Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. febrúar 2009, kl. 17:49:29 (3379)


136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:49]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki að þetta frumvarp sem hér er til umræðu breyti nokkru um þá afstöðu hæstv. viðskiptaráðherra um hvort Seðlabankanum mistekst eða tekst sín stjórn. Hann er greinilega í grundvallaratriðum á móti því sem Seðlabankinn hefur verið að gera frá því að hann kom til sögunnar og telur að bankanum hafi gersamlega mistekist. Það má segja að hann rétti bankanum fingurinn úr ræðustóli Alþingis með þessum málflutningi sínum en hann verður náttúrlega að rökstyðja það.

Ég er næstum því sannfærður um það að Seðlabanki Íslands skyldi geta setið undir slíkum ásökunum frá hæstv. viðskiptaráðherra og þess vegna segi ég: Ég held að það hafi aldrei fyrr gerst í þingsögunni að nokkur viðskiptaráðherra hafi talað með þessum hætti við Seðlabanka Íslands. Síðan er okkur sagt í bréfi hæstv. forsætisráðherra, þessu fræga bréfi sem er einsdæmi — eitt er að skrifa bréf, annað að láta fjölmiðla hafa það — að öll þessi aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar sé til þess að efla traust og trúnað á íslensku peningakerfi. Bréfið sjálft er náttúrlega slíkt að það eflir ekki traust og trúnað á neinum, hvorki forsætisráðherranum né öðrum né ríkisstjórninni í heild og málflutningur hæstv. viðskiptaráðherra í dag er þess eðlis að hann getur ekki eflt traust á neinu. Þetta frumvarp verður ekki til að breyta neinu varðandi þá grunnskoðun hæstv. ráðherra að Seðlabankinn sé gerónýt stofnun.