Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 383  —  193. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum.

     1.      Hvaða rannsóknir liggja til grundvallar útreikningi á losun gróðurhúsalofttegunda og annarra lofttegunda, svo sem brennisteinsvetnis, frá jarðvarmavirkjunum, hversu lengi hafa þær staðið og hversu áreiðanlegar eru þær taldar vera?
    Við útreikning á losun lofttegunda frá jarðvarmavirkjunum er stuðst við rannsóknir ÍSOR og orkufyrirtækja sem byggja á magnmælingum á gufu frá borholum, blásturstíma borhola og gasgreiningum á gufunni. Þessar upplýsingar hafa verið teknar saman árlega frá 1980. Óvissa mælinganna hefur ekki verið metin sérstaklega en gróft mat er að óvissan sé .10%.

     2.      Hvaða lofttegundir er um að ræða og hvernig er losun þeirra háttað við undirbúnings- og rannsóknarboranir annars vegar og hins vegar eftir að virkjun er fullbúin og rekstur hafinn?
    Mældur er styrkur eftirfarandi gróðurhúsalofttegunda í gufunni (þá er átt við lofttegundir sem hafa bein og óbein gróðurhúsaáhrif): CO 2, H 2S, CH 4. Öll gufan er losuð út í loftið þegar undirbúnings- og rannsóknarboranir fara fram og eftir að virkjun er fullbúinn og rekstur hafinn.

     3.      Hversu mikil losun er talin vera frá þeim jarðvarmavirkjunum sem þegar eru starfræktar á Íslandi? Svarið óskast sundurliðað eftir virkjunum.
    Eftirfarandi tafla gefur upp losun koldíoxíðs og brennisteinsvetnis árið 2005 hjá þeim virkjunum sem starfræktar voru þá og þeim borholum sem voru í blæstri. Losun metans er ekki tilgreind þar sem hún er talin vera hverfandi.

CO2 (þúsund tonn) H2S (þúsund tonn)
Nesjavellir 13,26 8,92
Krafla 56,00 5,80
Svartsengi 48,27 0,70
Reykjanes 1,02 0,01
Hellisheiði 2,78 0,44
Hveragerði 0,32 0,04
Námafjall 1,74 0,85
Samtals 123,40 16,76


     4.      Hversu mikið má gera ráð fyrir að bætist við losunina verði að veruleika þær jarðvarmavirkjanir sem unnið er að um þessar mundir?
    Eftirfarandi tafla sýnir losun Reykjanesvirkjunar (gangsett 2006) og væntanlega losun Hellisheiðarvirkjunar (eftir stækkun), Bitruvirkjunar og Hverahlíðarvirkjunar.

Stærð (MW) CO2 (þúsund tonn) H2S (þúsund tonn)
Reykjanesvirkjun 100 35 1
Hellisheiði (með stækkun) 240 53 11
Bitruvirkjun 135 31 8
Hverahlíðarvirkjun 90 25 2
Samtals 565 144 22

    Einnig er hugsanlegt að viðbót verði í Bjarnarflagi, Kröflu og á Þeistareykjum.

     5.      Hvernig reiknast losun frá jarðvarmavirkjunum og borun eftir jarðhita inn í losunarbókhald Íslands?
    Öll losun koldíoxíðs og brennisteinsvetnis (reiknað sem SO 2) frá jarðvarmavirkjunum er gefin upp í losunarbókhaldi Íslands.