Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 324. máls.

135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 506  —  324. mál.




Frumvarp til innheimtulaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Gildissvið o.fl.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi, þó ekki eigin innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga.
    Innheimtuaðili er einstaklingur eða lögaðili sem annast innheimtu á grundvelli leyfis frá Fjármálaeftirlitinu skv. 15. gr.

2. gr.
Frávíkjanleg ákvæði.

    Heimilt er með samningi milli kröfuhafa og skuldara í atvinnurekstri að víkja frá ákvæðum 7. gr. Heimilt er með samningi milli kröfuhafa og innheimtuaðila að víkja frá ákvæðum 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. Önnur ákvæði laganna eru ófrávíkjanleg.

II. KAFLI
Skilyrði til að mega stunda innheimtu.
3. gr.
Skilyrði til að mega stunda innheimtu fyrir aðra.

    Innheimtuaðilar mega því aðeins stunda innheimtu fyrir aðra:
     a.      að þeir hafi fengið innheimtuleyfi skv. 15. gr., sbr. 4. gr.;
     b.      að innheimtan sé stunduð frá fastri starfsstöð hér á landi nema annað leiði af alþjóðasamningum sem binda Ísland; og
     c.      að starfsábyrgðartrygging skv. 14. gr. sé í gildi.
    Lögmenn mega þó stunda innheimtu án innheimtuleyfis, svo og opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki.

4. gr.
Veiting innheimtuleyfis.

    Innheimtuleyfi er veitt á grundvelli umsóknar frá einstaklingi sem:
     a.      er lögráða og hefur undanfarin fimm ár hvorki farið fram á eða verið í greiðslustöðvun né bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta;
     b.      hefur óflekkað mannorð svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis;
     c.      býr yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt;
     d.      hefur lögheimili hér á landi nema annað leiði af alþjóðasamningum sem binda Ísland;
     e.      er ekki í vanskilum með vörsluskatta.
    Innheimtuleyfi er einnig veitt samkvæmt umsókn frá lögaðila enda fullnægi framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi skilyrðum 1. mgr.

5. gr.
Innheimta eigin peningakröfu.

    Ef aðili kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni þarf innheimtuleyfi samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI
Samband innheimtuaðila og skuldara.
6. gr.
Góðir innheimtuhættir.

    Innheimta skal vera í samræmi við góða innheimtuhætti.
    Það telst brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi, tjóni eða óþægindum.

7. gr.
Innheimtuviðvörun.

    Eftir gjalddaga kröfu skal kröfuhafi eða innheimtuaðili senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan tíu daga frá sendingu viðvörunar. Veita má lengri frest til greiðslu.
    Í viðvörun komi fram:
     a.      nöfn, kennitölur og heimilisföng skuldara, kröfuhafa eða umboðsmanns hans og innheimtuaðila;
     b.      lýsing á kröfu;
     c.      fjárhæð kröfu og skal sundurliða hver sé höfuðstóll og hverjar séu viðbótarkröfur, svo sem dráttarvextir og innheimtuþóknun;
     d.      frá hvaða degi dráttarvextir reiknast;
     e.      greiðslustaður; og
     f.      að greiðslufall skuldara geti leitt til málshöfðunar eða annarra innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga og aukins kostnaðar fyrir skuldara.
    Þeir sem stunda innheimtu vegna eigin starfsemi og falla ekki undir 2. mgr. 3. gr. geta sent innheimtuviðvörun skv. 1.–2. mgr. fyrir gjalddaga enda komi eigi til greiðslu innheimtuþóknunar vegna viðvörunarinnar skv. c-lið sé krafa greidd í síðasta lagi tíu dögum eftir gjalddaga.
    Krafa telst greidd ef greiðsla hefur borist áður en fresturinn er liðinn eða greiðslan er sannanlega sett í ábyrgðarpóst fyrir lok frestsins.
    Ef hætta er á að möguleikum á fullnustu kröfu verði spillt eða aðrir mikilvægir hagsmunir eru í húfi má víkja frá ákvæðum þessarar greinar um sendingu viðvörunar.
    Ef skuldari hefur sannanlega hreyft mótbárum gegn peningakröfu er heimilt að bera ágreining um réttmæti kröfunnar undir dómstóla án þess að fyrst sé gætt ákvæða þessarar greinar.

8. gr.
Umboð innheimtuaðila.

    Greiðsla skuldara til innheimtuaðila eða samningur við innheimtuaðila um greiðslu hefur sama gildi fyrir skuldara og greitt hafi verið til kröfuhafa sjálfs eða samið við hann um greiðsluna. Samningar um greiðslu skulu vera skriflegir.

IV. KAFLI
Samband innheimtuaðila og kröfuhafa.
9. gr.
Upplýsingaskylda innheimtuaðila.

    Innheimtuaðili skal eftir beiðni veita kröfuhafa upplýsingar um gang innheimtu. Ljúki innheimtu samkvæmt lögum þessum án eftirfarandi innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga skal innheimtuaðili að beiðni kröfuhafa afhenda honum skriflegt uppgjör er sýni hvað skuldari hafi verið krafinn um, hve mikið hann hafi greitt og hvenær og hver sé krafa innheimtuaðila um þóknun fyrir vinnu og útlagðan kostnað.

