Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 530. máls.

Þskj. 831  —  530. mál.



Frumvarp til laga

um fiskeldi.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna.
    Við framkvæmd laganna skal þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar á íslensku forráðasvæði. Við framkvæmd þeirra skal gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Alifiskur: Fiskur sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum.
     2.      Eldisdýr: Lifandi fiskur, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
     3.      Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra vatnadýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
     4.      Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu fiskeldis.
     5.      Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fisk í veiðivatni eða sjó.
     6.      Fiskræktarslepping: Slepping samstofna smáseiða eða gönguseiða í því skyni að auka fiskigengd í veiðivatni eða sjó.
     7.      Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     8.      Fiskur: Fiskur í merkingu laga þessara tekur til allra tegunda lagardýra sem lifa í vatni og sjó, hvort sem er við náttúrulegar aðstæður eða í eldi.
     9.      Geldstofn: Fiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
     10.      Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
     11.      Hafbeit: Sú starfsemi að sleppa seiðum í sjó til að auka afrakstur viðkomandi tegundar.
     12.      Heilsárseldi: Hefðbundið eldi í sjókvíum frá 50 gramma göngustærð upp í markaðsstærð.
     13.      Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu.
     14.      Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðbúinn kynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali í hverri kynslóð.
     15.      Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
     16.      Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
     17.      Nytjastofnar: Fiskar og sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru eða kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi, íslensku landgrunni eða á landi með eldi.
     18.      Sjávarfiskur: Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.
     19.      Sjókvíaeldi: Eldi á fiski í netbúrum sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni.
     20.      Sjór: Salt vatn utan árósa.
     21.      Skiptieldi: Eldi á fiski í strandeldi upp í 250-1.000 grömm og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð.
     22.      Strandeldi: Eldi fiska til slátrunar í tönkum eða kerum á landi.
     23.      Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
     24.      Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
     25.      Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
     26.      Vatnadýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
     27.      Vatnafiskur: Lax (Salmo salar), silungur (urriði (Salmo trutta), bleikja (Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykiss)), áll (Anguilla anguilla) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
     28.      Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
     29.      Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
     30.      Villtur fiskstofn: Fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.
     31.      Örmerkingar: Merkingar á fiski með málmflísum í trjónuna.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
4. gr.
Stjórnsýsla.

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Fiskistofu sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Ráðherra skal í samræmi við fyrirmæli einstakra greina laga þessara setja nánari ákvæði um framkvæmd þeirra í reglugerð. Við setningu reglugerða skal ávallt leitað faglegrar umsagnar Fiskistofu, Matvælastofnunar, Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Allar fiskeldisstöðvar skulu hafa með sér samtök, Landssamband fiskeldisstöðva, sem gæta sameiginlegra hagsmuna fiskeldismanna.

5. gr.
Svæðaskipting fiskeldis.

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skal, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæla með því, ákveða samkvæmt lögum þessum skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins. Áður en ákvörðun um slíka svæðaskiptingu er tekin skal ráðherra afla umsagnar umhverfisráðuneytis, Fiskistofu, Matvælastofnunar, Landssambands fiskeldisstöðva, Landssambands veiðifélaga, Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar.

6. gr.
Staðbundið bann við starfsemi.

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur, að fenginni umsögn Fiskistofu, Matvælastofnunar, Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar, takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart starfsemi þeirri sem fram fer samkvæmt lögum þessum.
    Við ákvörðun ráðherra skv. 1. mgr. skal taka mið af því að markmið laga þessara er m.a. að vernda villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, og hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Skal í því sambandi m.a. litið til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar frá veiðiám og veiðiverðmætis á viðkomandi svæði, þ.e. firði eða flóa. Jafnframt skal litið til þess hvort fiskeldissvæði séu á gönguleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í ár.
    Um skaðabætur vegna tjóns, sem leiðir af banni eða takmörkun samkvæmt grein þessari, fer eftir því sem mælt er fyrir um í 18. gr.

III. KAFLI
Rekstrarleyfi til fiskeldis.
7. gr.
Rekstrarleyfi.

    Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf rekstrarleyfi sem Fiskistofa veitir.
    Áður en leyfi skv. 1. mgr. er veitt skal Fiskistofa afla umsagnar Matvælastofnunar. Einnig skal stofnunin leita umsagnar Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar eftir því sem við á um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi.
    Sé um endurnýjun á rekstrarleyfi að ræða telst ekki nauðsynlegt að afla slíkra umsagna enda sé ekki um verulegar breytingar að ræða á eðli og umfangi reksturs.

8. gr.
Umsókn um rekstrarleyfi.

    Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð, fagþekkingu umsækjenda rekstrarleyfis á viðkomandi sviði, stærð stöðvar, framleiðslumagn hennar, eldistegundir og eldisaðferðir, matsskyldu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Umsókn skulu fylgja skilríki um heimild til afnota lands, vatns og sjávar. Umsókn skulu einnig fylgja áætlun um fjármögnun mannvirkja og annars búnaðar, rekstraráætlun, leyfi til mannvirkjagerðar, leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíkan atvinnurekstur, svo og önnur gögn sem Fiskistofu eru nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.

9. gr.
Málsmeðferð umsóknar.

    Við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skal Fiskistofa leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar.
    Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á þá þætti sem um getur í 1. mgr. getur Fiskistofa lagt fyrir umsækjanda að láta í té frekari upplýsingar áður en rekstrarleyfi er veitt. Í því skyni getur stofnunin lagt fyrir hann að rannsaka á eigin kostnað hvort fyrirhuguð starfsemi fiskeldisstöðvar feli í sér aukna hættu á fisksjúkdómum eða hvort um neikvæð vistfræðileg áhrif geti orðið að ræða.
    Rannsóknir umsækjanda skv. 2. mgr. geta m.a. falist í merkingum á fiski, samantekt á veðurfars- og haffræðilegum upplýsingum, samantekt um aðra hagsmuni í veiðimálum og fiskeldi á svæðinu, mat á stöðu fiskstofna í helstu ám á svæðinu og mat á göngu laxfiska í nágrenni fyrirhugaðrar eldisstöðvar. Ráðherra getur í reglugerð mælt nánar fyrir um þau atriði sem rannsókn lýtur að.

10. gr.
Efni og útgáfa rekstrarleyfis.

    Telji Fiskistofa að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi til tíu ára í senn. Ef vistfræðileg rök mæla með því er heimilt að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma.
    Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar og hvort um sé að ræða seiðaeldi, strandeldi, skiptieldi eða heilsárseldi. Þá skal í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna, leyfilegt framleiðslumagn og skyldu rekstrarleyfishafa til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Jafnframt skulu í rekstrarleyfi vera ákvæði um varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski, og ákvæði um áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að mæla fyrir um nánari skilyrði sem setja má í rekstrarleyfi. Slík skilyrði geta m.a. falið í sér skyldu leyfishafa til að standa að rannsóknum sambærilegum þeim sem greinir í 2. og 3. mgr. 9. gr. og skyldu til vöktunar á nærliggjandi veiðivötnum, vöktunar á kynþroska og heilbrigði fiska í eldi o.fl.
    Við útgáfu rekstrarleyfis skal þess ávallt gætt að fullnægt sé ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

IV. KAFLI
Starfræksla fiskeldisstöðva.
11. gr.
Upphaf starfsemi.

    Rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum tekur þá fyrst gildi þegar Fiskistofa hefur gert úttekt á fiskeldisstöð. Markmið úttektar er að staðreyna eftir föngum að rekstrarleyfishafi sé fær um að fullnægja skilyrðum laga þessara og skilmálum rekstrarleyfis.
    Fiskeldisstöðvum er óheimilt að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldisstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið og úttekt hefur farið fram.

12. gr.
Friðunarsvæði í sjó.

