Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.

Þskj. 631  —  387. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 3. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. verður svohljóðandi:
                  Fæðingarorlofssjóður skal annast greiðslur til foreldra sem réttinda njóta til greiðslu í fæðingarorlofi skv. 13. gr. Fæðingarstyrkir til foreldra skv. VI. kafla greiðast úr ríkissjóði.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ þrívegis í 2. og 4. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.

3. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 5. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

4. gr.

    Á eftir 3. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
    Fullt nám samkvæmt lögum þessum er 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „móður“ í 2. mgr. kemur: foreldri.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. mgr. skal foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi.
     c.      Í stað orðanna „4. mgr.“ í 7. mgr., sem verður 8. mgr., kemur: 5. mgr.
     d.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu átján mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Heimilt er að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss og skal þá Vinnumálastofnun meta hvort skilyrðum um framsal réttindanna sé fullnægt. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið. Fangelsismálayfirvöld skulu staðfesta að foreldrið muni afplána refsivist á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum er hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „kona“ í 1. mgr. kemur: foreldri, og í stað orðsins „henni“ í sömu málsgrein kemur: því.
     b.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.

7. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2. og 4. mgr. 8. gr.“ í 1. mgr. kemur: 2. og 5. mgr. 8. gr.
     b.      3. málsl. 1. mgr. verður svohljóðandi: Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr., skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof að því er það foreldri varðar.
     c.      2. mgr. verður svohljóðandi:
                  Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns, sbr. a–d-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
     d.      5. mgr. verður svohljóðandi:
                  Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr., skal nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Að öðru leyti gilda ákvæði 2.–4. mgr. eins og við getur átt.
     e.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ tvívegis í 7. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.
     f.      Á eftir 2. málsl. 9. mgr. bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
     g.      Í stað orðanna „áætlaðan fæðingardag“ í 10. mgr. kemur: fæðingardag.
     h.      Í stað 11. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Skilyrði er að foreldri hafi hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 15. gr.
                  Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, svo sem um mat á starfshlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklinga, rétt þeirra sem gegna störfum á innlendum vinnumarkaði sem eru undanskilin greiðslu tryggingagjalds lögum samkvæmt, rétt þeirra sem hafa starfað í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig gerðir sem felldar hafa verið undir VI. viðauka samningsins, aðildarríkjum að Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar og hvaða greiðslur frá vinnuveitendum heimilt sé að taka tillit til við útreikninga skv. 9. mgr.

9. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Þátttaka á vinnumarkaði.


    Þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.
    Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:
     a.      orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
     b.      sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,
     c.      sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
     d.      sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.
    Vinnumálastofnun metur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr.
    Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um almannatryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum hefði það sótt um þá fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. c-lið 2. mgr.

10. gr.

    Orðin „og greiðir þá Fæðingarorlofssjóður lögbundið framlag á móti“ í 1. mgr. 14. gr. laganna falla brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. verður svohljóðandi: Vilji foreldri hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 2. mgr. 8. gr., ber því að tilkynna það Vinnumálastofnun þremur vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs.
     b.      2. mgr. verður svohljóðandi:
                  Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðu eyðublaði og skal fylgja henni afrit af tilkynningum um fæðingarorlof skv. 9. gr. sem foreldrar hafa fengið samþykktar hjá vinnuveitendum sínum þar sem fram kemur fyrirhugaður upphafsdagur, lengd og tilhögun fæðingarorlofs hvors foreldris fyrir sig. Þegar foreldri er sjálfstætt starfandi einstaklingur skal það tekið fram í umsókninni og tilgreint um fyrirhugaðan upphafsdag, lengd og tilhögun fæðingarorlofs. Umsóknin skal undirrituð af foreldrum, enda fari þeir báðir með forsjá barnsins. Skal forsjárlaust foreldri undirrita umsókn uppfylli það skilyrði 7. mgr. 8. gr. Gildir hið sama þótt annað foreldrið sé utan vinnumarkaðar eða í námi, sbr. 2. mgr. 1. gr., en skal þess getið í umsókn sé jafnframt sótt um fæðingarstyrk fyrir það foreldri skv. VI. kafla.
     c.      Í stað orðanna „vegna tekjuára“ í 3. mgr. kemur: vegna viðmiðunartímabila.
     d.      5. mgr. verður svohljóðandi:
                  Þegar foreldri getur ekki tekið fæðingarorlof á þeim tíma er það tilkynnti Vinnumálastofnun um skv. 2. mgr. vegna ófyrirsjáanlegra ástæðna ber foreldri að tilkynna Vinnumálastofnun skriflega um breytinguna á þar til gerðu eyðublaði. Vinnuveitandi foreldris skal staðfesta samþykki sitt um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs foreldris með undirritun sinni.

12. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 4. mgr. 15. gr. a laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. b laganna:
     a.      1. mgr. verður svohljóðandi:
                  Vinnumálastofnun skal annast eftirlit með framkvæmd laganna. Félags- og tryggingamálaráðherra er þó heimilt að ákveða annað fyrirkomulag í reglugerð.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                  Skattyfirvöld skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirlitinu með framkvæmd laganna.
     c.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 17. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „læknis“ í 1. málsl. kemur: sérfræðilæknis.
     b.      Í stað orðsins „aðila“ í 2. málsl. kemur: sérfræðilækni.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. mgr. skal foreldri sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi.
     b.      Á eftir 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
                  Hafi foreldri haft lögheimili hér á landi a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 3. mgr. enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hefur liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis var lokið. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 23. gr.
     c.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ tvívegis í 3. mgr., sem verður 5. mgr., kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.
     d.      Við 5. mgr., sem verður 7. mgr., bætist: sbr. þó 8. mgr.
     e.      Á eftir 5. mgr., sem verður 7. mgr., kemur ný málsgrein, 8. mgr., svohljóðandi:
                  Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarstyrks liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir.
     f.      Í stað orðanna „4. mgr.“ í 8. mgr., sem verður 11. mgr., kemur: 6. mgr.
     g.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, 12. og 13. mgr., svohljóðandi:
                  Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu átján mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Heimilt er að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss og skal þá Vinnumálastofnun meta hvort skilyrðum um framsal réttindanna sé fullnægt. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið. Fangelsismálayfirvöld skulu staðfesta að foreldrið muni afplána refsivist á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum er hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
                  Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      1. mgr. verður svohljóðandi:
                  Foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar fellur niður er barnið nær átján mánaða aldri.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. mgr. skal foreldri sem hefur verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur öðlast rétt til fæðingarstyrks í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi.
     c.      Á eftir 3. málsl. 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama gildir þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og fullnægir öðrum skilyrðum um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi.
     d.      Á eftir 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
                  Hafi foreldri haft lögheimili hér á landi a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði skv. 3. mgr. enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hefur liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis var lokið. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði skv. 23. gr.
     e.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ tvívegis í 3. mgr., sem verður 5. mgr., kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.
     f.      Við 5. mgr., sem verður 7. mgr., bætist: sbr. þó 8. mgr.
     g.      Á eftir 5. mgr., sem verður 7. mgr., kemur ný málsgrein, 8. mgr., svohljóðandi:
                  Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarstyrks liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir.
     h.      Á eftir 9. mgr., sem verður 12. mgr., kemur ný málsgrein, 13. mgr., svohljóðandi:
                  Heimilt er að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Móðir skal leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni.
     i.      Í stað orðanna „4. mgr.“ í 10. mgr., sem verður 14. mgr., kemur: 6. mgr.
     j.      Á eftir 10. mgr., sem verður 14. mgr., kemur ný málsgrein, 15. mgr., svohljóðandi:
                  Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu átján mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Heimilt er að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss og skal þá Vinnumálastofnun meta hvort skilyrðum um framsal réttindanna sé fullnægt. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið. Fangelsismálayfirvöld skulu staðfesta að foreldrið muni afplána refsivist á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum er hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.

17. gr.

    Í stað 1. mgr. 21. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist á lífi.
    Foreldrar sem ættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma eiga sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 22. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „læknis“ í 1. málsl. kemur: sérfræðilæknis.
     b.      Í stað orðsins „aðila“ í 2. málsl. kemur: sérfræðilækni.

19. gr.

    2. mgr. 33. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi á ekki rétt til sjúkra- eða slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.

20. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Fjárnám óheimilt.


    Óheimilt er að gera fjárnám í greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk samkvæmt lögum þessum sem ekki hafa verið greiddar til foreldris. Þá er jafnframt óheimilt að taka greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.

21. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 35. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

22. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2008 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða eru tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Við smíði frumvarpsins hafði félags- og tryggingamálaráðuneytið meðal annars hliðsjón af reynslu þeirra sem fara með framkvæmd laganna sem og ábendingum sem hafa borist ráðuneytinu um atriði sem mættu fara betur.
    Lagðar eru til breytingar á viðmiðunartímabilinu sem lagt er til grundvallar útreikningum á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt lögunum er við útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði miðað við meðaltal heildarlauna foreldra yfir tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða því ári sem barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Þetta fyrirkomulag hefur sætt nokkurri gagnrýni og er því lagt til að því verði breytt með frumvarpi þessu þannig að miðað verði við meðaltal heildarlauna foreldris yfir tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Þó er gert ráð fyrir að viðmiðunartímabil vegna foreldra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar verði tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári sem barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Áfram er gert ráð fyrir að hafi foreldri ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu skuli miða við meðalheildarlaun þess fyrir það tímabil sem foreldri telst hafa verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna. Þar á meðal teljast tilteknar tímabundnar aðstæður sem hafa þótt jafnast á við þátttöku á vinnumarkaði, svo sem þegar foreldri er í orlofi eða leyfi, samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, fæðingarorlofi, tímabundið án atvinnu og hefur sótt um greiðslur innan atvinnuleysistryggingakerfisins eða hefur verið óvinnufært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss. Lagt er til að miðað verði við heildarlaun foreldra eins og verið hefur en jafnframt verði taldar með þær greiðslur er koma til vegna fyrrgreindra aðstæðna auk hvers konar launa eða annarra þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald.
    Lagt er til að eftirlit með framkvæmd laganna verði fært frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar. Lögð er áfram áhersla á nána samvinnu milli Vinnumálastofnunar og skattyfirvalda við framkvæmd eftirlitsins, meðal annars að því er varðar miðlun upplýsinga í þágu eftirlitsins. Einkum er átt við að fylgst verði með því að foreldrar leggi sannanlega niður störf í fæðingarorlofi og að þeir hagnist ekki á greiðslum úr sjóðnum þannig að um viðbót sé að ræða við tekjur þeirra fyrir sama tímabil.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að forsjárlausir foreldrar öðlist rétt til fæðingarstyrks enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir.
    Þá er lagt til að atriði er varða rétt námsmanna til fæðingarstyrks sem eingöngu hefur verið kveðið á um í reglugerð verði fært í lög. Er það nýmæli jafnframt lagt til að jafnræðis verði gætt milli námsmanna við íslenska skóla að því er varðar greiðslu fæðingarstyrks hvort sem þeir stunda hefðbundið nám við skólann eða eru í fjarnámi án tillits til búsetu. Er því lagt til að heimilt verði að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði laganna hafi námsmaður sem stundar fjarnám við íslenskan skóla flutt lögheimili sitt tímabundið til útlanda enda hafi hann átt lögheimili hér landi í að minnsta kosti fimm ár á undan flutningi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breyting sú sem lögð er til á 3. gr. laganna er í samræmi við þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með lögum nr. 109/2007, og er tilkomin vegna tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta sem tók gildi 1. janúar 2008.

