Gjaldþrotaskipti o.fl.

Fimmtudaginn 05. febrúar 2009, kl. 12:17:14 (3209)


136. löggjafarþing — 75. fundur,  5. feb. 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[12:17]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Neyðarástand hefur skapast á þúsundum heimila í landinu auk þess sem gjaldþrot blasir við mörgum þeirra. Það mun skapa margvísleg félagsleg vandamál, leggja auknar byrðar á félagsmálastofnanir, auka örvæntingu einstaklinga og fjölskyldna og skapa sár í þjóðfélaginu sem seint munu gróa.

Meginástæðan fyrir greiðsluerfiðleikum heimilanna er hrun íslenska fjármálakerfisins, óstöðugleiki íslensku krónunnar, okurvextir, óðaverðbólga, lækkandi fasteignamat og sívaxandi atvinnuleysi. Samhliða hafa skattar hækkað, álögur aukist í formi þjónustugjalda og kjör skert — allt í boði fyrrverandi ríkisstjórnar.

Til að koma í veg fyrir þá holskeflu gjaldþrota sem nú blasir við og gera mun þúsundir fjölskyldna heimilislausar þarf að grípa til björgunaraðgerða til að aðstoða fólk við að greiða úr skuldavandamálum heimilanna, vandamálum sem þegar eru orðin svo mikil að heimilin ráða ekki við þau. Margt þarf að koma til, svo sem greiðsluaðlögun, lenging lána, félagsleg aðstoð og veiting greiðsluerfiðleikalána.

Lengi hefur verið beðið eftir frumvarpi um greiðsluaðlögun og hafa þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins margoft lagt fram frumvörp þess efnis eða þingsályktunartillögur. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði lofað lögum um greiðsluaðlögun nánast frá upphafi, nú síðast í janúar, en tókst ekki að leggja fram mál þess efnis áður en hún fór frá. Því er það mikið fagnaðarefni að allt stefnir í að greiðsluaðlögun verði að lögum hér á landi líkt og á hinum Norðurlöndunum.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun á þskj. 494 sem er 275. mál þingsins. Tilgangur þessa frumvarps er að gefa þeim einstaklingum sem eru í alvarlegum og viðvarandi greiðsluerfiðleikum möguleika á því að ná stjórn á fjármálum sínum.

Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um greiðsluaðlögun þar sem skuldurum verði hjálpað til að komast út úr mesta svartnættinu. Markmiðið með greiðsluaðlögun er að skuldari fái lánskjörum breytt þannig að greiðslubyrðin verði léttari. Breyting á lánskjörum getur falið í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt eða skuld lækkuð eða fryst um tíma á meðan fólk leitar lausna á tímabundnum erfiðleikum t.d. vegna atvinnuleysis, veikinda og fleira. Greiðsluaðlögun kemur aðeins til greina hafi hún í för með sér ávinning fyrir skuldara, lánardrottna og samfélagið í heild.

Ávinningur fyrir skuldarana verði sá að þeir geti staðið í skilum með skuldina. Ávinningur fyrir lánardrottna verði sá að líkur á endurgreiðslu aukast og ávinningur samfélagsins verði sá að færri þurfa að leita á náðir félagsmálastofnana. Til að ná sem víðtækastri samstöðu um þau markmið sem frumvarp um greiðsluaðlögun snýst um er mikilvægt að greiðsluaðlögun nái jafnt til skulda við ríkið, innlánsstofnanir, lífeyrissjóði og verkalýðshreyfingu svo sem húsnæðisskulda.

Í lögum um gjaldþrotaskipti og fleira, nr. 21 frá 1991, er sérstaklega fjallað um nauðasamninga. Með lögunum virtist vera ætlunin að einstaklingar sem ekki eru í atvinnurekstri gætu í auknum mæli leitað eftir nauðasamningum við lánardrottna sína án tengsla við gjaldþrotaskipti. Raunin hefur hins vegar orðið eins og hæstv. dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir fór í gegnum fyrr í dag að lítil eða engin breyting hefur orðið í þessu efni frá því sem áður var. Mjög sjaldgæft er að einstaklingar fari í nauðasamningsumleitan nema í beinum tengslum við gjaldþrotaskipti. Ástæðan er líklega sú hversu þungt þetta úrræði hefur verið og auk þess sem töluverður kostnaður er fylgjandi. Að vísu hefur ríkið komið til móts við það með að taka þátt í þessu gagnvart einstaklingum.

