136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:42]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að megi fullyrða það að engir þeirra sem eru í þingsalnum hafi upplifað þá stöðu sem íslenska þjóðin er í. Við erum að takast á við mjög alvarlega tíma. Við horfum vissulega í baksýnisspegilinn til að sjá hvað við gerðum ekki, hverju við brugðumst ekki við en það breytir hins vegar ekki því að ástandið nú er svo alvarlegt að okkur öllum sem störfum í hv. Alþingi ber skylda til að leggja fram allt sem við getum til að taka á því ástandi sem nú blasir við. Þar getur ekkert okkar skorist undan hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ég held að staða ríkisstjórnarinnar sé nú með þeim hætti að hún eigi ákaflega erfitt með að koma fram þeim málum sem hún vill vinna að. Ég merki það m.a. af fundum sem haldnir voru í Samfylkingunni í gærkvöldi og þeim ályktunum sem borist hafa frá öðrum ríkisstjórnarflokknum, þ.e. Samfylkingunni, frá félögum þar innan dyra, úr Kópavogi og víðar, þar sem því er lýst yfir að flokksfólkið, jafnvel þingmenn hafi enga trú á því að núverandi ríkisstjórn geti starfað áfram.

Við sjáum líka hin geysihörðu mótmæli sem farið hafa vaxandi í landinu undanfarnar vikur og kröfur þjóðarinnar um breytingu, kröfu fólksins um að tekið verði á málum og brugðist við. Ég held að staða okkar sé einfaldlega sú að ekki verði undan því vikist að kjósa fyrr en síðar. Það verður ekki undan því vikist. Það breytir hins vegar ekki því að sá vandi sem ég kom að í upphafi máls míns er til staðar og frá honum getum við ekki hlaupið. Við verðum að takast á við hann, við verðum að reyna að horfa til þess að gera íslensku þjóðinni mögulegt að standa af sér þá holskeflu sem nú er fram undan og hún hverfur ekki á næstu vikum og mánuðum, því miður. Ábyrgð okkar er því mikil hvar sem við stöndum í stjórnmálum og hvort sem við störfum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Stjórnarandstaðan bauð á síðasta hausti að koma jafnvel að þjóðstjórn til að takast á við málin. Ég held að það sé kannski staðan sem við stöndum frammi fyrir núna að hæstv. forsætisráðherra verði að meta hvort hann vilji njóta samstarfs við okkur í stjórnarandstöðunni við að taka á þeim málum sem fram undan eru en þá verður auðvitað að liggja fyrir samkomulag um það hvernig við ætlum að leyfa þjóðinni að fella sinn dóm og hvenær. Ég tel að þjóðin eigi heimtingu á því. Við höfum öll staðið að því á hv. Alþingi að samþykkja lög um svokallaða sannleiksnefnd til að leysa upp ýmsa starfsemi, losa og afnema trúnaðarreglur starfsmanna sem geta borið vitni fyrir nefndinni án þess að hafa af trúnað við ráðherra, trúnað við bankana eða þau störf sem þeir hafa haft með höndum til að upplýsa það sem sannast og réttast er um stöðuna sem við erum komin í. Smátt og smátt berast okkur upplýsingar um hvað var að gerast í bankakerfinu þar sem menn leyfðu sér að færa fjármuni fram og til baka um veröldina til eigenda og fursta til að breyta eða reyna að hafa áhrif á stöðu íslenska bankakerfisins.

Það er auðvitað í samræmi við það sem forsætisráðherra sagði og utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, hefur líka sagt þegar rætt var um stöðuna hér á landi í febrúar og mars á síðasta ári m.a. við seðlabankastjóra um hversu alvarleg hún væri. Í framhaldinu var rætt við bankastjórnirnar og bankastjórana og hvað sögðu þeir? Á Íslandi er allt í lagi. Við eigum fjármuni út árið 2009, við munum standa af okkur alla þessa orrahríð. Ég geri ekki ráð fyrir að bankastjórarnir hafi sagt forsætisráðherra og utanríkisráðherra hvað þeir væru að aðhafast í peningatilflutningi um veröldina til að breyta stöðu bankanna. Það kann þó að vera en þau hafa ekki sagt okkur það. Reyndar sögðu forustumenn ríkisstjórnarinnar okkur í stjórnarandstöðunni ekki heldur frá fundunum í febrúar og mars og þeirri alvarlegu stöðu sem menn voru þá að ræða eftir upplýsingar frá Bretlandi.

