136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:19]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við viljum sjá nýtt Ísland rísa út úr þeim hörmungum sem yfir okkur hafa gengið upp á síðkastið. Til þess að við getum skapað nýtt Ísland þurfum við að halda stjórnlagaþing og kjósa til þess, við þurfum að setja nýja stjórnarskrá, við þurfum að samþykkja ný kosningalög. Breytinga er þörf á flestum ef ekki öllum sviðum í samfélagi okkar. Við þurfum að hugsa hlutina gjörsamlega upp á nýtt á öllum sviðum og reyna að uppræta þá spillingu og sukk sem hefur verið í gangi í samfélaginu á síðustu árum. Það er víða af nógu að taka í spillingunni. Síðast en ekki síst þurfum við að mynda kannski þjóðstjórn fram að kosningum og halda síðan kosningar með vorinu.

Það er mjög alvarlegt þegar svo horfir að 40% af fjölskyldum landsins séu að fara í gjaldþrot, missa húseignir sínar, það er mjög alvarlegt ef 70% fyrirtækja í landinu eru að verða gjaldþrota, og þá erum við kannski rétt að sjá toppinn á ísjakanum. Þær skuldbindingar sem verið er að setja á okkur með Icesave-reikningunum eru með ólíkindum og ég er efins um að við getum nokkurn tíma staðið undir þeim vöxtum og afborgunum sem á okkur hvíla út af þeim.

Efnahagsmál eru náttúrlega mál málanna við þessar aðstæður og síðast en ekki síst kannski atvinnumálin og hvaða möguleikar eru til að auka tekjur þjóðarinnar, skapa atvinnu og tryggja að fólkið í landinu haldi áfram að lifa mannsæmandi lífi. Við höfum auðvitað ákveðna möguleika en skiptar skoðanir hafa verið um það meðal ekki bara þingmanna heldur landsmanna hvaða auðlindir við eigum að nýta og hvernig við eigum að nýta þær. Ákveðinn hluti þjóðarinnar vill ekki nýta virkjanir og byggja upp stóriðju og annað í þeim dúr, ýmiss konar iðjuver sem gætu skapað okkur tekjur, bæði atvinnu- og gjaldeyristekjur. Við höfum möguleika á að auka tekjur í ferðamannaiðnaðinum og síðast en ekki síst í sprotafyrirtækjunum en við þurfum að huga að því að gera þetta almennilega og setja í það fjármagn.

Sama má segja um landbúnaðinn. Við getum sparað okkur gjaldeyri með því að auka framleiðslu í landbúnaði. Það skýtur dálítið skökku við þegar landbúnaðurinn á undir högg að sækja eins og annar atvinnurekstur í landinu að þá skulum við leggja drög að frjálsum innflutningi á fersku kjöti. Það gengur ekki alveg upp að mínu mati og hefði ég talið rökrétt að fresta því um a.m.k. eitt ár. Landbúnaður er matvælaframleiðsla og eftir því sem við getum sparað meira í innflutningi getum við átt meira eftir af gjaldeyri sem við sköpum. Ýmsir möguleikar eru í landbúnaði eins og heimaslátrun og annað í þeim dúr sem getur skapað atvinnu fyrir bændur og fólk í landbúnaðarhéruðum.

Þegar rætt er um atvinnumál er það náttúrlega sjávarútvegurinn sem getur fært okkur miklu meira en við höfum verið að nýta úr þeirri atvinnugrein. Við getum í fyrsta lagi aukið veiðar á flestum tegundum og ég sé dálítið eftir því að við skyldum ekki nýta okkur að veiða meira af þeirri sýktu síld sem er að drepast um allar trissur. Auðvitað hjálpa til 30 þúsund tonn sem við bættum við í þorski en þau hjálpa náttúrlega ekki til þegar sömu mennirnir fá þau afhent. Það hefði verið tilvalinn tekjuliður fyrir ríkið að leigja þessar veiðiheimildir, þessi 30 þúsund tonn, og miðað við þau lögverð sem eru í gangi í dag hefði þetta skilað ríkissjóði 6–7 milljörðum, en á það hefur ekki verið fallist og ekki verið gert. Þessi úthlutun er kannski aðallega til komin vegna þess að menn eru að reyna að bjarga sjávarútveginum með veð, skapa honum veðhæfni, og það getur vel verið að þetta sé veðhæfni upp á allt að 50–60 milljarða miðað við það (Forseti hringir.) sem gengur á markaðnum í dag.