10. gr.
Meðferð innheimtufjár.

    Innheimtuaðili skal án ástæðulauss dráttar greiða kröfuhafa innheimt fé. Innheimtuaðila er heimilt að halda eftir fé sem nemur fjárhæð þóknunar til hans og útlagðs kostnaðar.
    Innheimtuaðili, sem stundar innheimtu fyrir aðra, skal halda innheimtufénu aðskildu frá eigin fé. Skal féð án ástæðulauss dráttar lagt á vörslufjárreikning en opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, sem mega stunda innheimtu án innheimtuleyfis skv. 2. mgr. 3. gr., eru þó undanþegnir þessari skyldu. Sérákvæði um vörslufjárreikninga lögmanna haldast.

V. KAFLI
Greiðsla innheimtukostnaðar og hámarksfjárhæð hans.
11. gr.
Ábyrgð skuldara á greiðslu innheimtukostnaðar.

    Ef skuldari hefur greitt innan greiðslufrests skv. 7. gr. verður hann aðeins krafinn um kostnað vegna innheimtuviðvörunar, sbr. 12. gr., þó ekki ef 3. mgr. 7. gr. er beitt. Hið sama á við ef brotið hefur verið gegn 7. gr. þannig að viðvörunin þjóni ekki tilgangi sínum.

12. gr.
Hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.

    Viðskiptaráðherra getur að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila ákveðið í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja skuldara um samkvæmt lögum þessum. Skal fjárhæðin taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist. Heimilt er að innheimta viðbót vegna umdeildra peningakrafna þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
13. gr.
Þagnarskylda.

    Innheimtuaðili og starfsmenn hans eru bundnir þagnarskyldu um persónuhagi og rekstrar- eða viðskiptamál og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í innheimtustarfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

14. gr.
Starfsábyrgðartrygging.

    Innheimtuaðili, sem stundar innheimtu á grundvelli leyfis skv. 4. gr., skal hafa starfsábyrgðartryggingu sem tryggir skuldara og kröfuhafa bætur ef þeir verða fyrir fjárhagstjóni sem leyfishafinn ber skaðabótaábyrgð á og rakið verður til gáleysis í störfum hans eða starfsmanna hans. Slíka tryggingu má setja með því að kaupa vátryggingu hjá vátryggingafélagi eða setja bankaábyrgð hjá banka eða sparisjóði sem hefur heimild til að starfa hér á landi. Trygging skal nema minnst 5.500.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar. Heildarfjárhæð tryggingabóta innan hvers vátryggingarárs eða ábyrgðarárs skal nema minnst 16.500.000 kr. Falli vátrygging eða bankaábyrgð úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag eða ábyrgðaraðili tilkynna það vátryggingar- eða ábyrgðartaka og viðkomandi eftirlitsaðila þegar í stað. Tryggingartíma telst ekki lokið fyrr en liðnar eru átta vikur frá því að vátryggingafélagið eða ábyrgðaraðilinn tilkynnti vátryggingar- eða ábyrgðartaka og eftirlitsaðila um tryggingarslit eða niðurfellingu ábyrgðar.
    Ef leyfishafi hefur samhliða innheimtustarfsemi með höndum lögmannsstörf og hefur ábyrgðartryggingu telst hann hafa fullnægt tryggingarskyldu sinni samkvæmt lögum þessum.

15. gr.
Leyfi og eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið fer með leyfisveitingu og leyfissviptingu samkvæmt lögum þessum.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að innheimtustarfsemi, sem lög þessi taka til, sé í samræmi við ákvæði laganna, reglur á grundvelli þeirra og eftir atvikum samþykktir hlutaðeigandi aðila. Skal eftirlitið hafa aðgang að öllum upplýsingum sem að þess mati eru nauðsynlegar vegna eftirlitsins. Telji eftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilins leyfis skal það hafa sambærilegan aðgang að upplýsingum hjá viðkomandi aðilum. Getur eftirlitið krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða innheimtuþjónustu án tilskilinna leyfa.
    Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við eftirlit og upplýsingaöflun samkvæmt þessari grein.
    Þeir sem hafa fengið innheimtuleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu skulu árlega greiða eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar í samræmi við ákvæði laga þar um. Eftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðunum um eftirlitsgjald.
    Fjármálaeftirlitið getur gefið innheimtuaðilum fyrirmæli um að breyta starfsháttum sínum ef hætta er á því að þeir brjóti í bága við lög þessi. Áður en til fyrirmæla kemur getur eftirlitið lokið málinu með sátt. Hafi sátt komist á gildir hún sem fyrirmæli. Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn sátt milli Fjármálaeftirlitsins og innheimtuaðila.
    Fjármálaeftirlitið getur til bráðabirgða lagt bann við leyfisbundinni innheimtustarfsemi, ef skilyrðum 3. gr. er ekki fullnægt, eða gefið innheimtuaðila frest til að fullnægja þeim. Verði eigi úr bætt skal eftirlitið gera ráðstafanir til sviptingar leyfis.
    Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit samkvæmt lögum þessum og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Gagnvart lögmönnum fer úrskurðarnefnd lögmanna með eftirlit samkvæmt lögum þessum og lögum um lögmenn.