Um 2. gr.


    Lagt er til að sú heimild sem kveðið er á um í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna um að vinnuveitandi annist greiðslur í fæðingarorlofi samkvæmt samkomulagi við Fæðingarorlofssjóð sem hann fær síðan endurgreiddar úr sjóðnum verði felld brott. Þessi heimild hefur aldrei verið nýtt enda talið eðlilegra að Fæðingarorlofssjóður annist þessar greiðslur beint til foreldra á grundvelli viðeigandi upplýsinga frá skattyfirvöldum.
    Enn fremur er lögð til breyting til samræmis við þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með lögum nr. 109/2007, og er tilkomin vegna tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta sem tók gildi 1. janúar 2008.

Um 3. gr.


    Breyting sú sem lögð er til á 5. gr. laganna er í samræmi við þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með lögum nr. 109/2007, og er tilkomin vegna tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta sem tók gildi 1. janúar 2008.

Um 4. gr.


    Lagt er til að 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði verði talið fullt nám samkvæmt lögunum. Enn fremur er lagt til að það sama gildi um 75–100% nám á háskólastigi sem og um annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá er lagt til að einstök námskeið teljist ekki til náms.

Um 5. gr.


    Með ákvæði þessu er lagt til að báðir foreldrar geti hafið fæðingarorlof einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur er með læknisvottorði en ekki eingöngu móðirin. Ástæða þessa er einkum sú að upp kunna að koma aðstæður í tengslum við meðgönguna þar sem mikilvægt er að báðir foreldrar eigi þess kost að vera í fæðingarorlofi skömmu fyrir fæðinguna. Sem dæmi má nefna þegar móðir þarf að dvelja fjarri heimili sínu síðustu dagana fyrir áætlaðan fæðingardag vegna þess að hún getur ekki fætt barn sitt í heimabyggð sinni vegna áhættufæðingar og kann þá að vera mikilvægt að fjölskylda hennar geti fylgt henni.
    Komið hafa upp tilvik þar sem annað foreldrið hefur andast á meðgöngu barns og þar með hefur ekki stofnast til réttar þess foreldris til fæðingarorlofs samkvæmt lögunum. Yfirfærsla réttinda skv. 7. mgr. 8. gr. laganna hefur því ekki komið til álita enda þótt að tilvikin séu að öðru leyti sambærileg. Þykir ástæða til að breyta þessu til að gæta megi sanngirnis. Í ljósi þess að ekki getur komið til yfirfærslu réttinda milli foreldra í þessum tilvikum er lagt til að þegar annað foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi öðlist eftirlifandi foreldrið rétt til fæðingarorlofs sem svarar til réttinda beggja foreldra. Þegar metinn er réttur hins eftirlifandi foreldris á grundvelli laganna er farið eftir aðstæðum þess foreldris óháð stöðu hins látna foreldris við andlátið þannig að hafi eftirlifandi foreldrið verið á vinnumarkaði getur það átt rétt til allt að níu mánaða fæðingarorlofs. Hafi eftirlifandi foreldrið hins vegar verið utan vinnumarkaðar, í minna en 25% starfi eða námi getur það átt rétt til fæðingarstyrks til jafnlangs tíma, sbr. 15. og 16. gr. frumvarps þessa.
    Þá er lagt til að heimild til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs milli foreldra verði rýmkuð þannig að hún nái ekki eingöngu til tilvika þegar annað foreldrið andast heldur einnig til tilvika er annað foreldrið er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðunum eftir fæðingu þess. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu átján mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Er þá gert ráð fyrir að foreldrið sem svo er ástatt um geti framselt rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Er miðað við að þetta eigi við um foreldra hvort sem þeir fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Þannig þarf forsjárlaust foreldri að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs til þess foreldris sem fer með forsjána að því gefnu að síðarnefnda foreldrið hafi áður veitt samþykki sitt um að forsjárlausa foreldrið hefði umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlofi þess var ætlað að standa yfir. Ástæðan er sú að áhersla er lögð á að barn njóti samvista við báða foreldra sína fyrstu mánuði ævinnar óháð því hvort foreldrar fari sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Er því talið mikilvægt að forsjárlaust foreldri fái notið fæðingarorlofs síns, sbr. 6. mgr. ákvæðisins, sem verður 7. mgr., ef þess er nokkur kostur, sbr. einnig 28. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Getur verið um að ræða framsal réttinda að hluta eða öllu leyti enda kann foreldrið að hafa nýtt sér hluta af fæðingarorlofi sínu áður en til dæmis sjúkdómur kemur upp eða slys verður eða það sér fram á að geta einungis nýtt sér hluta þess vegna fyrrgreindra aðstæðna. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært samkvæmt mati sérfræðilækna um að veita samþykki sitt um framsal vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið. Enn fremur er gert ráð fyrir að fangelsismálayfirvöld staðfesti að foreldri afpláni refsivistina á þessum tíma. Á sama hátt og gildir um yfirfærslu réttinda þegar annað foreldrið andast er gert ráð fyrir að við tilfærslu réttinda verði réttur þess foreldris sem framselur rétt sinn að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögunum.

