Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 10. febrúar 2009, kl. 15:57:56 (3529)


136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[15:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir gæta ákveðins misskilnings hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er nefnilega þannig að skuldir fólks sem það greiðir ekki eru fastar í kerfinu. Það vill svo til, herra forseti, að séreignarsparnaðurinn sem á að notast til að greiða þetta er líka fastur í kerfinu núna.

Það sem menn gera er að taka ákveðna fasta upphæð í kerfinu og flytja hana yfir í aðra fasta upphæð í kerfinu. Það verður engin breyting á sparnaði eða neitt slíkt. Ef lífeyrissjóðirnir eiga ekki peninga geta þeir að sjálfsögðu gert samning við viðkomandi aðila um að fá lán hjá honum til að flytja peningana yfir til viðkomandi banka eða lánastofnunar. Þetta breytir ekki miklu.

Ég hygg reyndar að ekkert óskaplega margir muni nota þetta vegna þess að, eins og ég kem inn á á eftir, hefur sparnaður aukist mikið í landinu. Hann hlýtur að hafa aukist, auk þess sem gengistryggðu lánin eru orðin miklu huggulegri núna eftir að gengið lagaðist um það leyti sem nýja stjórnin tók við. Það er örugglega ekki af þeim sökum, heldur vegna þess að menn voru búnir að undirbyggja það áður.