Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 389. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 795  —  389. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um tillögur nefndar um bætta lýðheilsu á Íslandi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður aðgerðum til að fylgja eftir tillögum nefndar um bætta lýðheilsu sem skilaði af sér skýrslu og tillögum til forsætisráðherra 11. september 2006?

    Mótun heilsustefnu (lýðheilsustefnu) íslensku þjóðarinnar og framkvæmd hennar er samvinnuverkefni þar sem fullt tillit er tekið til þeirrar vinnu sem þegar hefur farið fram á vettvangi sveitarfélaga, opinberra aðila og í grasrótinni. Mikil vinna hefur farið fram á vettvangi heilsueflingar á undanförnum árum og margar góðar tillögur verið settar fram. Þessar tillögur eru lagðar til grundvallar í þeirri vinnu sem nú fer fram í mótun heilsustefnu. Hugmyndin er að gera tilraun til að samhæfa reynslu okkar, stefnu og aðgerðir. Vinna að heilsustefnu er nú í fullum gangi í heilbrigðisráðuneytinu. Að því máli starfar stýrinefnd ráðherra undir formennsku dr. Ingu Dóru Sigfúsdóttur. Verkefnisstjóri er Héðinn Unnsteinsson, sérfræðingur í stefnumótun. Stefnan ber með sér andblæ breyttrar hugmyndafræði þar sem áhersla er lögð á þá þætti sem móta heilsu okkar og líðan og er leitast við að vinna að styrkingu þeirra þátta sem efla heilbrigði. Markmiðin eiga að vera mælanleg þannig að á hverjum tíma sé hægt að leggja faglegt mat á útkomuna og leggja línur um framhaldið. Við stefnumörkunina hefur verið leitað fyrirmynda frá Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Bretlandi og víðar. Aðferðafræðin við stefnumótunina miðar að því að leiða aðila ríkis og samfélags að sameiginlegum markmiðum. Aðferðafræði stefnunnar var kynnt með grein heilbrigðisráðherra í Morgunblaðinu þann 29. nóvember sl. og var þeim sem óskuðu eftir því boðið að koma á framfæri athugasemdum á netfanginu: heilsustefna@hbr.stjr.is.
    Fyrstu drög heilsustefnunnar verða kynnt á vormánuðum. Að því búnu verður stefnan opin til athugasemda í ákveðinn tíma. Í kjölfarið verður kynnt aðgerðaráætlun tengd stefnunni til skemmri tíma, eða út árið 2009. Á sama tíma er gert ráð fyrir að vinna stærri aðgerðaráætlun tengdri stefnunni til ársins 2012.
    Tillögur nefndar um bætta lýðheilsu sem skilaði af sér skýrslu og tillögum til forsætisráðherra 11. september 2006 undir yfirskriftinni „Léttara Líf“ hafa verið notaðar í stefnumörkunarferlinu að heilsustefnunni og tillit verður tekið til þeirra við gerð fyrstu framkvæmdaáætlunar heilsustefnunnar.