Um 6. gr.


    Breyting sú sem lögð er til er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í a-lið 5. gr. frumvarps þessa um að báðir foreldrar geti hafið fæðingarorlof einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur er með læknisvottorði í stað eingöngu móður áður. Enn fremur þykir ástæðulaust að kveðið sé sérstaklega á um að skipting fæðingarorlofs milli foreldra komi fram í tilkynningu til vinnuveitanda hvors foreldris fyrir sig enda þótt gera megi ráð fyrir að foreldri kunni að upplýsa vinnuveitanda sinn um skipulag foreldra á fæðingarorlofi þegar gefnar eru skýringar á tilhögun orlofsins.

Um 7. gr.


    Breyting sú sem lögð er til á 1. mgr. 11. gr. laganna er í samræmi við þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með lögum nr. 109/2007, og er tilkomin vegna tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta sem tók gildi 1. janúar 2008.

Um 8. gr.


    Lagðar eru til breytingar á viðmiðunartímabili 13. gr. laganna þannig að betra jafnræðis sé gætt milli foreldra óháð því hvenær barn fæðist á árinu. Er lagt til að viðmiðunartímabilið verði miðað við fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur í stað fæðingarársins eða þess árs sem barn kemur inn á heimilið. Gert er ráð fyrir að viðmiðunartímabilið fyrir foreldra sem eru starfsmenn verði tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Hér er átt við almanaksmánuði. Á sama hátt er gert ráð fyrir að foreldrar sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af en lagt er til að viðmiðunartímabil vegna þeirra verði tekjuárið á undan því ári er barn fæðist eða kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Með tekjuári er átt við almanaksár. Ástæða þessa er einkum sú að nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum starfsmanna annars vegar og sjálfstætt starfandi einstaklinga hins vegar en sjálfstætt starfandi einstaklingar kunna að hafa meiri áhrif á tekjur sínar en starfsmenn sem starfa í annarra þjónustu. Þykir því mikilvægt að miða við sama tímabil og skattyfirvöld gera að því er sjálfstætt starfandi einstaklinga varðar með það fyrir augum að unnt sé að samkeyra kerfin þegar álagning skattyfirvalda liggur fyrir og tryggja þannig jafnvægi milli inn- og útstreymis Fæðingarorlofssjóðs.
    Áfram er gert ráð fyrir að hafi foreldri ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu skal miða við meðalheildarlaun þess fyrir það tímabil sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði. Þar á meðal teljast einnig þær aðstæður sem hafa verið taldar til þátttöku á vinnumarkaði skv. a–d-liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, en með frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að fært verði í lög að þær aðstæður teljist til þátttöku á vinnumarkaði, sbr. a–d-liði 2. mgr. 9. gr. frumvarps þessa. Skal þá alltaf miða við almanaksmánuði. Er þá að lágmarki unnt að miða við fjóra almanaksmánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris enda ætíð gert að skilyrði að foreldri hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna um sex mánaða samfellt tímabil á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann dag er barn kemur inn á heimilið við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Enn fremur er gert ráð fyrir að áfram verði miðað við heildarlaun foreldra en þar á meðal verði jafnframt taldar með greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns auk hvers konar launa og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þetta eru greiðslur sem koma til þegar aðstæður þær sem taldar eru upp í a–d-liðum 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins eiga við um foreldra og teljast svara til þátttöku á vinnumarkaði og þar með til ávinnslu fæðingarorlofs skv. 1. mgr. 13. gr. laganna. Verður því að teljast eðlilegt að þær verði hluti af heildarlaunum foreldra sem lögð eru til grundvallar við útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Jafnframt er lagt til að þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns skuli miða við þær viðmiðunartekjur sem þær greiðslur miðuðust við. Hafi því tímabili sem foreldri á rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum verið lokið skal engu síður miða við viðmiðunartekjur hans sem nýttar voru fyrir tekjutengda tímabilið. Ekki er átt við styrki sem foreldri kann að hafa fengið úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga á tímabilinu heldur eingöngu þær greiðslur sem ætlað er að koma í stað launa. Þá skal aldrei miða við hærri fjárhæðir en nemur viðmiðunartekjum foreldra sem lagðar voru til grundvallar greiðslunum á umræddu tímabili sem þessar greiðslur komu til enda þótt foreldri hafi fengið bættan mismun viðmiðunartekna og greiðslnanna sjálfra samhliða greiðslunum. Ástæðan er sú að ekki er ætlunin að tiltekinn hluti teknanna verði metinn tvisvar inn í útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þessu til skýringar má nefna dæmi um foreldri sem hefur í fyrra fæðingarorlofi fengið 80% af viðmiðunartekjum og fengið viðbætur frá vinnuveitanda sem nemur þeim 20% sem á vantaði milli viðmiðunartekna og fæðingarorlofsgreiðslna. Þegar foreldrið fer síðan aftur í fæðingarorlof er tekið mið af fyrri viðmiðunartekjum fyrir þá mánuði sem það var í fæðingarorlofi og lenda innan viðmiðunartímabilsins og því óeðlilegt að taka jafnframt tillit til viðbótanna frá vinnuveitanda. Þá er áfram tekið fram að ekki skuli taka tillit til tekna sem foreldri hefur unnið til utan innlends vinnumarkaðar.