    Fiskistofu er heimilt, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar, að ákveða friðunarsvæði í sjó framan við frárennsli fiskeldisstöðva með sömu skilyrðum og kveðið er á um í 5. mgr. 15. gr. og 16. gr. laga um lax- og silungsveiði.
    Ef sannað þykir að veiðitakmarkanir skv. 1. mgr. hafi í för með sér tjón á fjárhagslegum hagsmunum eiganda sjávarjarðar skulu þeir bæta honum tjónið sem takmörkunin er til hagsbóta fyrir. Bætur skulu ákveðnar með mati skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði.

13. gr.
Veiðar fisks sem sleppur.

    Rekstrarleyfishafi samkvæmt lögum þessum, sem missir fisk úr fiskeldisstöð, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu.
    Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru og í hans valdi standa, til þess að varna því að slíkur atburður, sem greinir í 1. mgr., valdi vistfræðilegu tjóni. Er honum í því skyni m.a. skylt, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu og án tillits til réttar eigenda sjávarjarða í netlögum, að gera allt sem í hans valdi stendur til að veiddur verði slíkur fiskur á svæði innan 200 metra frá stöðinni. Skal hver eldisstöð eiga og viðhalda nauðsynlegum búnaði í því skyni. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um hvernig að slíkum veiðum skal staðið.
    Skylda til veiða skv. 2. mgr. takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að ljóst er að fiskur hafi sloppið út, ef slíkur atburður gerist á göngutíma laxfiska, en veiðitíminn í slíkum tilvikum skal að öðru leyti háður ákvörðun Fiskistofu. Veiðar þær sem hér um ræðir skulu ávallt fara fram í samráði við fulltrúa Fiskistofu.
    Ef rekstrarleyfishafi hefur ekki hafið aðgerðir skv. 2. mgr. innan tólf klukkustunda frá því að ljóst er að eldisfiskur slapp út getur Fiskistofa, ef þörf krefur, gefið út almenna heimild til veiða á svæðinu með sömu skilyrðum og fram koma í 2. mgr.
    Allan kostnað Fiskistofu og annarra stjórnvalda vegna nauðsynlegra aðgerða samkvæmt þessari grein skal rekstrarleyfishafi greiða.

14. gr.
Eftirlit og skýrslugjöf.

    Fiskistofa skal hafa eftirlit með fiskeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga þessara. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi stöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu haldin. Eftirlit með heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða skal hins vegar framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við lög þar að lútandi.
    Til að Fiskistofa geti framkvæmt eftirlit skv. 1. mgr. skal rekstrarleyfishafi árlega gefa Fiskistofu skýrslu um starfsemi sína. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um framleiðslumagn stöðvar, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski, uppruna hans, sjúkdóma og önnur óhöpp í rekstri, svo og önnur þau atriði sem stofnuninni eru nauðsynleg til virks eftirlits samkvæmt lögum þessum. Þá skal færð dagbók um starfsemina í fiskeldisstöðvum samkvæmt reglugerð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur. Fiskistofu skal ætíð vera heimill aðgangur að eldisstöð og dagbók hennar.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla nánar fyrir um eftirlitshlutverk Fiskistofu. Fiskistofu er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og skal brot á henni varða refsingu skv. 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Fyrir eftirlit Fiskistofu eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum skulu fiskeldisstöðvar greiða árlegt eftirlitsgjald sem miðast við raunkostnað við eftirlitið samkvæmt gjaldskrá sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir. Eftirlitsgjald skal innheimt með einni greiðslu á ári eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Fiskistofa skal annast innheimtu eftirlitsgjaldsins. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðir dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags. Eftirlitsgjald má innheimta með fjárnámi.

V. KAFLI
Afturköllun rekstrarleyfis.
15. gr.
Forsendubrestur.

    Ef fiskeldisstöð hefur ekki innan 24 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun, sem fylgdi umsókn í samræmi við ákvæði 8. gr., er Fiskistofu heimilt að fella rekstrarleyfi úr gildi. Sama gildir ef starfsemi fiskeldisstöðvar stöðvast í 24 mánuði.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skal Fiskistofa ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.

16. gr.
Afturköllun rekstrarleyfis.

    Fiskistofa getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis eða skilyrðum þess er að öðru leyti ekki fullnægt. Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi verður ófær um að stunda rekstur og þegar eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skal Fiskistofa ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
17. gr.
Framsal.

    Framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis án skriflegs samþykkis Fiskistofu er óheimil. Slíku samþykki skal þinglýst í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.

18. gr.

Skaðabætur.

    Ef rekstrarleyfishafi samkvæmt lögum þessum verður umfram aðra fyrir tjóni vegna þess að tekin er ákvörðun um bann eða takmörkun á starfsemi með heimild í 6. gr. laga þessara skal slíkt tjón bætt úr ríkissjóði. Um ákvörðun bóta fer samkvæmt almennum reglum.
    Ef sannað þykir að missir eldisfisks úr fiskeldisstöð valdi tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa, sem verndar njóta samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi bæta tjónið á grundvelli mats skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Hið sama á við um tjón annarra þeirra sem hafbeit, fiskeldi eða fiskrækt stunda.
    Ef sannað þykir að starfsemi samkvæmt lögum þessum valdi tjóni í veiðivatni samkvæmt lax- og silungsveiðilögum í öðrum tilvikum en þeim sem greinir í 2. mgr. skal það tjón bætt eftir mati skv. VII. kafla þeirra laga, ef eigi semur.

19. gr.
Tilflutningur eldisfisks.

    Kynbættan eldisfisk er eingöngu heimilt að nýta til fiskeldis og óheimilt er að sleppa honum í fiskrækt eða hafbeit. Þó getur Fiskistofa veitt rannsóknaraðila undanþágu til sleppitilrauna í óverulegum mæli, að fenginni umsögn Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunarinnar eða Veiðimálastofnunar eða annarra fagaðila ef ástæða þykir til.
    Flutningur eldistegunda, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli fiskeldisstöðva, svo og flutningur og sleppingar lifandi fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða, er óheimill.
    Að fenginni umsögn Matvælastofnunar getur Fiskistofa veitt rekstrarleyfishafa undanþágu til flutnings á eldistegundum, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli fiskeldisstöðva ef ástæður mæla ekki gegn slíku. Fiskistofa skal í þeim tilvikum einnig leita umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar eða Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða vatnasvæði eða sjávarsvæði gefa tilefni til neikvæðra vistfræðilegra áhrifa.

20. gr.
Eldisbúnaður.

    Innflutningur á notuðum eldisbúnaði er óheimill. Til slíks búnaðar teljast eldiskvíar, eldisker, nætur, fóðrar og fiskidælur. Þó er heimilt að flytja inn notuð vísindatæki og tæknibúnað, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísinda- og tæknibúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um notkun flutningstækja og búnaðar sem notaður er í starfsemi rekstrarleyfishafa.

VII. KAFLI
Reglugerðarheimild, refsiákvæði o.fl.
21. gr.
Reglugerðarheimild o.fl.

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara með reglugerð. Þar skal m.a. kveðið á um útgáfu rekstrarleyfa, merkingar á seiðum í kvíaeldi, fóðurnotkun, endurnýjun eldisbúnaðar, úttekt á fiskeldisstöðvum, eftirlit með starfsemi fiskeldisstöðva, flutning eldistegunda milli fiskeldisstöðva, flutning fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða o.fl.
    Fiskistofu er, eftir því sem þörf krefur, heimilt að setja svæðis- eða tímabundnar reglur á grundvelli slíkra reglugerða.

22. gr.
Um refsingar.

    Það varðar stjórnarmenn og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar:
     a.      ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi,
     b.      ef þeir brjóta gegn ákvæðum 1. eða 2. mgr. 13. gr. laga þessara af ásetningi eða gáleysi,
     c.      ef fiskeldisstöðvar gefa ekki lögboðnar skýrslur um starfsemi sína eða veita eftirlitsmönnum rangar upplýsingar,
     d.      ef fiskeldisstöðvar gerast að öðru leyti brotlegar gagnvart lögum þessum.

