Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 264  —  103. mál.
Flutt á annan lið.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2007.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Enn fremur var óskað eftir áliti frá Ríkisendurskoðun.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir 54 breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 4.931 m.kr. til hækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.
    Þá gerir meiri hlutinn breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, en endurskoðuð tekjuáætlun gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 8.202 m.kr. frá áætlun í frumvarpinu.
    Jafnframt gerir meiri hlutinn tvær breytingartillögur við 4. gr. frumvarpsins, eða 6. gr. fjárlaga 2007.
    Það er álit nefndarinnar að á milli 2. og 3. umræðu þurfi að skoða sérstaklega framhaldsskóla almennt, rekstrarkostnað sýslumannsembætta, heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili og gera tillögu um skiptingu fjárheimildar á einstakar stofnanir. Enn fremur mun nefndin skoða á milli umræðna málefni er varða eignir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 65 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.22
Ráðgjöf vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum. Gerð er tillaga um 25 m.kr. fjárveitingu vegna kostnaðar við aðkeypta ráðgjöf við að undirbúa breytingar í heilbrigðis- og tryggingamálum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á skipulagi heilbrigðis- og tryggingamála sem m.a. fela í sér tilflutning verkefna frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Um er að ræða ráðgjöf innlendra og erlendra sérfræðinga til verkefnisstjórnar sem hefur yfirumsjón með framvindu verksins. Verkefni ráðgjafanna snýr m.a. að greiningu á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, tillögugerð um skipulagningu og framkvæmd nauðsynlegra breytinga vegna uppskiptingar stofnunarinnar og endurskoðun á skipulagi og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Vinna við verkefnið hófst í sumar og gert er ráð fyrir að það standi yfir fram á næsta ár.
203     Fasteignir Stjórnarráðsins.
        6.21
Fasteignir. Gerð er tillaga um 40 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við breytingar á húsnæði ráðuneyta vegna sameiningar ráðuneyta og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Um er að ræða kostnað sem áætlað er að falli til vegna breytinga á 5. og 6. hæð í Sjávarútvegshúsi í tengslum við sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og flutning landbúnaðarráðuneytis af Sölvhólsgötu í Sjávarútvegshús, auk flutnings viðskiptaráðuneytis úr Arnarhvoli á Sölvhólsgötu 7. Ráðast þarf í gagngerar endurbætur á 5. hæð Sjávarútvegshússins, enda er mjög langt síðan það húsnæði var endurnýjað og skipulag húsnæðisins var á sínum tíma sniðið að þörfum Hafrannsóknastofnunarinnar sem þar hefur verið til húsa. Breytingar á öðru húsnæði eru minni í sniðum. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdunum og gerir áætlun ráð fyrir að heildarkostnaður verði 235 m.kr., sem skiptist þannig að 40 m.kr. falla til árið 2007 og 195 m.kr. árið 2008.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 362,4 m.kr.
201     Háskóli Íslands.
        1.01
Háskóli Íslands. Lagt er til að 5 m.kr. fjárheimild verði millifærð af viðfangsefninu 02-201-1.01 Háskóli Íslands yfir á 02-451-1.22 Fræðslumiðstöð Vestfjarða til leiðréttingar á staðsetningu fjárveitingar í frumvarpinu sem er hluti af mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin ákvað að grípa til í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í þorskveiðum.
269     Háskóla- og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        5.21
Viðhald. Gerð er tillaga um 25 m.kr. framlag til brýnna viðhaldsverkefna á húsi Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands að Dunhaga 3, Reykjavík.
        6.02
Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Gerð er tillaga um 62 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að ljúka framkvæmdum við byggingu svonefndrar P3 aðstöðu að Keldum. Fjárheimild að upphæð 87 m.kr. til framkvæmda var samþykkt í fjáraukalögum fyrir árið 2006. Í ljós hefur komið að kostnaður við byggingu aðstöðu til krufningar fuglshræja var verulega vanáætlaður. Er það einkum sérfræði- og umsýslu- og eftirlitskostnaður sem hefur farið fram úr áætlunum auk þess sem þensla var mikil á byggingamarkaði þegar verkið var boðið út. Skiptist fjárhæðin þannig að 42 m.kr. eru til að ljúka nauðsynlegustu framkvæmdum og til kaupa á tækjabúnaði. Auk þess eru 20 m.kr. vegna hreinsibúnaðar til að vernda starfsfólk og umhverfi.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.13
Forfallakennsla. Gerð er tillaga um 60 m.kr. viðbótarfjárveitingu til að mæta auknum kostnaði við veikindaorlof framhaldsskólakennara. Skiptist fjárhæðin þannig að 35 m.kr. eru vegna halla frá fyrri árum og 25 m.kr. vegna áætlaðra útgjalda umfram fjárheimildir á árinu 2007. Með hækkandi meðalaldri kennara á framhaldsskólastigi hafa langtímaveikindi aukist til muna sem skýrir auknar greiðslur vegna veikindaorlofs og halla á liðnum.
