Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 102. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 276  —  102. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur um menntun leikskólastarfsmanna og starfsmannamál leikskóla.

     1.      Er fyrirhugað að veita Kennaraháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri viðbótarframlag til að þeir geti innritað fleiri nemendur í leikskólakennara- og þroskaþjálfanám í ljósi þess að uppeldismenntaðir starfsmenn á leikskólum eru enn minni hluti starfsmanna?
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2008 er lagt til að ársnemum við Kennaraháskóla Íslands verði fjölgað um 50 frá fjárlögum yfirstandandi árs eða úr 1.560 í 1.610. Ekki fylgja fjölguninni kvaðir um hvernig skólinn ráðstafar þessum viðbótarársnemum. Ársnemum við Kennaraháskóla Íslands hefur að jafnaði fjölgað um 4% undanfarin ár. Í samningum milli skólans og ráðuneytisins er ekki fjallað um þróun einstakra námsbrauta innan skólans heldur er skólanum ætlað að stýra námsframboði sínu. Ljóst er að skólinn hefur lagt áherslu á leikskólakennaranám en milli áranna 2001 og 2007 fjölgaði þeim sem boðin var skólavist í leikskólakennaranámi í Kennaraháskólanum um 170%, úr 63 í 171.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2008 er lagt til að ársnemum við Háskólann á Akureyri verði fjölgað um 80 frá fjárlögum yfirstandandi árs. Þrátt fyrir þessa aukningu á heildarfjölda ársnema milli ára er gert ráð fyrir að ársnemum í kennslufræðum fækki úr 400 í 360. Í nemendaspám Háskólans á Akureyri kemur fram að ársnemum í kennaranámi hefur farið fækkandi undanfarin tvö ár og gert er ráð fyrir að 330 ársnemar stundi nám í kennslufræðum árið 2008. Þar sem fjárveiting til skólans gerir ráð fyrir 360 ársnemum í þessum greinum er ekkert því til fyrirstöðu að Háskólinn á Akureyri fjölgi ársnemum í leikskólakennaranámi sé eftirspurn eftir því. Umsóknum um leikskólakennaranám við skólann hefur hins vegar fækkað um 10% milli áranna 2000 og 2007.
    Þessar tölur benda til að vandinn liggi ekki í því að háskólum sé óheimilt að innrita fleiri nemendur eða að þeir hafi ekki fjárveitingar til slíks heldur að umsækjendur um leikskólakennarafræði sem uppfylla inntökuskilyrði skólanna eru ekki nægilega margir.

     2.      Stendur til að styrkja framhaldsskóla sérstaklega til að efla leikskólaliðanám?
    Framhaldsskólum er ætlað að þróa námsframboð sitt m.a. með hliðsjón af því sem gerist í samfélaginu á hverjum tíma, sinna fyrirliggjandi þörfum þess og marka áherslur í starfsemi sinni út frá þeim.
    Árið 2004 gaf ráðuneytið út námskrá fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum. Tilgangurinn var að koma á fót stuttri starfsnámsbraut til að mæta þörfum leik- og grunnskóla fyrir aðstoðarfólk. Meðalnámstími er fjórar annir í skóla (71 eining) að meðtöldu námi á skólaliðabraut og níu vikna starfsþjálfun í leikskóla. Með náminu er lögð áhersla á fjölþætta fagþekkingu á sviði uppeldis og kennslu og samþættingu fræðilegs náms og hagnýtrar starfsþjálfunar á vinnustað. Tekið er mið af þeim miklu breytingum sem átt hafa sér stað í leikskólum undanfarin ár og birtast m.a. í að börn eru yngri þegar þau koma í leikskóla og hafa lengri viðveru hvern dag, jafnframt því sem samsetning barnahópsins hefur breyst mikið.
    Á síðasta ári var lögð áhersla á að kynna námskrána fyrir framhaldsskólum. Þeir framhaldsskólar sem nú bjóða upp á þetta nám eru Borgarholtsskóli, Verkmenntaskóli Austurlands, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Þá hefur Fjölbrautaskóli Suðurlands verið að kanna grundvöll fyrir námsbrautinni. Á árinu 2004 voru nemendur í þessu námi 36, þeim fjölgaði í 44 á árinu 2005 og voru 162 á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að skólum verði skapað svigrúm til þess að koma til móts við þessa nemendafjölgun innan gildandi fjárlagaramma framhaldsskóla.

