Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 441. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1041  —  441. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um skipulagsbreytingar í Stjórnarráðinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mörg svið hafa verið sett á stofn í einstökum ráðuneytum undanfarin fimm ár?
     2.      Í hve mörgum tilfellum hafa ný svið verið viðbót í innra skipulagi ráðuneytanna og í hve mörgum tilfellum hafa skrifstofur verið lagðar niður í staðinn?
     3.      Á grundvelli hvaða lagaheimilda hafa svið ráðuneytanna verið sett á stofn og sviðsstjórar skipaðir?
     4.      Eru sviðsstjórar að mati ráðherra embættismenn í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins?
     5.      Hver er kostnaður ríkissjóðs vegna framangreindra skipulagsbreytinga undanfarin fimm ár?


Menntamálaráðuneytið.
     1.      Aðalskrifstofa menntamálaráðuneytis skiptist í þrjár skrifstofur og fjögur svið. Skrifstofurnar og sviðin eru jafnsett í skipuriti ráðuneytisins og eru skrifstofur í skilningi laga um Stjórnarráð Íslands. Skrifstofur ráðuneytisins eru skrifstofa háskóla og vísinda, skrifstofa menningarmála og skrifstofa menntamála, en sviðin eru fjármálasvið, lögfræðisvið, mats- og greiningarsvið og upplýsinga- og þjónustusvið. Hverju þeirra stýrir skrifstofustjóri sem er embættismaður sbr. 22. gr. l. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna.
     2.      Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi ráðuneytisins á síðustu árum, skrifstofur og svið hafa verið lögð af og önnur komið í þeirra stað, en jafnan hefur verið virt sú skipan sem fest er í lögum um Stjórnarráð Íslands.
     3.      Vísað er til svara að framan. Þau svið sem skilgreind eru í skipuriti ráðuneytisins eru skrifstofur í skilningi stjórnarráðslaga. Sviðsstjórar starfa ekki í ráðuneytinu og hafa aldrei gert.
     4.      Vísað er til svara að framan. Starfstitillinn sviðsstjóri er ekki notaður í menntamálaráðuneyti; sviði stýrir skrifstofustjóri eins og áður segir.
     5.      Með vísan til þess sem að framan greinir er ekki gerlegt að skilgreina sérstakan kostnað við stofnun sviða í menntamálaráðuneyti.

Utanríkisráðuneytið.
     1.      Í upphafi árs 2007 voru skrifstofur ráðuneytisins, utan rekstrar- og þjónustuskrifstofu, prótókollskrifstofu og skrifstofu ráðuneytisstjóra og ráðherra, felldar undir sitthvort sviðið, þ.e. alþjóða- og öryggissvið annars vegar og viðskiptasvið hins vegar. Fram eru komnar tillögur um að stofna þriðja sviðið fyrir þróunarsamvinnu en endanleg afstaða liggur ekki fyrir gagnvart þeim tillögum.
     2.      Hvað utanríkisráðuneytið varðar eru sviðin nýtt stjórnunarlag ætlað til þess að bæta samhæfingu og yfirstjórn.
     3.      Sviðin eru sett á laggirnir á grundvelli ólögbundinna sjónarmiða um innra valdframsal. (Sjá t.d. álit umboðsmanns vegna sviðaskipulags hjá Landsspítala.)
     4.      Sviðsstjórar í utanríkisráðuneytinu eru skrifstofustjórar sbr. lögin um Stjórnarráð Íslands sem hefur verið falið af ráðuneytisstjóra að annast samræmingu og yfirstjórn ákveðinna skrifstofa ráðuneytisins á grundvelli innra valdframsals.
     5.      Kostnaður ráðuneytisins vegna nýs sviðafyrirkomulags hefur verið óverulegur, enda hafa sviðsstjórar verið valdir úr hópi embættismanna ráðuneytisins.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
    Í nýju ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála eru sjö skrifstofur en þær voru samtals átta í eldri ráðuneytum. Í landbúnaðarráðuneytinu voru skilgreindar fimm skrifstofur og var skrifstofustjóri yfir hverri þeirra. Auk þess störfuðu lögfræðingar beint undir stjórn ráðuneytisstjóra. Í sjávarútvegsráðuneytinu voru þrjár skrifstofur og jafn margir skrifstofustjórar.
    Í nýju sameinuðu ráðuneyti eru samtals sjö skrifstofur, en auk þeirra er skilgreint „laga- og sérfræðisvið“, sem heyrir beint undir ráðuneytisstjóra. Þar er enginn sviðsstjóri og því á 4. spurning ekki við í okkar tilfelli. Ekki er um að ræða kostnað vegna stofnunar nýrra sviða innan ráðuneyta. Í aðdraganda þess að ráðuneytin voru sameinuð var ekki ráðið í stöður sem losnuðu, nema í undantekningartilvikum, þar sem gert var ráð fyrir að fækka mætti fólki. Árið 2006 voru starfsmenn á skrifstofum beggja ráðuneyta (að ráðherrum frátöldum) rétt um 47. Nú eru þeir 37 og má reikna með að verði áfram undir 40.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið.
     1.      Nýtt skipurit tók gildi í félags- og tryggingamálaráðuneytinu 1. janúar sl. samhliða breytingum á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins, sem fólu m.a. í sér að sveitarstjórnarmál voru flutt frá félagsmálaráðuneytinu yfir í samgönguráðuneytið og lífeyristryggingar almannatrygginga og málefni aldraðra voru flutt frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið sem fékk nafnið félags- og tryggingamálaráðuneytið í kjölfarið. Samkvæmt nýju skipuriti eru svið (skrifstofur) ráðuneytisins sex talsins, þrjú fagsvið og þrjú stoðsvið.
     2.      Samkvæmt eldra skipuriti voru skrifstofur ráðuneytisins fimm.
     3.      Svið samkvæmt skipuriti eru ígildi skrifstofa og er hverju sviði stýrt af skrifstofustjóra, sbr. 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.
     4.      Skrifstofustjórar sviða í ráðuneytinu eru embættismenn í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og skipaðir sem slíkir.
     5.      Heildarkostnaður ráðuneytisins vegna ofangreindra skipulagsbreytinga var 4.438 þús.kr. Annar kostnaður vegna breytinga af þessu tagi hefur ekki fallið til á undanförnum fimm árum.

