Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 283. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 488  —  283. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um innflutning og eftirlit með innfluttu kjöti.

     1.      Hversu mikið kjöt, flokkað eftir kjöttegundum, var flutt inn árið 2006 frá
                  a.      löndum innan ESB,
                  b.      löndum utan ESB?

    Árið 2006 voru flutt inn til landsins 854,7 tonn af kjöti úr 2. kafla tollskrár, þar af voru 611,1 tonn frá ESB-löndum. Á sama tíma voru 109,8 tonn flutt til landsins af vörum úr 16. kafla tollskrár, þar af voru 77,9 tonn frá ESB-löndum. Sjá nánar fylgiskjal.

     2.      Hvernig er heilbrigðiseftirliti með þeim innflutningi háttað og hvert er umfang þess?
    Óheimilt er að flytja til landsins unnar og óunnar, hráar og lítið saltaðar sláturafurðir. Þó er landbúnaðarráðherra heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði að fengnum meðmælum frá yfirdýralækni, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Um þetta er fjallað í 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sem og í 3. og 7. gr. reglugerðar nr. 509/2004 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.
    Hver sá sem hyggst flytja hrátt kjöt, í fyrsta sinn, til landsins, verður að sækja um leyfi fyrir slíku til landbúnaðarráðherra. Umsókninni verða að fylgja nauðsynlegar upplýsingar um kjötið til athugunar og samþykkis hjá landbúnaðarráðuneyti, áður en það er sent frá útflutningslandi. Innflytjandi á hráu kjöti skal alltaf sækja um leyfi til landbúnaðarráðherra og leggja fram, til umsagnar yfirdýralæknis, aðflutningsskýrslu, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda auk tilskilinna vottorða, sem skv. 5. gr. reglugerðar nr. 509/2004 skulu vera:
     a.      Opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð.
     b.      Opinbert vottorð sem staðfestir að dýrum, sem afurðirnar eru af, hafi ekki verið gefin vaxtarhvetjandi efni á eldistímanum.
     c.      Vottorð sem staðfestir að kjötið hafi verið geymt við a.m.k. –18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.
     d.      Opinbert vottorð sem staðfestir að dýrunum, sem afurðirnar eru af, hafi verið slátrað í sláturhúsum og afurðirnar unnar í vinnslustöðvum, viðurkenndum af Evrópusambandinu, aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða bandarískum stjórnvöldum, til útflutnings og/eða sölu innan þessara ríkjasambanda.
     e.      Opinbert vottorð sem staðfestir að afurðirnar séu lausar við salmonellusýkla.
     f.      Sláturafurðir, mjólkurafurðir og egg skulu uppfylla ákvæði gildandi reglugerðar um aðskotaefni í matvælum.
     g.      Varan skal merkt í samræmi við gildandi reglur um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.
    Ekkert hrátt kjöt er flutt til landsins nema það uppfylli skilyrðin hér að framan. Til að tryggja að svo sé eru aðflutningsskýrslur og fylgigögn hverrar sendingar af hráu kjöti sendar yfirdýralækni til nákvæmrar skoðunar. Standist sendingin tilsettar kröfur er aðflutningsskýrsla árituð og ásamt umsögn send til landbúnaðarráðuneytisins. Þar er endanlegt leyfi fyrir innflutningi veitt. Innflytjendur geta ekki fengið sendingar af hráu kjöti tollafgreiddar nema að fengnu þessu leyfi. Á þennan hátt er tryggt að þær afurðir sem hingað berast eru af bestu gæðum og eins heilnæmar og mögulegt er hverju sinni.
    Framangreind skilyrði miða við að eftirlit og sýnataka afurðanna fari fram í afurðastöðvum/vinnslustöðvum erlendis. Stöðvarnar skulu vera viðurkenndar af Evrópusambandinu, aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða bandarískum yfirvöldum til útflutnings. Í slíkri viðurkenningu felst að afurðastöðin/vinnslustöðin hafi öflugt innra eftirlit byggt á aðferðafræði Gámes og að opinber yfirvöld hafi eftirlit með aðskotaefnum og lyfjaleifum samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Þess utan gerir Ísland viðbótarkröfur um að dýrunum sem afurðirnar eru af hafi ekki verið gefin vaxtarhvetjandi efni á eldistímanum og að afurðirnar séu lausar við salmonellusýkla. Sýnatökuáætlun þarf því að vera til staðar í stöðvunum í samræmi við þær kröfur sem nágrannar okkar Svíar, Finnar og Norðmenn gera, sbr. ESB-reglugerð nr. 1688/2005. Með þessum skilyrðum er verið að gera sömu kröfu til innflutts kjöts og gerð er hér á landi til kjöts sem ætlað er til útflutnings. Þannig skapast jafnvægi í eftirliti milli landa.
    Stöðug vöktun fer fram hjá Landbúnaðarstofnun með sjúkdómsástandi í þeim löndum sem afurðirnar eru að koma frá. Áhættumat er gert varðandi innflutning á hráu kjöti frá þessum löndum. Verði breytingar á sjúkdómsástandi í viðkomandi landi er strax brugðist við, ef þurfa þykir.