    Lögin um fæðingar- og foreldraorlof gera ráð fyrir að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru umfram mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þó er heimilt að taka tillit til ákveðinna breytinga á launakjörum foreldra skv. 9. mgr. 13. gr. laganna. Þykir mikilvægt að tekið sé fram að eingöngu sé verið að miða við greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi. Ástæðan er einkum sú að foreldrar kunna að eiga rétt á eingreiðslum frá vinnuveitendum á ákveðnum tíma árs sem koma til framkvæmda meðan foreldri er í fæðingarorlofi en er ætlað fyrir lengra tímabil en nemur fæðingarorlofstíma foreldris. Dæmi um slíkar greiðslur eru bónusgreiðslur sem koma til framkvæmda við árslok en miðast við frammistöðu starfsmanns eða velgengni fyrirtækis á hlutaðeigandi ári. Þá er enn fremur lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra geti skilgreint nánar með reglugerð hvaða greiðslna heimilt er að taka tillit til við útreikninga skv. 9. mgr. ákvæðisins og koma því ekki til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
    Þá er mikilvægt að tekið sé fram að túlka beri lögin í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig gerðir sem felldar hafa verið undir VI. viðauka samningsins. Þar á meðal er reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, en samkvæmt reglugerðinni ber meðal annars að taka tillit til starfstíma foreldra á vinnumörkuðum í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins við mat á því hvort foreldri teljist eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skv. 1. mgr. 13. gr. laganna í fæðingarorlofi. Ákvæði reglugerðarinnar gilda milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, milli Norðurlandanna, þ.m.t. Færeyja og Grænlands, sbr. Norðurlandasamning um almannatryggingar og samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, og gagnvart Sviss, sbr. stofnsamning Fríverslunarsamnings Evrópu. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd laganna en eðlilegt að kveðið sé skýrt á um hvers konar reglur skuli gilda við mat á tryggingatímabilum milli ríkja að þessu leyti. Skilyrði er að foreldri hafi verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Ástæða þessa er að lögin fjalla um réttindi foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingarorlofs og verður foreldri því sannanlega að hafa verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði þegar til fæðingarorlofs stofnast skv. 8. gr. laganna, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr., svo að til álita geti komið að tekið verði tillit til starfstímabila þess í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum við mat á því hvort skilyrðum laganna fyrir greiðslum í fæðingarorlofi sé fullnægt. Þegar foreldri hefur verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn af ávinnslutímabilinu er Vinnumálastofnun því heimilt að taka tillit til starfstíma foreldris í öðru samningsríki á ávinnslutímabili 1. mgr. 13. gr. laganna enda hafi störf foreldris veitt því rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Skal Vinnumálastofnun þá meta starfstímabilin í samræmi við gerðir sem hafa verið felldar undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið um þetta efni sem og, eftir atvikum, Norðurlandasamninginn um almannatryggingar, stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar. Enn fremur er lagt til það skilyrði að foreldri hafi hafið störf innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru samningsríki eða m.ö.o. að tíu virkir dagar megi að hámarki líða milli tryggingatímabila þannig að ekki verði talið hafa komið rof í ávinnslutímabilið þegar foreldri flytur milli landa. Þykir það hæfilegur tími þegar tekið er tillit til þess að foreldri flytur búferlum milli landa en almennt er ekki gert ráð fyrir að rof komi inn í ávinnslutímabil foreldra skv. 1. mgr. 13. gr. laganna. Jafnframt er gert ráð fyrir að starfstímabil og þar með tryggingatímabil séu staðfest með þar til gerðum vottorðum sem tryggingastofnanir í þeim ríkjum sem flutt er frá gefa út á grundvelli hlutaðeigandi samnings. Leiði samlagning starfstímabila til þess að foreldri eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skal þó einungis taka mið af meðaltali heildarlauna foreldris á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna eins og þeim er breytt með frumvarpi þessu. Ekki er um breytingu á framkvæmd laganna að ræða að þessu leyti.

Um 9. gr.


    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, og felur því ekki í sér breytingar á framkvæmd laganna.

Um 10. gr.