        1.90
Framhaldsskólar, óskipt. Lagt er til að fjárveiting á þessum lið hækki um 150 m.kr. og nemi þannig alls 317 m.kr. Í frumvarpinu var gerð tillaga um 167 m.kr. framlag á þennan lið og þar af áttu 150 m.kr. að renna til reksturs sérdeilda framhaldsskólanna. Þessi hækkun um 150 m.kr. við 2. umræðu er hugsuð til stuðnings rekstri framhaldsskólanna og þá sérstaklega til styrktar verknámi þó svo að til greina komi að hún geti einnig nýst til þess að vinna á uppsöfnuðum halla einstakra bóknámsskóla. Skipting milli framhaldsskólanna vegna reksturs sérdeilda þeirra að fjárhæð 150 m.kr. sem tilgreind er í frumvarpinu ásamt þessari 150 m.kr. hækkun verður sýnd í breytingartillögu meiri hlutans við 3. umræðu um frumvarpið.
451     Símenntun og fjarkennsla.
        1.22
Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Lagt er til að 5 m.kr. fjárheimild verði millifærð af viðfangsefninu 02-201-1.01 Háskóli Íslands yfir á 02-451-1.22 Fræðslumiðstöð Vestfjarða til leiðréttingar á staðsetningu fjárveitingar í frumvarpinu sem er hluti af mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin ákvað að grípa til í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í þorskveiðum.
        1.31
Fræða- og þekkingarsetur. Gerð er tillaga um 2 m.kr. framlag til Háskólaseturs Snæfellinga til leiðréttingar á mistökum við fjárlagagerð fyrir árið 2007.
        1.41
Íslenskukennsla fyrir útlendinga. Lagt er til að veitt verði 100 m.kr. viðbótarframlag til íslenskukennslu fyrir útlendinga. Styrkir til íslenskukennslu útlendinga á fyrri hluta árs voru auglýstir í janúar 2007 með umsóknarfrest til 2. febrúar. Um 70 fræðsluaðilar og fyrirtæki sóttu um ríflega 140 m.kr. framlög til íslenskukennslunnar. Fjöldi umsókna fór fram úr væntingum og ljóst var að ekki yrði unnt að mæta óskum umsækjenda.
564     Listdansskólinn.
        1.01
Kennsla. Gerð er tillaga um 7,8 m.kr. framlag vegna uppgjörs Listdansskólans. Upphæðin skýrist af biðlaunum sem greidd voru árið 2007 en skólinn var lagður niður árið 2006.
804     Kvikmyndaskoðun.
        1.01
Kvikmyndaskoðun. Lagt er til að veitt verði 2,5 m.kr. aukafjárveiting til Kvikmyndaskoðunar vegna kostnaðar á árinu 2007 en stofnunin var lögð niður um mitt ár 2006. Um er að ræða kostnað vegna greiðslu biðlauna og frágangs á skjölum til Þjóðskjalasafns Íslands.
872     Lánasjóður íslenskra námsmanna.
        1.01
Lánasjóður íslenskra námsmanna. Lagt er til að fjárheimild verði lækkuð um 440 m.kr. í ljósi endurskoðaðrar áætlunar LÍN. Helstu skýringar lækkunarinnar eru að gengi krónunnar hefur haldist hærra á árinu en spáð var auk þess sem atvinnutekjur lánþega hafa hækkað meira á milli ára en gert var ráð fyrir.
901     Fornleifavernd ríkisins.
        1.01
Fornleifavernd ríkisins. Gerð er tillaga um 8 m.kr. aukafjárveitingu til Fornleifaverndar ríkisins. Þar af eru 6 m.kr. til leiðréttingar á launakostnaði og 2 m.kr. vegna umsýslukostnaðar við fornleifarannsóknir.