     3.      Hvernig er sýnataka úr innfluttu kjöti skipulögð? Eru sýni tekin annars vegar úr kjöti sem fer beint í verslanir og hins vegar því sem fer til kjötvinnslustöðva? Hvaða þættir eru skoðaðir í slíkum sýnum (salmonella, lyf, gerlar o.s.frv.)?
    Skipulagning sýnatöku úr innfluttu kjöti, sjá svar við 2. lið. Enginn munur er gerður á sýnatöku úr kjöti sem er dreift beint í verslanir og því sem fer til kjötvinnslustöðva. Þættir sem skoðaðir eru, sjá svar við 2. lið.

     4.      Hversu mörg sýni voru tekin úr innfluttu kjöti á árinu 2006 annars vegar frá ESB-löndum og hins vegar frá löndum utan ESB?
    Með skírskotun til svara í 2. lið er ljóst að fyrst og fremst er innflutningseftirlit með innfluttu kjöti byggt á skjalaskoðun á þeim vottorðum sem krafist er samkvæmt reglugerð 509/ 2004. Landbúnaðarstofnun, í samræmi við ákvæði e-liðar 2. mgr. 5. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, fylgist vel með sjúkdómsástandi í öllum helstu viðskiptalöndum okkar. Á þeim upplýsingum er áhættumat m.a. byggt þar sem metin er þörfin fyrir sérstakar sýnatökur eftir að varan er komin til landsins. Við áhættumatið er enn fremur fylgst með því hvort grunur komi upp um að matarsýkingar hérlendis tengist innfluttu kjöti, en þess eru engin dæmi síðan innflutningur á kjöti hófst.
    Það er því á grundvelli framangreinds áhættumats sem slík sýnataka hefur aðeins í örfáum tilfellum farið fram á undanförnum árum og var ekki framkvæmd á árinu 2006.

     5.      Hefur sýnataka leitt til förgunar á innfluttu kjöti?
    Þess eru dæmi að sýnataka hefur leitt til höfnunar á innflutningi sem síðan leiðir til förgunar vörunnar. Þetta á m.a. við um innfluttar andabringur, sem sýni voru tekin úr á grundvelli áhættumats, og sem reyndust mengaðar af salmonellusýklum, þrátt fyrir að þeim fylgdi vottorð um að rannsóknir á kjötinu hefðu verið neikvæðar vegna salmonellu.

     6.      Hvaða tryggingu hafa neytendur fyrir því að kjöt sem kemur fryst til landsins hafi verið geymt við tilskildar aðstæður þar til það kemur í verslanir, svo sem að hitastig og umbúnaður í geymslu og flutningi standist íslenskar kröfur?
    Miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem annast flutninga á matvælum milli landa og innan lands, þar er lögð mikil áhersla á að kælikeðjan rofni aldrei. Síritar eru hafðir á flutningagámum og fylgst er með virkni kælingar/frystingar. Komi upp vandamál eiga flutningsaðilar að vera tryggðir gegn slíku og slíkum matvælum ber að eyða á kostnað tryggingafélaganna.

     7.      Skarast eftirlit Umhverfisstofnunar og Landbúnaðarstofnunar með innflutningi á kjöti eða skortir samhæfingu á milli stofnananna?
    Landbúnaðarstofnun annast eftirlit í sláturhúsum, kjötpökkunarstöðvum sláturhúsa og í kjötvinnslum í sláturhúsum og með innflutningi á kjöti. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, annast eftirlit í kjötvinnslum sem ekki eru staðsettar í sláturhúsum og með kjöti í dreifingu.

