Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 163. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 460  —  163. mál.
Meiri hluti.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Rúnar Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu, Birnu Jónsdóttur og Gunnar Ármannsson frá Læknafélagi Íslands, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Særúnu Maríu Gunnarsdóttur frá Persónuvernd, Guðjón Rúnarsson, Helga Bjarnason, Ólaf Pál Gunnarsson og Valgeir Pálsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust einnig umsagnir um frumvarpið.
    Upp hefur risið vafi á því hvernig túlka beri gildandi 82. gr. laga um vátryggingarsamninga en tvær opinberar stofnanir, Fjármálaeftirlitið og Persónuvernd, hafa haft hvor sína túlkun á þessu ákvæði laganna. Með frumvarpinu er lögð til breyting á 82. gr. laganna og leitast við að gera ákvæðið skýrara. Einnig er lögð til frekari afmörkun á heimild vátryggingafélaga til að krefjast upplýsinga þar sem kveðið er á um að foreldrar eða systkini veiti samþykki fyrir því að upplýsingar séu veittar um þau við töku vátryggingar.
    Í frumvarpinu er lagt til að vátryggingafélagi verði heimilt að afla upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki, eða vátryggður, svo og foreldrar og systkini vátryggðs, er haldinn eða hefur verið haldinn og félagið telur nauðsynlegt að fá vitneskju um til að geta lagt mat á væntanlega vátryggða áhættu.
    Meiri hluti nefndarinnar álítur að nokkur jákvæð nýmæli megi finna í frumvarpinu, einkum með hliðsjón af persónuvernd. Ákvæði frumvarpsins eru nokkuð breytt frá því að sambærilegt frumvarp var lagt fram á 133. löggjafarþingi (387. mál).
    Í fyrsta lagi er lagt til að vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, staðfesti við umsókn um töku vátryggingar að hann hafi hlotið samþykki foreldra sinna eða systkina á því að hann megi gefa upplýsingar um að þau séu haldin eða hafi verið haldin tilteknum sjúkdómi sem spurt er um. Í ákvæðinu er einnig gert ráð fyrir þeim möguleika að vátryggingartaka sé ekki mögulegt að verða við þessari kröfu, sbr. orðalagið „enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað aflað slíks samþykkis“.
    Meiri hlutinn telur þetta mikilvægt nýmæli enda getur verið um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar að ræða. Meiri hlutinn minnir á að í athugasemdum frumvarpsins er gert ráð fyrir því að spurningar á umsóknareyðublaði verði með þeim hætti að tiltekinn sjúkdómur verði ekki tengdur tilteknum einstaklingi. Nöfn þeirra sem spurt er um mega aldrei koma fram. Þetta getur kallað á endurskoðun á verklagi vátryggingafélaga, þar á meðal á þeim umsóknareyðublöðum sem vátryggingartakar þurfa að fylla út.
    Meiri hlutinn minnir sömuleiðis á að áfram er gert ráð fyrir því að heimild vátryggingafélags til þess að afla upplýsinga frá öðrum en sjálfum vátryggingartaka eða vátryggðum, svo sem frá læknum eða öðru starfsfólki í heilbrigðisgeiranum, sé bundin við upplýst samþykki vátryggingartaka eða vátryggðs.
    Í umsögn Persónuverndar um frumvarpið segir: „Telja verður að efni frumvarpsins sé í betra samræmi við grunnreglu persónuréttarins um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins heldur en ef ekki hefði verið leitað samþykkis.“ Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið Persónuverndar.
    Í öðru lagi er lagt til að ákvæðið nái einungis til foreldra og systkina vátryggingartaka en ekki til „annarra einstaklinga“ líkt og er í gildandi lögum. Frumvarpið afmarkar þannig heimildir vátryggingafélaga til upplýsingaöflunar um aðra en vátryggingartaka eða vátryggðan við foreldra og systkini að því gefnu að samþykki þessara aðila liggi fyrir. Heimild vátryggingafélags til upplýsingaöflunar er þó takmörkuð af bannreglu 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að í stað þess að hægt sé að krefjast upplýsinga um „heilsufar“ umsækjanda eða annarra einstaklinga beri umsækjanda að gefa upplýsingar um „tilgreinda sjúkdóma“ sem spurt kann að verða um. Að mati meiri hlutans er hér á ferðinni frekari afmörkun og þrenging frá gildandi lögum enda ekki hægt að ætlast til að umsækjandi geti lagt almennt mat á heilsufar sitt eða annarra einstaklinga.
    Í fjórða lagi er lagt til að upplýsingar skuli veittar „eftir bestu vitund“ en þetta orðalag er nýmæli. Með þessu er lögð áhersla á að ekki er víst í öllum tilvikum að vátryggingartaki hafi upplýsingar um sjúkdóma sem foreldrar eða systkini hafa verið haldin.
    Í fimmta lagi er lögð til sú breyting að vátryggingafélagi er óheimilt að nýta sér niðurstöður „erfðarannsókna“ en í gildandi lögum er vísað til upplýsinga um „erfðaeiginleika“. Vátryggingafélagi er einnig óheimilt að óska eftir erfðarannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé á að fá slíkar upplýsingar. Hafi sjúkdómur hins vegar greinst með erfðafræðirannsókn sem vátryggingartaki tók þátt í ber honum að gefa vátryggingafélaginu upplýsingar um þá greiningu, enda sé spurt um þann tiltekna sjúkdóm.
    Í orðalagi málsgreinarinnar felst jafnframt að reglur um vanrækta upplýsingagjöf eiga ekki við í þeim tilfellum er vátryggingartaki eða vátryggður gefur ekki erfðafræðilegar upplýsingar, enda væri vátryggingafélagi ekki heimilt að taka við slíkum upplýsingum, að öðru leyti en því sem greinir í frumvarpinu um sjúkdómsgreiningar sem slíkar.
    Með þessu ákvæði er leitast við að eyða vafa um hvers konar upplýsingar vátryggingafélagi sé óheimilt að nota í áhættumati sínu. Vátryggingafélagi er þannig óheimilt að hagnýta sér upplýsingar úr erfðarannsókn burtséð frá því hvort þær eru vátryggingartaka eða vátryggðum í hag eður ei.
    Meiri hlutinn leggur til viðbót við frumvarpið þannig að vátryggingafélögum verði gert að halda til haga upplýsingum um fjölda þeirra sem synjað er um persónutryggingu á grundvelli heilsufars foreldra eða systkina eða fá hækkuð iðgjöld vegna áhættumats sem byggist á upplýsingum um þriðja aðila. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að upplýsingum um fjölda þeirra sem synjað er um persónutryggingu á grundvelli upplýsinga um eigið heilsufar eða fá hækkuð iðgjöld af sömu ástæðu sé haldið til haga. Þar sem vátryggingafélögin lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins telur meiri hlutinn eðlilegt að það hafi eftirlit með því að þessar upplýsingar séu aðgengilegar.
    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur áliti þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Félagið skal halda saman upplýsingum um fjölda þeirra sem er synjað um töku tryggingar eða er gert að greiða hærri iðgjöld vegna áhættumats sem byggist á lagagrein þessari.

Alþingi, 11. des. 2007.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Ármann Kr. Ólafsson.



Katrín Júlíusdóttir.


Jón Gunnarsson.


Björk Guðjónsdóttir.