VIII. KAFLI
Gildistökuákvæði.
23. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008. Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma lög nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, og lög nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Frá gildistöku laga þessara og til loka ársins 2010 skal starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra, laga um lax- og silungsveiði, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum. Hlutverk samráðsnefndar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Nefndin skal skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og í henni sitja ellefu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangaveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, Félagi eigenda sjávarjarða, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Matvælastofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og Hafrannsóknastofnuninni. Þá skipar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og einnig fiskeldisnefndar sem starfar skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, með síðari breytingum, og 4. gr. laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum en með því er stefnt að því að sameina í einn lagabálk ákvæði laga um eldi vatnafiska og eldi nytjastofna sjávar þar sem báðar þessar atvinnugreinar heyra nú undir sama ráðuneytið.
    Heildarendurskoðun fór fram á árinu 2006 á ákvæðum laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og var sú leið verið farin að skipta efni þeirra upp og greina í fimm lagabálka, lög um lax- og silungsveiði, lög um fiskrækt, lög um eldi vatnafiska, lög um varnir gegn fisksjúkdómum og lög um Veiðimálastofnun. Lá því til grundvallar það sjónarmið að skipa saman í lagabálka þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga en skilja að öðru leyti á milli. Mynda þau þá lagaumgjörð sem áður var að finna í lax- og silungsveiðilögunum einum en jafnframt var öll stjórnsýsla við lagaframkvæmdina einfölduð. Eldi vatnafiska heyrði hins vegar á þeim tíma undir landbúnaðarráðuneytið og eldi nytjastofna sjávar undir sjávarútvegsráðuneytið og var því ekki unnt að sameina fiskeldi samkvæmt þeim lögum í einn lagabálk.
    Með lögum nr. 109/2007, um breytingu á lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, hafa hins vegar verið gerðar breytingar á skipan ráðuneytanna þar sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti hafa verið sameinuð í eitt ráðuneyti.
    Einnig voru gerðar verulegar breytingar á skipan stjórnsýslu fiskeldis með lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, þar sem Landbúnaðarstofnun var gefið nýtt nafn, Matvælastofnun, og öll stjórnsýsla matvælamála var flutt til þeirrar stofnunar, m.a. öll stjórnsýsla að því er varðar fiskeldi. Fyrir gildistöku laganna féll eldi vatnafiska hins vegar undir eftirlit og starfsemi Landbúnaðarstofnunar sem fór með stjórnsýslu veiðimála, og eldi nytjastofna sjávar undir eftirlit og starfsemi Fiskistofu.
    Enn þá gilda ekki sömu lög um þessar atvinnugreinar þar sem lög nr. 57/2006 gilda um eldi vatnafiska en lög nr. 33/2002 um eldi nytjastofna sjávar. Þar sem allt fiskeldi fellur nú undir sama ráðuneytið, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, og einnig sömu stjórnsýslustofnun er talið rétt að sömu lög og stjórnvaldsreglur gildi eftir því sem kostur er um þessa atvinnugrein án tillits til þess hvort um er að ræða eldi vatnafiska eða nytjastofna sjávar. Einnig skal þess getið að þær gerðir EES-samningsins sem varða fiskeldi og Ísland er skuldbundið til að fara eftir gera almennt ekki mun á því hvort um er að ræða eldi vatnafiska eða nytjastofna sjávar en í flestum tilvikum gilda sömu gerðirnar um þessar atvinnugreinar. Með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til verður auðveldara að innleiða gerðirnar með sömu stjórnvaldsreglum fyrir allt fiskeldi.
    Þar sem áherslur hafa breyst í starfsemi Matvælastofnunar sem hefur fengið aukin verkefni á sviði matvælaeftirlits samkvæmt framangreindum lögum er einnig lagt til að allt fiskeldi verði nú flutt til Fiskistofu. Sú stofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit með nytjastofnum sjávar og er því talið að stjórnsýsla og eftirlit með fiskeldi eigi nú að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á starfsemi Matvælastofnunar meira sameiginlegt með starfsemi Fiskistofu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að almennt eftirlit með fiskeldi verði hjá Fiskistofu og að sú stofnun fari með þá þætti í starfsemi fiskeldis sem lúta að útgáfu rekstrarleyfa, veiðistjórnun ferskvatnsfiska og stjórnsýslu um það efni ásamt eftirliti sem taki til rekstrarlegra og fiskeldisfræðilegra þátta. Áfram er þó gert ráð fyrir að Matvælastofnun fari með eftirlit með lögum og stjórnvaldsreglum sem lúta að matvælaeftirliti og heilbrigði eldisfiska.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fyrir Alþingi annað frumvarp til laga um flutning stjórnsýsluverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. frá Matvælastofnun til Fiskistofu. Er þar m.a. gert ráð fyrir að þeir starfsmenn Matvælastofnunar sem sinna þeim verkefnum flytjist til Fiskistofu. Gera má ráð fyrir að sömu starfsmenn sinni að mestu eða öllu leyti einnig þeim verkefnum á sviði fiskeldis sem stefnt er að því að flytja til Fiskistofu með frumvarpi þessu.
    Við gerð þessa frumvarps hefur verið ákveðið að leggja til grundvallar efnisskipan og helstu ákvæði laga nr. 57/2006 en þó leitast við að aðlaga ákvæðin þannig að þau nái einnig yfir þau ákvæði sem koma fram í lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar.
    Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 57/2006 er gerð grein fyrir aðdraganda, efni og gerð frumvarpsins og einnig hvaða breytingar það hafði að geyma frá eldri lögum nr. 76/1970 að því er varðar eldi ferskvatnsfiska.
    Þar sem frumvarp þetta felur ekki í sér miklar efnisbreytingar á frumvarpi því sem varð að lögum nr. 57/2006, að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að það gildi einnig um nytjastofna sjávar, þykir rétt til glöggvunar og skýringar að gera grein fyrir almennum athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi. Í greinargerð með frumvarpinu sagði m.a., sbr. Alþingistíðindi A-deild, 132. löggjafarþing 2005–2006, þskj. 879, 595. mál:
     „Á árinu 2001 ákvað landbúnaðarráðherra að endurskoða skyldi ákvæði gildandi lax- og silungsveiðilaga í því skyni að færa ákvæði þeirra til nútímahorfs að efni og formi. Unnið var jafnt og þétt að verkinu frá áramótum 2004/05 með það að markmiði að unnt yrði að leggja fram frumvarp til nýrra lax- og silungsveiðilaga og annarra tengdra laga við upphaf haustþings 2005. Nefnd sú sem vann að endurskoðun löggjafarinnar var skipuð þeim Þorgeiri Örlygssyni, dómara við EFTA-dómstólinn í Lúxemborg, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ingimari Jóhannssyni, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og dr. Páli Hreinssyni, prófessor við sömu deild. Með nefndinni störfuðu Arnar Þór Stefánsson, héraðsdómslögmaður á Lex-Nestor lögmannsstofu, og Atli Már Ingólfsson, lögfræðingur og deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Þá hefur dr. Sigurður Guðjónsson, forstöðumaður Veiðimálastofnunar, verið ráðgjafi við samningu frumvarpsins. Í september 2005 var afrakstur af vinnu nefndarinnar kynntur á vef landbúnaðarráðuneytisins og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á því að gera athugasemdir við drög að frumvörpunum. Bárust nefndinni athugasemdir frá 34 aðilum og samtökum. Fór nefndin yfir þær athugasemdir og tók tillit til þeirra eftir því sem efni stóðu til.
