Eftirlit með skipum

Þriðjudaginn 10. febrúar 2009, kl. 15:09:41 (3513)


136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

eftirlit með skipum.

291. mál
[15:09]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum.

Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á gildandi lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, og samið í samgönguráðuneytinu í samvinnu við Siglingastofnun Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að útgáfa haffærisskírteina geti eingöngu farið fram liggi fyrir yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að slíkt fyrirkomulag gildi eingöngu um skip sem eru 20 brúttótonn og minni. Rökin sem liggja að baki eru að við framkvæmd lögskráningar skal lögskráningarstjóri ganga úr skugga um að slík yfirlýsing sé fyrir hendi, annars verði ekki lögskráð á skip. Lögskráningarskylda samkvæmt gildandi lögum nær eingöngu yfir skip sem eru 20 brúttótonn eða stærri. Í ljósi þess var farin sú leið að skip sem ekki féllu undir lögskráningarlögin þyrftu að sýna fram á þessa yfirlýsingu tryggingarfélags áður en þau fengju útgefið haffærisskírteini.

Til þess að lögskráning geti alfarið farið fram með rafrænum hætti, sem leiðir til einföldunar og minni skriffinnsku, er lagt til að yfirlýsing tryggingarfélags verði bundin við útgáfu haffærisskírteinis í staðinn fyrir framkvæmd lögskráningar. Breytingin mun eftir sem áður tryggja að skip hafi lögboðnar tryggingar hverju sinni, enda fær skip ekki lögskráningu nema fyrir liggi gilt haffærisskírteini. Hafi skip því gilt haffærisskírteini, leiðir það sjálfkrafa af sér að það hafi einnig yfirlýsingu tryggingarfélags um áhafnartryggingu samkvæmt 2. mgr. 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.