Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1124  —  579. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
                                  

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Karl Alvarsson frá samgönguráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Vegagerðinni, Umferðarstofu, Samtökum fjármálafyrirtækja, Aðalskoðun hf., Frumherja hf. og Ólafi W. Stefánssyni.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að leggja allt að 30.000 kr. gjald á þá sem vanrækja að færa ökutæki til skoðunar á réttum tíma og að breytingin taki gildi 1. janúar 2009.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að fjöldi óskoðaðra bifreiða er um 25.000 eða um 10% af heildarfjölda ökutækja á landinu og að skort hefur úrræði til að fylgja því eftir að eigendur ökutækja sinni lögboðinni skyldu sinni um að færa ökutæki til skoðunar. Telur nefndin að með breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu verði eftirlit lögreglu með óskoðuðum ökutækjum í umferð skilvirkara og að það verði til að auka öryggi vegfarenda í umferðinni.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru til einföldunar og til þess fallnar að gera greinar þess skýrari. Þannig leggur nefndin til að tilgreint verði að með skoðun ökutækis sé bæði átt við almenna skoðun og endurskoðun. Nefndin leggur til, þar sem gert er ráð fyrir að g-liður 108. gr. laganna falli brott og greinin fjalli einungis um stöðvunarbrot, að fyrirsögnin taki mið af því og enn fremur að niðurlag 1. mgr. 109. gr., sem vísar til liðarins, falli brott til samræmis við það.
    Nefndin leggur til nokkrar efnisbreytingar á frumvarpinu sem varða lögveð í 3. mgr. 1. gr. en fyrir nefndinni kom fram ábending um að ekki væri rétt að lögveð félli niður við eigendaskipti þar sem nýr eigandi hlyti að kynna sér hvort skoðun hefði farið fram og hvort gjald hefði verið lagt á en þær upplýsingar liggja fyrir í ökutækjaskrá með sama hætti og upplýsingar um stöðu bifreiðaskatta.
    Loks leggur nefndin til að gildistöku frumvarpsins verði flýtt og miðist við 1. október 2008 en leggur áherslu á að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér verði kynntar mjög rækilega.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 24. maí 2008.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Herdís Þórðardóttir.



Karl V. Matthíasson.


Árni Þór Sigurðsson.



Árni Johnsen.



Guðni Ágústsson.


Ármann Kr. Ólafsson.


Guðjón A. Kristjánsson.