Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 227. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 246  —  227. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Flm.: Auður Lilja Erlingsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir.



1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Fullt námslán miðast að jafnaði við 100% nám samkvæmt skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Námslán skerðist hlutfallslega í samræmi við námsframvindu allt að 50%.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      5. mgr. orðast svo:
             Námsmenn sem fá lán úr sjóðnum skulu undirrita skuldabréf við lántöku.
     b.      6. og 7. mgr. falla brott.

3. gr.

    4. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Viðbótargreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok en föst greiðsla fjórum árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Flestir geta verið sammála um að menntun er undirstaða velferðar og framfara. Aukin menntun stuðlar að betra mannlífi og betra samfélagi og helst í hendur við hagvöxt. Það skiptir því máli að sem flestir eigi kost á að mennta sig og geti stundað það nám sem hæfileikar, geta og áhugi segja til um, óháð efnahag, félagslegum þáttum eða stöðu að öðru leyti.
    Ljóst er að stjórnvöld geta stuðlað að aukinni menntun með hvatningu og með því að búa skólastarfi gott umhverfi. Þess vegna skiptir miklu að reka öflugan lánasjóð með góðum kjörum fyrir námsmenn. Lánasjóður íslenskra námsmanna er mikilvægur sjóður fyrir menntun í landinu og á að gegna því hlutverki að gera sem flestum kleift að stunda nám og jafna aðstöðu manna.
    Flutningsmenn leggja einnig fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á kjörum námsmanna hér á landi – þar sem m.a. verði kannaðar aðstæður námsmanna sem eiga við veikindi að stríða og staða námsmanna í fæðingarorlofi, auk þess sem gerð verði ný könnun á kjörum námsmanna til að byggja framfærslugrunn námslánanna á.
    Með þessum aðgerðum telja flutningsmenn að námsmönnum verði sköpuð betri kjör, námslánakerfið verði sveigjanlegra og lögin um lánasjóðinn réttlátari.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að námsmenn fái notið aukins sveigjanleika í námi á þann veg að 50% lán fáist fyrir 50% námsframvindu.

Um 2. gr.


    Lagt er til að krafa um ábyrgðarmenn á lánum verði felld brott úr lögunum enda samræmist hún ekki 1. gr. laganna um jafnrétti til náms. Í ríku samfélagi á ekki að líðast að fólk þurfi að hverfa frá áætlunum um nám vegna þess að það hefur ekki ábyrgðarmenn sem lánasjóðurinn tekur gilda.

Um 3. og 4. gr.


    Lagt er til að endurgreiðsla af námslánum breytist á þann hátt að tveimur árum eftir að námi lýkur hefji námsmaður að greiða tekjutengdar afborganir en þurfi ekki að borga fasta árlega afborgun fyrr en fjórum árum eftir að námi lýkur. Á fyrstu árunum eftir að námi lýkur er algengt að fólk sé að koma sér þaki yfir höfuðið og stofna fjölskyldu. Þessi breyting léttir greiðslubyrði af námslánunum fyrstu árin.