    Endurskoðun löggjafar á þessu sviði er afar umfangsmikið verkefni þar sem gæta þarf fjölþættra hagsmuna og lagaskila. Stofn gildandi löggjafar er að hluta til frá árinu 1932, þótt ný lög hafi verið sett 1941, 1957 og 1970. Með einstökum lögum hafa síðan verið gerðar fjölmargar breytingar á gildandi stofnlögum á hverjum tíma. Tilraunir til heildarendurskoðunar laganna á síðustu áratugum hafa hins vegar ekki borið árangur.
    Við þá lagaendurskoðun sem nú hefur farið fram hefur sú leið verið farin að einfalda löggjöfina og gera framsetninguna markvissari. Er að því stefnt með þrennum hætti. Í fyrsta lagi hafa verið samin frumvörp um fjóra þætti eða málaflokka sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði og þannig gert ráð fyrir að sérlög gildi á þeim sviðum. Þetta eru ákvæði um Veiðimálastofnun, ákvæði um varnir gegn fisksjúkdómum, ákvæði um fiskrækt og síðast en ekki síst ákvæði um fiskeldi sem frumvarp þetta hefur að geyma. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að nánari útfærsla einstakra atriða verði í reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra og reglum settum af Landbúnaðarstofnun. Í þriðja lagi hefur uppbyggingu laganna verið breytt, bæði í því skyni að einfalda og skýra, sem og að samræma fyrirkomulag og uppbyggingu laganna viðteknum viðhorfum við lagasmíð í upphafi 21. aldar.
    Til þess að benda sem skýrast á nauðsynlegt samhengi umræddrar löggjafar eru frumvörp sem lúta að þessum fjórum málaflokkum lögð fram samhliða frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði og ráðgert að þau öll og málaflokkurinn í heild fái þannig samræmda þinglega meðferð og afgreiðslu. Í því samhengi er rétt að benda á að lög um lax- og silungsveiði verða eins konar þungamiðja þessarar lagasetningar, en hin frumvörpin fjögur koma þar til fyllingar og stuðnings, þótt þau samkvæmt efni sínu séu sjálfstæð. Er því ástæða til þess að vísa til fyllingar athugasemdum þessum til ítarlegra almennra athugasemda með nýju frumvarpi til lax- og silungsveiðilaga sem að breyttu breytanda þykja jafnframt taka til þess sviðs sem þetta frumvarp fjallar um.
    Ákvæði um fiskeldi, og að sínu leyti hafbeit, hafa verið í lögum um langa hríð. Ákvæði IX. kafla gildandi laga um lax- og silungsveiði eru að hluta grundvölluð á endurskoðun sem fram fór á árinu 1994, sbr. lög nr. 63/1994, en í meginatriðum er þó um endurskoðun að ræða sem fram fór á árinu 2001, sbr. lög nr. 83/2001. Með tilliti til þess hve skammur tími er liðinn frá þeirri endurskoðun þykja ekki efni til neinnar umbyltingar reglna IX. kafla gildandi laga. Að ósk stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva voru ákvæði um hafbeit tekin út úr frumvarpi þessu og er hafbeit nú skipað í frumvarp til laga um fiskrækt. Þess skal getið að nánast engar hafbeitarstöðvar eru nú starfandi og ekki fyrirsjáanlegt að til starfrækslu fleiri stöðva verði stofnað á komandi árum. Allt að einu verða í lögum að vera ákvæði um slíka starfsemi og þykir best fara á því að þeim sé skipað í lögum um fiskrækt.
    Auk nokkurra efnisbreytinga á ákvæðum um fiskeldi, sem flestar eru óverulegar, er hér fyrst og fremst um breytingar að ræða sem leiðir af breyttu formi og tilhögun löggjafar á þessu sviði og fyrr er um fjallað, sem og breyttu fyrirkomulagi á skipan stjórnsýslu landbúnaðarmála.
    Við gerð frumvarps þessa var haft samráð við stjórn Landssambands fiskeldisstöðva og tillit tekið til fjölmargra ábendinga sem frá þeim komu.
    Hér fara á eftir athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins. Er hér um hefðbundna efnisskipan að ræða. Svo sem fyrr segir er ekki um að ræða verulegar efnisbreytingar frá reglum IX. kafla gildandi laga um lax- og silungsveiði en einstakar athugasemdir eru nokkuð ítarlegar enda óhjákvæmilegt að rekja þar uppruna einstakra greina og samsvörun þeirra í gildandi lögum.
    Þá er vakin á því athygli að eftirtaldar greinar IX. kafla gildandi lax- og silungsveiðilaga eru felldar á brott í heild sinni af þeim ástæðum sem nánar eru nú tilgreindar:
    Lokamálsliður 9. mgr. 62 gr. gildandi laga er felldur brott en þar er kveðið á um það að brjóti rekstrarleyfishafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn lögunum eða skilyrðum rekstrarleyfis sé veiðimálastjóra heimilt að afturkalla rekstrarleyfi án undanfarandi viðvörunar eða frests til úrbóta. Ákvæði þessa efnis eru nú í 16. gr. frumvarpsins. Þykir hvorki heppilegt né eðlilegt að stjórnsýslustofnun sem Landbúnaðarstofnun sé falið að meta sakarstig með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir í 9. mgr. 62. gr. gildandi laga i.f. Er þannig gert ráð fyrir að aðili rekstrarleyfis fái í öllum tilvikum viðvörun og frest til úrbóta.
    Ekki er tekið upp í frumvarpið efni sem svarar til reglna 63., 64. og 65. gr. gildandi laga. Ekki þykja efni til þess að taka upp í ný lög sérstaka eignarnámsheimild til handa veiðifélögum til þess að afla lands og vatns til byggingar og starfsemi klak- og eldisstöðva, en slík heimild er nú í 63. gr. gildandi laga. Þykir slík heimild til handa veiðifélögum sérstaklega hvorki nauðsynleg né aðkallandi. Er eðlilegt að til slíkra framkvæmda sé stofnað með samningum. Reglur 64. og 65. gr. gildandi laga þykja eiga sér næga stoð í V. kafla frumvarps til laga um lax- og silungsveiði og eftir atvikum í reglum vatnalaga. Þykir ekki vera þörf á því að taka upp sérstök fyrirmæli í þá veru í þessi lög.
    Þá leiðir það af eðli máls að ákvæði 66. og 67. gr. gildandi laga eiga ekki erindi í sérlög um eldi vatnafiska.“
    Eftir gildistöku þessara laga er gert ráð fyrir að ákvæði laga nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, gildi um fisksjúkdóma á sviði alls fiskeldis. Þá er gert ráð fyrir að um innflutning fiskeldisdýra og afurða þeirra fari eftir lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, svo og stjórnvaldsreglum sem settar hafa verið með heimild í þeim.
    Að öðru leyti vísast um efni frumvarpsins til frumvarps til laga nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 132. löggjafarþing 2005–2006, þskj. 879, 595. mál, og einnig frumvarps til laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 127. löggjafarþing 2001–2002, þskj. 424, 333. mál, en gert er ráð fyrir að bæði lögin verði felld úr gildi verði frumvarp þetta að lögum. Þá eru skýringar við einstakar greinar frumvarpsins hér á eftir einnig byggðar á þeim athugasemdum sem þar koma fram við einstakar greinar frumvarpa til áðurnefndra laga, einkum laga nr. 57/2006. Til glöggvunar og í þeim tilgangi að auðvelda framkvæmd laganna hafa þær athugasemdir sem fram koma í frumvarpi til laga nr. 57/2006 að mestu leyti verið teknar upp í athugasemdir við einstakar greinar þessa frumvarps. Einstakar breytingar eru þó lagðar til á þeim í því skyni að aðlaga þær að því að gert er ráð fyrir að lögin gildi bæði um vatnafiska og nytjastofna sjávar, svo og þeim breytingum á eftirliti sem gert er ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér. Enn fremur er ekki gert ráð fyrir að fiskeldisnefnd starfi eftir gildistöku laganna en hún hefur hingað til starfað á grundvelli 4. gr. laganna og verið eins konar samvinnuvettvangur um fiskeldi í ferskvatni og eldi nytjastofna sjávar sem áður heyrðu undir tvö ráðuneyti og fleiri stofnanir. Eftir að báðir málaflokkarnir hafa nú verið færðir undir eitt ráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, er ekki talin lengur þörf á að hafa slíkan samvinnuvettvang.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla er að finna hefðbundin ákvæði um markmið og gildissvið laganna, sbr. 1. og 2. gr. Þá eru í 3. gr. ítarlegar skilgreiningar hugtaka.

