Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. febrúar 2009, kl. 14:02:39 (3312)


136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að bæta megi frumvarpið þannig að það taki enn frekar á vandanum og þeirri peningamálastefnu sem hér galt algjört afhroð og hefur svo verið um nokkra hríð. Við vissum það öll og það var hverju mannsbarni á Íslandi ljóst daginn fyrir skírdag í fyrra þegar krónan féll um tæp 30% að við stefndum inn í hrikalega erfiðleika. Hrikalega. Og áfram féll krónan og fjármálakerfið og efnahagslífið hrundi svo í haust.

Ef þetta mál tekur ekki að fullu á vandanum betrumbætir efnahags- og skattanefnd málið að sjálfsögðu í meðförum sínum og þingið sjálft einnig, það er ekki vandamálið. Hér við 1. umr. ræðum við málið eins og það liggur fyrir.

Stóra málið er nákvæmlega það sem þingmaðurinn nefndi áðan: Hvernig förum við að því að endurheimta fjármálalegan stöðugleika í landinu? Þar er talsvert í land og það er risastóra verkefnið okkar hér allra, að endurheimta fjármálalegan stöðugleika, styrkja stöðu gjaldmiðilsins og leita leiða inn í það.

Eins og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum mun hæstv. fjármálaráðherra funda í dag eða á morgun með fjármálaráðherra Noregs um einhverjar vendingar í gjaldmiðilsmálum eða hugmyndir. Ég hef talað um það mörg ár að við getum ekki búið við hið stóra fjármálakerfi og hinn örlitla gjaldmiðil. Hv. þingmaður sem hér var í andsvörum tók ekki undir það svo ég muni. Hann vildi búa við óbreytt ástand. Ég man ekki eftir að hann hafi fært miklar mótbárur gegn því.

En það var banvæn og eitruð blanda sem að lokum felldi okkur, hið litla myntsvæði og hið risastóra fjármálakerfi. Það er bara svo. Ef við eigum að fara að rífast um það og deila um hver átti að hafa eftirlit með hverjum veit þingmaðurinn það mætavel að í lögum um Seðlabanka Íslands segir að honum beri að hafa eftirlit með lausafjárstöðu fjármálafyrirtækjanna í landinu. Það var lausafjárskortur sem að lokum felldi hið risastóra fjármálakerfi og það og sú staða að Seðlabanki Íslands gat ekki þrautarvaralánað bönkunum þegar þeir lentu í lausafjárvandanum. Nákvæmlega þetta og ekkert annað felldi kerfið að lokum. Svo getum rakið aðdragandann að því í löngu máli.