Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 646. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1181  —  646. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skattfrelsi norrænna verðlauna, nr. 126/1999.

    Flm.: Guðfinna S. Bjarnadóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Einar Már Sigurðarson,
Guðni Ágústsson, Jón Magnússon, Guðbjartur Hannesson, Ólöf Nordal,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Gunnar Svavarsson,
Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðið „norræn“ fellur brott.
     b.      Við bætast fimm nýir töluliðir, svohljóðandi:
                  6.      Verðlaun í stærðfræði (Fields Medal).
                  7.      Verðlaun í orkufræði (Global International Energy Prize).
                  8.      Verðlaun í alþjóðalögfræði (Hague Prize for International Law).
                  9.      Verðlaun í líffræði (International Prize for Biology).
                  10.      Verðlaun í raunvísindum (Bower Award for Achievement in Science).

2. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um skattfrelsi alþjóðlegra verðlauna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 2008 vegna tekna á árinu 2007.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að aukið verði nýjum verðlaunum við upptalningu laga, nr. 126/1999, um skattfrelsi norrænna verðlauna, og að heiti laganna verði breytt.
    Að mati flutningsmanna er það ekki í takti við tíðarandann að heimila skattfrelsi einungis þegar norræn verðlaun eiga í hlut enda hefur það færst í vöxt samfara eflingu íslenskra háskóla og vísindastarfs að þeir sem búsettir eru hér á landi komist til æðstu metorða á alþjóðavettvangi. Röksemdir sem búa að baki lögum um skattfrelsi norrænna verðlauna ættu því með sanni að snúast um þann heiður sem verðlaunahafa áskotnast fremur en að taka mið af upprunalandi viðkomandi verðlauna.
    Íslenskir háskólar hafa á undanförnum árum sett sér krefjandi markmið. Í alþjóðlegum samanburði skiptir miklu að þeir hafi á að skipa kennurum sem veitt hafa viðtöku verðlaunum sem þekkt eru á heimsvísu. Nóbelsverðlaunin eru sem kunnugt er þekktust vísindaverðlauna á sviði efnafræði, eðlisfræði, hagfræði og læknisfræði og njóta skattfrelsis hér á landi.
    Að höfðu samráði við stjórnsýslu Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík leggja flutningsmenn til að bætt verði við upptalningu laga nr. 126/1999, um skattfrelsi norrænna verðlauna, nýjum verðlaunum sem teljast til hinna þekktustu á sviði stærðfræði, orkuverkfræði, alþjóðalögfræði og líffræði. Verðlaunin eru:
          Fields Medal, stundum nefnd nóbelsverðlaunin í stærðfræði.
          Global International Energy Prize, veitt fyrir rannsóknir í orkufræði.
          Hague Prize for International Law, veitt fyrir alþjóðalögfræði.
          International Prize for Biology, veitt fyrir líffræði.
          Bower Award for Achievement in Science: Veitt fyrir árangur í raunvísindum.
    Á síðasta ári hlotnaðist dr. Þorsteini Sigfússyni prófessor sá heiður að taka við verðlaununum „Global International Energy Prize“ fyrir framlag sitt í þágu orkuvísinda. Voru verðlaunin veitt við formlega athöfn í Rússlandi. Verði frumvarp þetta samþykkt er það vilji flutningsmanna að verðlaun hans fái skattalega meðferð svo sem lagt er til í frumvarpinu.
    Fyrir því eru fordæmi að Alþingi hafi með lagasetningu og við sérstakt tilefni heimilað skattundanþágu verðlaunafjár og er skemmst að minnast þess er Halldór Laxness vann til Nóbelsverðlaunanna. Var sú lagasetning tilkomin eftir að skáldið hlaut verðlaunin. Hið sama er að segja um Sonningverðlaunin sem voru veitt Halldóri Laxness árið 1969.