Heilbrigðisráðuneytið.
     1.      Í heilbrigðisráðuneytinu voru sett á stofn þrjú svið í nóvember 2007, þ.e svið stefnumótunar heilbrigðismála, svið fjármála og rekstrar og svið laga og stjórnsýslu. Skrifstofur ráðuneytisins heyra hver undir sitt svið.
     2.      Sviðin þrjú voru ekki viðbót í innra skipulagi heilbrigðisráðuneytisins. Ráðuneytisstjóri fól einum skrifstofustjóra á hverju sviði (sviðsstjóra) tiltekna yfirumsjón verkefna og er þeim ætlað að samræma stefnu og starf ráðuneytisins á hverju verksviði fyrir sig. Engin skrifstofa hefur verið lögð niður.
     3.      7. og 10. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands.
     4.      Skrifstofustjórar í heilbrigðisráðuneytinu gegna stöðum sviðsstjóranna þriggja og eru embættismenn í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sviðsstjórastaða sem slík telst ekki embætti í skilningi framangreindra laga.
     5.      Það hefur ekki leitt til aukinna útgjalda að skipta heilbrigðisráðuneytinu í þrjú svið.

Iðnaðarráðuneytið.
     1.      Engin svið eru í iðnaðarráðuneytinu. Í upphafi árs 2003 starfaði iðnaðarráðuneytið í þremur skrifstofum auk almennrar skrifstofu sem var sameiginleg fyrir iðnaðarráðuneytið og viðskiptaráðuneytið. Á árinu 2003 var ein skrifstofa lögð niður í iðnaðarráðuneytinu og sameinuð annarri. Í kjölfar ríkisstjórnarskiptanna í maí 2007 var ákveðið að skilja að rekstur iðnaðarráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins. Jafnframt var ákveðið að færa ferðamálin frá samgönguráðuneytinu til iðnaðarráðuneytisins. Frá síðustu áramótum eru þrjár skrifstofur starfræktar í iðnaðarráðuneytinu.
     2.      Á ekki við.
     3.      Á ekki við.
     4.      Á ekki við, hefur ekki reynt á.
     5.      Enginn sérstakur kostnaður hefur verið bókfærður vegna skipulagsbreytinga í iðnaðarráðuneytinu undanfarin fimm ár.

Önnur ráðuneyti.
    Í öðrum ráðuneytum hafa engin svið verið sett á stofn sl. fimm ár.