     3.      Stendur til að mat á óformlegu námi verði skipulagt þannig að ófaglærðum starfsmönnum leikskóla gefist tækifæri til að láta meta raunfærni sína og starfsreynslu til eininga í leikskólaliða- og leikskólakennaranámi?
    Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla geta skólameistarar metið fyrra nám nemenda hvort sem um formlegt eða óformlegt nám er að ræða. Með óformlegu námi er vísað til þekkingar eða færni sem aflað hefur verið á annan hátt en með formlegri skólagöngu.
    Raunfærnimat, í þeim skilningi orðsins að hópur er metinn inn í leikskólaliðanám á grundvelli starfsreynslu, fer nú þegar fram. Í kjölfar útgáfu námskrár fyrir aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum var mótuð svokölluð Brúarleið, þ.e. viðmiðanir um mat á óformlegu námi fólks með starfsreynslu á viðkomandi sviði. Námið er fyrir einstaklinga sem náð hafa 22 ára aldri og hafa að baki a.m.k. þriggja ára starfsreynslu og starfa enn við umönnun, uppeldi og menntun barna í leik- eða grunnskóla og hafa að auki lokið starfstengdum námskeiðum á vegum sveitarfélaga eða stéttarfélaga. Nemendur eiga þess kost að fá fyrra nám metið ef það er sambærilegt við áfanga aðalnámskrár aðstoðarfólks í leik- og grunnskólum.
    Háskólar á Íslandi bera fulla ábyrgð á inntöku nemenda. Í 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, segir að nemendur sem hefja nám í háskóla skuli hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Í ákvæðinu er einnig veitt heimild háskóla til að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi skóla. Kennaraháskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri hafa um langt skeið metið starfsreynslu, sérstaklega í leikskólakennaranámi, við inntöku þeirra nemenda sem ekki hafa lokið fullgildu stúdentsprófi. Raunfærnimat, í þessum skilningi orðsins, hefur því lengi verið viðmið í framangreindum háskólum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Háskólamenntun; framboð og nemendafjöldi frá 2004 kemur fram að á árunum 2002 og 2003 voru um 36% nemenda í Háskólanum á Akureyri og 26% nemenda í Kennaraháskóla Íslands metin inn á grundvelli þroska og þekkingar – stór hluti þeirra í leikskólakennaranám. Þetta hlutfall hefur reyndar farið lækkandi með árunum, en ljóst er að skólarnir hafa svarað að stórum hluta eftirspurn einstaklinga sem starfa í leikskólum eftir háskólamenntun og munu vafalaust halda því áfram.

     4.      Hvernig hyggst ráðherra beita sér til að koma til móts við sveitarfélögin hvað varðar manneklu og starfsmannaveltu á leikskólum?

    Frá því í febrúar á síðasta ári hefur á grundvelli samkomulags milli ráðherra og Kennarasambands Íslands farið fram mikil vinna við umbætur á skólastarfi og breytta námsskipan. Á næstunni verða lögð fram frumvörp til laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla, auk frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara. Í frumvörpum um leikskóla og menntun kennara munu koma fram mörg atriði sem eru til þess fallin að bæta starfsskilyrði leikskólakennara. Ber þar hæst lögverndun á starfsheiti leikskólakennara og kröfu um að þeir skuli hafa lokið meistaraprófi en einnig má nefna eflingu þróunarstarfs í leikskólum með sérstökum sjóði og aukna áherslu á gæðamál. Er þetta m.a. í samræmi við tillögur í nýlegri greinargerð samráðsnefndar leikskóla þar sem sitja fulltrúar frá menntamálaráðuneyti, Félagi leikskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eflingu – stéttarfélagi.
    Sem yfirmaður menntamála fer menntamálaráðherra með yfirstjórn leikskólamála eins og lög um leikskóla segja fyrir um. Innan þess ramma getur ráðherra mótað ýmis skilyrði leikskólastarfs en hafa ber í huga að rekstur leikskóla og framkvæmd leikskólalaga hvílir að mestu á sveitarfélögum. Starfsmannavelta er mikil í leikskólum og meiri en meðal starfsfólks á öðrum skólastigum. Brottfall starfsfólks leikskóla er mun meira meðal leiðbeinenda en leikskólakennara. Því er mikilvægt að fjölga leikskólakennurum í leikskólum. Þá er ekki síður mikilvægt að fjölga valkostum í námi fyrir hinn stóra hóp starfsfólks leikskóla sem býr yfir langri starfsreynslu og skoða hvaða leiðir eru fyrir hendi til að raunfærnimat verði tekið upp í auknum mæli við inntöku í kennaramenntunarstofnanir. Það þarf einnig að huga að frekari þróun námsframboðs fyrir þann hóp sem ekki hefur hug á að leggja fyrir sig kennaranám en vill samt sem áður starfa innan leikskóla.
    Eins og fram kemur hér að ofan hefur ráðuneytið undanfarin ár aukið framlög til leikskólakennaramenntunar til samræmis við eftirspurn eftir því námi. Einnig hefur verið komið á fót námi á framhaldsskólastigi fyrir starfsfólk á leikskólum og fé verið veitt til þess. Þessar aðgerðir eru á valdi menntamálaráðherra en mikilvægt er að fylgja þeim eftir á vettvangi sveitarfélaga þannig að störf í leikskólum verði eftirsóknarverð og að leikskólarnir verði samkeppnishæfari um starfsfólk.