Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 496. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 790  —  496. mál.




Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 2008.

Flm.: Jón Bjarnason, Atli Gíslason og Álfheiður Ingadóttir.




Skv. fjárl.
m.kr.

Breyting
m.kr.

Tillaga
m.kr.

Breytingar á sundurliðun 2:
    1.     Við 06-310 Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
        1.01 Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu          2.970,0     200,0     3.170,0
         Greitt úr ríkissjóði           2.912,1     200,0     3.112,1
    2.     Við bætist nýr fjárlagaliður:
         06-492 Efling almennrar löggæslu hjá sýslumannsembættum
        1.01 Efling almennrar löggæslu hjá sýslumannsembættum,
                þ.m.t. tollgæslu og landamæraeftirlits          0,0     400,0     400,0
         Greitt úr ríkissjóði           0,0     400,0     400,0


Greinargerð.


    Hér er lagt til að auknum fjármunum verði varið til eflingu almennrar löggæslu, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni, ekki síst á Suðurnesjum. Sams konar tillaga var sett fram í breytingartillögu þriggja þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2008, en var þá felld af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna.
    Flutningsmenn telja að þetta frumvarp leiðrétti mistök sem gerð voru við fjárlagagerðina, enda var upphaflega breytingartillagan lögð fram á sínum tíma vegna staðfestra frétta af fjársvelti lögreglunnar og niðurskurði í rekstri hennar. Ástandið hefur því miður ekki skánað og stöðugar fréttir hafa borist af manneklu og skerðingu löggæslu, ekki síst á Suðurnesjum.

Fjársvelti og skipulagsleysi af hendi stjórnvalda háir almennri löggæslu í landinu.
    Algjört öngþveiti er að skapast hjá löggæslunni í landinu vegna fjárskorts og skipulagsleysis. Sameinuð tollgæsla, öryggisvarsla og flugvernd lögreglu og landamæragæsla á Suðurnesjum hefur gefist vel að mati þeirra sem þar starfa. Þessum verkefnum á nú að sundra á hin ýmsu ráðuneyti í sparnaðarsyni og án þess að nokkur greining á málinu hafi farið fram. Félög löggæslumanna hafa mótmælt þessum vinnubrögðum harðlega
    Mikið fjársvelti háir allri löggæslu á Suðurnesjum. Þörfin hefur m.a. aukist í tengslum við vaxandi umferð fólks og síaukna vöruflutninga um flugvöllinn og vegna aukins eftirlits með innflutningi fíkniefna. Engu að síður hefur starfsfólki í þessum störfum verið fækkað.
    Víða hefur sameining lögregluumdæma á landinu ekki reynst vel og hún hefur leitt til skertrar löggæslu á stórum landssvæðum. Það er því bæði fjárskortur og skipulagsleysi sem setur nú almenna löggæslu í uppnám og ógnar öryggi fólks á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og um allt land. T.d. fækkaði lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu úr 347 í 339 frá 1. feb. 2005 til 1. feb. 2007. Svipaða sögu er að segja um þróun löggæslu á Suðurnesjum og á öðrum landsvæðum. Meðfylgjandi fylgiskjöl sýna stöðu mála og að þetta ófremdarástand var fyrirsjáanlegt við gerð fjárlaga sl. haust. Þá eru og birtar áskoranir frá samtökum sveitarfélaga, stéttarfélögum og fleiri aðilum um úrbætur í þessum málum þegar í stað. Þess vegna flytjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þetta frumvarp til fjáraukalaga þar sem tekið er á brýnasta fjárhagsvanda löggæslunnar í landinu.



Fylgiskjal I.


Bókun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjun.
(14. mars 2008.)