16. gr.
Svipting innheimtuleyfis.

    Fjármálaeftirlitið getur svipt leyfishafa innheimtuleyfi skv. 4. gr. ef:
     a.      hann hefur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum þessum; eða
     b.      skilyrði fyrir veitingu leyfis eru ekki lengur til staðar.

17. gr.
Refsingar.

    Brot gegn 3., 7. og 13. gr. og 3.–4. mgr. 15. gr. eða ákvæðum reglugerðar á grundvelli laganna varða sektum nema mælt sé fyrir um þyngri viðurlög í öðrum lögum. Brot gegn 7. gr. skal þó vera ítrekað eða stórfellt.
    Með mál út af brotum á lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála.

18. gr.
Reglugerðarheimild.

    Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

19. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þeim skal í síðasta lagi beitt um innheimtustarfsemi frá 1. nóvember 2008. Þann dag fellur úr gildi 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið hefur verið í viðskiptaráðuneytinu, byggist einkum á stjórnarfrumvarpi frá 123. löggjafarþingi 1998–1999, munnlegum athugasemdum efnahags- og viðskiptanefndar við það frumvarp og vissum atriðum úr þingmannafrumvarpi frá 132. löggjafarþingi 2005–2006. Einkum er hert nokkuð á skilyrðum fyrir veitingu innheimtuleyfis í 4. gr. Þá eru ákvæði 6. gr. um góða innheimtuhætti gerð ítarlegri. Ákvæði 14. gr. um starfsábyrgðartryggingu miðast ekki lengur við vísitölu. Í 15. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið fari með leyfisveitingu og leyfissviptingu í stað viðskiptaráðherra og eru þar m.a. sett ákvæði um eftirlitsgjald.
    Markmiðið með frumvarpinu er einkum að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, t.d. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja hann um. Með viðvörun væri stefnt að því að skuldarar almennt ættu kost á að greiða skuld sína innan stutts frests með lágmarkskostnaði er grundvallaðist á ákvörðun í reglugerð áður en til innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga yrði gripið. Lánardrottinn mundi væntanlega á þessu stigi innheimtu sjálfur senda skuldara viðvörun. Hann gæti þó leitað aðstoðar lögmanns eða annars innheimtuaðila en bæri þá sjálfur ábyrgð á hugsanlegri greiðslu til hans umfram lágmarkskostnað.
    Við samningu frumvarpsins, sem snertir m.a. innheimtustarfsemi lögmanna, viðskiptabanka og sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, svo og ýmissa stofnana, var einkum stuðst við norsk innheimtulög.
    Samkvæmt frumvarpinu munu innheimtulög skiptast í sex kafla. Ákvæði I. kafla fjalla um gildissvið o.fl. Þar kemur m.a. fram að lögin gildi með vissum undantekningum um innheimtu gjaldfallinna krafna um greiðslu peninga og að unnt sé með samningi að víkja frá sumum ákvæðum laganna. Í II. kafla er fjallað um skilyrði til að mega stunda innheimtu, m.a. innheimtuleyfi. Í III. kafla er að finna ákvæði um samband innheimtuaðila, m.a. kröfuhafa, og skuldara, m.a. um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, en í IV. kafla eru ákvæði um samband innheimtuaðila og kröfuhafa, nánar tiltekið upplýsingaskyldu innheimtuaðila og meðferð innheimtufjár. Í V. kafla eru ákvæði um greiðslu innheimtukostnaðar og hámarksfjárhæð hans, m.a. þóknunar, sem ákveða má í reglugerð ráðherra. Í VI. kafla eru ýmis ákvæði, m.a. um starfsábyrgðartryggingu, eftirlit með framkvæmd laganna, leyfisveitingu og leyfissviptingu, refsingar og almenna reglugerðarheimild.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er fjallað um gildissvið laganna. Þau gilda með vissum undantekningum um innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi.
    Eigin innheimta opinberra aðila á sköttum og gjöldum fellur ekki undir lögin. Þykir eigi þörf á slíku þar eð innheimta skatta og gjalda er lögbundin og enginn kostnaður, annar en lögbundinn vaxtakostnaður, fellur á gjaldendur nema um sé að ræða útlagðan kostnað. Innheimta slíkra krafna er þannig almennt mun kostnaðarminni en almenn kröfuinnheimta. Virðist því réttur greiðenda í þeim fjölmörgu málum, sem hér um ræðir, vera nægilega tryggður samkvæmt gildandi lögum og verklagsreglum.
    Innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga falla heldur ekki undir innheimtu samkvæmt frumvarpi þessu. Sem dæmi um kostnað, sem væri utan ramma fyrirhugaðra laga, væri kostnaður við útgáfu stefnu, fjárnámsbeiðni og annar kostnaður fyrir dómstólum og kostnaður við birtingu greiðsluáskorunar með stoð í lögum um aðför eða nauðungarsölu. Ef lögmaður sendir innheimtubréf, án þess að innheimtuviðvörun hafi áður verið send, teldist það ekki innheimtuaðgerð á grundvelli réttarfarslaga heldur yrði bréfið, sem væntanlega yrði kallað innheimtuviðvörun eftir gildistöku innheimtulaga, að fullnægja skilyrðum sem gerð eru til viðvörunar samkvæmt innheimtulögum. Slíkt kallar á litlar breytingar á efni innheimtubréfa. Eftir sem áður verður heimilt að fara beint í aðför eða nauðungaruppboð vegna viðskiptabréfakrafna eða annarra krafna, þar sem heimild er til slíks í lögum, án þess að viðvörun samkvæmt lögum þessum sé gefin út. Nefna má að innheimta lögmanna og allra annarra aðila, svo sem banka, sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, svo og Íbúðalánasjóðs, fellur undir ákvæði frumvarpsins nema innheimtuaðgerðir séu á grundvelli réttarfarslaga.
    Ekki er lengur kveðið á um það í 1. gr. að innheimta umdeildra peningakrafna, þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf, falli undir fyrirhuguð lög en hér getur t.d. verið um að ræða lögfræðilega aðstoð vegna umferðarslyss. Hins vegar er bætt við nýjum málslið í 12. gr. um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Þar segir: „Heimilt er að innheimta viðbót vegna umdeildra peningakrafna þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf.“
    Í 2. mgr. kemur fram að innheimtuaðilar séu einstaklingar og lögaðilar sem annast innheimtu. Hugtakið innheimtuaðili tekur yfir kröfuhafa nema annað komi fram. Svo sem fram kemur í 1. mgr. getur innheimtan verið fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Innheimta launþega á launakröfu sinni félli samkvæmt þessu ekki undir lögin, t.d. ákvæðin um sendingu innheimtuviðvörunar.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 1. málsl. þessarar greinar er heimilt með samningi milli kröfuhafa og skuldara, sem er í atvinnurekstri, að víkja frá 7. gr. um innheimtuviðvörun.
    Ef skuldari hefur á hinn bóginn gengist undir skuldbindingar sem almennur neytandi en ekki vegna atvinnurekstrar síns verður ekki vikið frá ákvæðum 7. gr. um innheimtuviðvörun. Skiptir þá ekki máli þótt skuldbindingar þessa neytanda eigi rætur að rekja til kaupa hans, t.d. á hvers kyns vöru eða þjónustu. Þannig verður skylda til að senda innheimtuviðvörun ekki felld niður eða frestur til greiðslu eftir sendingu viðvörunar ákveðinn styttri en tíu dagar, eins og mælt er fyrir um í 7. gr.
    Samkvæmt 2. málsl. greinarinnar geta kröfuhafi og innheimtuaðili með samningi sín á milli vikið frá ákvæðum 9. gr. um upplýsingaskyldu innheimtuaðila og 1. mgr. 10. gr. um greiðslu innheimtufjár.
    Önnur ákvæði laganna eru ófrávíkjanleg.