Um 1. gr.

    Markmiðið með setningu sérstakra laga um fiskeldi er, svo sem nánar kemur fram í greininni, að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Svo sem kunnugt er hefur fiskeldi sem atvinnugrein átt misjöfnu gengi að fagna á umliðnum árum og áratugum. Þá hafa orðið deilur milli þeirra sem veiðirétt eiga að villtum ferskvatnsfiskstofnum og þeirra sem fiskeldi vilja stunda. Eigi að síður eru bundnar við það vonir að atvinnugrein þessi geti eflt atvinnulíf og byggð í landinu og þannig skilað þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum, svo sem raun hefur á orðið með öðrum þjóðum. Með gildistöku laga þessara er ætlunin því sú að stuðla eftir föngum að möguleikum manna til fiskeldis og setja þeirri atvinnugrein jafnframt skýrar reglur og umgjörð.
    Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar hagsmunir þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu. Sér þessa m.a. stað í 6. og 13. gr. frumvarpsins og í bótareglum 2. og 3. mgr. 18. gr.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um það að lögin taki til eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar á íslensku forráðasvæði. Þarfnast sú útlistun á gildissviði þeirra ekki sérstakra skýringa. Þá er jafnframt kveðið á um það í 2. gr. að við framkvæmd laganna skuli gætt samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum en einnig hafa gilt um þennan málaflokk lög um eldi nytjastofna sjávar.

Um 3. gr.

    Í greininni eru skilgreind helstu hugtök sem fyrir koma í frumvarpinu, sem og hugtök sem lýsa ýmsum þeim afbrigðum sem fyrir koma við lagalega útfærslu heimilda til fiskeldis. Þar koma fram hugtök úr bæði lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, og lögum nr. 57/2006, um eldi vatnafiska. Hefur sú leið verið valin eins og í lögum nr. 57/2006 að skýra fremur fleiri en færri hugtök og styðst sú aðferð við þau rök að þótt tiltekin hugtök komi ekki fyrir í lögunum sjálfum þá kunni þau að verða notuð í reglugerðum og reglum settum á grundvelli laganna. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um II. kafla.

    Í II. kafla er gerð grein fyrir stjórnsýslu fiskeldismála, heimild ráðherra til skiptingar landsins í einstök fiskeldissvæði og heimild ráðherra til að mæla fyrir um bann við fiskeldi á tilteknum landsvæðum. Í 5. og 6. gr. er að finna frávik frá þeirri meginreglu að Fiskistofa annist framkvæmd stjórnsýslu samkvæmt lögunum, enda er þar um að ræða viðamikil inngrip í atvinnuréttindi þeirra sem í greininni kjósa að starfa. Þykir eðlilegt að ákvarðanir þar að lútandi séu teknar af æðsta handhafa stjórnsýslunnar, þ.e. ráðherra.

Um 4. gr.

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn fiskeldismála. Framkvæmd stjórnsýslunnar er hins vegar í höndum Fiskistofu sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Gert er ráð fyrir að fiskeldisnefnd, sem nú starfar á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2006, verði felld niður og starfi ekki lengur eftir gildistöku laganna. Nefndinni er samkvæmt gildandi lögum ætlað að vera stjórnvöldum og hagsmunaðilum til ráðgjafar og stefnumótunar í fiskeldismálum og vera nokkurs konar samráðsvettvangur fleiri ráðuneyta og stofnana sem farið hafa með fiskeldismál. Eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti hafa verið sameinuð og stjórnsýsla fiskeldis á einstökum sviðum flutt að mestu leyti til einnar stofnunar telst ekki þörf lengur á að nefndin starfi.
    Í 3. mgr. er loks að finna reglu sama efnis og nú er í 4. gr. laga nr. 57/2006 og var áður í 73. gr. laga um lax- og silungsveiði varðandi skyldu allra fiskeldisstöðva til að hafa með sér samtök sem gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra.

Um 5. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ákveða skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins. Sambærilega reglu er nú að finna í 5. gr. gildandi laga um eldi vatnafiska og hún var einnig í 6. málsl. 77. gr. eldri laga um lax- og silungsveiði þar sem hún var lögtekin með 5. gr. laga nr. 83/2001. Þó er ekki gert ráð fyrir ákvörðun ráðherra um heildarframleiðslu á hverju svæði enda tekið á slíku í rekstrarleyfum. Við það er nú miðað í frumvarpsgreininni að svæðaskipting af þessu tagi styðjist við vistfræðileg rök, og því er gert ráð fyrir að ævinlega skuli afla umsagnar fag- og hagsmunaaðila áður en slík ákvörðun er tekin.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er kveðið á um heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að takmarka eða banna fiskeldi eða eldisaðferðir á ákveðnum svæðum þar sem sérstök hætta er talin stafa af slíkri starfsemi. Reglur sambærilegar 1. og 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar eru nú í 6. gr. laga nr. 57/2006 en voru áður í 2.–5. málsl. 77. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Þau viðmið, sem leggja ber til grundvallar áður en slík ákvörðun er tekin sem um ræðir í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar, eru tíunduð í 2. mgr. og skýra sig að mestu sjálf í ljósi þeirra ástæðna sem skv. 1. mgr. geta heimilað beitingu þessa úrræðis. Með neikvæðum vistfræðiáhrifum í skilningi 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar og annars staðar þar sem hugtakið kemur fyrir í frumvarpi þessu er m.a. átt við erfðablöndun. Ákvæðið gildir um villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska.
    Í 3. mgr. er síðan gert ráð fyrir að til bótaréttar af hálfu handhafa rekstrarleyfis geti komið vegna beitingar heimildarinnar, en um bótaskilyrði og ákvörðun bótafjárhæðar er nánar fjallað í 18. gr.

Um III. kafla.

    Í III. kafla eru ákvæði um rekstrarleyfi til fiskeldis. Skv. 7. gr. er starfsemi sem fellur undir ákvæði laganna leyfisskyld. Styðst það við þau rök að fiskeldi getur, eins og reynslan hefur sýnt, ógnað vistkerfi ferskvatnsfiska. Með því leyfisveitingarferli og eftirliti, sem frumvarpið byggist á, eru líkur til að draga megi úr slíkri hættu. Í 8. gr. eru fyrirmæli um þær kröfur sem umsókn um rekstrarleyfi skal fullnægja. Í 9. gr. eru ákvæði um málsmeðferð umsóknar og í 10. gr. eru ákvæði um efni og útgáfu rekstrarleyfis.

Um 7. gr.