Í þessu frumvarpi er lagt til að skapað verði visst úrræði fyrir stjórnvöld til að aðstoða þá einstaklinga og fjölskyldur í landinu sem lent hafa í alvarlegum fjárhagserfiðleikum við að ná fótfestu á ný í þjóðfélaginu. Samkvæmt þessu frumvarpi getur greiðsluaðlögun aðeins átt við einstaklinga en ekki aðrar lögpersónur. Gert er ráð fyrir að málsmeðferð í tengslum við umsókn um greiðsluaðlögun verði á einni hendi, þ.e. hjá sýslumanni. En heimilt er að kæra vissa ákvörðun sýslumanna til héraðsdóms, samanber VI. kafla. Kröfuhafi er bundinn af úrskurði um greiðsluaðlögun þegar hún hefur verið ákveðin. Hann getur þó í vissum tilvikum óskað eftir endurmati á ákvörðuninni, samanber VIII. kafla.

Við framsóknarmenn teljum einnig skipta miklu máli að skuldarinn geti sótt sér ráðgjöf um fjárhagslega erfiðleika til sýslumanns og að dómsmálaráðuneytið styðji við þessa þjónustu sýslumanns með ráðgjöf og leiðbeiningum og er það lagt til í 1. gr. frumvarpsins.

Álag á skuldara getur verið mjög mikið og hingað til hafa þeir átt í fá hús að venda. Sýslumenn eru líka í lykilaðstöðu til að koma að ráðgjöf til skuldara þar sem fjárnámsgerðir fara í gegnum þá og þeir eru í miklum tengslum við fólk í greiðsluerfiðleikum.

Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til að greiðsluaðlögun komi til greina. Skilyrðin eru að einstaklingurinn eigi í varanlegum greiðsluerfiðleikum og ekki fyrirsjáanlegt í náinni framtíð að hann geti staðið við greiðsluskuldbindingar sínar. Þarna er sérstaklega tekið fram að það er fyrirsjáanlegt í náinni framtíð og er í samræmi við þær breytingar sem verið er að leggja til á „skuldsaneringslagen“ í Svíþjóð og einnig í Danmörku.

Bú einstaklings má ekki vera undir gjaldþrotaskiptum og má hann ekki heldur hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga. Greiðsluaðlögun þarf að reikna út með tilliti til aðstæðna skuldara og lánardrottna.

Við framsóknarmenn töldum ekki ástæðu til að setja tímatakmörkun hvenær viðkomandi einstaklingur bar ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi líkt og gert er í frumvörpum ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Við teljum að það eigi ekki að refsa fólki fyrir að hafa stundað atvinnustarfsemi á þennan máta. Ósanngjarnt er einnig að verðlauna þá sem hafa stofnað einkahlutafélög með takmarkaða ábyrgð umfram þá sem rekið hafa fyrirtæki á eigin kennitölu.

Við töldum einnig ástæðu til að opna fyrir það að skuldari sem ber mikla persónulega ábyrgð vegna fyrrum fyrirtækjarekstrar og mun ekki í fyrirsjáanlegri framtíð geta staðið við greiðsluskuldbindingar sínar geti sótt um greiðsluaðlögun þrátt fyrir að enn sé ekki búið að gera upp þrotabú fyrirtækisins að því gefnu að skiptastjóri sé tilbúinn að mæla með því.

Greiðsluaðlögun skal teljast sanngjörn með tilliti til aðstæðna skuldara og lánardrottna. Við mat á þessu skal taka tillit til hvar og hvenær til skuldanna hefur stofnast, til hvaða ráðstafana skuldarinn hefur gripið til til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og hvort hann hafi sýnt skýran samstarfsvilja við umsóknarferlið. Almenna reglan skal vera að aðeins er hægt að sækja um greiðsluaðlögun einu sinni á ævinni nema mjög sérstakar aðstæður mæli með öðru.