    Lagt er til að fellt verði brott úr lögunum það ákvæði að greiði foreldri í séreignarsjóð þá greiði Fæðingarorlofssjóður lögbundið framlag á móti. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd laganna en með lögbundnu mótframlagi Fæðingarorlofssjóðs í séreignarsjóð foreldris er vísað til þess fyrirkomulags sem tíðkaðist á árunum 1999 til ársins 2004 að greiddu launagreiðendur sem svaraði til 10% af innborgun launafólks í viðbótarlífeyrissparnað sem nam 4% af launum þess gátu þeir haldið eftir allt að 0,4% af gjaldstofni almenna tryggingagjaldsins, sbr. lög nr. 148/1998, um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem og lög nr. 102/2000, um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum. Skilyrði fyrir lækkun tryggingagjaldsins var að um væri að ræða aukningu á lífeyrisréttindum skv. II. og III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem byggðist á ákvörðun launamanns og að mótframlagið væri innt af hendi um leið og sparnaður var dreginn af launum og ráðstafað til vörsluaðila lífeyrisréttinda. Var gert ráð fyrir að Fæðingarorlofssjóður greiddi sem svaraði þessu mótframlagi launagreiðanda þegar foreldri var í fæðingarorlofi enda héldi foreldri áfram að greiða í séreignarsjóð. Þetta fyrirkomulag var fellt úr lögum um tryggingagjald með lögum nr. 121/2003 sem tóku gildi 1. janúar 2004. Síðan þá hefur ekki verið um að ræða lögbundið mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað og ákvæðið því ekki virkt að þessu leyti. Áfram er þó gert ráð fyrir að foreldrum verði heimilt að greiða í séreignarsjóð kjósi þeir að gera það meðan á fæðingarorlofi stendur.

Um 11. gr.


    Breyting sú sem lögð er til á 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í a-lið 5. gr. frumvarps þessa um að báðir foreldrar geti hafið fæðingarorlof einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur er með læknisvottorði í stað eingöngu móður áður. Enn fremur er lagt til að umsóknarferlið verði einfaldað með þeim hætti að afrit af tilkynningum um fæðingarorlof til vinnuveitanda skv. 9. gr. laganna fylgi umsóknum án þess að sömu upplýsingar sem þar koma fram þurfi að endurtaka í umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Jafnframt er lagt til að fellt verði brott það skilyrði að vinnuveitendur beggja foreldra áriti umsóknina til Vinnumálastofnunar enda nægilegt að hvor vinnuveitandi fyrir sig hafi veitt samþykki sitt með undirritun sinni á tilkynningu skv. 9. gr. laganna að því er varðar tilhögun fæðingarorlofs þess foreldris er starfar hjá honum.
    Þá er lögð áhersla á að vinnuveitandi foreldris staðfesti samþykki sitt á breytingum á áður tilkynntu fæðingarorlofi sem foreldri tilkynnir Vinnumálastofnun um svo að ljóst sé að vinnuveitandi hafi samþykkt nýja tilhögun á fæðingarorlofi í samræmi við 10. gr. laganna.

Um 12. gr.


    Breyting sú sem lögð er til á 4. mgr. 15. gr. a laganna er í samræmi við þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með lögum nr. 109/2007, og er tilkomin vegna tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta sem tók gildi 1. janúar 2008.

Um 13. gr.


    Lagt til með frumvarpi þessu að eftirlit með framkvæmd laganna verði fært frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar sem annast vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Þannig yrði eftirlitið hjá þeim sem annast framkvæmd laganna en einkum er átt við að fylgst verði með því að foreldrar leggi sannanlega niður störf í fæðingarorlofi og að þeir hagnist ekki á greiðslum úr sjóðnum þannig að um viðbót sé að ræða við tekjur þeirra fyrir sama tímabil. Ljóst er að eftirlitið kallar á nána samvinnu Vinnumálastofnunar og skattyfirvalda við framkvæmd eftirlitsins og þá einkum í sambandi við miðlun upplýsinga. Í þeim tilvikum er grunur leikur á að foreldrar leggi ekki niður launuð störf í fæðingarorlofi er mikilvægt að fylgst sé með staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá þann tíma sem fæðingarorlofi var ætlað að standa yfir í því skyni að ganga úr skugga um að hlutaðeigandi foreldri hafi ekki á sama tíma haft hærri tekjur en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris á viðmiðunartímabili. Enn fremur kann að vera ástæða til að fylgjast með launagreiðslum til foreldra mánuðina á eftir fæðingarorlofinu sem og að samkeyra upplýsingar um greiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði og álagningu skattyfirvalda þegar hún liggur fyrir. Í því skyni að Vinnumálastofnun geti annast eftirlitið er lagt til að skattyfirvöldum beri að láta stofnuninni í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirlitinu en Vinnumálastofnun er eingöngu heimilt að nota þær upplýsingar í þeim tilgangi.

Um 14. gr.


    Með ákvæði þessu er lagt til að í stað orðanna „læknis“ og „aðila“ í 5. mgr. 17. gr. laganna komi orðið sérfræðilæknir en miðað er við að aðstæður móður séu með þeim hætti að hún njóti þjónustu sérfræðilæknis á sviði kvensjúkdóma og fæðingarhjálpar eða annarra sérfræðilækna sem annast móður vegna sjúkdóms hennar er versnar á meðgöngu og veldur óvinnufærni. Enn fremur er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leitað umsagnar annarra sérfræðilækna sé talin ástæða til.