     8.      Hefur verið tekin ákvörðun um skipulag matvælaeftirlits á innfluttu kjöti í fyrirhuguðu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, og ef svo er, hvernig verður því háttað?
    Ráðgert er að eftirlit með innflutningi á kjöti undir yfirstjórn landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis verði í höndum Matvælastofnunar, sem taki til starfa 1. janúar 2008, eftir sameiningu Landbúnaðarstofnunar og matvælasviða Umhverfisstofnunar og Fiskistofu. Löggjöfin verður í byrjun sú sama og núverandi verkaskipting milli Matvælastofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og áðurnefndra ríkisstofnana, en Matvælastofnun mun fara með yfirumsjón með matvælaeftirliti hjá sveitarfélögunum. Þar með er dregið úr hættu á skörun í eftirliti þar sem þessir aðilar munu hafa reglubundið samstarf.
    Fram hafa komið tillögur um að Matvælastofnun verði með sérstaka skrifstofu á höfuðborgarsvæðinu sem fari með inn- og útflutningsmál. Skrifstofa þessi mun í samvinnu við aðalskrifstofu stofnunarinnar hafa eftirlit með innflutningi á kjöti og öðrum matvælum. Þar verður einnig það starfsfólk sem annast tengsl við tilkynningakerfi ESB um hættulegar vörur (RASFF – Rapid Alert System for Food and Feed). Með þessu fyrirkomulagi er einnig verið að sameina á einum stað innflutningseftirlit með plöntum, fóðri, áburði og sáðvörum, með það að markmiði að samræma eftirlit á öllum stigum fæðukeðjunnar.
    Ísland stefnir nú að því að taka upp nýja og endurskoðaða matvælalöggjöf ESB og mun það einnig leiða til nokkurra breytinga í eftirliti á komandi árum. Þá mun allt kjöt frá þriðju ríkjum fara í sérstakt eftirlit í landamærastöðvum hér á landi í samræmi við löggjöf sem gerir tilteknar kröfur um skoðun og sýnatökur. Kjöt frá EES-svæðinu mun ekki þurfa sömu skoðun í landamærastöðvum, en Ísland hefur þó áform um að áfram verði krafist salmonellu-vottorða við innflutning á öllu kjöti. Eftirlit með kjötvörum frá þriðju ríkjum, sem fram fer í landamærastöðvum, er framkvæmt samkvæmt samræmdum reglum á EES-svæðinu, en kjötvörur frá EES-ríkjum munu falla undir markaðseftirlit, en þó með þeim undantekningum sem íslensk stjórnvöld munu gera varðandi skjalaskoðun og framvísun vottorða um heilnæmi vörunnar. Matvælaeftirlit hér á landi getur einnig tekið sýni af innfluttu kjöti frá EES-ríkjum með sama hætti og gert er vegna innlendrar framleiðslu.


Fylgiskjal.



Innflutt kjöt og kjötafurðir 2006.

