Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 532. máls.

Þskj. 833  —  532. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „framkvæma staðfestingu á“ í 1. mgr. kemur: staðfesta.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, er heimilt að staðfesta samvist.
     c.      Í stað orðanna „framkvæmd staðfestingar“ í 2. mgr. kemur: staðfestingu samvistar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 27. júní 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að trúfélögum verði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Frumvarpi þessu er ætlað að hrinda þeirri fyrirætlan í framkvæmd. Þegar samþykkt voru lög um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun), nr. 65/2006, var ákveðið að breyta ekki að svo stöddu vígslurétti trúfélaga enda þyrfti slík breyting lengri aðdraganda.
    Á kirkjuþingi 2007 var samþykkt ályktun þess efnis að yrði lögum um staðfesta samvist breytt þannig að trúfélög fengju heimild til að staðfesta samvist, þá styddi kirkjuþing það að prestum þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, yrði það heimilt. Lagði kirkjuþing áherslu á að frelsi presta í þessum efnum yrði virt. Samkvæmt því hefur náðst sátt innan þjóðkirkjunnar og því betri forsendur til að lögfesta heimild þessa.
    Frumvarpið er aðeins tvær greinar sem skýra sig að mestu sjálfar. Gert er ráð fyrir í b-lið 1. gr. frumvarpsins að vígslumönnum sem hafa á grundvelli 17. gr. hjúskaparlaga heimild til hjónavígslu verði einnig veitt heimild til að staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni. Þarna er einkum um að ræða presta þjóðkirkjunnar og presta og forstöðumenn skráðra trúfélaga. Ekki verði á hinn bóginn um skyldu að ræða þegar þessir vígslumenn eiga í hlut. Virða beri frelsi presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga til að ákveða hvort þeir staðfesti samvist þegar lagaskilyrði eru fyrir hendi en vissulega er á því byggt að þeir muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Ef ástæða þykir til má ætla að þjóðkirkjan og skráð trúfélög muni gefa út leiðbeiningar til vígslumanna sinna um framkvæmd þessarar heimildar.
    Þá er í a- og c-lið 1. gr. frumvarpsins, til samræmis við orðalag b-liðar, lagt til að í stað þess að tala um „framkvæmd staðfestingar á samvist“ verði einfaldlega talað um að „staðfesta samvist“.
    Eins og fyrr segir er með frumvarpinu lagt til að lögleidd verði heimild til handa vígslumönnum skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, til að staðfesta samvist. Sýslumönnum og löglærðum fulltrúum þeirra ber á hinn bóginn eftir sem áður skylda til að staðfesta samvist að fullnægðum settum skilyrðum 2. gr. laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist.
    Lagt er til að lögin taki gildi 27. júní 2008. Sá dagur er alþjóðlegur mannréttindabaráttudagur samkynhneigðra og tóku lögin um staðfesta samvist, nr. 87/1996, gildi þann dag og sömuleiðis lög nr. 65/2006, um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra. Mun þá jafnframt gefast svigrúm fyrir dómsmálaráðherra að endurskoða reglur um könnun á skilyrðum fyrir staðfestri samvist, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 87/1996.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðfesta samvist,
nr. 87/1996, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er mælt fyrir um heimild presta og forstöðumanna trúfélaga til að staðfesta samvist samkynhneigðra.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.