Um 15. gr.


    Lagt er til að gerð verði sambærileg breyting á rétti foreldra til fæðingarstyrks og lagt er til með b-lið 5. gr. frumvarps þessa að gerð verði á rétti foreldra til fæðingarorlofs í tilvikum þegar annað foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi. Er þá gert ráð fyrir að eftirlifandi foreldrið öðlist rétt til fæðingarstyrks sem svarar til réttinda beggja foreldra. Þegar metinn er réttur hins eftirlifandi foreldris á grundvelli laganna er farið eftir aðstæðum þess foreldris óháð stöðu hins látna foreldris við andlátið þannig að hafi eftirlifandi foreldri staðið utan vinnumarkaðar eða verið í minna en 25% starfi getur það átt rétt til fæðingarstyrks í allt að níu mánuði. Hafi eftirlifandi foreldrið hins vegar verið á vinnumarkaði getur það átt rétt til fæðingarorlofs til jafnlangs tíma, sbr. 5. gr. frumvarps þessa. Jafnframt er lagt til að heimild til yfirfærslu réttinda til fæðingarstyrks milli foreldra verði rýmkuð á sama hátt og lagt er til að yfirfærsla réttinda til fæðingarorlofs milli foreldra verði rýmkuð skv. 5. gr. frumvarps þessa. Yrði þá heimilt að yfirfæra réttindi til fæðingarstyrks milli foreldra þegar annað foreldrið er ófært um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðunum í lífi barnsins vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar. Hið sama gildir þegar foreldri er ófært um að annast barn sitt af sömu ástæðum á fyrstu átján mánuðunum eftir að barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Er að öðru leyti vísað til athugasemda um þessi atriði í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins.
    Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um samlagningu búsetutímabila og þar með tryggingatímabila á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig gerðir sem felldar hafa verið undir VI. viðauka samningsins. Þar á meðal er reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, en samkvæmt reglugerðinni ber meðal annars að taka tillit til búsetutíma foreldra í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins við mat á því hvort foreldri teljist eiga rétt á fæðingarstyrk skv. VI. kafla laganna. Ákvæði reglugerðarinnar gilda milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, milli Norðurlandanna, þ.m.t. Færeyja og Grænlands, sbr. Norðurlandasamning um almannatryggingar og samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar, og gagnvart Sviss, sbr. stofnsamning Fríverslunarsamnings Evrópu. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd laganna en eðlilegt er talið að kveðið sé skýrt á um hvers konar reglur skuli gilda við mat á tryggingatímabilum milli ríkja að þessu leyti.
    Þá er lagt til það nýmæli að forsjárlausir foreldrar sem standa utan vinnumarkaðar eigi jafnframt rétt á greiðslu fæðingarstyrks enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir. Leiðir slíkt samþykki af inntaki forsjár en skv. 28. gr. barnalaga, nr. 76/2003, ber foreldri sem fer eitt með forsjá barns sín að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.

Um 16. gr.


    Þær breytingar sem lagðar eru til á 19. gr. laganna svara til þeirra breytinga sem lagðar eru til á 18. gr. laganna um fæðingarstyrk til þeirra sem standa utan vinnumarkaðar eða eru í minna en 25% starfi. Er því vísað til athugasemda við 15. gr. frumvarps þessa að því er það varðar. Enn fremur er lagt til að ákveðin atriði sem hefur verið að finna í reglugerð nr. 1056/ 2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að því er varðar rétt foreldra í fullu námi til fæðingarstyrks verði færð í lög. Þar á meðal er lagt til að skilyrði um viðunandi námsárangur verði fært í lögin og jafnframt sú heimild að litið sé til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Jafnframt er lagt til að sú heimild að taka tillit til aðstæðna móður þegar hún getur ekki stundað nám sitt á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna verði færð í lögin en áður hefur eingöngu verið kveðið á um þessa heimild í reglugerð. Er þá átt við sambærilegar heilsufarsástæður og eiga við um veikindi móður sem valda óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum hefur verið átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni, eða fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni, sbr. 9. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Er gert ráð fyrir að móðir leggi fram vottorð sérfræðilæknis sem hefur annast hana á meðgöngu til staðfestingar á heilsufari hennar á þeim tíma. Lagt er til að fellt verði brott það skilyrði að móðir hafi átt rétt á sjúkradagpeningum þann tíma sem hún stundaði ekki nám sitt með viðunandi hætti þar sem reynslan hefur sýnt að margar konur hafa leitast við að stunda nám sitt eftir mætti og því ekki átt rétt á sjúkradagpeningum. Hefur ekki þótt sanngjarnt að það hafi leitt til þess að þær hafi orðið af réttinum til fæðingarstyrks eftir fæðingu barns.
    Þá er lagt til það nýmæli að tekið verði sérstakt tillit til foreldra sem dveljast erlendis en stunda fjarnám við íslenska skóla sem svarar til fulls náms að því leyti að þeim sé veitt undanþága frá lögheimilisskilyrði 2. mgr. 19. gr. laganna, sem verður 3. mgr., enda uppfylli þeir skilyrði fyrir fæðingarstyrk foreldra í fullu námi að öðru leyti. Er þá átt við tilvik þegar foreldrar hafa flutt lögheimili sitt tímabundið til útlanda, t.d. vegna fjölskylduaðstæðna sinna, en hafa átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Er þar með verið að tryggja foreldrum í fullu námi við íslenska skóla sama rétt til fæðingarstyrks hvort sem þeir stunda námið með hefðbundnum hætti eða eru í fjarnámi en fjarnám er þess eðlis að nemendur geta stundað það frá öðrum ríkjum. Eru þá gerðar sömu kröfur um staðfestingu skóla um að foreldri í fjarnámi hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur.

