Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 278. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 312  —  278. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukna samvinnu milli vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Jón Gunnarsson.



    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að koma á reglubundinni samvinnu milli landanna um stofnstærðarrannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra, frekari samræmingu rannsóknaraðferða og skilvirkari upplýsingagjöf um útbreiðslu fiskstofna og sjávarspendýra.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 5/2007 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. ágúst 2007 í Nuuk á Grænlandi. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að koma á reglubundinni samvinnu um stofnstærðarrannsóknir helstu nytjastofna sjávar innan lögsögu landanna, einkum þeirra sem eru sameiginlegir, og frekari samræmingu rannsóknaraðferða til að auðvelda raunhæfan samanburð milli landanna. Jafnframt er skorað á stjórnvöld landanna að láta rannsaka betur orsakasambandið milli stofnstærða annars vegar og umhverfisþátta, afráns og veiða hins vegar og að koma á skilvirkari upplýsingagjöf milli landanna um útbreiðslu fiskstofna og sjávarspendýra.

Rökstuðningur.
    Vestnorrænu löndin eiga afkomu sína mikið undir sjávarútvegi. Löndin skortir nægilega samræmd gögn til að ákvarða ástand og þar með nýtingu fiskstofna, sérstaklega hvað varðar sameiginlega stofna. Því ber að vinna að frekara samræmi í aðferðunum sem Færeyjar, Grænland og Ísland beita við rannsóknir á nytjastofnum sínum til að auðvelda samanburð og fá heildarmynd af ástandi fiskistofna, ekki síst flökkustofna, sem fara úr einni lögsögu yfir í aðra.
    Á sama hátt og sjálfbærar veiðar er hagsmunamál allra landanna er mikilvægt að ákvarðanir um árlegan heildarkvóta fyrir veiðar á einstökum fisktegundum séu byggðar á vísindalegu mati um stofnstærð. Það á ekki síst við um þrjá af helstu nytjastofnum landanna, þ.e. þorsk, grálúðu og karfa, sem jafnframt eru sameiginlegir stofnar. Nýverið hafa niðurstöður mælinga hafrannsóknastofnana landanna gefið til kynna að ástand þorskstofnsins innan lögsögu hvers lands fyrir sig sé misjafnt. Mat á stærð þorskstofnsins innan lögsögu Íslands og Færeyja sýnir að hann fer minnkandi á meðan þorskstofninn undan austurströnd Grænlands fer stækkandi. Í þeim tilvikum hins vegar þar sem veiðarfæri hafa eingöngu verið notuð til þorskveiða en ekki til veiða á öðrum fisktegundum hefur það sýnt sig að afli á sóknareiningu hefur verið mikill andstætt niðurstöðum framangreindra mælinga hérlendis.
    Ósamræmi þetta sýnir fram á mikilvægi rannsóknaraðferða við mat á stofnstærð og vekur upp spurningar um t.d. hversu marktækur munurinn á stærð þorskstofnsins milli landanna sé. Formleg samvinna á sviði stofnstærðarmælinga og frekari samræming á rannsóknaraðferðum mundi gera það auðveldara að fá heildarmynd af raunverulegu ástandi fiskstofna, sem aftur á móti er mikilvægt skref í þá veru að stuðla að sjálfbærum veiðum. Samtímis er mikilvægt að kanna samspilið á milli stofnstærða annars vegar og umhverfisþátta eins og hitastigs sjávar, stefnu og/eða breytinga á flæði hafstrauma, þ.m.t. djúpsjávarstrauma, auk fæðuframboðs, afráns og veiða hins vegar til að rannsaka hvað ræður mestu um breytingar á hreyfingum og stærð nytjastofna. *
    Samvinna um stofnstærðarrannsóknir á helstu nytjastofnum hefur verið takmörkuð. Í þeim tilvikum, sem samvinna hefur átt sér stað, hefur hún ekki verið regluleg heldur háð frumkvæði einstaklinga sem sækja um styrk til einstakra samstarfsverkefna. Sem dæmi má nefna samstarf Íslendinga og Grænlendinga haustið 2006 um rannsóknir á grálúðu og karfa. Sú samvinna fól m.a. í sér stöðlun veiðarfæra til að geta reiknað út veiðihlutfall mismunandi veiðarfæra, sem er ein meginforsenda raunhæfs samanburðar á rannsóknarniðurstöðum.
    Í ljósi þess sem að framan er greint og vísbendinga um breytingar á stærð helstu nytjastofna er skorað á stjórnvöld Vestur-Norðurlanda að koma á þeirri samvinnu, sem mælt er með, með formlegum hætti og á grundvelli fastra fjárframlaga svo að hægt sé að stuðla að sem sjálfbærustum veiðum til framtíðar.“

Neðanmálsgrein: 1
*     Aukin samvinna á þessu sviði mundi vera gott framhald á Vestnorræna sjávar- og loftslagsrannsóknarverkefninu (Vestnordisk Oceanklima Forskningsprogram). Það var samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Grænlands (Naturinstituttet í Grønland), Hafrannsóknastofnunar Íslands, Fiskirannsóknarstofu Færeyja, Nansen-miðstöðvarinnar í Noregi og Veðurfræðistofnunar Danmerkur (Meteorologisk Institut í Danmark) þar sem sambandið milli loftslagsbreytinga og breytinga í Norðurhöfum annars vegar og fiskstofna hins vegar var rannsakað. Verkefnið var styrkt af norrænu ráðherranefndinni og stóð frá árinu 2000 til loka árs 2006.