    Efni frumvarpsgreinarinnar svarar til 7. gr. laga nr. 57/2006 og 1. mgr. 62. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970, með breyttri framsetningu. Þá er gert ráð fyrir því að Fiskistofa skuli leita umsagnar Matvælastofnunar þannig að gætt sé samræmis í útgáfu rekstrarleyfa til alls fiskeldis, jafnt vatna- sem sjávarfiska.
    Þá er í 2. mgr. greinarinnar nýmæli þess efnis að sé um endurnýjun að ræða á rekstrarleyfi teljist ekki nauðsynlegt að afla slíkra umsagna enda sé ekki um að ræða verulegar breytingar miðað við eðli og umfang reksturs.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. er mælt fyrir um hvaða skilyrðum umsókn um rekstrarleyfi skal fullnægja. Svarar efni frumvarpsgreinarinnar til 8. gr. laga nr. 57/2006 og 2. mgr. 62. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970. Skylda til upplýsingagjafar þjónar þeim tilgangi að rekstrarleyfi verði einungis veitt þeim sem fyrir fram getur sýnt fram á að hann sé líklegur til að fullnægja skilyrðum laga og rekstrarleyfis, komi til útgáfu þess. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. frumvarpsins, sem svarar til 9. gr. laga nr. 57/2006 og 3. mgr. 62. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970, er mælt fyrir um þá málsmeðferð sem umsókn um rekstrarleyfi sætir og hvaða sjónarmið Fiskistofa skal leggja til grundvallar við meðferð umsóknar.
    Vegna þeirrar hættu, sem fiskeldi getur haft í för með sér fyrir lífríki villtra ferskvatnsfiskstofna, þykir ekki ósanngjarnt að leyfisveitandi geti mælt fyrir um skyldu umsækjanda til að standa að þeim rannsóknum sem nánar er mælt fyrir um í 2. og 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar og kosta þær. Ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að í lengstu lög skuli forðast að sömu þættir séu rannsakaðir af mismunandi stjórnvöldum og því beri að kappkosta að nýta fyrirliggjandi rannsóknir sem fram hafa farið eftir því sem unnt er og stofna ekki til nýrra nema breyttar aðstæður gefi tilefni til. Við það er miðað í 2. málsl. 3. mgr. að ráðherra geti sett nánari fyrirmæli um tæknilega framkvæmd slíkra rannsókna í reglugerð. Þykir fara betur á því að slíkum ákvæðum sé skipað í reglugerð en í lögum. Við setningu reglugerðar ber að sjálfsögðu að gæta þess að ekki séu lagðar víðtækari skyldur og kvaðir á umsækjanda í þeim efnum en nauðsyn krefur með tilliti til þeirra upplýsinga sem leyfisveitandi þarf á að halda við meðferð umsóknar, enda geta rannsóknir þessar verið bæði tímafrekar og kostnaðarsamar.

Um 10. gr.

    Efni greinarinnar svarar til 10. gr. laga nr. 57/2006 og 4. mgr. 62. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970. Rekstrarleyfi til fiskeldisstöðva skulu gefin út til tíu ára í senn sem er sambærilegt og er í 10. gr. laga nr. 57/2006 en þau voru gefin út til fimm ára samkvæmt eldri lögunum nr. 76/1970. Þó verður heimilt að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma ef sérstakar vistfræðilegar ástæður réttlæta slíkt. Er þetta fyrirkomulag í samræmi við ákvæði er gilda um tímalengd starfsleyfa til fiskeldis. Til viðbótar eru þau rök að fjárbinding er mikil í þessum rekstri og langur tími kann að líða þar til fjárfestingin getur farið að skila eigendum sínum tekjum. Ákvæði greinarinnar þarfnast að öðru leyti ekki sérstakra skýringa.

Um IV. kafla.

    Fjórði kafli hefur að geyma reglur þær sem gilda um starfrækslu fiskeldisstöðva eftir að rekstrarleyfi hefur verið gefið út. Í 11. gr. er mælt fyrir um þau skilyrði sem fullnægja þarf áður en starfsemi getur hafist, í 12. gr. er fjallað um heimildir til að takmarka veiðar í sjó í þágu fiskeldisstöðva, í 13. gr. um veiðar fisks sem sleppur úr fiskeldisstöð og loks eru í 14. gr. fyrirmæli um árlega skýrslugjöf rekstrarleyfishafa til Fiskistofu.

Um 11. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins svara til 11. gr. laga nr. 57/2006 og 5. mgr. 62. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970. Í málsgreininni er skýrt út í hvaða tilgangi úttekt skuli gera, þ.e. hún skal framkvæmd til að staðreyna að rekstrarleyfishafi fullnægi skilyrðum laga og skilmálum leyfis. Í 2. mgr. 11. gr. er að finna reglu þá sem nú er í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 57/2006 og var áður í 8. mgr. 62. gr. eldri laga um lax- og silungsveiði og þarfnast hún ekki frekari skýringa.

Um 12. gr.

    Vera kann að starfsemi rekstrarleyfishafa samkvæmt frumvarpinu kalli á það að bann verði lagt við hvers konar veiði sjávar- og ferskvatnsfiska í sjó framan við frárennsli fiskeldisstöðva. Af þeirri ástæðu er mælt fyrir um það í 1. mgr. 12. gr. að Fiskistofu sé heimilt að friða slík svæði fyrir öllum veiðum, hvort sem um er að ræða lax og göngusilung eða sjávarfiska. Svarar ákvæðið til 12. gr. laga nr. 57/2006 og 71. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970.
    Ekki er útilokað að eigendur sjávarjarða, sem stundað hafa lax- og göngusilungsveiðar í sjó framan við frárennsli fiskeldisstöðva, verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna slíkrar takmörkunar sem um ræðir í 1. mgr. Þykir því rétt, svo sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar, að þeir geti öðlast rétt til bóta úr hendi þeirra sem takmörkunin er til hagsbóta fyrir. Ef eigi semur um bætur skal þær ákveða með mati skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að það eru einungis eigendur sjávarjarða sem bótaréttar geta notið samkvæmt ákvæðinu vegna takmörkunar á veiði í netlögum jarða sinna.

Um 13. gr.

    Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að nauðsynlegt er að hafa í lögum ákvæði um hvernig við skuli brugðist ef fiskur sleppur úr eldisstöð, vegna þeirrar hættu sem slíkur atburður getur haft í för með sér fyrir lífríki villtra ferskvatnsfiska. Er því í frumvarpið tekin upp regla sama efnis og nú er í 13. gr. laga nr. 57/2006 og var áður í 72. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970, en hún er þar þó í aðeins breyttu formi. Í gildandi lögum er við það miðað að sleppi fiskur úr eldisstöð sé rekstrarleyfishafa skylt að veiða slíkan fisk á nánar tilgreindu svæði umhverfis stöðina. Í eldri lögum um lax- og silungsveiði var um að ræða heimild í þessa veru. Rétt er að vekja á því athygli að skylda rekstrarleyfishafa til björgunaraðgerða samkvæmt frumvarpsgrein þessari takmarkast ekki á nokkurn hátt af rétti eigenda sjávarjarða í netlögum. Þá er og rétt að taka fram að aðgerðir samkvæmt frumvarpsgreininni eiga að sjálfsögðu ekki að ganga lengra en þörf krefur til að fanga megi þann fisk sem sloppið hefur. Hagsmunir eigenda sjávarjarða af slíku tilefni eru svo sérstaklega varðir í 18. gr. Í 5. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram að allan kostnað stjórnvalda vegna aðgerða samkvæmt greininni beri þeim að greiða sem rekur viðkomandi fiskeldisstöð.

Um 14. gr.

    Svo sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er ráð fyrir því gert að Fiskistofa hafi eftirlit með lagaframkvæmdinni, verði frumvarp þetta að lögum. Gert ráð fyrir að það eftirlit Fiskistofu nái bæði til rekstrarlegra og fiskeldislegra þátta en samkvæmt gildandi lögum er þetta eftirlit á hendi Matvælastofnunar en var áður hjá Landbúnaðarstofnun að því er varðar ferskvatnsfiskeldi. Eftirlit með eldi nytjastofna sjávar var hins vegar hjá Fiskistofu fram að gildistöku laga nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, þ.e. 1. janúar 2008. Til að forðast tvöfalt eftirlit er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir að eftirlit með heilbrigði fiska og heilnæmi eldisafurða verði eingöngu framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við gildandi lög og stjórnvaldsreglur þar að lútandi og er það tekið fram í greininni. Í 14. gr. er gerð frekari grein fyrir eftirlitshlutverki Fiskistofu með rekstri fiskeldisstöðva samkvæmt ákvæðinu. Er hugmyndin að nánar verði mælt fyrir um það í reglugerð, sbr. og 21. gr. frumvarpsins. Í því skyni að gera eftirlitið skilvirkara og markvissara er svo mælt fyrir um í 14. gr. að rekstrarleyfishafi skuli árlega gefa stofnuninni skýrslu um þau atriði sem nánar eru tilgreind í frumvarpsgreininni. Skylda til skýrslugjafar í þessa veru hefur verið í lax- og silungsveiðilögum um nokkra hríð, sbr. 69. gr. og 97. gr. eldri laga um lax- og silungsveiði, og þykir hafa sannað gildi sitt. Þá er óbreytt heimild eftirlitsaðila, þ.e. Fiskistofu, verði frumvarpið að lögum til að fela þeim sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast framkvæmd eftirlits á hennar vegum samkvæmt sérstökum samningi. Að lokum eru ákvæði um eftirlitsgjald sama efnis og nú eru í 14. gr. laga nr. 57/2006 og voru áður í 97. gr. eldri laga nr. 76/1970.