Um 3. gr.


    Í greininni eru sett skilyrði til að mega stunda innheimtu fyrir aðra. Eru þar almennt gerðar kröfur um innheimtuleyfi og fasta starfsstöð hér á landi og auk þess þarf gilda starfsábyrgðartryggingu.
    Samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar þurfa vissir aðilar þó ekki innheimtuleyfi til að mega stunda innheimtu fyrir aðra, með öðrum orðum lögmenn, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, svo og opinberir aðilar, m.a. Íbúðalánasjóður. Þeir sem stunda innheimtu vegna eigin starfsemi þurfa almennt ekki innheimtuleyfi enda tekur 3. gr., sem mælir fyrir um innheimtuleyfi, aðeins til innheimtu fyrir aðra. Skv. 5. gr. mundi aðili þó þurfa innheimtuleyfi ef hann kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni.
    Samkvæmt c-lið 1. mgr. þessarar greinar nægir ekki að starfsábyrgðartrygging skv. 14. gr. sé tekin heldur þarf innheimtuaðili jafnframt að sjá til þess að hún sé ætíð í gildi.

Um 4. gr.


    Hér er í 1. mgr. greint frá þeim skilyrðum sem einstaklingur þarf að fullnægja til að geta öðlast innheimtuleyfi en þau eru m.a. lögræði, óflekkað mannorð og lögheimili hér á landi.
Nokkrar breytingar hafa verið gerðar frá fyrra frumvarpi. Þannig er skilyrði að bú viðkomandi einstaklings hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta (kemur í stað orðanna „undir gjaldþrotaskiptum“). Þá er bætt við þekkingarskilyrði, svo og að einstaklingurinn sé ekki í vanskilum með vörsluskatta. Þessar breytingar byggjast á framangreindu þingmannafrumvarpi.
    Tekið skal fram að í 5. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, segir svo um óflekkað mannorð:
    „Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.
    Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.“
    Ákvæðin um hæfisskilyrði einstaklings sem sækir um innheimtuleyfi, þ.e. að hann búi yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt, eiga sér fyrirmynd í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en ákvæði þar taka til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja. Þykir eðlilegt að sams konar skilyrði og til fjármálafyrirtækja sé gert varðandi innheimtustarfsemi, þ.e. vegna einstaklinga eða lögaðila er fá leyfi. Telja má að nægileg þekking sé m.a. fólgin í lögfræði- eða viðskiptafræðiprófi. Fái lögaðilar innheimtuleyfi tekur hæfisskilyrði til framkvæmdastjóra eða yfirmanns viðkomandi starfsemi.
    Lögaðilar sem slíkir geta skv. 2. mgr. fengið innheimtuleyfi enda fullnægi framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi skilyrðum 1. mgr. um lögræði o.fl.