969     Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
        6.23
Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð í Reykjavík. Gerð er tillaga um 75 m.kr. framlag vegna eftirlits með hönnun og framkvæmdum í tengslum við byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í samræmi við samkomulag milli ríkisins og Reykjavíkurborgar dags. 21. desember 2004. Áætlað er að kostnaður verði 75 m.kr. á árinu 2007.
                  Jafnframt er gerð tillaga um 39,1 m.kr. framlag vegna kostnaðar við undirbúning að byggingu tónlistarhúss og ráðustefnumiðstöðvar í Reykjavík sem féll til á árinu 2006. Í fjáraukalögum fyrir árið 2006 var veitt 150 m.kr. framlag til að standa undir hlutdeild ríkissjóðs í áföllnum kostnaði vegna undirbúningsins. Útgjöld vegna verkefnisins reyndust hins vegar hærri en áætlað hafði verið.
971     Ríkisútvarpið.
        1.10 Ríkisútvarpið, afnotagjöld. Gerð er tillaga um að fjárheimild Ríkisútvarpsins vegna afnotagjalda verði hækkuð um 142 m.kr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir jafnmikilli lækkun á fjárheimildinni þar sem talið var að innifalið í henni væri virðisaukaskattur sem lækkaði sl. vor. Við nánari skoðun á reikningshaldinu hefur komið í ljós að virðisaukaskattur er ekki innifalinn í fjárheimildinni og að lækkun á skattinum hefur því ekki áhrif á hana.
                  Þá er lagt til að fjárheimild vegna afnotagjalda til Ríkisútvarpsins verði hækkuð um 10 m.kr. þar sem áformað er að hækka afnotagjöldin um 4% frá og með 1. desember nk. Reiknað er með að hækkunin auki tekjur hlutafélagsins um 109 m.kr. á ársgrundvelli.
                  Loks er gerð tillaga um 65 m.kr. fjárheimild þar sem áformað er að létta skuldum sem því nemur af Ríkisútvarpinu en afskriftirnar verða færðar til gjalda á þennan lið. Með lánaafléttingunni og öðrum aðgerðum verður eiginfjárhlutfall í hlutafélaginu um 15% eins og til stóð við stofnun þess. Stofnun félagsins seinkaði um þrjá mánuði og varð rekstrarafkoma á því tímabili nokkru lakari en ráð var fyrir gert í upphaflegri áætlun, einkum vegna aukinna biðlauna og hærri launakostnaðar.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands.
        1.01
Sinfóníuhljómsveit Íslands. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til reksturs Sinfóníuhljómsveitar Íslands, annars vegar til að mæta kostnaði við tvö ný stöðugildi og hins vegar vegna hækkunar húsaleigu.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarsjóður. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til að styrkja verkefnið Pompei norðursins en kostnaður við það varð meiri á árinu en áætlað hafði verið.
988     Æskulýðsmál.
        1.12
Ungmennafélag Íslands. Gerð er tillaga um 20 m.kr. framlag til Ungmennafélags Íslands í tilefni af 100 ára afmæli samtakanna á þessu ári og til að styrkja Landsmót UMFÍ sem haldið var í Kópavogi í júlí sl.
999     Ýmislegt.
        6.90
Ýmis stofnkostnaðarframlög. Gerð er tillaga um 15 m.kr. framlag til Sveitarfélagsins Hornafjarðar til stuðnings við uppbyggingu íþróttavallar í tengslum við unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Höfn sl. sumar.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 4,3 m.kr.
101     Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 4,3 m.kr. framlag vegna aðkeyptrar vinnu við gerð skýrslu um flugverndarmál. Lagt er til að framlagið fari á fjárlagalið aðalskrifstofu en ekki hjá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli þar sem athugunin beinist að framkvæmd og fyrirkomulagi mála hjá flugmálastjórninni.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði aukin um 113,4 m.kr.
271     Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal.
        1.01 Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Gerð er tillaga um 70 m.kr. framlag til Hólaskóla – Háskólans á Hólum vegna aukins rekstrarkostnaðar og uppsafnaðs halla síðustu ára.
311     Landgræðsla ríkisins.
        5.01
Viðhald fasteigna. Lagt er til að millifærð verði 10 m.kr. fjárveiting til Landgræðslunnar af lið Fasteigna ríkissjóðs í samræmi við samkomulag frá 20. ágúst 2007 um að fjármálaráðuneytið feli Landgræðslunni að fara með umsýslu og afnot þeirra fasteigna og landsvæða sem áður tilheyrðu starfsemi Götusmiðjunnar í Gunnarsholti. Húseignir þar eru margar hverjar í slæmu ástandi þar sem viðhald á þeim hefur verið lítið á undanförnum árum. Sum húsin þarf að rífa en önnur þurfa verulegt viðhald svo að þau verði nothæf. Um er að ræða kostnað vegna viðhalds þriggja íbúðarhúsa og niðurrifs og förgun þeirra húsa sem þarf að farga.
