Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 525. máls.

Þskj. 826  —  525. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og breyting á lögum
nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 147. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Upplýsingar úr hlutafélagaskrá skal vera unnt að veita með rafrænum hætti.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að senda tilkynningar og fylgiskjöl til hlutafélagaskrár með rafrænum hætti og hefur það sama gildi og tilkynningar sem eru sendar á skriflegu formi.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Upplýsingar úr hlutafélagaskrá skal vera unnt að veita með rafrænum hætti.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að senda tilkynningar og fylgiskjöl til hlutafélagaskrár með rafrænum hætti og hefur það sama gildi og tilkynningar sem eru sendar á skriflegu formi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til innleiðingar á ákvæðum um rafræna skráningu upplýsinga í hlutafélagaskrá samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB frá 15. júlí 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 68/151/EBE (1. félagaréttartilskipunin) að því er varðar birtingarskyldu félaga af tiltekinni gerð. Samkvæmt tilskipuninni skulu stjórnvöld sjá til þess að félög geti valið hvort þau senda skjöl og upplýsingar til hlutafélagaskrár á pappír eða með rafrænum hætti. Einnig skal vera tryggt að hagsmunaaðilar geti fengið endurrit af skjölum og upplýsingum úr skránni hvort heldur er á pappír eða með rafrænum hætti.
    Framangreind tilskipun var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2004 frá 23. apríl 2004 og lögð fyrir Alþingi í tillögu til þingsályktunar á 131. löggjafarþingi 2004–2005 (þskj. 642, 436. mál). Aðrir þættir tilskipunarinnar hafa verið innleiddir með lögum nr. 18/2006, um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 29/2006, um breytingu á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
    Á grundvelli tilskipunarinnar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að nýr málsliður bætist við 2. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög og 2. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög sem kveði á um að upplýsingar úr hlutafélagaskrá skuli vera unnt að veita með rafrænum hætti. Slíkar upplýsingar eru meðal annars tilkynningar til hlutafélagaskrár ásamt stofnsamningi og önnur gögn vegna stofnunar félags. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að nýr málsliður bætist við 3. mgr. 147. gr. laga um hlutafélög og 3. mgr. 121. gr. laga um einkahlutafélög sem kveði á um að heimilt sé að senda tilkynningar ásamt nauðsynlegum fylgiskjölum til hlutafélagaskrár með rafrænum hætti.
    Í IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er fjallað um rafræna meðferð stjórnsýslumála og er gert ráð fyrir því að sá kafli verði hafður til hliðsjónar varðandi nánari skilgreiningu á því hvað telst vera sending með rafrænum hætti.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög,
og breytingu á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um rafræna skráningu og miðlun upplýsinga í hlutafélagaskrá í samræmi við tilskipun frá Evrópuþinginu og ráðinu nr. 2003/58/ EB. Samkvæmt tilskipuninni skal gert kleift að hlutafélög og einkahlutafélög geti sent gögn til hlutafélagaskrár með rafrænum hætti og einnig að hagsmunaaðilar geti fengið endurrit af gögnum úr skránni með rafrænum hætti. Slík rafræn miðlun í tengslum við hlutafélagaskrá er þegar fyrir hendi hér á landi og er ekki gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins leiði til teljandi útgjalda fyrir ríkissjóð.