Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 413  —  166. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um íbúafjölgun og almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

     1.      Hvað er áætlað að íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgi mikið næstu 10 árin miðað við áætlanir sveitarfélaganna um uppbyggingu?
    Eina opinbera íbúaspáin sem fyrirliggjandi er fyrir höfuðborgarsvæðið er sú sem sett var fram af svæðisskipulagi Reykjavíkurborgar og staðfest 2003. Íbúaþróun hefur verið töluvert örari en sú spá gerði ráð fyrir. Sem dæmi má nefna að gert var ráð fyrir að íbúar á höfuðborgarsvæðinu væru orðnir um 189 þúsund árið 2007 en þeir eru um 195 þúsund. Árið 2017 gerði spáin ráð fyrir að íbúarnir yrðu 210 þúsund.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þörf sveitarfélaganna fyrir auknar almenningssamgöngur vegna þeirrar íbúafjölgunar?

    Almenningssamgöngur hafa verið verkefni sveitarfélaga, ef undan er skilin aðstoð ríkisins við sérleyfi. Á vegum ráðuneytisins starfar nú starfshópur sem skipaður er í samráði við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og fer í saumana á þessum málaflokki með það fyrir augum að draga fram nýjar lausnir. Óskað hefur verið eftir því að hópurinn skili niðurstöðum fyrr en upphaflega var áætlað, eða í febrúar á næsta ári. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er hins vegar tekið fram að samhliða stórátaki í samgöngumálum verði lögð aukin áhersla á umferðaröryggi og almenningssamgöngur. Þessi stefna er til grundvallar í vinnu ráðuneytisins í þessum málaflokki.