ESB-
lönd
Önnur lönd Tonn alls
2. kafli. Hrátt kjöt og ætir hlutar af dýrum
0202.2009 Annað fryst kjöt af nautgripum, með beini     0,6 0,6
0202.3001 Fryst nautahakk 320,2 121 441,2
0202.3002 Frystar nautalundir 14,8 83,8 98,6
0202.3003 Frystir nautahryggvöðvar (file) 2,1 2,2 4,3
0202.3004 Frystir nautalærisvöðvar 1,5 1,5
0202.3009 Annað fryst úrbeinað kjöt af nautgripum 2,8 2,8
0203.2209 Frystir bógar og bógbitar af svínum, með beini     4,5 4,5
0203.2904 Frystar svínalundir 19,5 19,5
0207.1401 Fryst beinlaust kjöt af hænsnum í sneiðum eða hlutum     105,9 105,9
0207.3300 Fryst kjöt af öndum gæsum og perluhænsnum     1,6 1,6
0207.3601 Annað beinlaust kjöt af öndum, gæsum og perluhænsnum     5,7 5,7
0207.3602 Önnur lifur úr öndum, gæsum og perluhænsnum     0,9 0,9
0207.3609 Annað kjöt af öndum, gæsum og perluhænsnum     0,7 0,7
0208.1000 Nýtt eða fryst kjöt o.þ.h. af kanínum eða hérum      0,3 0,3
0208.9001 Nýtt kælt eða fryst kjöt af dúfum 0,7 0,7
0208.9002 Nýtt kælt eða fryst kjöt af fasönum 1,3 1,3
0208.9003 Frystar rjúpur 0,2 0,2
0208.9004 Nýtt kælt eða fryst kjöt af dádýrum 4,9 7,3 12,2
0208.9007 Fryst úrbeinað hreindýrakjöt 0,8 0,2 1
0208.9008 Fryst hreindýrakjöt, með beini           21,2 21,2
0208.9009 Annað nýtt eða fryst kjöt o.þ.h. 0,8 5 5,8
0210.1100 Reykt, söltuð eða þurrkuð læri, bógur og sneiðar af svínum, með beini 1     1
0210.1200 Reykt, söltuð eða þurrkuð slög og sneiðar af svínum     1,4 1,4
0210.1901 Annað reykt, saltað eða þurrkað, úrbeinað svínakjöt 10,1     0,2 10,3
0210.1909 Annað reykt, saltað eða þurrkað svínakjöt     15,8     0,9     16,7
0210.9990 Annað reykt, saltað eða þurrkað kjöt, þ.m.t. mjöl og innmatur 94,8          94,8
Samtals magn í tonnum 611,1 243,6 854,7
16. kafli Unnar kjötvörur, pylsur og þess háttar
1601.0010 Blóðmör og lifrarpylsa 0,5 0,5
1601.0021 Þurrpylsur 0,3 0,3
1601.0022 Pylsur sem í er > 60% kjöt o.þ.h. auk annarra efna 1,5 0,3 1,8
1601.0023 Pylsur sem í er > 20% en <= 60% kjöt o.þ.h. auk annarra efna 1,1 0,6 1,7
1601.0029 Aðrar pylsur 0,5 0,5
1602.1001 Unnar jafnblandaðar kjötvörur sem í er > 60% kjöt eða blóð 0,1 0,1
1602.2011Lifrarkæfa sem í er > 60% dýralifur 0,3 0,1 0,4
1602.2012 Lifrarkæfa sem í er > 20% en <= 60% dýralifur 5 1,1 6,1
1602.2019 Önnur lifrarkæfa 0,3 0,3
1602.2021 Aðrar vörur úr dýralifur sem í er > 60% dýralifur 0,2 0,2
1602.2022 Aðrar vörur úr dýralifur sem í er > 20% en <= 60% dýralifur 0,1 0,1
1602.3101 Unnið kjöt og kjötvörur úr kalkúnum sem í er > 60% kjöt o.þ.h. 5,8 5,8
1602.3109 Annað unnið kjöt og kjötvörur úr kalkúnum 0,2 0,2
1602.3201 Unnið kjöt og kjötvörur úr Gallus domesticus hænsnum sem í er > 60% kjöt o.þ.h. 34,6 3,1 37,7
1602.3202 Unnið kjöt og kjötvörur úr Gallus domesticus hænsnum sem í er > 20% en <= 60% kjöt o.þ.h. 5,5 5,1 10,6
1602.3209 Annað unnið kjöt og kjötvörur úr Gallus domesticus hænsnum 0,1 1,4 1,5
1602.3901 Unnið kjöt og kjötvörur úr öðrum alifuglum sem í er > 60% kjöt o.þ.h. 7,8 6,4 14,2
1602.3902 Unnið kjöt og kjötvörur úr öðrum alifuglum sem í er > 20% en <= 60% kjöt o.þ.h. 0,1 0,1
1602.3909 Annað unnið kjöt og kjötvörur úr öðrum alifuglum 0,2 0,2
1602.4101 Unnin læri og lærissneiðar af svínum, sem í er > 60% kjöt o.þ.h. 0,5 0,5
1602.4102 Unnin læri og lærissneiðar af svínum, sem í er > 20% en <= 60% kjöt o.þ.h. 3,5 3,5
1602.4109 Önnur unnin læri og lærissneiðar af svínum 6 6
1602.4201 Unninn bógur og bógsneiðar af svínum, sem í er > 60% kjöt o.þ.h. 0,2 0,2
1602.4209 Annar unninn bógur og bógsneiðar af svínum 2,6 2,6
1602.4901 Annað unnið kjöt og kjötvörur úr svínum sem í er > 60% kjöt o.þ.h. 1,8 0,6 2,4
1602.4902 Annað unnið kjöt og kjötvörur úr svínum sem í er > 20% en <= 60% kjöt o.þ.h. 0,8 0,8
1602.4909 Annað unnið kjöt og kjötvörur úr svínum 3,9 0,5 4,4
1602.5001 Unnið kjöt og kjötvörur úr nautgripum sem í er > 60% kjöt o.þ.h. 5,8 5,8
1602.5002 Unnið kjöt og kjötvörur úr nautgripum sem í er > 20% en <= 60% kjöt o.þ.h. 0,7 0,7
1602.5009 Annað unnið kjöt og kjötvörur úr nautgripum 0,5 0,5
1602.9019 Aðrar unnar kjötvörur, úr dilkakjöti, þ.m.t. framleiðsla úr hvers konar dýrablóði 0,1 0,1
Samtals magn í tonnum 77,9 31,9 109,8
Samtals innflutt magn í tonnum af kjöti og kjötvörum á árinu 2006 689 275,5 964,5