136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:58]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þá ræðu sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson flutti rétt áðan en hann kom inn á margt athyglisvert. Í því ástandi sem er í dag tala margir um kosningar og hv. þingmaður benti á að það væri rétt að láta sannleiksnefndina svokölluðu skila og það eru ekki annað en gild rök í þeirri umræðu. Ég held að það verði ekki hjá því komist að við kjósum á þessu ári. Við þurfum að finna tímapunktinn og við þurfum að gera það í sátt en það má ekki verða til þess að mikilvægustu og brýnustu verkefni okkar stjórnmálamanna bíði í þeirri sjálfhverfu sem óhjákvæmilega fylgir kosningum. Þar er enginn flokkur undanskilinn, þegar menn fara í kosningar hugsa menn um eigin hag og flokkana sína en ekki annað. Það er bara þannig. Og við höfum ekki efni á því á næstu dögum og vikum að geyma og bíða með að taka þær stóru ákvarðanir sem lúta að því að koma bankakerfinu af stað að nýju og það er algert lykilatriði fyrir okkur. Hér er vaxandi atvinnuleysi eins og menn hafa komið inn á og til að sporna gegn því þarf að koma bankakerfinu og bankastarfseminni í gang að nýju. Þar verður að tína margt til. Við þurfum að reyna að leysa úr þeirri flækju sem er m.a. við erlenda kröfuhafa og við verðum að koma samskiptum bankanna og fyrirtækjanna í betri farveg en þau eru í dag. Við skulum heldur ekki fara í grafgötur með það að hátt vaxtastig sem hefur verið hátt allt of lengi er sá baggi sem hvílir helst á fólkinu og fyrirtækjunum í dag.

Við gerðum samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem átti að stuðla að því að lækka verðbólgu sem mundi síðan leiða til lækkandi vaxta um leið og við settum ákveðin gjaldeyrishöft hér á landi. En menn hljóta að velta fyrir sér þegar starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma nú í febrúar, þá hlýtur að verða fara yfir málin því gengið hefur ekki styrkst eins og við höfum væntingar til og áherslur okkar sögðu fyrir um og þá hljótum við með rökum að fara yfir það með samstarfsfólki okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hvort það sé betra fyrir íslenskt samfélag til að rétta fyrr úr kútnum hvort það sé réttara að huga að lækkun vaxta en auknum gjaldeyrishöftum í staðinn. Við þurfum að halda fjármagninu inni en við þurfum líka að koma hagstæðara fjármagni til fólksins og ekki síst til fyrirtækjanna til þess að hjól atvinnulífsins fari betur af stað en þau hafa gert í dag.

Ég held að þá ræðu sem hæstv. forsætisráðherra flutti áðan mætti flytja miklu, miklu oftar. Þeir 40 punktar sem þar voru nefndir hljóma nefnilega ekki nógu oft. Það hefur verið unnið heilmikið að málum í þágu heimilanna og fyrirtækjanna, umræða um þá vinnu hefur bara farið allt of lágt. Að því leytinu til tek ég sannarlega undir, og hef oft gert, það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að stærstu mistök ríkisstjórnarinnar væru að upplýsa ekki nóg og það er rétt. En ég bið menn að hlusta á það sem forsætisráðherra sagði áðan um aðgerðir til uppbyggingar samfélagsins, þá 40 punkta sem þar voru nefndir, hvort sem það var á vegum Íbúðalánasjóðs eða í formi aukins samspils atvinnuleysis, lána og náms eða til þess að hjálpa fólki sem minni menntun hefur til að mennta sig í gegnum Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og þar mætti margt draga fram. Í því hruni sem við höfum sem betur fer ekki upplifað áður jafnríkulega í íslenskri sögu og við upplifðum í októbermánuði þá þurfti að greiða úr mörgu, það þurfti að greiða úr flækjunni og við erum að gera það. Skólakerfið hrundi ekki, heilbrigðiskerfið hrundi ekki, það virkar. Félagslega kerfið virkar og bankakerfið heldur áfram, þótt það hökti. Við getum ekki komið sem stjórnmálamenn í þennan ræðustól og sagt að það þurfi að kjósa, það þurfi að kjósa. Við höfum ekki efni á að bíða næstu vikur með að taka sársaukafullar ákvarðanir. Ég er reiðubúin til að taka þær sársaukafullu ákvarðanir og fara í kosningar. En ef við bíðum með þær ákvarðanir þá erum við að segja við fólkið í landinu: Við ætlum ekki að stuðla að því að minnka atvinnuleysi. Við þurfum að fara í ákvarðanir á sviði ríkisfjármála, á sviði peningamála sem mega ekki bíða. Það er í þágu fólksins.