Um V. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um þau tvö tilvik sem leitt geta til þess að rekstrarleyfishafi verði sviptur leyfi sínu. Í 15. gr. er mælt fyrir um sviptingu leyfis vegna forsendubrests, þ.e. þegar rekstrarleyfishafi byrjar ekki starfsemi í samræmi við ákvæði leyfis innan tilskilins tíma, en í 16. gr. er fjallað um aðrar þær orsakir sem leitt geta til niðurfellingar leyfis.

Um 15. gr.

    Regla 15. gr. frumvarpsins á sér samsvörun í 15. gr. laga nr. 57/2006 og var áður í 74. gr. gildandi laga um lax- og silungsveiði, en tímabil í 1. mgr. 74. gr. var þó með 15. gr. laga nr. 57/2006 lengt úr 12 í 24 mánuði og er það óbreytt samkvæmt þessu frumvarpi. Einnig er hér bætt við heimild til að afturkalla rekstrarleyfi ef starfsemi stöðvast í 24 mánuði eða lengri tíma. Liggja því til grundvallar líffræðileg sjónarmið, þ.e. um lengd eldistíma. Í 2. mgr. kemur einnig fram með sama hætti og í sama ákvæði gildanda laga um eldi vatnafiska að til slíkra íþyngjandi aðgerða, sem um ræðir í 1. mgr., sé ekki heimilt að grípa nema rekstrarleyfishafa sé fyrst gefið færi á að bæta úr.

Um 16. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um heimild Fiskistofu til að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga eða skilmálum rekstrarleyfis. Sambærileg ákvæði eru í 16. gr. laga nr. 57/2006 og voru áður í 9. mgr. 62. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970. Með sambærilegum hætti og í 15. gr. er ekki heimilt að grípa til slíks nema rekstrarleyfishafa sé fyrst gefið færi á að bæta úr.

Um VI. kafla.

    Í VI. kafla er ýmis almenn ákvæði að finna sem síður verða heimfærð undir aðra kafla þess. Samkvæmt 17. gr. er framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi óheimil án samþykkis Fiskistofu. Í 18. gr. er mælt fyrir um skaðabótarétt, í 19. gr. felast takmarkanir á tilflutningi eldisfisks og í 20. gr. eru ákvæði um eldisbúnað. Sambærileg ákvæði eru í lögum nr. 57/2006.

Um 17. gr.

    Regla 17. gr. frumvarpsins á sér fyrirmynd í 7. mgr. 62. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970, sbr. og 17. gr. laga nr. 57/2006. Samkvæmt frumvarpsgreininni er framsal, leiga eða veðsetning rekstrarleyfis óheimil án samþykkis Fiskistofu. Í 2. málsl. ákvæðisins kemur fram að þinglýsa skuli slíku samþykki sem hér um ræðir.

Um 18. gr.

    Í þessari grein er að finna reglur um rétt til skaðabóta vegna ýmissa atvika sem að höndum getur borið í tengslum við rekstur fiskeldisstöðva.
    Í 1. mgr. er fjallað um þær aðstæður sem upp geta komið ef fiskeldi er takmarkað eða bannað á grundvelli heimildar í 6. gr. frumvarpsins. Er hér fyrst og fremst horft til þess tilviks þegar slíkt bann beinist gegn aðilum sem þegar hafa fengið rekstrarleyfi og/eða hafið fiskeldi eða beita öðrum eldisaðferðum á slíkum svæðum. Þrátt fyrir að slíkar takmarkanir eða bönn séu almenns eðlis, byggð á málefnalegum grunni og jafnræðis sé gætt fær það ekki staðist bótalaust að aðilar, sem þegar hafa hafið slíka starfsemi á svæðinu í trausti opinbers leyfis, séu sviptir því bótalaust, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þar sem heimild 6. gr. er beitt í þágu þeirra almannahagsmuna að villtum ferskvatnsfiskstofnum sé ekki spillt með fisksjúkdómum eða öðrum neikvæðum vistfræðiáhrifum er eðlilegt að ríkissjóður bæti tjón sem af banni eða takmörkun hlýst, en ekki einstakir veiðiréttarhafar. Felur bótaregla af þessum toga jafnframt í sér nokkurt aðhald í beitingu heimilda skv. 6. gr.
    Í 2. mgr. er á hinn bóginn fjallað um það sérstaka tilvik 13. gr. frumvarpsins að fiskur sleppur úr eldi. Svo sem fram hefur komið getur óhjákvæmilega hlotist meiri eða minni skaði af slíku. Mest hætta steðjar þá að villtum laxfiskastofnum, en ekki er útilokað að hætta geti af þessum sökum steðjað að öðrum fiskeldisstöðvum. Styðst regla 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar við þau rök að eðlilegt sé að rekstrarleyfishafi beri, án tillits til sakar, bótaábyrgð á tjóni sem af slíkum atburði hlýst.
    Regla 3. mgr., sem er sambærileg 3. mgr. 19. gr. laga nr. 57/2006 og á sér fyrirmynd í 70. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970, felur, eins og regla 2. mgr., í sér hlutlæga bótaskyldu rekstrarleyfishafa. Regla þessi á sér nokkra sögu í lögum um lax- og silungsveiði og er henni fyrst og fremst ætlað að taka til þeirra tilvika þegar veiði í veiðivötnum nærri fiskeldisstöð minnkar. Þá þykir eðlilegra í ljósi þess hagsmunamats, sem löggjöf á sviði lax- og silungsveiða felur í sér, að fiskeldisstöðvar beri hallann af því ef staðsetning þeirra og starfsemi veldur sannanlegri rýrnun veiði í nærliggjandi veiðivötnum. Áréttað skal að sönnunarbyrðin vegna slíks skaða/tjóns hvílir með hefðbundnum og óskoruðum hætti á þeim handhöfum veiðiréttar sem telja að viðkomandi veiðivatn hafi orðið fyrir tjóni.
    Að öðru leyti en því sem um er fjallað sérstaklega í 18. gr. frumvarpsins fer um skaðabætur vegna þeirrar starfsemi, sem lög þessi taka til, eftir almennum reglum íslensks skaðabótaréttar.

Um 19. gr.

    Regla 19. gr. frumvarpsins er í öllum aðalatriðum samhljóða reglu 20. gr. laga nr. 57/2006 og 75. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga, nr. 76/1970. Eftirfarandi röksemdir er að finna fyrir lögleiðingu hennar í athugasemdum við frumvarpsgrein þá sem síðar var lögtekin sem 5. gr. laga nr. 83/2001, og þykja þær vera í fullu gildi:
    „Í núgildandi löggjöf eru ekki sambærileg ákvæði en ljóst er að mjög mikilvægt er að slík ákvæði séu í lögum. Flutningar eldistegunda sem ekki eru fyrir í fiskeldis- eða hafbeitarstöðvum milli stöðva geta haft ófyrirsjáanleg og skaðleg áhrif. Einnig er ljóst að flutningur lifandi fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða getur haft skaðleg áhrif, bæði sjúkdómstengd og vistfræðileg.“
    Áréttað er að undanþágur frá þeim meginreglum um bann, sem fram koma í 1. og 2. mgr., sæta þröngum skilyrðum, sbr. útlistun þar að lútandi í 2. málsl. 1. mgr. og 3. mgr. Þá er gert ráð fyrir að í reglugerð þeirri sem sett verður á grundvelli 21. gr. frumvarpsins verði nánar mælt fyrir um skilyrði þess að undanþága verði veitt, sbr. gildandi reglugerð nr. 1011/2003.

