreyttum lífverum?
     2.      Telur ráðherra ásættanlegt að íslenskir bændur hafi, ólíkt bændum í öðrum Evrópulöndum, ekki möguleika á að velja á milli venjulegs og erfðabreytts fóðurs vegna skorts á merkingum?
     3.      Telur ráðherra ásættanlegt hve hátt hlutfall af innfluttum maís og soja í fóðri og til fóðurframleiðslu er erfðabreytt?
     4.      Telur ráðherra að notkun erfðabreytts fóðurs geti skaðað markaðssetningu íslenskra landbúnaðarvara erlendis sem töluverð vinna og fjármagn hefur verið lagt í á grundvelli þess að þær séu náttúrulegar og hreinar?
     5.      Er ráðherra kunnugt um að evrópskar smásöluverslanir bregðast í sívaxandi mæli við kröfum neytenda um að búfjárafurðir séu ekki af búfé sem hefur verið alið á erfðabreyttu fóðri með því að úthýsa slíkum vörum?
     6.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fylgt verði fordæmi Norðmanna í vörnum við hættum af notkun erfðatækni í landbúnaði en Norðmenn girða fyrir innflutning á erfðabreyttu fóðri, hafna umsóknum um ræktun erfðabreyttra plantna og starfrækja óháða vísindastofnun um rannsóknir á áhrifum erfðatækni?
     7.      Mun ráðherra beita sér fyrir upplýstri umræðu um áhrif erfðabreytts landbúnaðar á umhverfi og heilsufar?


Skriflegt svar óskast.