Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 253. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 414  —  253. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf hjá ráðuneytinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikið hefur störfum hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess fjölgað eða fækkað það sem af er þessu ári á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og utan þess hins vegar?
     2.      Hversu mikið er áætlað að störfum hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess fjölgi utan höfuðborgarsvæðisins á næsta ári?

    Ráðuneytið byggir mat sitt á starfafjölda á talningu ársverka í dagvinnu í launakerfi ríksins. Talningin er einungis marktæk ef gögnin ná til heils árs í senn. Það er því ekki tímabært að segja til um hvort störfum hafi fækkað eða fjölgað það sem af er árinu. Hins vegar gefur þróunin milli áranna 2005 og 2006 nokkuð góða mynd af stöðu mála. Árið 2006 fjölgar störfum á vegum ráðuneytisins og stofnana þess um 31 talsins. Aukningin skiptist þannig að um 21 nýtt starf er á höfuðborgarsvæðinu og tíu störf á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu munar langmest um eflingu Landhelgisgæslunnar og embætti ríkislögreglustjóra, samtals 21 starf. Á landsbyggðinni skýrist hækkunin alfarið að sektarinnheimtu sýslumannsins á Blönduósi, fimm störf og önnur fimm hjá sýslumanninum í Keflavík vegna framleiðslu vegabréfa í Njarðvík.
    Ráðuneytið vekur athygli á því að við fjárlagagerð stofnana er ekki lengur stuðst við starfsmannafjölda eins og áður var. Upplýsingar um mannaaflaáætlanir er því eingöngu að finna í rekstraráætlunum einstakra stofnana sem eru ekki vistaðar á samræmdum formi hjá ráðuneytinu.
    Engu að síður má áætla starfsmannabreytingar miðað við breytingar á fjárhagsramma í frumvarpi til fjárlaga 2008. Ágiskun ráðuneytisins, skipt eftir stofnunum, er eftirfarandi:
    Starfsmaður í Peking vegna vegabréfaáritunar     1
    Tengslafulltrúi embættis ríkislögreglustjóra í Reykjavík     1
    Lögfræðingur og skrifstofumaður á Ísafirði vegna útlendingamála     2
    Skrifstofumaður hjá sektarinnheimtustöð á Blönduósi     1
    Stækkun fangelsins á Kvíabryggju     3
    Stækkun fangelsins á Akureyri     1
    Samtals gerir þetta 9 manns og þar af eru 7 á landsbyggðinni.