Um 20. gr.

    Í greininni er annars vegar mælt fyrir um bann við innflutningi á notuðum eldisbúnaði sem þó má víkja frá liggi fullnægjandi gögn fyrir að mati Matvælastofnunar, svo sem nánar er mælt fyrir um í greininni, en gert er ráð fyrir að sú stofnun fari með þetta eftirlit en ekki Fiskistofa þar sem þetta varðar sjúkdómavarnir og er þar með hluti af matvælaeftirliti. Er reglan sérregla gagnvart ákvæðum frumvarps til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, sbr. einkum 8. gr. þess. Þá er gert ráð fyrir heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um innflutning og notkun flutningstækja og búnaðar sem notaður er í starfsemi rekstrarleyfishafa. Reglur sama efnis eru í 21. gr. laga nr. 57/2006 og voru áður í 76. gr. eldri laga nr. 76/1970.

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla er í fyrsta lagi heimild til útgáfu reglugerðar og í öðru lagi refsiheimild.

Um 21. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til útgáfu reglugerðar til fyllingar ákvæðum laganna. Felur hún jafnframt í sér áréttingu á fyrirmælum eða heimildum í sömu veru skv. 2. mgr. 4. gr., 3. mgr. 9. gr., 3. mgr. 10. gr., 2. mgr. 13. gr., 3. mgr. 14. gr. og 20. gr. Er í 1. mgr. 21. gr. gert ráð fyrir að í reglugerð verði nánar mælt fyrir um útgáfu rekstrarleyfa, merkingar á seiðum í kvíaeldi, fóðurnotkun, endurnýjun eldisbúnaðar, úttekt á fiskeldisstöðvum, eftirlit með starfsemi þeirra, flutning eldistegunda milli fiskeldisstöðva, flutning fisks og frjóvgaðra hrogna milli ótengdra vatnasvæða o.fl. Regla sama efnis er nú í 22. gr. laga nr. 57/2006 og var áður í 1. mgr. 77. gr. eldri laga um lax- og silungsveiði, og reglugerð sú sem sett hefur verið með stoð í ákvæðinu nr. 1011/2003. Er hugmyndin að efni hennar, með þeim nauðsynlegu viðaukum sem af breyttum reglum samkvæmt frumvarpi þessu leiðir, verði uppistaðan í slíkri reglugerð.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti, eftir því sem þörf krefur, sett svæðis- eða tímabundnar reglur á grundvelli reglugerðar skv. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar.

Um 22. gr.

    Eins og nánar er að vikið í 2. mgr. 6. gr. er það eitt af markmiðum frumvarpsins að vernda villta nytjastofna og hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðiáhrifum. Af þeim sökum eru lagðar refsingar við því ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldið hefur verið áfátt. Þá varðar það einnig refsingu ef ekki er brugðist við í samræmi við ákvæði 1. eða 2. mgr. 13. gr. þegar eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð. Ákvæðið er í samræmi við sömu grein laga nr. 57/2006, um eldi vatnafiska. með síðari breytingum.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla eru ákvæði um gildistöku og breytingar á lögum.

Um 23. gr.

    Gildistakan er miðuð við 1. júlí 2008 og falla þá um leið úr gildi ákvæði laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, og laga nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, með síðari breytingum.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Svo sem víða hefur verið vikið að í athugasemdum var við heildarendurskoðun á ákvæðum laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, á árinu 2006 sú leið farin að kljúfa efni þeirra upp og greina í fimm lagabálka, þ.e. lög um lax- og silungsveiði, lög um fiskrækt, lög um varnir gegn fisksjúkdómum, lög um Veiðimálastofnun og lög um eldi vatnafiska. Lá því til grundvallar það sjónarmið að skipa saman í lagabálka þeim atriðum sem efnislega samstöðu eiga en skilja að öðru leyti á milli en saman mynda ákvæði þessara laga þá lagaumgjörð sem áður var að finna í lax- og silungsveiðilögunum einum. Þá var öll stjórnsýsla við lagaframkvæmdina einfölduð.
    Þar sem svo miklar breytingar voru gerðar á lagaumhverfinu var talið nauðsynlegt að tryggja að lagaframkvæmdin geti gengið sem best fyrir sig, agnúar yrðu sniðnir af og samþætting tryggð. Því var í bráðabirgðaákvæði með frumvarpi til laga nr. 57/2006 og reyndar einnig annarra framangreindra laga gert ráð fyrir því að á næstu fimm árum frá gildistöku laganna skyldi starfa samráðsnefnd um framkvæmd þeirra og annarra framangreindra laga. Var nefndinni ætlað að vera samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra aðila sem lagaframkvæmdin varðar helst, fylgjast með og stuðla að greiðri lagaframkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra sem lögin varða helst.
    Þar var gert ráð fyrir að nefndin yrði skipuð til fimm ára, og þau rök færð fyrir því að þá ætti að vera komin reynsla á lagaframkvæmdina. Ef reynslan af starfi nefndarinnar yrði jákvæð yrði með lagabreytingu unnt að festa hana varanlega í sessi.
    Lagt hefur verið til að sambærilegt ákvæði til bráðabirgða verði tekið upp í frumvarp þetta og að nefndin starfi þann starfstíma sem henni var markaður með lögum nr. 57/2006, þ.e. til ársins 2010.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um fiskeldi.

    Markmið þessa frumvarps er að skapa skilyrði til uppbyggingar eldis vatnafisks og nytjastofna sjávar og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu eldi vatnafiska og nytjastofna sjávar og tryggja verndun villtra nytjastofna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftirlit og stjórnsýsla fiskeldismála verði að mestu leyti flutt til Fiskistofu en þessi verkefni eru nú hjá Matvælastofnun. Er þó gert ráð fyrir að eftirlitshlutanum verði skipt milli Fiskistofu og Matvælastofnunar með þeim hætti að Fiskistofa muni hafa eftirlit með þeim þáttum sem snúa að rekstraleyfum, veiðistjórnun ferskvatnsfiska, rekstri og fiskeldisfræði en Matvælastofnun muni hafa eftirlit með þeim þáttum sem snúa að matvælaeftirliti og heilbrigði eldisfiska. Þeim verkefnum sem nú færast frá Matvælastofnun yfir til Fiskistofu samkvæmt frumvarpinu var áður sinnt af embætti veiðimálastjóra, en það embætti sameinaðist Landbúnaðarstofnun, nú Matvælastofnun, við stofnun hennar árið 2006. Við þá sameiningu var 26,6 m.kr. fjárveiting embættis veiðimálastjóra flutt til Landbúnaðarstofnunar í fjárlögum 2006 en það svarar til 29,7 m.kr. á verðlagi fjárlaga 2008.
    Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. til Fiskistofu en samkvæmt því frumvarpi er gert ráð fyrir að flytja stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni á sviði lax- og silungsveiði og fiskræktar og önnur verkefni sem varða stjórnsýslu ferskvatnsfiska frá Matvælastofnun til Fiskistofu. Af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis liggur ekki fyrir ný kostnaðargreining á þeim verkefnum sem um er að ræða. Ráðuneytið miðar við að í tengslum við bæði þessi frumvörp þurfi að millifæra framangreinda 29,7 m.kr. fjárheimild sem rann til Matvælastofnunar í fjárlögum 2006 yfir til Fiskistofu þar sem þau verkefni sem þar lágu til grundvallar eru nú að færast yfir til Fiskistofu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóðs.