Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 629. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1249  —  629. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um tilraunaverkefni um rekstur Gaulverjaskóla.

     1.      Hver er staða viðræðna um endurnýjun samkomulags ráðuneytisins við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga / Skólaskrifstofu Suðurlands og Velferðarsjóð íslenskra barna um þriggja ára tilraunaverkefni um rekstur Gaulverjaskóla, sem er náms- og meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga á Suðurlandi sem glíma við hegðunar- og tilfinningaraskanir, sbr. bréf Skólaskrifstofu Suðurlands, dags. 23. apríl 2008, um málið?
    Gaulverjaskóli í Flóa er úrræði fyrir börn á grunnskólaaldri með tilfinninga- og hegðunarvanda. Sveitarfélög á Suðurlandi, menntamálaráðuneytið, f.h. ríkisins, og Velferðarsjóður íslenskra barna standa að verkefninu. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Skólaskrifstofa Suðurlands hafa heimild menntamálaráðuneytisins til að reka Gaulverjaskóla sem tilraunaverkefni til þriggja ára frá 2006 að telja, sbr. heimild í 53. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla. Á meðan tilrauninni stendur veitir Skólaskrifstofa Suðurlands ráðuneytinu upplýsingar um skólahaldið og ráðuneytið mun í lok tilraunatímabils leggja mat á tilraunaverkefnið í samráði við Skólaskrifstofuna. Gaulverjaskóli var hugsaður sem tímabundið skólaúrræði fyrir þau börn á Suðurlandi sem ekki hefur gagnast skólavist í heimaskóla vegna hegðunarerfiðleika og erfiðleika á tilfinningasviðinu og geðraskana. Gaulverjaskóli hefur enn fremur sinnt ráðgjafar- og fræðsluhlutverki fyrir aðra grunnskóla á Suðurlandi í þjálfunar- og meðferðarskyni.
    Skólaskrifstofa Suðurlands hefur óskað eftir viðræðum við menntamálaráðuneytið um framhald tilraunaverkefnisins, sem lýkur í árslok 2008. Skólaskrifstofan telur nauðsynlegt að gera þegar ráðstafanir um framhaldið þótt formleg úttekt eða mat á verkefninu hafi ekki farið fram. Tilraunaverkefnið felur í sér meðferðar- og skólaúrræði, sem beitir meðferðarhugmyndafræðinni Aggression Replacement Training (ART). Sveitarfélögin hafa greitt skólahluta verkefnisins, sem metinn var 60% af kostnaði, og menntamálaráðuneytið meðferðarhluta verkefnisins, 40%. Verkefnið hefur þróast á þann hátt að meðferðin verður flutt út í heimaskóla nemenda frá og með hausti 2008. Meðferðarteymi starfar áfram að meðferðarhlutanum, sem frá og með hausti 2008 mun fara fram í heimaskólum nemenda um allt Suðurland.
    Skólaskrifstofan telur brýnt að tryggja áframhaldandi fjármögnun til að verkefnið nái tilætluðum árangri og hefur óskað eftir fjármagni til framhalds verkefnisins til næstu þriggja ára, en til vara til eins árs þegar úttekt á því liggur fyrir. Um er að ræða kostnað vegna tveggja og hálfs stöðugildis sérfræðinga, eða u.þ.b. 12 millj. kr. á ári samkvæmt áætlunum Skólaskrifstofu Suðurlands. Menntamálaráðuneytinu hefur nýverið borist erindi Skólaskrifstofunnar um málið. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvernig ráðuneytið muni bregðast við erindinu, enda liggur ekki fyrir úttekt á tilraunaverkefninu eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 53. gr. Nauðsynlegt er að fyrir liggi niðurstöður úttektar á verkefninu áður en frekari ákvörðun um framhald þess verður tekin og um frekari fjárframlög af fjárlögum. Ráðuneytið mun fljótlega kalla fulltrúa frá Skólaskrifstofu Suðurlands til viðræðna um fyrirkomulag úttektarinnar og um ósk skrifstofunnar um framhald verkefnisins.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir endurnýjun samkomulagsins og þá hvernig?
    Ráðuneytið mun láta fara fram úttekt á tilraunaverkefninu eins og ákveðið var þegar tilraunaheimildin var veitt 2008. Undirbúningur að úttekt er hafinn og er stefnt að því að hún hefjist í haust. Menntamálaráðuneytið mun hafa niðurstöður úttektarinnar til hliðsjónar við ákvörðun um framhald verkefnisins, þ.m.t. fjárhagslegan stuðning af fjárlögum.
    Í ljósi þess að fyrir liggur að niðurstöður úttektar muni ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi í árslok 2008 er menntamálaráðuneyti reiðubúið að framlengja tilraunaheimildina um eitt ár til bráðabirgða og jafnvel tryggja áframhaldandi fjárhagslegan stuðning við verkefnið árið 2009 með sama hætti og gert er á þessu ári. Ráðuneytið telur að í kjölfar úttektar þurfi menntamála- og heilbrigðisyfirvöld ásamt aðstandendum Gaulverjaskólaverkefnisins að hefja viðræður um hvort eða með hvaða hætti áframhaldandi stuðningur verði við þetta úrræði í fjárlögum en menntamálaráðuneyti telur að heilbrigðisyfirvöld verði að koma að slíkum viðræðum.