Um 5. gr.


    Í greininni felst undantekning frá því að eigi þurfi innheimtuleyfi ef innheimta er stunduð vegna eigin starfsemi. Þykir rétt að gera kröfu til innheimtuleyfis ef aðili kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni. Þetta gildir ekki um lögmenn, opinbera aðila, viðskiptabanka og sparisjóði, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem mega stunda innheimtu án innheimtuleyfis skv. 2. mgr. 3. gr.

Um 6. gr.


    Í greininni er kveðið á um góða innheimtuhætti.
    Hér er um vísireglu að ræða svipað og sjá mátti t.d. í 20. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, um góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi (nú í 5. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins). Krafan um góða innheimtuhætti gildir bæði um samskipti innheimtuaðila við skuldara og kröfuhafa þótt kaflaheitið gangi skemmra. Í framkvæmd skiptir reglan þó væntanlega mestu máli um samskipti innheimtuaðila og skuldara. Vernd ákvæðisins getur þá náð til fjölskyldu skuldara, atvinnurekanda hans og kunningja hans. Gæta verður góðra innheimtuhátta við sérhverja ráðstöfun eða athöfn sem er þáttur í innheimtunni.
    Í norsku lögunum og dönsku lagafrumvarpi á sínum tíma er beinlínis tekið fram að það brjóti í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi, tjóni eða óþægindum. Er um að ræða nánari útfærslu á meginreglunni um góða innheimtuhætti. Ákveðið var að kveða berum orðum á um þetta í frumvarpinu (2. mgr.).
    Um samband innheimtuaðila og kröfuhafa gildir sú meginregla að innheimtuaðila ber að fylgja fyrirmælum kröfuhafans. Á innheimtuaðilanum hvílir samt sem áður sú sjálfstæða skylda að hlýðnast ekki fyrirmælum kröfuhafa ef þau fela í sér eitthvað sem stríðir gegn góðum innheimtuháttum samkvæmt lögunum eða reglugerð á grundvelli þeirra.
    Innheimtuaðili ætti ekki að taka að sér innheimtu kröfu ef hann hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta sem gætu farið í bága við hagsmuni kröfuhafans.
    Sé aftur vikið að skiptum innheimtuaðila og skuldara gildir sú regla að innheimtuaðili á ekki að gefa skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem eru mikilvægar fyrir afstöðu hans til kröfunnar.
    Það getur brotið gegn góðum viðskiptaháttum ef beitt er hótunum um að veita öðrum upplýsingar um stöðu skuldara, svo sem maka, atvinnurekanda eða kunningjum. Öðruvísi stendur á þegar um er að ræða aðra sem tengdir eru málinu á einn eða annan hátt, t.d. samskuldara eða ábyrgðarmann.
    Það getur brotið gegn góðum innheimtuháttum að hóta að birta opinberlega upplýsingar um greiðsluhæfi skuldara í frekari mæli en heimilt er að lögum.
    Endanlegt úrlausnarvald um það hvað teljist góðir innheimtuhættir er í höndum dómstóla.

Um 7. gr.