321     Skógrækt ríkisins.
        6.20
Fasteignir. Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag til Skógræktar ríkisins til að taka inn hitaveitu í húseignir stofnunarinnar á Vöglum í Fnjóskadal.
334     Vesturlandsskógar.
        1.01
Vesturlandsskógar. Gerð er tillaga um 9 m.kr. aukafjárveitingu til Vesturlandsskóga til að greiða niður halla undanfarinna ára.
811     Bændasamtök Íslands.
        1.11
Ráðgjafarþjónusta og búfjárrækt. Lögð er til 19,4 m.kr. hækkun á framlagi til Bændasamtaka Íslands í samræmi við niðurstöður reiknilíkans með endurmetnum verðlagsforsendum búnaðarlagasamnings fyrir árið 2007.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 14,7 m.kr.
206     Matvælarannsóknir.
        1.01
Matvælarannsóknir. Gerð er tillaga um 14,7 m.kr. fjárveitingu vegna flutnings hluta starfsemi Matís af Skúlagötu 4 í Borgarún 21. Felst kostnaðurinn m.a. í húsgögnum, búnaði, símkerfi og tölvulögnum.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 590,9 m.kr.
104     Tölvumiðstöð dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
        1.01
Tölvumiðstöð dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir að velta tölvumiðstöðvarinnar lækki um 108,9 m.kr. með því að bæði útgjöld og sértekjur hennar lækki um sömu fjárhæð þar sem starfsemi hennar var hætt á árinu. Verkefni miðstöðvarinnar voru að mestu seld út til Þjóðskrár og embættis ríkislögreglustjóra en þau hafa nú verið flutt til þessara stofnana.
190     Ýmis verkefni.
        1.47
Íslensk ættleiðing. Lagt er til að Íslenskri ættleiðingu verði veitt 3 m.kr. framlag. Mikil fjölgun hefur orðið á umsóknum um ættleiðingu og kallar það á aukin umsvif hjá félaginu.
        1.93
Dómsmál, ýmis kostnaður. Nú liggur fyrir mat á útgjöldum vegna sérstaks saksóknara sem fyrst féllu til í fyrra. Gjöldin eru nú áætluð 37 m.kr. en ekki var gert ráð fyrir þeim í fjárlögum ársins. Í fyrra voru sambærileg útgjöld fjármögnuð með framlagi í fjáraukalögum. Gjöld þessi eru launagjöld vegna saksóknara og löglærðs aðstoðarmanns hans, auk aðkeyptrar lögfræðiþjónustu. Áætlað er að verkefninu ljúki nk. vor.
395     Landhelgisgæsla Íslands.
        1.90
Landhelgisgæsla Íslands. Gerð er tillaga um 59,9 m.kr. fjárveitingu vegna þyrluleigu sem reyndist óhjákvæmileg í kjölfar þess að þyrla gæslunnar, TF-SIF, nauðlenti í sjónum út af Straumsvík og eyðilagðist. Kostnaður við leigu á Super Puma þyrlu frá norska fyrirtækinu Airlift nemur um 17 m.kr. á mánuði og gert er ráð fyrir að hún verði í leigu fram til maíloka 2009. Við það bætist ýmis annar kostnaður, svo sem þjálfun o.fl. Ríkisstjórnin samþykkti að ganga til samninga um leiguna á fundi sínum þann 7. september sl.
                  Þá er gert ráð fyrir að fjárheimild lækki um 19 m.kr. Annars vegar nemur ýmis afleiddur kostnaður vegna nauðlendingar þyrlunnar TF-SIF um 10 m.kr., svo sem vegna fjölgunar flugtíma á stærri þyrlum, köfunar- og annars björgunarkostnaðar, auk þess sem óhjákvæmilegar breytingar á einni leiguvélinni, TF-GNÁ, kostuðu 21 m.kr. Á móti kemur 50 m.kr. krafa á tryggingarfélag vegna vélarinnar sem eyðilagðist. Greiðslan, sem miðast við 1 millj. bandaríkjadala að frádeginni 10% sjálfsábyrgð, er háð því að rannsóknarnefnd flugslysa skili skýrslu um málið. Ef allt gengur að óskum munu þær tekjur skila sér í desembermánuði.