Hvað um það, ekki þýðir að velta sér upp úr fortíðinni þótt eðlilegt sé að minnast á það hér hvernig mál hafa gengið fyrir sig. Ég held að hæstv. forsætisráðherra eigi að leita eftir því við stjórnarandstöðuna núna að vinna skipulega að því að taka á þeim erfiðu málum sem fram undan eru. Þau eru mörg og þó að hæstv. forsætisráðherra hafi farið hér yfir ýmislegt sem sett hefur verið í lög og reglur og ýmislegt sem er í farvatninu þá er vandinn samt til staðar og hann snýr sérstaklega að fólkinu í landinu og atvinnulífinu, fyrirtækjunum. Við horfum upp á að sífellt fjölgar á atvinnuleysisskránni, nú eru 12 þúsund manns atvinnulausir. Margt þarf að gera til að reyna að draga úr atvinnuleysinu. Það er engin hefð fyrir því á Íslandi að sætta sig við atvinnuleysi. Við höfum aldrei vanist því sem þjóð að búa við atvinnuleysi og munum auðvitað ekki sætta okkur við það. Enda er það viðhorf íslensku þjóðarinnar að hún eigi að fá að vinna eina leiðin til að komast út úr þeirri stöðu sem við erum í, að hún eigi að fá að starfa. Í gegnum alla erfiðleika sem ég þekki til úr mínu minni hefur þjóðin unnið sig út úr þeim hörðum höndum og unnið mikið. Stundum var sagt: Vinnan göfgar manninn og eftirvinnan enn þá meir. Það er aðferðin sem við höfum stundum þurft að grípa til.

Þegar herðir að í atvinnulífinu, störfum fækkar og dregur úr kaupmætti fólks getur fólk þurft að vinna meira til að komast af og einnig til að koma þjóðinni í þá stöðu að hún komist út úr erfiðleikum. Ég legg það til að ef við þurfum að vinna meira, þá gerum við það. Að við skorumst ekki undan því á hv. Alþingi, hvorki stjórn né stjórnarandstaða, að við leggjum allt af mörkum sem við getum til að vinna okkur út úr ástandinu.

Ég er alla vega fyrir hönd Frjálslynda flokksins að bjóða fram slíkt samstarf vegna þess að ég held að ekki fáist vinnufriður í þjóðfélaginu nema ríkisstjórnin móti samkomulag og sameiginlega stefnu um það hvenær gengið verði til kosninga. Ég hef sagt að úr því að allur þingheimur var sammála um að skipa svokallaða sannleiksnefnd eigi hún að fá að starfa og skila einhverju til þjóðarinnar. Hún á að geta lagt mat á hvar hún fær besta vitneskju í hendur, hún á að geta treyst því að sá farvegur sem við vorum sammála um sé sá sem geti sagt okkur satt og við eigum að geta treyst því. Við höfum ekki á annað betra að treysta þó að vissulega hafi mjög margt farið á þann veg í þjóðfélaginu að við treystum ekki ýmsum upplýsingum og við treystum oft ekki þeim upplýsingum sem okkur eru gefnar.

Staðan er grafalvarleg og það hefur verið komið inn á hana hér í þingsalnum og í ræðum í morgun. Alvarlegust er þó, held ég, sú skuldastaða sem íslenska þjóðarbúið horfist í augu við. Og hvort við tölum um 1.500 eða 2.000 milljarða kr., hvor talan sem er mun leggja miklar byrðar á íslensku þjóðina. Við samþykktum á núverandi fjárlögum 87 milljarða kr. vaxtagreiðslur einar og sér, ekki afborganir. Af hvaða tekjum? 402 milljörðum. Af tekjum sem höfðu lækkað um 50–60 milljarða ætlum við að greiða 87 milljarða í vexti. Ef Icesave-reikningarnir eiga að falla á íslensku þjóðina óbættir með vaxtabyrði upp á 5–7% erum við að tala um 30–40 milljarða í viðbót í vöxtum, 120–140 milljarða af núverandi 402 milljarða kr. tekjum.

