Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 65. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 173  —  65. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Minni hlutinn telur að skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn hafi ekki verið uppfyllt við útgáfu bráðabirgðalaga um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á að ákvörðun um brottför hersins lá fyrir í mars 2006 og hann fór af landi brott í september 2006. Neytendastofa vakti jafnframt athygli á málinu í desember sama ár án þess að ríkisstjórnin eða stjórnvöld brygðust við. Minni hlutinn telur að framkvæmdarvaldið hefði átt að bregðast við fyrr með því að leggja fram frumvarp um þetta mál á sl. vor- eða sumarþingi en ella kalla þing saman til að afgreiða málið með eðlilegum hætti, enda situr Alþingi nú allt árið.
    Minni hlutinn telur að þröng heimild 28. gr. stjórnarskrárinnar til setningar bráðabirgðalaga verði ekki nýtt í þessu afmarkaða máli til að berja í þá bresti sem hlutust af sleifarlagi framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið getur ekki sótt skjól í framangreint ákvæði stjórnarskrárinnar til að réttlæta mistök og alls ekki þegar minni háttar hagsmunir eru í húfi eins og hér er raunin. Valdið liggur hjá þjóðinni og hún hefur falið það lýðræðislega kjörnum fulltrúum sínum á Alþingi. Með vísan til þessa telur minni hlutinn að einungis beri að beita 28. gr. stjórnarskrárinnar í algjörum undantekningartilvikum þegar ríkir þjóðfélagshagsmunir eru í húfi.
    Minni hlutinn minnir á að sérhverjum þingmanni er skylt að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni þegar kosning hans hefur verið tekin gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar. Alþingismönnum ber því skylda til að standa vörð um stjórnarskrána. Minni hlutinn áréttar að það sé stjórnarskráin sem eigi að njóta vafans en ekki bráðabirgðalöggjafinn.
    Auk alls framangreinds telur minni hlutinn að það sé ekki nauðsynlegt að Alþingi staðfesti bráðabirgðalögin í ljósi þess að upplýst hefur verið að framkvæmdunum við umrætt verkefni sé að mestu lokið.
    Að lokum ber að geta þess að í umsögn Rafiðnaðarsambandsins um þetta mál kemur fram hörð gagnrýni á setningu umræddra bráðabirgðalaga og leggst sambandið alfarið gegn því að þau verði staðfest. Umsögnin er birt með áliti þessu sem fylgiskjal.

Alþingi, 31. okt. 2007.



Atli Gíslason.



Fylgiskjal.

Umsögn Rafiðnaðarsambands Íslands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.