        5.41
Viðhald skipa og flugfarkosta. Gerð er tillaga um 360 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna halla á lið fyrir viðhald og endurbætur á farkostum Landhelgisgæslunnur. Nýlega var lokið við umfangsmiklar endurbætur á varðskipunum Tý og Ægi. Upphaflega miðaði stofnunin við að fjárveitingar næstu ára kæmu á móti hallanum sem myndaðist við endurbæturnar. Með eflingu þyrlusveitar stofnunarinnar og breytingum sem af því leiðir mun það hins vegar ekki geta gengið eftir. Dómsmálaráðuneytið mun fylgja því eftir framvegis að gjöld og fjárheimildir viðhaldsliðarins verði því sem næst í jafnvægi á hverju ári fyrir sig.
490     Ýmis rekstrarkostnaður sýslumannsembætta.
        1.10
Ýmis sameiginlegur kostnaður. Lagt er til að liðurinn hækki um 150 m.kr. Í frumvarpinu voru lagðar til fjárveitingar til lagfæringar á starfsemi nokkurra sýslumannsembætta og enn fremur var gert ráð fyrir flutningi nýrra verkefna ásamt fjárheimildum til annarra sýslumannsembætta. Hér er lagt til að liðurinn hækki um 150 m.kr. sem renni til styrktar öðrum sýslumannsembættum en þeim sem að framan greinir þar sem umfang starfseminnar hefur vaxið í samræmi við fjölgun íbúa og aukin verkefni en fjárveitingar ekki vaxið að sama skapi. Sundurliðun fjárveitingarinnar á einstök sýslumannsembætti verður sýnd í breytingartillögu meiri hlutans við 3. umræðu um frumvarpið.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 710,5 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmislegt. Gerð er tillaga um 4,5 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við störf nefnda sem unnið hafa að yfirfærslu á þjónustu við aldraða og fatlaða til sveitarfélaga. Ráðinn var sérstakur verkefnisstjóri til þess verkefnis. Að auki fellur til kostnaður vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður verkefnisins verði um 9 m.kr. og að Samband íslenskra sveitarfélaga greiði helming kostnaðarins.
700     Málefni fatlaðra.
        1.90
Ýmis verkefni. Lögð er til 12 m.kr. fjárheimild til að greiða kostnað vegna samninga félagsmálaráðuneytisins við sveitarfélög sem annast þjónustu við fatlaða, en kostnaðurinn hefur til þessa verið greiddur úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Stjórnarnefnd málefna fatlaðra hefur með vísan til álits Ríkisendurskoðunar á greiðslu þessa kostnaðar úr sjóðnum farið þess á leit við ráðuneytið að honum verði létt af sjóðnum.
701     Málefni fatlaðra, Reykjavík.
        1.01
Almennur rekstur. Lögð er til 50 m.kr. fjárveiting vegna halla á starfsemi svæðisskrifstofunnar sem skýrist fyrst og fremst af því að fólk hefur ekki fengist til starfa hjá stofnuninni og hefur hún því þurft að leysa þann vanda með greiðslu yfirvinnu.
702     Málefni fatlaðra, Reykjanesi.
        1.01
Almennur rekstur. Lögð er til 50 m.kr. fjárveiting vegna halla á starfsemi svæðisskrifstofunnar sem skýrist fyrst og fremst af því að fólk hefur ekki fengist til starfa hjá stofnuninni og hefur hún því þurft að leysa þann vanda með greiðslu yfirvinnu.
795     Framkvæmdasjóður fatlaðra.
        6.01
Framkvæmdasjóður fatlaðra. Lögð er til 150 m.kr. aukafjárveiting til Framkvæmdasjóðs fatlaðra þar sem fjárheimild sjóðsins dugir ekki fyrir fyrirliggjandi verkefnum.
989     Fæðingarorlof.
        1.11
Fæðingarorlofssjóður. Lagt er til að veitt verði 440 m.kr. fjárveiting til Fæðingarorlofssjóðs í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um útgjöld sjóðsins á árinu. Hækkunin skýrist af þremur tilefnum. Í fyrsta lagi láðist að taka tillit til hækkunar á mótframlagi í lífeyrissjóði úr 7% í 8% um sl. áramót. Í öðru lagi hafa fleiri farið í fæðingarorlof en áætlað var og í þriðja lagi var reglum um greiðslur úr sjóðnum breytt á árinu í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis sem hafði í för með sér meiri útgjöld en gert var ráð fyrir.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.90
Ýmis framlög. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla vegna reksturs sumardvalar fyrir nemendur skólans.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 2.986,3 m.kr.