Það er alveg ljóst að við verðum að reyna að auka tekjurnar í þjóðfélaginu. Í því sambandi þolum við og getum ekki lifað við neina taugaveiklun. Við munum þurfa að taka þær tekjur sem við getum náð í hvort sem það er til sjós eða lands. Einhverjum mun örugglega mislíka eitthvað af því sem gert verður til að afla tekna en við verðum að fara þessa leið alveg eins og við verðum að fara þá leið að skera niður ýmislegt í ríkisfjármálum. Þó að við verðum að setja í forgang að halda velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu og reyna að tryggja að þeir sem lakasta hafa afkomuna í þjóðfélaginu haldi velli, þá verðum við samt sem áður að fara niðurskurðarleið að einhverju leyti. En við komumst ekki þessa vegferð á niðurskurðarleiðinni einni og sér, það er útilokað. Tekjuaukning verður að koma til. Og þó að hæstv. iðnaðarráðherra hafi lýst hér áðan því ofboðslega afreki ríkisstjórnarinnar að hafa bjargað og byggt upp þorskstofninn, þá er ég þeirrar skoðunar að það sé lífríkið í sjónum, hitafar sjávar og aukið ætisframboð sem hafi aukið þorskstofninn en ekki hæstv. ríkisstjórn. Það er mín skoðun, hæstv. forseti. Við megum þakka fyrir að svoleiðis árar því að það gefur okkur tækifæri til að auka tekjurnar úr sjávarútvegi enn frekar, það gefur okkur tækifæri til þess. Í því sambandi er rétt að minna íslensku þjóðina á að við höfum í meira en hálfa öld fiskað 400.000 tonn af þorski að meðaltali. Ef ég man rétt frá 1905, í rúma öld, erum við sennilega að tala um 360.000 tonn að meðaltali.

Ef sæmilega árar í hafinu tökum við enga sérstaka áhættu með því þó að við þurfum að auka þorskveiðina. Ég verð að segja að það er furðulegur misskilningur, sérstaklega hjá mönnum sem starfa í sjávarútvegi, ef menn halda að 30.000 tonna aukning af þorski á Íslandsmiðum ráði heimsmarkaðsverði á þorski úti í heimi. Það er furðulegur misskilningur. Það eru Norðmenn og Rússar sem ráða núna framboðinu á þorski, þjóðir sem eru að veiða 600.000–700.000 tonn. Það framboð hefur áhrif en ekki 30, 50 eða 100.000 tonna aukning á Íslandsmiðum.

Hins vegar er það reyndar svo úti í heimi alveg eins og hjá okkur að fólk velur sér mat eftir verði. Þegar saltfiskkílóið á Kanarí er selt á 22,5 evrur en kjúklingabringan við hliðina á 9 evrur, þá skulu menn bara fylgjast með hver kaupir saltfiskinn. Ég stóð á annan klukkutíma við svona borð og það kom enginn, ekki einn. Menn verða bara að átta sig á að við erum að selja mat. Við munum þurfa að lækka afurðaverð okkar, við verðum að una því, en við þurfum jafnframt að auka tekjurnar og við gerum það ekki nema með meira magni. Svo einfalt er það.

Vonandi er svo að ýmislegt sem við getum gert í atvinnumálum, m.a. í orkumálum og iðnaðarmálum, í sprotafyrirtækjum, og mannaflsfrekum framkvæmdum sem hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) á að stýra, verði til þess að lágmarka atvinnuleysið. Það verður samt nógu erfitt. (Forseti hringir.) En þetta er eina leiðin fyrir okkur til að komast út úr því sameiginlega að (Forseti hringir.) íslenskt þjóðfélag ráði við vandann.