Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 613. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1206  —  613. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sjúkratryggingar.

Frá 1. minni hluta heilbrigðisnefndar.



    Með samþykkt 18. gr. laga nr. 160/2007 var tekin ákvörðun um að sett yrði á laggirnar ný stofnun, sjúkratryggingastofnun, sem nú er gert er ráð fyrir að taki til starfa 1. september nk. Þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá við afgreiðslu greinarinnar m.a. vegna þess að óljóst var á þeirri stundu hvert markmiðið yrði með hinni nýju stofnun, hver kostnaðurinn yrði samfara nýju fyrirkomulagi og því að skipta Tryggingastofnun ríkisins upp. Með samþykkt 18. gr. fékk heilbrigðisráðherra heimild til að skipa stofnuninni stjórn og auglýsa eftir forstjóra. Hvort tveggja gerði heilbrigðisráðherra áður en frumvarp til laga um sjúkratryggingar hafði verið lagt fram á Alþingi.
    Öll málsmeðferð sem snýr að frumvarpi þessu um sjúkratryggingar er með endemum af hálfu heilbrigðisráðherra og formanns heilbrigðisnefndar. Frumvarpinu var dreift á Alþingi 37 dögum eftir að frestur hafði runnið út til framlagningar mála og því þurfti samþykki þingsins til að málið mætti koma á dagskrá. Til að flýta fyrir vinnslu við frumvarpið sendi formaður heilbrigðisnefndar það út til umsagnar í eigin nafni áður en mælt hafði verið fyrir því á Alþingi og málinu vísað til heilbrigðisnefndar. Þetta er ekki í samræmi við þingskapalög.
    Frumvarpið sem hér um ræðir er að verulegu leyti sameinuð ákvæði úr lögum um almannatryggingar og lögum um heilbrigðisþjónustu. Því má segja að hér sé að verulegu leyti um formbreytingu en ekki efnisbreytingu að ræða. Breytingin hefur í för með sér breytt form á greiðslum ríkisins fyrir heilbrigðisþjónustu sem munu fara í gegnum sjúkratryggingar á grundvelli samninga sem stofnunin mun gera við allar heilbrigðisstofnanir á landinu. Þetta kallar stjórnarmeirihlutinn að ná fram fjölbreytilegri rekstrarformum sem geti fjölgað valkostum.
    Ljóst er að hér er um grundvallarbreytingu á heilbrigðisþjónustu að ræða, enda er ákvæði í stjórnarsáttmála sem kveður á um að taka skuli upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgi sjúklingum. Þar kemur einnig fram að skapa verði svigrúm til fjölbreytilegra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum.
    Tekið skal fram að dæmi eru um að einkaaðilar annist rekstur heilbrigðisstofnana samkvæmt samningi við ríkið, en flest bendir til að í slíkum tilfellum sé reksturinn kostnaðarsamari en ella. Framsóknarflokkurinn hefur litið á slíkan rekstur sem undantekningu frá þeirri meginreglu að hið opinbera fjármagni heilbrigðisþjónustuna gegnum skatta og fjárlög og annist sjálft rekstur helstu rekstrareininga, svo sem sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva.
    Nái frumvarpið fram að ganga má ætla að það leiði til einkavæðingar heilbrigðisþjónustunnar. Bresk rannsókn bendir til að ef efnt er til samkeppni um heilbrigðisþjónustu á markaði sem snýst um verð þjónustunnar, geti það aukið dánartíðni sjúklinga vegna aðgerða.
    Allt bendir til að verði frumvarpið að lögum muni það leiða til aukins heildarkostnaðar við heilbrigðisþjónustuna almennt. Að auki má geta þess að kostnaður vegna breytinga á rekstri Tryggingastofnunar er metinn samtals a.m.k. 100 millj. kr. á þessu ári. Varanlegur aukinn rekstrarkostnaður Tryggingastofnunar í kjölfar breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er metinn 120 millj. kr.
    Augljóst er að sjúkratryggingum er ætlað gríðarlega víðtækt hlutverk með frumvarpinu. Svo virðist sem ráðherra sé óbundinn af faglegum sjónarmiðum við val á stjórnarmönnum fyrir stofnunina. Reglugerðarvald er í hávegum haft og því má segja að svigrúm ráðherra og stjórnar sjúkratrygginga í stefnu í heilbrigðismálum sé afar mikið án þess að sú stefna sé borin undir Alþingi.
    Með tilliti til þeirra orða forsætisráðherra að með stjórnarsamstarfi við Samfylkinguna sé hægt að ná fram breytingum í heilbrigðismálum sem ekki væri mögulegt með öðrum stjórnmálaflokkum bendir allt til að með þessu frumvarpi um sjúkratryggingar séu uppi áform um grundvallarbreytingar.
    Þingmenn Framsóknarflokksins vilja ekki bera ábyrgð á þeim breytingum og munu því sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. maí 2008.



Valgerður Sverrisdóttir.