201     Tryggingastofnun ríkisins.
        1.01
Tryggingastofnun ríkisins. Gerð er tillaga um 10 m.kr. fjárveitingu til að mæta ýmsum umsýslukostnaði í tengslum við breytingar á almannatryggingalöggjöfinni á árinu 2007 sem gerðar voru í kjölfar samkomulags ríkisstjórnarinnar og Landssamband eldri borgara frá júlí 2006. Á árinu voru einnig afnumin áhrif atvinnutekna á bætur til einstaklinga 70 ára og eldri frá og með 1. júlí sl. Þá þurfti að aðlaga útreikninga á kostnaðarþátttöku íbúa hjúkrunarheimila að breyttum tekjuviðmiðunum. Kostnaður við framangreindar breytingar er áætlaður um 10 m.kr. Þar af eru 7,2 m.kr. vegna kaupa á sérfræðiþjónustu við aðlögun tölvukerfa og 2,8 m.kr. vegna breytinga á eyðublöðum, kynningar og aukinnar upplýsingagjafar til þeirra sem breytingarnar snerta.
358     Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri.
        1.01
Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri. Gerð er tillaga um 206 m.kr. fjárveitingu til að draga úr áætluðum greiðsluvanda sjúkrahússins í árslok 2007. Halli sjúkarhússins er nokkuð meiri, en gert er ráð fyrir að sjúkrahúsið geti borið með sér ógreidda reikninga um stuttan tíma. Halli yfirstandandi árs er fyrst og fremst rakinn til aukins launakostnaðar sem stafar m.a. af mikilli manneklu.
373     Landspítali – háskólasjúkrahús.
        1.01
Landspítali háskólasjúkrahús. Gerð er tillaga um 1.800 m.kr. fjárveitingu til greiðslu áætlaðs uppsafnaðs rekstrarhalla Landspítala til ársloka 2007 en þar af skal greiddur uppsafnaður halli fyrir árslok 2006. Áætlaður greiðsluvandi sjúkrahússins er talinn verða 1.800 m.kr. í árslok 2007. Launakostnaður hefur aukist verulega umfram áætlanir og má það fyrst og fremst rekja til ýmissa ráðstafana til að bregðast við takmörkuðu framboði mannafla meðal heilbrigðisstarfsmanna, svo sem með yfirvinnugreiðslum, aukavöktum og verktöku.
379     Sjúkrahús, óskipt.
        1.01
Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Gerð er tillaga um 6,3 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði vegna meðferðar einstaklinga sem vistaðir voru í Breiðavík og fram fer utan Landspítala. Samkvæmt áætlun Breiðavíkurteymisins var gert ráð fyrir að boðið yrði upp á meðferð hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi eftir viðtal á göngudeild geðsviðs við Hringbraut.
700     Heilbrigðisstofnanir.
        1.01
Almennur rekstur. Lögð er til 250 m.kr. fjárveiting á þessum lið. Í tillögum ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar fyrir 2. umræðu um frumvarpið er óskað fjárveitinga til nokkurra sjúkrahúsa til þess að styrkja rekstrarstöðu þeirra. Fjárveitingunum er ætlað að greiða upp áætlaðan uppsafnaðan rekstrarhalla sjúkrahúsanna svo sem hann er álitinn verða í árslok 2007. Sú viðbótarfjárveiting sem hér er lögð til við 2. umræðu um frumvarpið er hugsuð með sama hætti til annarra sjúkrastofnana sem ekki eru tilteknar í tillögu ríkisstjórnarinnar og mun skipting milli þeirra sýnd í breytingartillögu meiri hlutans við 3. umræðu um frumvarpið.
711     Heilbrigðisstofnunin Akranesi.
        1.11
Sjúkrasvið. Lagt er til að veitt verði 116 m.kr. fjárveiting til að draga úr áætluðum greiðsluvanda sjúkrahússins í árslok 2007. Halli yfirstandandi árs er fyrst og fremst rakinn til aukins launakostnaðar sem stafar af mikilli manneklu.
