Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 454. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1034  —  454. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um stöðu samninga við sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu.

     1.      Hvernig standa samningaviðræður við hjartalækna, tannlækna og talmeinafræðinga?
    Viðræðum við sjálfstætt starfandi hjartalækna lauk 2. maí 2008 með undirritun samnings sem gildir til 1. apríl 2010. Samkomulagið var í samræmi við nýgerðan samning við Læknafélag Reykjavíkur, fyrir hönd flestra annarra sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, en grundvallaðist þó jafnframt á aðlögun að endurmetinni þörf fyrir þjónustu hjartalækna.
    Engar viðræður standa yfir við talmeinafræðinga. Þrátt fyrir að samningur sé gildi við Félag talmeinafræðinga hafa flestir talmeinafræðingar sagt sig frá samningnum vegna óánægju með framkvæmd hans. Viðræður hafa ekki borið árangur og engin lausn virðist í sjónmáli. Samningur við félagið rennur út í lok árs 2008.
    Samningur er í gildi við tannlækna um forskoðanir barna. Búið er að boða til fundar um frekari samningaumleitanir.

     2.      Standi samningaviðræður yfir, hvenær er stefnt að þeim ljúki?
    Samningur við Læknafélag Reykjavíkur fól, eins og áður segir, í sér leið til samkomulags við hjartalækna. Vonir standa til þess að hann geti jafnframt orðið grundvöllur að samkomulagi við bæklunarlækna, en þeir hafa verið án samnings síðan 1. apríl 2008.

     3.      Hvernig er staðið að samningagerð fyrir hönd ráðuneytisins fram að þeim tíma að fyrirhuguð innkaupastofnun heilbrigðisþjónustu tekur til starfa?
    Samninganefnd heilbrigðisráðherra annast samningsgerðina fyrir hönd ráðherra með sambærilegum hætti og undanfarin ár og í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi 1. september 2007.

     4.      Hvaða áhrif telur ráðherra núverandi stöðu, þ.e. að ákveðnir hópar sérfræðinga innan heilbrigðisþjónustunnar eru án samninga, hafi á:
                  a.      aðgengi sjúklinga og almennings að þjónustu þeirra,
                  b.      stöðu annarra sérfræðistétta,
                  c.      þróun sjálfstætt starfandi sérfræðinga?

    Núverandi staða hefur ekki góð áhrif á ofangreind atriði en leitast er við að takmarka óþægindi hinna sjúkratryggðu eftir því sem kostur er. Heilbrigðisráðherra hefur nýtt undanþáguheimild í lögum um heilbrigðisþjónustu til að tryggja áfram greiðsluþátttöku ríkisins og lagt áherslu á að sem fyrst náist samkomulag um þjónustuna.
    Á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur þjónusta talmeinafræðinga verið aukin til að tryggja þeim sem búa við talmein af völdum heyrnarskerðingar óskerta þjónustu, en greiddar eru 840 kr. fyrir hverja komu fyrstu 15 skiptin en eftir það þarf ekkert að greiða. Einnig eru greinargóðar upplýsingar á vef Tryggingastofnunar ríkisins um styrkveitingar vegna þjónustu talmeinafræðinga sem starfa utan samninga.
    Ekki verður séð að samningsleysið hafi bein áhrif á stöðu annarra sérfræðistétta.
    Ekki er ástæða til að ætla að um sérstök áhrif verði að ræða á þróun sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

     5.      Mun ráðherra beita sér fyrir að teknir verði upp samningar við fleiri sérfræðinga innan heilbrigðisþjónustunnar en gert hefur verið fram til þessa?
    Nýlega var í fysta skipti gerður samningur við sjálfstætt starfandi sálfræðinga um þjónustu við börn og unglinga. Vonir standa til þess að hægt verði í framhaldinu að semja um sálfræðiþjónustu fyrir fleiri hópa. Vegna mikillar eftirspurnar eftir starfskröftum sálfræðinga hefur reynst torveldara en ætlað var að fá þá til starfa á grundvelli þessa nýja samnings.
    Auk samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga á heilbrigðissviði er lögð áhersla á samninga um heilbrigðisþjónustu á vegum fyrirtækja og stofnana, svo sem við aðila eins og Sjónlag, LaserSjón, SÁÁ og Heilsuverndarstöðina, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þessi áhersla kemur einnig fram í því að á næstu missirum verður farið inn á þá braut að semja í auknum mæli um ákveðin læknisverk við fyrirtæki og stofnanir ríkisins gegn afkastatengdum viðbótargreiðslum. Sem dæmi má nefna að búið er að ganga frá sérstökum samningi á þessum grundvelli við Sjúkrahúsið á Akureyri um fjölgun liðaskiptaaðgerða og krossbandaaðgerðir.