    Stjórn SSS lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fjárhagsvanda sem blasir við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.
    Stjórn SSS minnir á að þegar sameining lögregluembættanna á Suðurnesjum var kynnt átti hún að styrkja og efla löggæslu á Suðurnesjum. Frá þeim tíma hefur fækkað verulega í lögregluliðinu og útlit er fyrir enn meiri niðurskurð ef ekkert verður að gert til að treysta rekstrargrundvöll embættisins.
    Stjórn SSS vekur enn á ný athygli á mikilli aukningu á umsvifum í kringum flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli og öryggisgæslu ásamt örri fjölgun íbúa á svæðinu.
    Þá er einnig vísað til ályktunar aðalfundar SSS frá 10. nóvember sl. um löggæslumál þar sem m.a. er vakin athygli á rekstrargrundvelli og húsnæðismálum embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum.
    Stjórn SSS treystir því að stjórnvöld bregðist nú þegar við þessum mikla vanda og eyði þeirri óvissu sem löggæslan á Suðurnesjum býr við í dag.



Fylgiskjal II.


Bókun bæjarstjórnar Grindavíkur.
(12. mars 2008.)


    Bæjarstjórn Grindavíkur hefur miklar áhyggjur af stöðu löggæslumála í Grindavík og á Suðurnesjum og skorar á dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra að tryggja fjárframlög til löggæslu á svæðinu. Þannig megi tryggja að fjöldi lögreglumanna verði að minnsta kosti sá sami og var við sameiningu lögregluembættanna þann 1. janúar 2007.
    Það er algjörlega óásættanlegt að lögreglumönnum hafi fækkað um allt að 20 frá sameiningu embættanna.



Fylgiskjal III.


Fundur tollvarða á Suðurnesjum.
(Frétt á ruv.is, 27. mars 2008.)


    Tollverðir á Suðurnesjum hittust á fjölmennum fundi í kvöld til að ræða fyrirhugaðar breytingar á meðal annars lög- og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Í lok fundar var samþykkt ályktun þar sem meðal annars kemur fram að tollverðir óttist að fíkniefnaeftirlit, tolleftirlit, eftirlit með innflutningi á vopnum og öðrum ólöglegum varningi versni í kjölfar breytinganna.
    Í ályktuninni er líka lýst yfir stuðningi við Jóhann Benediktsson, lögreglustjóra. Kári Gunnlaugsson, aðaldeildarstjóri tollgæslunnar á Suðurnesjum segir að það hafi skipt sköpum um þann árangur sem tollurinn á svæðinu hafi sýnt á undanförnum árum að hafa Jóhann sem yfirmann.
    Fundurinn óskaði eftir því að dómsmálaráðherra endurskoðaði ákvörðun sína, enda sjá tollverðir engar efnislegar eða fjárhagslegar ástæður fyrir þessari ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra. Þeir óttast að breytingarnar verði til þess að hin áratuga langa og góða samvinna löggæsluaðila á Suðurnesjum muni minnka.



Fylgiskjal IV.


Jón Bjarnason og Atli Gíslason:

Það er stórhættulegt að svelta almenna löggæslu í landinu.
(Morgunblaðið, 25. mars 2008.)


    Þær fjárhagskröggur sem lögreglan á Suðurnesjum á nú í ættu ekki að koma neinum á óvart. Þær voru ekki aðeins fyrirsjáanlegar heldur líka fyrirséðar. Fyrir lágu bæði bréf og greinargerðir sem sýndu að í óefni stefndi hjá löggæslunni í landinu vegna sveltistefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna lögðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram tillögur við fjárlagagerðina um að hækka framlög til almennrar löggæslu á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Öryggi almennings skert.
    Ófremdarástand er að skapast víða og öryggi íbúanna hvað varðar löggæslu er í uppnámi. Nefna má að álíka margir lögreglumenn þjóna nú höfuðborgarsvæðinu öllu og áður sinntu Reykjavík einni. Hliðstæð fækkun í lögreglu hefur einnig orðið á Suðurnesjum en verkefnin stóraukist á móti.
    Hins vegar hefur embætti ríkislögreglustjóra, sérstakt gæluverkefni dómsmálaráðherra, þanist út, meðal annars á kostnað almennrar löggæsluþjónustu í landinu. Án þess að nokkur þarfagreining hafi farið fram hefur á skömmum tíma verið fjölgað í sérsveit ríkislögreglustjóra úr 18 manns í á sjötta tug. Eins og Steingrímur J. Sigfússon benti á við fjárlagagerðina hefur almenn löggæsla, jafnt í höfuðborginni sem á landsbyggðinni, verið í miklu fjársvelti þannig að embættin eiga í vaxandi erfiðleikum með að manna lágmarksgæslu.