    Í greininni er fjallað um innheimtuviðvörun.
    Samkvæmt 1. mgr., sbr. 3. mgr., skal senda eina viðvörun og gefa skuldara færi á að greiða kröfu innan ákveðins frests. Hugtakið skuldari er hér notað í víðri merkingu þannig að senda þarf viðvörunina öllum þeim sem kröfuhafi eða innheimtuaðili hyggst beina innheimtuaðgerðum að, t.d. ábyrgðarmönnum. Í grein þessari er kveðið á um minnst tíu daga frest en kröfuhafi eða annar innheimtuaðili getur haft frestinn lengri. Þótt skylt sé að senda eina viðvörun er heimilt að senda fleiri viðvaranir enda sé ekki með því brotið í bága við góða innheimtuhætti. Viðbótarviðvaranir geta verið kostnaðarsamari fyrir skuldara þar eð lágmarkskostnaður á grundvelli innheimtulaga miðast við greiðslu innan frests samkvæmt skylduviðvörun. Sé skylduviðvörun virt að vettugi og lögmanni síðan t.d. falin innheimta mundi innheimtubréf hans, hverju nafni sem nefnist, í því tilviki ekki falla undir hugsanleg reglugerðarákvæði um lágmarkskostnað vegna skylduviðvörunar.
    Fresturinn telst frá sendingu viðvörunar. Í þessu felst að skuldari ber hallann af seinkun í pósti og því að viðvörunin komi ekki fram enda hafi hún verið send á nægilega tryggan hátt og á heimilisfang þar sem gild ástæða er til að ætla að unnt sé að ná til skuldara. Sending í almennum pósti telst vera tryggur sendingarháttur og því er ekki gerð krafa til þess að viðvörun sé send í ábyrgðarbréfi. Ef kröfuhafi eða innheimtuaðili hefur ekki ástæðu til að ætla að hafa megi upp á skuldara á öðru heimilisfangi verður almennt að teljast nægilegt að senda viðvörunina á það heimilisfang sem skuldarinn gaf kröfuhafanum upp. Ef ekkert heimilisfang var gefið upp telst almennt fullnægjandi að senda hana á lögheimili samkvæmt þjóðskrá.
    Ekki er skylt að senda innheimtuviðvörun vegna viðskiptabréfakrafna eða annarra krafna þar sem farið er beint í aðför eða nauðungaruppboð á grundvelli heimildar í lögum, sbr. 1. mgr. 1. gr. þar sem segir að innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga falli ekki undir gildissvið laganna. Ef ekki er hins vegar farið beint í þessar aðgerðir með sendingu greiðsluáskorunar heldur sent innheimtubréf gilda almennar reglur laganna um viðvörun, sbr. nánar það sem segir í athugasemdum við 1. gr.
    Í 2. mgr. er tekið fram hvað skuli standa í innheimtuviðvörun. Er það svipað og verið hefur í innheimtubréfum.
    Í 3. mgr., sem er nýmæli, er gert ráð fyrir að þeir aðilar, aðallega smáir aðilar sem stunda innheimtu vegna eigin starfsemi og þurfa ekki innheimtuleyfi skv. 2. mgr. 3. gr., þ.e. aðrir en lögmenn, opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, geti almennt einfaldað meðferð mála með því að sameina greiðsluseðil og innheimtuviðvörun með ákveðnum skilyrðum. Ekki má þá innheimta innheimtuþóknun skv. c-lið 2. mgr. ef greitt er í síðasta lagi tíu dögum eftir gjalddaga. Með þessu er dregið úr fjölda bréfa við innheimtu af hálfu aðallega smárra aðila.
    Í 4. mgr. segir að krafa teljist greidd ef greiðsla hefur borist áður en settur frestur er liðinn eða sé sett í ábyrgðarpóst á síðasta degi frests (enda sé slíkt sannað). Nægilegt er að greiðslan berist t.d. banka eða sparisjóði.
    Í 5. og 6. mgr. er veitt heimild til að víkja frá ákvæðum greinarinnar um sendingu innheimtuviðvörunar í sérstökum tilvikum.
    Samkvæmt 5. mgr. má víkja frá ákvæðunum ef hætta er á að möguleikum á fullnustu kröfu verði spillt. Nefna má hættu á að krafan fyrnist ef mál er ekki höfðað. Undir öllum kringumstæðum verður einungis vikið frá ákvæðunum að því marki sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir hættu á að fullnustumöguleikum verði spillt. Ef unnt er að fylgja ákvæðunum án þess að hættan aukist er innheimtuaðila það skylt.
    Í 6. mgr. er tekið á því ef skuldari hreyfir sannanlega mótbárum gegn peningakröfu. Þá er innheimtuaðila heimilt að hverfa frá venjulegum innheimtuaðferðum, sem ella er skylt að gæta, og bera ágreining um réttmæti kröfunnar undir dómstóla. Í slíkum tilvikum er það meginreglan að innheimtuaðili þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort mótbáran sé studd efnislegum rökum eða aðeins tilraun skuldara til að draga að greiða kröfuna.
    Til frekari skýringar er vísað til athugasemda við 1. gr. um að viðvörun geti komið í stað innheimtubréfa, svo og tengsl viðvörunar við innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga, en almennt má ætla að viðvörunin yrði undanfari slíkra aðgerða. Kjósi aðili að senda skuldara ítrekun yrði það að teljast heimilt enda sé ekki í undantekningartilvikum brotið með því í bága við regluna um góða innheimtuhætti.

Um 8. gr.


    Í greininni er fjallað um umboð innheimtuaðila og felur hún m.a. í sér að uppgjör við innheimtuaðila er bæði hvað varðar stað og tíma jafngilt greiðslu til kröfuhafa sjálfs. Skuldari á að geta gert ráð fyrir að innheimtuaðili hafi umboð til að taka við greiðslu og semja um hana, jafnvel til að gefa alla kröfuna eftir eða hluta hennar eða veita greiðslufrest, svo að bindandi sé fyrir kröfuhafa. Gangi innheimtuaðili of langt kann hann að baka sér bótaskyldu gagnvart kröfuhafa. Gengið er út frá því, þótt það sé ekki tekið fram berum orðum, að innheimtuaðili hafi fengið umboð frá kröfuhafa til innheimtu.
    Samningar um greiðslu skulu vera skriflegir. Fellt er niður úr fyrra frumvarpi að skuldari þurfi að óska eftir því að samningur um greiðslu sé skriflegur.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um upplýsingaskyldu innheimtuaðila gagnvart kröfuhafa enda fari sá síðarnefndi fram á upplýsingar um innheimtuna. Það er undir mati innheimtuaðila komið hvaða upplýsingar hann veitir kröfuhafa og hvenær. Sérstök ástæða getur verið til að vekja athygli kröfuhafa á mótbárum sem skuldari hefur haft uppi þótt ekki sé gert ráð fyrir afdráttarlausri reglu um það efni. Ljúki innheimtu samkvæmt innheimtulögum án eftirfarandi innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga skal innheimtuaðili þó að beiðni kröfuhafa afhenda honum skriflegt uppgjör og er kveðið á um það hvað þar skuli greina. Í þessu felst t.d. að lögmaður, er lokið hefði innheimtu á grundvelli innheimtulaga en höfðaði síðan mál til innheimtu kröfunnar, þyrfti ekki að afhenda kröfuhafa slíkt skriflegt uppgjör sem kveðið er á um í greininni.
    Grein þessi um upplýsingaskylduna er frávíkjanleg, sbr. 2. gr.

