Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 361. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 602  —  361. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Mörður Árnason, Helgi Hjörvar.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      6. tölul. orðast svo: Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, hljóðupptökur af lestri slíkra bóka, sala vefútgáfu og rafútgáfu slíkra bóka og aðgangs að hliðstæðum gagnagrunnum, og sala landakorta.
     b.      Á eftir orðunum „með tónlist“ í 10. tölul. kemur: eða texta.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að vefbækur, rafbækur, bækur á geisladiski og landakort færist á neðra þrep virðisaukaskatts sem verði 7% af sölu þessara vara með sama hætti og af sölu hefðbundinna bóka og hljóðbóka nú. Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um vef- og rafbækur en í b-lið bækur á geisladiski sem eru keyptar og settar í drif eða hlaðið í tölvuna í eitt skipti fyrir öll.
    Vefbók er bókartexti sem lesendur kaupa sér aðgang að á vefnum eða hlaða niður af öðru vefsetri. Rafbók (e. e-book) er bókartexti sem hlaðið er í tölvur, síma eða „bókhlöðu“ (e. e-paper device), sérstakt tæki svipað tónhlöðunni eða æpoddinum, og lesinn í þeim (sjá nánar á vefslóðinni www.bookeen.com). Til að taka af tvímæli eru í frumvarpstextanum einnig tilteknir „hliðstæðir gagnagrunnar“ þar sem útgáfuefni á vefnum eða í stafrænu formi er ekki allt jafnframt til sem prentbók.
    Geisladisksbækur og vefbækur eru þegar kunnar á íslenskum bókamarkaði, einkum orðabækur, handbækur og kennslugögn af ýmsu tagi. Vænta má rafbókaútgáfu hérlendis á næstunni.
    Landakort bera nú lægra hlutfall virðisaukaskatts þegar þau eru bundin inn eða gormuð saman sem bók en hærra hlutfall þegar þau eru gefin út á hefðbundinn hátt. Kortabók Íslands, sem margir ferðamenn og bifreiðastjórar þekkja og kom út fyrst hjá Máli og menningu árið 2000, ber 7% virðisaukaskatt en Kortamappa frá sama útgefanda, þar sem nokkurn veginn sömu kortum er raðað í hulstur eða öskju, ber 24,5% virðisaukaskatt.
    Um breytingarnar sem í þessu frumvarpi felast eiga við öll sömu rök og um lægri virðisaukaskatt af sölu prentaðra bóka, hljóðbóka og hljómdiska, bæði menningarleg rök og rök af samkeppnistoga um staðkvæmdarvörur.
    Tekjutap ríkissjóðs af þessum breytingum verður lítið og vinnst upp með aukinni sölu bóka og korta af öllu tagi.