Kaldar kveðjur frá dómsmálaráðherra.
    Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, sendir stjórnendum löggæslunnar á Suðurnesjum kaldar kveðjur á bloggsíðu sinni. Í stað þess að axla ábyrgð sem ráðherra brigslar hann löggæslunni um agaleysi í meðferð fjármála og að fara á svig við fjárreiðulög. Ekki er séð í hvaða glerhúsi Björn er en fjárlaganefnd var gerð rækilega grein fyrir fjárskorti löggæslunnar á Suðurnesjum á ferð sinni þar síðla hausts. Þá höfðu sveitarfélögin á svæðinu einnig sent skrifleg erindi um málið til Alþingis.
    Allt þetta lá ljóst fyrir við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Það er því mjög ómaklegt af ráðherranum að vega að embættisheiðri stjórnenda löggæslumála. Þeir hafa líka embættis- og ábyrgðarskyldum gagnvart samfélaginu að gegna og hafa nú ítrekað tilkynnt að embættið geti ekki sinnt skyldum sínum fyrir það fjármagn sem skammtað er á fjárlögum.

Heræfingar Samfylkingarinnar: 1,5 milljarðar.
    Samfylkingin tekur hins vegar heræfingar fram fyrir löggæsluna. Í fjárlögum ársins 2008 fékk utanríkisráðherra um 1.500 milljónir króna í ný útgjöld til „varnarmála“ og heræfinga á íslenskri grund. Hvort ætli tryggi nú betur öryggi okkar Íslendinga hefðbundin löggæsla eða stríðsleikir NATÓ á Miðnesheiði?
    Þingmenn VG lögðu við afgreiðslu fjárlaga fram tillögur um auknar fjárveitingar til löggæslunnar, bæði á Suðurnesjum, Reykjavíkursvæðinu og úti um land. Á móti lögðum við til lækkanir á fjárveitingum til ríkislögreglustjóra og til heræfinga hinnar nýju Varnarmálastofnunar Samfylkingarinnar. Meirihlutinn á Alþingi felldi þessar tillögur enda er húsaginn á þeim bæ þannig að því sem ráðherra leggur til á fjárlögum þorir meirihlutinn á Alþingi lítið að hreyfa. Við búum við „ráðherrafjárlög“.

Fjáraukalög strax eftir páskahlé.
    Það stendur ekki á okkur þingmönnum vinstri grænna að svara kalli almennar löggæslu áður en í algjört óefni er komið. Um leið og þing kemur saman á ný eftir páskahlé munum við leggja fram frumvarp til fjáraukalaga um aukin framlög til almennrar löggæslu í landinu og til að leysa lögregluna undan þeim fjárkröggum sem ríkisstjórnin hefur komið henni í.



Fylgiskjal V.


Atli Gíslason og Jón Bjarnason:

Stórefla þarf almenna löggæslu.
(Óbirt grein.)


    Allt frá voðaatburðunum í New York 11. september 2001 hafa mannréttindi, réttindi borgaranna, einstaklingsfrelsi okkar, verið skert eða takmörkuð í þágu svokallaðrar baráttu gegn hryðjuverkum. Yfirlýst markmið hryðjuverkamanna í árásum á Bandaríkin og önnur lönd var og er að grafa undan vestrænum lýðræðis- og mannréttindagildum. Þeim hefur því miður orðið býsna ágengt. Stefna Bush-stjórnarinnar er gjaldþrota og henni verður að andmæla harðlega á Íslandi sem annars staðar.
    Það hefur aldrei gefist vel að mæta ofbeldi með ofbeldi en upp á hvað horfum við: Natóhernaður í Afganistan, innrás í Írak, milljarða stuðningur við árásarstefnu Ísraels gegn Palestínumönnum og þannig mætti lengi telja. Ofbeldi fæðir af sér ofbeldi og vítahringnum vex fiskur um hrygg. Í Bandaríkjunum hefur æ meira fjármagni verið varið til hermála á kostnað annarra samfélagsþátta, og ýmsar aðrar þjóðir endurtaka þau sömu mistök. Afleiðingarnar hafa þegar komið fram í auknu ofbeldi og hryðjuverkum.

