Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. febrúar 2009, kl. 16:17:46 (3348)


136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var gott að heyra að hæstv. heilbrigðisráðherra lítur svo á að allir opinberir starfsmenn hafi þann rétt sem lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna veita þeim, að ekki sé gerður greinarmunur á því hvort um sé að ræða skúringarkonur eða menn sem hafi, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra orðar það, bæði völd og fjármagn sér til stuðnings — þrátt fyrir það að í gegnum tíðina hefur berlega komið fram það sjónarmið hjá hæstv. ráðherra að huga þurfi að þeim sem í lægri lögunum starfa og ég ber virðingu fyrir því.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra að því, vegna þess að ég geri ráð fyrir því að einmitt þessi réttindi opinberra starfsmanna séu honum hugleikin, hvar sem þeir starfa, hvort komið hafi til álita þegar frumvarpið var kynnt í ríkisstjórninni að hafa ákvæði í því sem varða sérstaklega stöðu bankastjóra í Seðlabanka Íslands þegar litið er til ráðningar hans og starfsloka. Þótt hæstv. ráðherra hafi einkum nefnt einn starfandi núverandi bankastjóra vill svo til að þeir eru, eins og við vitum auðvitað öll, þrír og þeir munu þá væntanlega allir hljóta þau málalok að störf þeirra verði lögð niður. Það gildir það sama um þá að þessir menn, hinir tveir, hafa allan sinn aldur starfað í þágu íslenska ríkisins og gert það, eftir því sem ég vissi best, af mikilli samviskusemi eins og þeir hafa raunar allir gert. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann geti ekki ímyndað sér að sú staða komi upp einhvern tíma seinna að sá ágæti bankastjóri sem við taki sé svo ómögulegur að með einhverjum hætti þurfi að losa sig hann.