Undir greiðsluaðlögun samkvæmt frumvarpi þessu munu allar fjárkröfur falla á hendur skuldara sem stofnast hafa fram að því að greiðsluaðlögun er ákveðin að því gefnu að þær séu löglegar og ekki sviksamlega staðið að þeim. Undanþága frá þessari reglu samkvæmt 4. gr. í III. kafla eru: Veðkröfur að því leyti sem eign stendur undir kröfu. Kröfur sem orðið hafa eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram. Kröfur sem er fullnægt með skuldajöfnun ef bú skuldara væri tekið til gjaldþrotaskipta og kröfur sem ágreiningur er um.

Einnig er lagt upp með að allar kröfur séu jafnréttháar nema kröfuhafi samþykki að krafa hans sé réttlægri eða upphæð kröfu er það lág að sérstök ástæða mælir með því að hún sé greidd að fullu áður en til greiðsluaðlögunar kemur. Er þetta mjög í samræmi við þau lög sem eru í gildi í Svíþjóð.

Umsögn skal skila inn til sýslumanns og sýslumaður skal afla upplýsinga um persónulegar og fjárhagslegar aðstæður skuldara eftir því sem tilefni er til. Fullnægir skuldari ekki skilyrðunum um greiðsluaðlögun, samanber 2. og 3. gr., skal sýslumaður hafna umsókn hans. Með höfnun þarf að fylgja rökstuðningur.

Ef skuldari uppfyllir skilyrði um greiðsluaðlögun á sýslumaður að leggja fram tillögu um greiðsluaðlögun og skal þar koma fram hvaða fjárkröfur falla undir greiðsluaðlögunina og hvort þær eru jafnréttháar, hver sú upphæð er sem kemur til skipta milli kröfuhafa, hversu há upphæð stendur eftir af kröfum sem ekki fást greiddar sem og greiðsluáætlun sem sýnir hvenær og hvernig eftirstöðvar skulda verða greiddar til kröfuhafa.

Við mat á greiðslugetu skuldara skal taka tillit til allra tekna skuldara að fráteknum framfærslukostnaði hans og fjölskyldu hans. Ef um hjón eða sambúðaraðila er að ræða skal einnig líta til tekna maka. Greiðsluáætlun skal vera til þriggja ára nema sérstakar ástæður mæli með lengri eða skemmri tíma. Er þetta þá í samræmi við þær tillögur sem er einnig verið að leggja fram um breytingar á „skuldsaneringslagen“ þar sem þeir voru áður með fimm ár en eru nú að stytta það í þrjú ár.

Tilkynna þarf ákvörðun um greiðsluaðlögun í Lögbirtingarblaðinu ásamt áskorun til allra kröfuhafa um að lýsa kröfum sínum í síðasta lagi einum mánuði frá birtingu. Eftir að innköllunarfrestur er liðinn skal sýslumaður birta tilkynningu í Lögbirtingarblaðinu um að greiðsluaðlögun sé komin til framkvæmda. Tekur hún svo gildi frá þeim tíma sem ákvörðunin er birt.

Í VI. kafla eru svo skýrar kæruheimildir til handa bæði skuldara og kröfuhafa til héraðsdómstóls.

Í 20. gr. í VII. kafla er fjallað um endurmat greiðsluaðlögunar en til endurmats skyldi koma ef skuldari hefur á fölskum forsendum sótt um greiðsluaðlögun, gefið rangar upplýsingar eða ekki fylgt greiðsluáætlun eða ef fjárhagsstaða skuldara hefur batnað verulega, t.d. ef hann hefur fengið arf eða ræður við að borga meira.

Ég vil í lok framsöguræðu minnar segja að núverandi ástand á Íslandi hvað þetta varðar er algerlega óásættanlegt og svartur blettur á íslensku samfélagi. Allt of lengi hefur allt gengið út á að vernda hagsmuni fjármagnseigenda á kostnað almennings. Afleiðingin blasir við okkur með hruni íslensks efnahagslífs, óstöðugleika íslensku krónunnar, okurvöxtum, óðaverðbólgu, lækkandi fasteignaverði eða í raun frosnum fasteignamarkaði og þeim ótrúlegu atvinnuleysistölum sem við horfum upp á.

Eins og ég nefndi áður er þetta fyrsta skrefið að mínu mati þar sem komið er til móts við þá sem verða harðast úti vegna þessara áfalla. Með samþykkt þessa frumvarps yrði stigið mikilvægt og jákvætt skref til að koma til móts við þá sem bera þyngstu byrðarnar og eru hvað verst staddir.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.