Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 989  —  191. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um samræmda neyðarsvörun.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Frumvarpi til laga um neyðarsvörun var vísað að nýju til allsherjarnefndar að lokinni 2. umræðu um málið.
    Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að rekstur samræmdrar neyðarsvörunar skuli vera í höndum hlutafélags um rekstur slíkrar stöðvar. Nefndin hefur fengið þær upplýsingar að eignarhald á hlutafé í Neyðarlínunni hf. skiptist nú þannig að ríkissjóður eigi 73,6%, Reykjavíkurborg 10,5%, Landsvirkjun 7,9% og Orkuveita Reykjavíkur 7,9%. Í umsögn Neyðarlínunnar um frumvarpið er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um það í frumvarpinu að rekstur samræmdrar neyðarsvörunar skuli vera í höndum hlutafélags þá verði mælt fyrir um að rekstur hennar geti verið í höndum hlutafélags. Ríkislögreglustjóri tekur fram í sinni umsögn að með hliðsjón af eðli starfseminnar sé mikilvægt að forræði félagsins sé á hendi íslenska ríkisins.
    Minni hlutinn gerir athugasemdir við það að rekstri neyðarsvörunar sé komið fyrir í hlutafélagaformi. Um er að ræða þjónustu við almannaheill og öryggi borgaranna, þjónustu sem ómögulegt er að reka öðruvísi en af opinberu fé í þágu almannaheilla en ekki með hagnaðarvon að leiðarljósi líkt og í hlutafélögum. Að neyðarsvörun koma ýmsir aðilar, bæði opinberir aðilar sem sinna löggæslu-, landhelgis-, flugstjórnar- og heilbrigðismálum og annarri almannaþjónustu sem og frjáls félagasamtök sem sinna björgunarmálum o.fl. Með því að neyðarsvörun yrði alfarið rekin af hinu opinbera yrði tryggt að um reksturinn giltu lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulög og upplýsingalög sem er að mati minni hlutans afar brýnt á þessu mikilvæga sviði. Þetta hlýtur einnig að teljast eðlilegt, sér í lagi með vísan til 7. gr. frumvarpsins þar sem segir að starfsfólki vaktstöðvarinnar skuli gert að gæta þagmælsku um atriði sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum og reglugerðum eða eðli máls. Þar er einnig kveðið á um að þagmælskan skuli gilda jafnvel þó að menn láti af störfum og að starfsfólki verði gert að undirrita þagnarheit áður en það hefur störf. Minni hlutinn telur mikilvægt að 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að rekstur samræmdrar neyðarsvörunar verði á hendi ríkisins, þ.e. ekki í höndum hlutafélags.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:

    1. mgr. 8. gr. orðist svo:
    Rekstur vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar skal vera í höndum ríkisins.

Alþingi, 9. maí 2008.



Atli Gíslason.