787     Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
        1.11
Sjúkrasvið. Lagt er til að veitt verði 208 m.kr. fjárveiting til greiðslu áætlaðs uppsafnaðs rekstrarhalla sjúkrahússins sem er áætlaður greiðsluvandi þess í árslok 2007. Halli yfirstandandi árs er fyrst og fremst rakinn til aukins launakostnaðar sem stafar af mikilli manneklu.
791
     Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
        1.11
Sjúkrasvið. Lagt er til að veitt verði 84 m.kr. fjárveiting til greiðslu áætlaðs uppsafnaðs rekstrarhalla sjúkrahússins sem er áætlaður greiðsluvandi þess í árslok 2007. Halli yfirstandandi árs er fyrst og fremst rakinn til aukins launakostnaðar sem stafar af mikilli manneklu.
795     St. Jósefsspítali, Sólvangur.
        1.11
St. Jósefsspítali, Sólvangur. Lögð er til 306 m.kr. fjárveiting til að greiða niður áætlaðan greiðsluvanda sjúkrahússins í árslok 2007. Rekstrarvandi sjúkrahússins á yfirstandandi ári er fyrst og fremst rakinn til aukins launakostnaðar sem stafar af mikilli manneklu meðal heilbrigðisstétta.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 15,5 m.kr.
101     Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að millifærðar verði 6,5 m.kr. af aðalskrifstofu fjármálaráðuneytisins á sérstakan safnlið vegna sérfræðikostnaðar í tengslum við kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum. Í ljósi verkefnisins er eðlilegt að haldið sé sérstaklega utan um slíkan kostnað. Auk þess er um að ræða mjög breytilegan kostnað milli ára sem skekkir áætlanagerð og rekstrarstöðu fjármálaráðuneytisins ef hann er gjaldfærður á ráðuneytið.
984     Fasteignir ríkissjóðs.
        5.21
Viðhald fasteigna. Lagt er til að millifærð verði 10 m.kr. fjárveiting til Landgræðslunnar af lið Fasteigna ríkissjóðs í samræmi við samkomulag frá 20. ágúst 2007 um að fjármálaráðuneytið feli Landgræðslunni að fara með umsýslu og afnot þeirra fasteigna og landsvæða sem áður tilheyrðu starfsemi Götusmiðjunnar í Gunnarsholti. Húseignir þar eru margar hverjar í slæmu ástandi þar sem viðhald á þeim hefur verið lítið á undanförnum árum. Sum húsin þarf að rífa en önnur þurfa verulegt viðhald svo að þau verði nothæf. Um er að ræða kostnað vegna viðhalds þriggja íbúðarhúsa og niðurrifs og förgun þeirra húsa sem þarf að farga.
999     Ýmislegt.
        1.67
Þjóðlendumál. Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. fjárveiting til að standa straum af kostnaði fjármálaráðuneytisins við undirbúning kröfugerðar ríkisins í þjóðlendumálum. Um er að ræða upplýsingaöflun úr Þjóðskjalasafni sem nýtist við kröfugerðina. Áætlaður heildarkostnaður nemur 30 m.kr. á árinu. Óbyggðanefnd greiðir hins vegar 2/ 3af kostnaðinum þar sem umræddar upplýsingar nýtast í allri málsmeðferðinni.
                  Þá er lagt til að millifærðar verði 6,5 m.kr. af aðalskrifstofu fjármálaráðuneytisins á sérstakan safnlið vegna sérfræðikostnaðar í tengslum við kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum. Í ljósi verkefnisins er eðlilegt að haldið sé sérstaklega utan um slíkan kostnað. Auk þess er um að ræða mjög breytilegan kostnað milli ára sem skekkir áætlanagerð og rekstrarstöðu fjármálaráðuneytisins ef hann er gjaldfærður á ráðuneytið.
                  Loks er lagt til að veitt verði 5,5 m.kr. fjárveiting til að standa straum af sérfræðikostnaði fjármálaráðuneytisins við kröfugerðir ríkisins í þjóðlendumálum. Veittar voru 6 m.kr. til verkefnisins á fjárlögum ársins 2000. Hins vegar hefur kostnaðurinn aukist undanfarin ár. Hann var t.d. rúmar 16 m.kr. árið 2006 og stefnir í 12 m.kr. fyrir árið 2007.
        1.90
Ýmis verkefni. Lögð er til 10 m.kr. fjárveiting vegna kostnaðar sem lagt er út í við öflun fjár til ýmissa góðgerðarmála.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 19 m.kr.
211     Rekstur Vegagerðarinnar.
        1.11
Styrkir til ferja og sérleyfishafa. Lagt er til að 487 m.kr. verði millifærðar af viðfangsefninu 10-212-6.10 Framkvæmdir. Í bókhaldi Vegagerðarinnar hefur kostnaður vegna byggingar á nýrri Grímseyjarferju verið gjaldfærður á þetta viðfangsefni en þar hefur verið um að ræða ráðstöfun er byggist á ónýttum fjárheimildum framkvæmdaliðarins. Er framangreint í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda.
212     Framkvæmdir Vegagerðarinnar.
        6.10
Framkvæmdir. Lagt er til að 487 m.kr. verði millifærðar á viðfangsefnið 10-211- 1.11 Styrkir til ferja og sérleyfishafa. Í bókhaldi Vegagerðarinnar hefur kostnaður vegna byggingar á nýrri Grímseyjarferju verið gjaldfærður á það viðfangsefni en þar hefur verið um að ræða ráðstöfun er byggist á ónýttum fjárheimildum framkvæmdaliðarins. Er framangreint í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda.
335     Siglingastofnun Íslands.
        1.11
Vaktstöð siglinga. Lagt er til að veitt verði 16,6 m.kr. framlag til viðfangsefnisins. Um er að ræða samning Siglingastofnunar Íslands við Neyðarlínuna hf. um rekstur Vaktstöðvar siglinga en sá samningur hefur að geyma ákvæði um verðbætur sem byggjast á launa- og byggingarvísitölu og hefur allt frá árinu 2005 hækkað umfram almennar verðlagshækkanir fjárlaga. Því hefur myndast á viðfangsefninu uppsafnaður halli sem hefur farið vaxandi og stefnir í að vera orðinn 16,6 m.kr. í lok þessa árs.
481     Rannsóknarnefnd flugslysa.
        1.01
Rannsóknarnefnd flugslysa. Gerð er tillaga um 2,4 m.kr. framlag til viðfangsefnisins vegna aukins kostnaðar við rannsókn flugslysa frá því sem gert er ráð fyrir í forsendum gildandi fjárlaga. Rannsókn á nauðlendingu þyrlu Landhelgisgæslunnar TF- SIF mun fyrirsjáanlega kosta nálægt 2 m.kr. og sá kostnaður auk rannsóknarkostnaðar vegna brotlendingar TF-OND og nokkurra minni óhappa hefur leitt til þess að fyrirséð er að nefndin mun ekki geta haldið rekstri sínum innan ramma gildandi fjárlaga.

11 Iðnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild iðnaðarráðuneytis verði aukin um 5 m.kr.
299    Iðja og iðnaður, framlög

        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag til Fjórðungssambands Vestfirðinga til rannsókna við staðarvalsathuganir fyrir stóriðnað á Vestfjörðum.

13 Hagstofa Íslands

        Lagt er til að fjárheimild Hagstofu Íslands verði aukin um 30 m.kr.
101     Hagstofa Íslands.
        1.01
Hagstofa Íslands. Farið er fram á 30 m.kr. fjárveitingu til Hagstofunnar. Þar af eru 23 m.kr. vegna breytinga á húsnæði og kostnaðar við innréttingar og búnað vegna fjölgunar starfsfólks og 7 m.kr. eru vegna kostnaðar við innleiðingu, þýðingu og útgáfu nýrrar atvinnugreinaflokkunar, ÍSAT 2008, sem ráðast þurfti í vegna upptöku nýrrar atvinnugreinaflokkunar ESB.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 14 m.kr.
101     Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 6 m.kr. fjárveitingu vegna undirbúningsvinnu við að sameina vatnamælingasvið Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands í eina stofnun í kjölfar skipulagsbreytinga í Stjórnarráðinu og flutnings verkefna milli ráðuneyta í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar. Nauðsynlegt er talið að vinna þarfagreiningu á verkefnum beggja stofnananna og setja upp starfsskipulag nýrrar stofnunar áður en hún verður sett á fót.
190     Ýmis verkefni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


        1.61
Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál. Gerð er tillaga um 8 m.kr. fjárveitingu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála til að mæta uppsöfnuðum vanda í úrskurðarmálum en málum hefur fjölgað mjög mikið á þessu ári.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar
hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum. Bjarni Harðarson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 17. nóv. 2007.


Gunnar Svavarsson,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Ásta Möller.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir.


Ármann Kr. Ólafsson.


Björk Guðjónsdóttir.
Bjarni Harðarson,
með fyrirvara.