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um skil innheimtuaðila á innheimtufé. Skv. 2. gr. er þessi málsgrein frávíkjanleg.
    Í 2. mgr., sem er ekki frávíkjanleg, er kveðið á um skyldu innheimtuaðila, sem stunda innheimtu fyrir aðra, til að halda innheimtufé aðskildu frá eigin fé. Til að fullnægja þeirri kröfu þarf að leggja féð á vörslufjárreikninga þannig að það verði ekki dregið undir gjaldþrotaskipti innheimtuaðilans ef til þeirra kemur. Opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki sem mega stunda innheimtu án innheimtuleyfis skv. 2. mgr. 3. gr., eru þó undanþegnir þessari skyldu og sérákvæði um vörslufjárreikninga lögmanna haldast.
    Nefna má í þessu sambandi að í reglugerð nr. 1192/2005, um fjárvörslureikninga lögmanna o.fl., sem sett var á grundvelli laga nr. 77/1998, um lögmenn, segir að reglugerðin taki til lögmanna sem varðveita fjármuni fyrir hönd umbjóðenda sinna. Í 4. gr. segir að fjárhæð, sem samsvarar stöðu fjárvörslureiknings í bókhaldi lögmanns, skuli varðveitt á sérstökum bankareikningi/-reikningum í viðskiptabanka eða sparisjóði, fjárvörslureikningi. Fjárvörslureikning skal stofna á nafni lögmanns og hefur hann formlega ráðstöfunarheimild yfir reikningnum. Lögmaður er ekki eigandi innstæðu á reikningi samkvæmt greininni og er innstæðan ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum eða grundvöllur trygginga fyrir viðskiptum hans eða annarra. Reikningur þessi skal aðgreindur frá eigin fé lögmanns og stendur innstæða á honum utan skuldaraðar við skipti á búi lögmanns.
    Gengið er út frá því að í almennri reglugerðarheimild ráðherra felist heimild til að setja reglur um fjárvörslureikninga.

Um 11. gr.


    Í greininni er fjallað um ábyrgð skuldara á greiðslu kostnaðar vegna innheimtu samkvæmt hinum fyrirhuguðu innheimtulögum. Reglurnar fjalla annars vegar um þau tilvik, er skuldari hefur greitt innan greiðslufrests í viðvörun á grundvelli 7. gr., eða hins vegar er innheimtuaðilar, m.a. kröfuhafar, hafa brotið þannig gegn ákvæðum 7. gr. að viðvörunin þjóni ekki tilgangi sínum. Í þessum sérstöku tilvikum verður skuldari ekki krafinn um hærri kostnað en kveðið er á um í reglugerð viðskiptaráðherra skv. 12. gr., og jafnvel engan ef 3. mgr. 7. gr. er beitt, þ.e. ef heimild til setningar slíkrar reglugerðar hefur verið nýtt og ákvæði þar að lútandi í gildi.

Um 12. gr.


    Í greininni er fjallað um heimild viðskiptaráðherra til setningar reglugerðar þar sem kveða má á um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar. Í 2. málsl. er það skilyrði sett að hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar skuli taka mið af öllum þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur getur talist. Því er bætt við í þessu frumvarpi að kostnaðurinn geti einnig talist hóflegur.
    Með því að setja ákvæði um hámark þóknunar má stuðla að því að kröfur á hendur skuldara, þar sem skuldari hefur ekkert val um innheimtuaðila, verði ekki strax sendar í óeðlilega dýra innheimtu á kostnað hans. Kjósi kröfuhafi að greiða umframþóknun getur hann það. Á hinn bóginn er ekki stefnt að því að skuldari komist hjá því að greiða útlagðan kostnað og jafnvel áætlaðan kostnað. Með kostnaði er með öðrum orðum átt við beinan og óbeinan kostnað sem leiðir af innheimtu samkvæmt innheimtulögum. Reglugerðin næði ekki fremur en lögin til aðgerða á grundvelli réttarfarslaga, t.d. þóknunar lögmanna vegna aðfarar eða nauðungaruppboðs eða opinberra gjalda í því sambandi.
    Kveðið er á um að viðskiptaráðherra setji ekki reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar nema að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila. Þar undir gætu t.d. fallið Lögmannafélag Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands.
    Bætt er við greinina nýjum málslið. Þar segir að heimilt sé að innheimta viðbót vegna umdeildra peningakrafna þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf, sbr. athugasemd við 1. gr.

Um 13. gr.


    Í greininni er fjallað um þagnarskyldu innheimtuaðila, svo og starfsmanna hans í víðri merkingu.

Um 14. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um starfsábyrgðartryggingu sem svipar til reglna um lögmenn.

