Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. febrúar 2009, kl. 13:54:43 (3308)


136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar spurningar. En eins og felst í orðunum forföll og tímabundinn er ágætt að hafa svigrúm í því og niðurnegla ekki í lögum. Af því svo getur farið að seðlabankastjóri sé ráðinn sem vegna veikinda eða annarra hluta þarf að fara frá í einn, tvo eða þrjá mánuði. Þá þarf að vera svigrúm til að gefa honum færi á því að ná sér á strik og koma aftur til starfa áður en nýr er ráðinn. En í orðinu tímabundinn felst að um er að ræða ráðstöfun til afmarkaðs tíma. Ef forföllin eru varanleg ber að auglýsa starfið aftur.

Um menntunarkröfurnar gildir það sama og í auglýsingunni um seðlabankastjóra. Sömu menntunarkröfur gilda fyrir þann sem yrði skipaður seðlabankastjóri tímabundið á meðan á forföllum varir.

Eins og ég nefndi áðan er þetta vettvangurinn til að koma með málefnalegar ábendingar og fyrirspurnir um efni þessa ágæta máls af því það gefur augaleið og á að vera svo að í meðförum þings eiga mál annars vegar að breytast og hins vegar að verða betri. Til þess eru refarnir skornir. Til þess er leikurinn gerður og að sjálfsögðu verður það svo að finni nefndin í meðförum sínum leiðir til að gera ágætt mál enn þá betra fer hún að sjálfsögðu þær leiðir.