Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 337. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1184  —  337. mál.




Breytingartillögur



um frv. til l. um breyt. á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, með síðari breytingum.

Frá Atla Gíslasyni og Paul Nikolov.



     1.      Við 4. gr. G-liður 1. efnismgr. falli brott.
     2.      Við 6. gr. Við 3. málsl. 2. efnismgr. bætist: ef ástæða er til að ætla að innflytjandi beri með sér smitsjúkdóma.
     3.      Við 7. gr. 5. efnismálsl. falli brott.
     4.      Við 8. gr. 4. og 5. málsl. 2. efnismgr. falli brott.
     5.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Á eftir 11. gr. laganna koma tvær nýjar greinar ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
                 a. (11. gr. a.)

Fórnarlambavernd.

                 Í fórnarlambavernd felst að einstaklingur sem er fórnarlamb mansals og hefur verið vistaður ólöglega á Íslandi skuli njóta nafnleyndar, leyndar á dvalarstað og annarra nauðsynlegra öryggisráðstafana gegn ógnun frá þeim aðilum sem standa að mansalinu. Þá skal honum gefinn kostur á sérstöku tímabundnu dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi gegn því að hann aðstoði yfirvöld eftir því sem kostur er við að hafa uppi á þeim sem stunda mansal og veiti lögreglu og dómstólum upplýsingar, svo sem með skýrslum og vitnisburði.
                 Þó að stjórnandi rannsóknar treysti fórnarlambi mansals ekki til að vitna eða telur að það geti ekki vitnað gegn hinum brotlegu, t.d. vegna andlegs eða líkamlegs ástands, skerðir það ekki réttinn til þeirrar aðstoðar sem lögin gera ráð fyrir.
                 Dvalar- og atvinnuleyfi skv. 1. mgr. er veitt til átján mánaða. Það er hægt að framlengja um jafnlangan tíma.
                 Heimilt er að afturkalla dvalar- og atvinnuleyfi samkvæmt þessari grein ef einstaklingur sem nýtur verndar sem fórnarlamb hefur á virkan hátt, viljugur og að eigin frumkvæði tekið aftur upp samband við þann sem grunaður er um mansal.
                 Þeir sem þiggja fórnarlambavernd eiga rétt á félagslegum stuðningi samkvæmt áætlun sem unnin er í hverju tilfelli þar sem m.a. er tilgreindur sá stuðningur sem veita skal og hversu lengi hann skuli vara. Þeim skal jafnframt standa til boða félagsleg, sálræn og lögfræðileg aðstoð, læknishjálp og þjónusta túlka, sem og starfsþjálfun og aðstoð við atvinnuleit. Þá skal þeim standa til boða aðstoð við að sækja um búsetuleyfi skv. 15. gr. og 15. gr. a þegar fórnarlambaverndinni lýkur.
                 Fórnarlamb mansals, sem gefinn er kostur á fórnarlambavernd, hefur 30 daga umþóttunartíma til að þiggja verndina. Á umþóttunartímanum skal fórnarlamb njóta aðstoðar skv. 5. mgr. og hafa bráðabirgðadvalarleyfi hér á landi.
                 Dómsmálaráðherra setur reglugerð um áætlun um félagslegan stuðning og önnur úrræði skv. 5. mgr.

                 b. (11. gr. b.)

Nefnd um fórnarlambavernd.

                 Dómsmálaráðherra skal skipa fimm manna nefnd um fórnarlambavernd vegna framkvæmdar laga þessara. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af Útlendingastofnun, einn af Vinnumálastofnun og einn af ríkislögreglustjóra. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir án tilnefningar og ber ráðherra að líta til reynslu og þekkingar frjálsra félagasamtaka sem starfa með fórnarlömbum mansals við þær tilnefningar. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn. Starfsmaður dómsmálaráðuneytis skal vera ritari og starfsmaður nefndarinnar og annast aðstoð við fórnarlömb mansals og þiggjendur fórnarlambaverndar.
                 Nefndin skal hafa eftirtalin verkefni:
                      a.      að kanna hvort grunur um mansal er á rökum reistur,
                      b.      að taka ákvörðun um veitingu dvalar- og atvinnuleyfis skv. 1. mgr. 11. gr. a til þeirra sem þiggja boð um fórnarlambavernd að uppfylltu skilyrði a-liðar,
                      c.      að taka ákvörðun um endurnýjun dvalar- og atvinnuleyfis skv. 3. mgr. 11. gr. a.
                 Nefndin skal hafa aðgang að gögnum lögreglu sem eru henni nauðsynleg til þess að sinna verkefnum sínum.
                 Nefndarmenn og starfsmaður eru bundnir þagnarskyldu í störfum sínum og einnig eftir að störfum lýkur.
                 Ákvarðanir nefndarinnar eru kæranlegar til ráðherra.
                 Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um starfssvið og starfshætti nefndarinnar.
                 Útlendingastofnun gefur út dvalarleyfi vegna fórnarlambaverndar samkvæmt ákvörðun nefndarinnar og Vinnumálastofnun gefur út atvinnuleyfi, svo sem kveðið er á um í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
     6.      Við 11. gr.
              a.      Orðin „eldri en 66 ára“ í 2. efnismgr. falli brott.
              b.      Lokamálsliður 3. efnismgr. falli brott.
     7.      Við 12. gr. Á eftir 3. efnismgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
             Heimilt er að veita hælisleitanda bráðabirgðaatvinnuleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina.
     8.      Við 13. gr. Í stað orðanna „síðustu fjögur ár“ í 1. málsl. 1. mgr. og d-lið 1. mgr. komi: síðustu þrjú ár.
     9.      Á eftir 13. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:
             Ef þeir sem hafa þegið fórnarlambavernd sækja um búsetuleyfi skal samvinna þeirra við yfirvöld metin þeim til tekna við úrlausn þess hvort ný leyfi fást veitt. Við slíka leyfisveitingu skal taka tillit til kringumstæðna þegar sakaferill er metinn. Þá skal félagsleg aðstoð sem einstaklingar þiggja vegna fórnarlambaverndar ekki hafa áhrif á rétt þeirra til búsetuleyfis.
     10.      Við 24. gr. Orðin „EES- eða EFTA-“ hvarvetna í greininni falli brott.
     11.      Við 26. gr. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Leiti útlendingur úrslausnar dómstóla um brottfall dvalarréttar er honum heimil dvöl í landinu á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum.
     12.      Við 28. gr. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Leiti útlendingur úrslausnar dómstóla um brottvísun er honum heimil dvöl í landinu á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum.
     13.      Við bætist ný grein, svohljóðandi:
             Við gildistöku laga þessa bætist ný málsgrein við 5. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, svohljóðandi:
             Vinnumálastofnun gefur út atvinnuleyfi samkvæmt ákvörðun nefndar um fórnarlambavernd, sbr. lög um útlendinga.