Um 17. gr.


    Lagt er til að ákvæðið verði fært til samræmis við framkvæmd laganna sem og 16. gr. laganna þannig að kveðið verði skýrt á um það skilyrði að fleiri en eitt barn skuli fæðast á lífi svo að foreldrar njóti réttar til framlengingar á greiðslu fæðingarstyrks vegna fjölburafæðingar sem og að ákvæðið eigi einnig við um frumættleiðingar og töku í varanlegt fóstur.

Um 18. gr.


    Breytingar þær sem lagðar eru til á ákvæði þessu svara til þeirra breytinga sem lagðar eru til að gerðar verði á 17. gr. laganna, sbr. 14. gr. frumvarps þessa. Er því vísað til athugasemda við 14. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.


    Lagt er til að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði geti farið saman þannig að foreldri geti haldið áfram að fá lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar er það leggur niður störf í fæðingarorlofi og fær sem nemur 80% af tekjum sínum úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. laganna.

Um 20. gr.


    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um að óheimilt sé að gera fjárnám í greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk sem foreldri kann að eiga rétt á samkvæmt lögunum og hafa ekki verið greiddar til foreldris. Ástæðan er sú að um er að ræða greiðslur sem eru ætlaðar til framfærslu foreldris og þeirra sem hann er framfærsluskyldur við yfir tiltekinn tíma sem ókominn er. Þá er jafnframt lagt til að óheimilt sé að taka sömu greiðslur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 21. gr.


    Breyting sú sem lögð er til á 35. gr. laganna er í samræmi við þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með lögum nr. 109/2007, og er tilkomin vegna tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta sem tók gildi 1. janúar 2008.

Um 22. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi 1. júní 2008 og eigi við um rétt foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar. Breytingar þær sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu taka ekki til foreldra sem þegar eru í fæðingarorlofi er lögin taka gildi. Mæður, sem hafa nýtt sér rétt sinn samkvæmt gildandi lögum að hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag en börn þeirra fæðast 1. júní 2008 eða síðar, öðlast rétt í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000,
um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru gerðar nokkrar breytingar á framkvæmd núgildandi laga með hliðsjón af reynslu þeirra sem fara með framkvæmd laganna og öðrum ábendingum. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem munu hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Fyrst ber að nefna breytingar á viðmiðunartímabilinu og viðmiðunartekjum sem lagt er til grundvallar útreikningum á greiðslum úr lífeyrissjóði. Samkvæmt núgildandi lögum er miðað við meðaltal heildarlauna foreldra yfir tvö tekjuár á undan fæðingarári barns, en með frumvarpinu er lagt til að þessu verði breytt þannig að miðað verði við meðaltal heildarlauna foreldra yfir tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Þó er gert ráð fyrir að viðmiðunartímabil vegna foreldra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar verði tekjuárið á undan fæðingarári barns. Áætlað er að þessi breyting muni auka útgjöld ríkissjóð um allt að 400 m.kr. á ári. Auk þess er lagt til að miða skuli við meðalheildarlaun foreldra fyrir það tímabil sem viðkomandi hefur verið á vinnumarkaði í skilningi laganna. Þannig munu orlofsgreiðslur, atvinnuleysisbætur, fæðingarorlofsgreiðslur o.fl. einnig reiknast með í viðmið við fæðingarorlofsgreiðslur en ekki bara atvinnutekjur. Þessi breyting mun á móti lækka útgjöld ríkissjóðs um 130–270 m.kr. eftir því hvernig vægi annarra tekna foreldra, en atvinnutekna, á viðmiðunartímabilinu þróast. Í annan stað er lagt til að foreldri sem er ófært um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðum eftir fæðingu þess verði heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs. Nokkur óvissa er um þennan kostnað en sem dæmi gætu útgjöld aukist um 35 m.kr. ef reiknað er með að um 50 foreldrar á ári framselji rétt sinn. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á fæðingarstyrk þannig að forsjárlausir foreldrar öðlist rétt til fæðingarstyrks. Einnig er lagt til að námsmenn sem hafa verið í fjarnámi öðlist rétt til fæðingarstyrks án tillits til búsetu. Áætlað er að þetta muni samtals auka árleg útgjöld um 8 m.kr. Í síðasta lagi er lagt til að eftirlit með framkvæmd laganna verði færð frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir einu nýju stöðugildi hjá Vinnumálastofnun og að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 10 m.kr.
    Verði frumvarpið að lögum er áætlað að árleg útgjöld ríkissjóðs muni aukast samtals um 180–320 m.kr. á ári. Þar sem gert er ráð fyrir að frumvarpið muni taka gildi frá og með 1. júní 2008 munu 110–190 m.kr. falla til á þessu ári. Vakin er athygli á því að ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum 2008.