Um 15. gr.


    Gert er ráð fyrir því í 1. mgr. að Fjármálaeftirlitið veiti leyfi og svipti leyfishafa þeim. Í fyrra frumvarpi var gert ráð fyrir viðskiptaráðherra.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi almennt eftirlit með innheimtustarfsemi á grundvelli laganna. Í málsgreininni er jafnframt gert ráð fyrir aðgangi eftirlitsins að upplýsingum, jafnvel frá aðilum sem stunda starfsemi án tilskilins leyfis. Tekið er nú skýrt fram að eftirlitið geti krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er nú kveðið á um að eftirlitinu sé heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða innheimtuþjónustu án tilskilinna leyfa.
    Í nýrri 3. mgr. er kveðið á um að eftirlitinu sé heimilt að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi varðandi dagsektir, leit og hald á gögnum við eftirlit og upplýsingaöflun samkvæmt þessari grein.
    Í nýrri 4. mgr. segir að þeir sem hafi fengið innheimtuleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu skuli árlega greiða eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar. Má leggja á stjórnvaldssekt ef brotið er gegn ákvæðunum um eftirlitsgjald.
    Í 5. mgr. eru ákvæði um heimild Fjármálaeftirlitsins til að gefa innheimtuaðilum, m.a. kröfuhöfum, fyrirmæli um að breyta starfsháttum sínum og jafnframt um lok máls með sátt er gildi sem fyrirmæli. Þá er bætt við að eftirlitið geti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn sátt milli Fjármálaeftirlitsins og innheimtuaðila.
    Í 6. mgr. er heimild til að banna leyfisbundna innheimtustarfsemi til bráðabirgða. Verði eigi úr bætt gerir eftirlitið ráðstafanir til sviptingar leyfis.
    Samkvæmt 8. mgr. er gert ráð fyrir þeirri undantekningu að úrskurðarnefnd lögmanna, sem komið var á fót með lögum nr. 77/1998, um lögmenn, fari gagnvart lögmönnum með eftirlit með framkvæmd innheimtulaga. Úrskurðarnefndin mun hafa eftirlit með starfsemi lögmanna sem stunda innheimtu auk annarra starfa, m.a. eftirlit með gjaldtöku þeirra, vörslufjárreikningum og starfsábyrgðartryggingu. Væri úrskurðarnefnd lögmanna ekki með þetta eftirlit yrði eftirlit með innheimtu á frumstigi samkvæmt innheimtulögum hjá Fjármálaeftirlitinu en eftirlit með innheimtu á síðara stigi í hendi úrskurðarnefndarinnar. Hugsanlegt er að Fjármálaeftirlitið og úrskurðarnefndin hafi, ef þurfa þykir, með sér samráð og jafnvel samstarf um gerð verklagsreglna, sem tengjast einstökum þáttum eftirlits, til að tryggja sem mest samræmi varðandi framkvæmd laganna, einkum að því er varðar góða innheimtuhætti.

Um 16. gr.


    Í greininni er kveðið á um sviptingu innheimtuleyfis, m.a. ef leyfishafi hefur ekki fullnægt skyldum sínum. Í því sambandi má m.a. benda á að leyfishafinn skal fullnægja skilyrðum 6. gr. um góða innheimtuhætti, 7. gr. um innheimtuviðvörun og 5. mgr. 15. gr. um að fylgja fyrirmælum um að breyta starfsháttum. Gæta þarf stjórnsýslulaga við framkvæmd ákvæðanna.

Um 17. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um refsingar og réttarfar. Ákvæðið um hlutdeild getur leitt til þess að starfsmönnum innheimtuaðila sé jafnvel refsað, svo og kröfuhafa eða öðrum sem geta verið hlutdeildarmenn í broti innheimtuaðila.

Um 18. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir almennri reglugerðarheimild viðskiptaráðherra.

Um 19. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir gildistöku þegar í stað. Þar eð þörf kann að vera á að aðlaga tölvukerfi þeim breytingum sem felast í lögunum er gert ráð fyrir nokkrum aðlögunartíma, þó ekki lengur en til 1. nóvember 2008.
    Frá 1. nóvember 2008 falla úr gildi ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, þar sem segir að dómsmálaráðherra geti að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefið út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af innheimtu peningakröfu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til innheimtulaga.

    Með frumvarpi þessu er áformað að setja lög um innheimtu gjaldfallinna krafna aðra en almenna innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum. Í 3. gr. er gert ráð fyrir að innheimtuaðilar aðrir en lögmenn verði að hafa innheimtuleyfi og í 15. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið fari með leyfisveitingu og leyfissviptingu en hafi jafnframt á hendi eftirlit með innheimtustarfseminni.
    Samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að leggja eftirlitsgjald á þá aðila sem eftirlit er haft með. Í 15. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þeir sem fengið hafa innheimtuleyfi frá Fjármálaeftirlitinu skuli árlega greiða eftirlitsgjald vegna starfsemi sinnar. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt er gert ráð fyrir að kostnaðarauki vegna þess verði fjármagnaður með tekjum af eftirlitsgjaldinu og að samþykkt frumvarpsins hafi þar af leiðandi ekki áhrif á tekjuafkomu ríkissjóðs.