Fetað í fótspor Bush-stjórnarinnar.
    Fjárframlög ríkisstjórnar Íslands til löggæslu í þágu almennings, til grenndargæslu, til allrar löggæslu sem mestu máli skiptir í þágu borgaranna hafa almennt staðið í stað eða verið skert þrátt fyrir stóraukin verkefni. Staðan hefur í raun versnað eftir nýlega sameiningu lögreglustjóraembætta. Aðkoma Samfylkingarinnar að ríkisstjórn hefur því miður engu breytt.
    Á sama tíma hefur embætti ríkislögreglustjóra þanist út og útgjöld hækkað ár frá ári um hundruð milljóna. Sífellt fleiri og jafnframt ný verkefni hafa verið færð til miðstýrðrar ráðstjórnar ríkislögreglustjóra. Þar ber mest á verkefnum sem lúta að svokölluðum öryggismálum, að meintri en alls óskilgreindri hryðjuverkaógn í kjölfar hörmunganna í Bandaríkjunum 11. september 2001. Árið 2003 voru 18 manns í sérsveit ríkislögreglustjóra en nú starfar þar á sjöunda tug sérsveitarmanna án þess að nokkur fagleg þarfagreining hafi farið fram. Sama gildir um svonefnda greiningardeild og aðra leyniþjónustustarfsemi ríkislögreglustjóra, eftirlit með einstaklingum.
    Æðstu yfirmenn hjá embætti ríkislögreglustjóra viðurkenna reyndar að Íslendingum stafi lítil sem engin ógn af hryðjuverkamönnum og vita sem er að fíkniefnabölið og umferðarslys taka óásættanlegan mannlífstoll af þjóðinni.

Öfugsnúin forgangsröðun.
    Í fjáraukalögum fyrir árið 2007 og í fjárlögum fyrir árið 2008 voru ætlaðir 2,3 milljarðar til hernaðar eða hernaðartengdra mála. Fyrirhugað er að stofna svokallaða Varnarmálastofnun og þar stefnir í tveggja milljarða útgjöld á ári. Á sama tíma skellir ríkisstjórnin skollaeyrum við ítrekuðum áskorunum sveitarstjórna, sambanda sveitarfélaga, félögum lög- og tollgæslumanna og fleiri um að stjórnvöld bregðist þegar í stað við þeim mikla fjárhagsvanda sem almenn löggæsla býr við og eyði þeirri óvissu sem nú ríkir.
    Sýnu verst er ástandið á Suðurnesjum. Það liggur fyrir að verkefni lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum hafa margfaldast. Það er því nöturlegt að fá fregnir af því að nýleg sameining lögregluembætta á Suðurnesjum hafi leitt til þess að lögreglumenn eru 18 færri en fyrir sameininguna. Í Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum er staðan þannig að lögreglumenn eru að verða jafn sjaldséðir og hvítir hrafnar. Sama staða er reyndar uppi í öllu Suðurkjördæmi og um land allt.
    Þessi samdráttur í löggæsluþjónustu skapar óöryggi fyrir íbúa og er ávísun á aukin afbrot. VG lagði til við fjárlagagerð fyrir árið 2008 að fjárveitingar til almennrar löggæslu yrðu auknar verulega en þær tillögur voru allar felldar af Samfylkingar- og Sjálfstæðisþingmönnum ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin gefur ekki bara vitlaust í þessum málaflokki, hún er á dapurlegum villigötum. Það verður að stórefla löggæsluþjónustu við allan almenning og hverfa af braut hernaðarhyggju. VG mun halda áfram baráttu sinni fyrir því.